Samfélag & þakklæti – 3.pistill: kórfélagi úr Lögreglukórnum

by Mar 19, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Vinur lætur aldrei af vináttu sinni,
í andstreymi reynist hann sem bróðir.
(orðskv.17:17)

Þetta eru orð að sönnu og ekki síst þessa dagana og vikurnar þar sem samfélagið er undirlagt af Veirunni og áhrifum hennar.
Þessi orð eiga þó alltaf við, á öllum tímum, í öllum samfélögum, bæði í nærumhverfi hvers og eins og einnig í víðara samhengi en við Íslendingar höfum margsinnis sýnt náungakærleik okkar í verki þegar stór áföll skekja samfélagið.
Við í lögreglusamfélaginu þekkjum þetta mjög vel, en þegar á reynir er gott að eiga bróður (eða systur) til að halla sér að, veita og sækja styrk. Lögreglukórinn hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga húsaskjól í kjallara Laugarneskirkju þar sem við hittumst og gleðjum hvort annað með söng og léttu hjali en öðru hvoru er okkur hleypt upp á efri hæðir þar sem við gleðjum gesti og gangandi sem koma í guðsþjónustu.
Ég hef gengið að þessum félagsskap sem vísum og sem sjálfsögðum hlut, þ.e. að mæta og njóta, sýna mig og sjá aðra. Nú þegar æfingar kórsins hafa verið stöðvaðar í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu, áttar maður sig á hversu mikið í raun þessi félagsskapur er að gefa manni, bæði söngurinn og kórfélagarnir. Ég er þakklát fyrir að tilheyra þessum félagsskap, félagsskap þar sem aldur eða staða skiptir engu máli en samhugur, samvinna og sameiginlegt markmið er það sem skiptir öllu.
Ég er þakklát fyrir að eiga þetta athvarf í kjallara Laugarneskirkju þar sem við getum hist og nært andann og gleymt daglegu amstri stundarkorn og ef við erum heppin sjáum við annað hvort sr. Hjalta eða sr. Davíð Þór bregða fyrir og fáum hlýlega kveðju frá þeim en það er augljóst að þeirra dyr standa ávallt opnar fyrir þá sem það þurfa.
Ég hlakka til þegar veiruváin er liðin hjá og við getum tekið upp æfingar og léttara hjal og ég vona að bæði við og samfélagið komi heilt út úr þessu og að skakkaföllin verði sem minnst. Þetta eru svo sem bara hugleiðingar eins félaga en ég held samt sem áður að ég tali fyrir munn okkar allra í þessum efnum. Hafið þökk fyrir allt og allt.

Kveðja kórfélagi Lögreglukórsins