Samfélag & þakklæti – 15.pistill: Snjólaug Ólafsdóttir

Við lifum á skrítnum tímum, um það hefur verið tíðrætt að undanförnu. Sem betur fer eru þetta skrítnir tímar, ekki það sem við eigum að venjast. Þegar mannkynssagan er skoðuð sjáum við hvað við höfum það gott í samanburði við það sem áður var.

Í samfélagi með fáar aðsteðjandi ógnir höfum við átt það til að búa til okkar eigin óvin – hvort annað. En nú kveður við nýjan tón – við erum í þessu saman. Hér verður enginn undanskilinn, allir skipta máli. Við erum að læra að það sem við gerum sem einstaklingar hefur mikil áhrif á aðra – getur jafnvel verið lífsspursmál. Hér erum við að kljást við ósýnilegan óvin sem verður ekki sigraður nema með væntumþykju og tillitssemi. Það er hundleiðinlegt að hanga heima af því að maður gæti hugsanlega kannski fengið flensu en við gerum það af væntumþykju fyrir hverju öðru. Við eigum öll einhvern sem við viljum vernda og vitum að allir sem okkur þykir vænt um eiga einhvern sem þau vilja vernda. Þess vegna förum við að tilmælum – ekki bara fyrir okkur sjálf heldur fyrir aðra. 

Ég er þakklát fyrir að tilheyra samfélagi sem stendur saman þegar á þarf að halda og ég vona að við gerum það áfram þegar ekki verður jafn augljóst að við þurfum á því að halda. Því að við þurfum alltaf á því að halda. Manneskjur eru félagsverur, við þörfnumst þess að fá að tilheyra. Við tilheyrum hverju öðru, það sýnir sig nú. Ekki bara hér heldur um allan heim. Við tilheyrum ekki bara okkar þjóð heldur heiminum öllum, við erum öll hluti af ósýnilegum vef sem tengir okkur saman.

Ég vona að það verði áfram í minni okkar að lítil frétt á síðustu mínútum fréttatímans af „annarra manna vandamálum“ tók aðeins nokkrar vikur að fá sinn eigin fréttatíma hér heima, alla daga vikunnar. Að við berum þá gæfu að sjá að við erum í þessu saman ekki sundruð. Hér er enginn undanskilinn, hvorki kyn, húðlitur, peningar né menningararfur getur aðskilið okkur frá öðrum. Við hefðum ekki getað „passað okkur betur“ með algjörri einangrun, það sína farsóttir fortíðar. Við þurfum öll að hjálpast að, lausnirnar felast í samvinnu. Nú vinna læknar heimsins hörðum höndum og deila upplýsingum sín á milli því þannig lærum við meira og komumst betur frá þessum aðstæðum. Sama á við þegar þetta verður yfirstaðið – þegar við vinnum saman munum við komast betur og fyrr í gegnum þetta.

Ég vona að það verði einn af þeim fjölmörgu lærdómum sem samfélagið mun draga af þessari reynslu: Verðmæti þess að vinna saman.

Sem sérfræðingur í loftslagsmálum og sjálfbærni veit ég að við munum þurfa á þessum samtakamætti að halda. Breytingar munu verða í samfélaginu sem við munum ekki hafa neitt sérstaklega gaman af en við getum gert þær af virðingu og tillitssemi við okkur sjálf og aðra. Við fáum hér tækifæri til að sjá svo ekki verði um villst að við skiptum öll máli. Vandamál á alheimsskala verða aðeins leist með því að hver og einn taki þátt eftir bestu getu. Þegar við sjáum aðgerðir okkar bera árangur, þá verða þær ekki svo erfiðar af því við erum öll í þessu – saman.

Snjólaug Ólafsdóttir