Samfélag & þakklæti – 4.pistill: Sigrún Óskarsdóttir

by Mar 20, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma.

Þessi yfirskrift er reyndar ekki tilvitnun í heimilisvini okkar flestar, Ölmu, Víði og Þórólf. En boðskapur þeirra er sá sami, handþvottur, hreinlæti, engin handabönd og faðmlög – í bili. Mikið er ég þakklát að við eigum fólk eins og þau.  Þakklát að einmitt þau gegni ábyrgðarstörfum á óvissu tímum. Í heimi sem stundum er svo tortrygginn og hræddur hefur þeim tekist að mynda traust. Þau taka mark á óttanum en ala ekki á honum. Þau hlusta og miðla.

En yfirskrift þessa litla pistils er fengin að láni í Prédikara Gamla testamentisins sem er eignaður Salómon konungi sem líklega lést 922 fyrir Krist. Þrjú þúsund ára gamall texti talar beint inn í samtímann. Þannig eru margir textar Biblíunnar, hafnir yfir stund og stað, tala um mennskuna og lífið óháð tíma og rúmi.

Kristin trú býður okkur samfylgd. Á tímum þar sem allt er breytt þurfum við sem aldrei fyrr á þeirri samfylgd að halda. Að einhverju leyti hafa undanfarin ár einkennst af handahófskenndri hamingjuleit. Hamingjuleit getur orðið innantóm og á bakvið glansmynd sem framkölluð er fyrir heimin er á stundum einmana fólk sem saknar. Söknuðurinn getur verið margvíslegur, skortur á viðurkenningu, kærleika, innihaldi. Leitin getur orðið ómarkviss, stundum leitað er út á við þegar leitin ætti frekar að beinast inn á við. Kristin trú lofar ekki eilífri hamingju. En okkur er lofað nálægð Guðs í gegnum hversdaginn. Þessir dagar án faðmlaga kalla á nýja nálgun, þörfin fyrir að finna nálægð Guðs verður sterkari hjá mörgum okkar. Við finnum að það eru ekki hamingjutopparnir sem við söknum heldur venjulegu dagarnir og venjulega lífið. Trúin býður okkur að leita lengra og hærra. Takmarkið er stærra en skyndilausn og skyndihamingja. Gleðjumst yfir litlu hlutunum í dag. Föðmum með orðum og augum.

Biðjum: Guð hversdagsins, gleðinnar og lífsins. Þegar við leitum, viltu hjálpa okkur að leita að því sem skiptir máli. Láttu okkur finna það í þér. Taktu okkur til þín þar sem allt hefur sinn tíma, þar sem við fáum að faðmast í faðmi þínum,  í ríki þínu. Við biðjum í Jesú nafni.

Sigrún Óskarsdóttir.