Samfélag & þakklæti: 14.pistill – Ragnhildur Björt Björnsdóttir

by Mar 30, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Megi gæfan okkur geyma

Ef ég á að segja alveg eins og er hafa síðustu dagar verið mun strembnari en ég hafði búist við, og ég held að ég sé ekki sú eina sem hefur upplifað þetta þannig. Á tímum sem þessum getur mikil samvera foreldra og barna tekið sinn toll, og ég þori að veðja að það séu fleiri börn en ég orðin dauðþreytt á foreldrum sínum 😊 Það þýðir samt ekki að grípa eigi til reiði og gremju þegar samskipti verða stirð. Það er kannski í eðli okkar sem manna að grípa til gremjunnar þegar við glímum við aðstæður sem eru nýjar og óljósar og einmitt þá er mikilvægt að minna sig á að það er ekkert okkar sem veit fullkomlega hvað er í gangi. Við erum öll að feta þessi spor í fyrsta skipti og þess vegna er mikilvægt að sýna öðrum skilning, þau vita ekkert meira en þú.

Við höndlum þessar aðstæður með mismunandi hætti. Sumt fólk er kvíðið, önnur eru róleg og sum eru reið. Það þarf að minna á að allar þessar tilfinningar eru gildar. Það er ekki ein rétt tilfinning, því rétt eins og við bregðumst mismunandi við sorg bregðumst við mismunandi við erfiði. Þær vikur sem á eftir koma eiga eftir að skilja mark sitt á öllum. Því er mikilvægt að við hlúum að sál og líkama, förum út í göngutúr, hlustum á góða tónlist og gleymum ekki að Guð er með okkur í öllum sem við gerum. Það getur verið gott að lesa Biblíuvers ef kvíði gerir vart við sig (ég mæli sérstaklega með Sálmum 1-5) og hugsa jákvætt. Það er vissulega hægara sagt en gert en ef við minnum okkur á það góða í lífinu getur verið að dagurinn á eftir verði ekki alveg jafn erfiður.

Svo tölum saman, tölum um tilfinningar okkar, tölum um stöðuna og, sem er enn mikilvægara, hlustum. Hlustum á talið en hlustum líka á þögnina því í þögninni býr saga. Verum góð hvort við annað, sýnum skilning og gleymum ekki að gæfan mun geyma okkur. Sama hvað skeður.