Samfélag & þakklæti: 7.pistill: Sigríður Rún Tryggvadóttir

by Mar 23, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Samfélag og þakklæti

Ein vika af samkomubanni liðin og enn hertari aðgerðir boðaðar. Þetta er skrítið, svolítið eins og þokukenndur draumur. Svo margt sem okkur finnst sjálfsagt er það ekki. Það venst ákaflega illa að mega ekki taka í höndina á þeim sem við hittum, að mega ekki faðmast. Að mega ekki heimsækja þau sem eru í áhættuhópi og eiga á hættu að einangrast.

Ég var sr. Hjalta Jóni þakklát þegar hann bað mig að skrifa pistil um þakklæti, af því tilefni að Laugarneskirkja fagnar 70 ára afmæli. Því ég er ein af þeim fjölmörgu sem hafa átt andlegt heimili í Laugarneskirkju.

Ég er alin upp í hverfinu og kirkjan skipti þar alltaf miklu máli og gerir enn.

Þar reyndi ég á sínum tíma að komast í barnakór en var sagt að sumir í kórnum ættu bara að hreyfa varinrnar en alls ekki að syngja með, en það er nú sennilega efni í annan pistil.

Ég var þar í fermingarfræðslu hjá sr. Jóni Dalbú sem við bárum virðingu fyrir en höfðum líka mikla þörf fyrir að reyna að slá út af laginu. Það gekk stundum en yfirleitt ekki. Hann hélt sinni stóísku ró þrátt fyrir töluvert hugmyndaauki og óteljandi tilraunir. Við reyndum að taka þátt í einhvers konar æskulýðsstarfi þar en það var svolítið glatað, en samt veit ég að í þessari kirkju og þessum kirkjubekkjum var trú mín nærð og varð mitt besta veganesti út í lífð.

Ég var í starfsnámi hjá sr. Bjarna í Laugarneskirkju og fékk þar að kynnast kirkju sem virkilega sinnir köllun sinni. Starfið var bæði fjölbreytt og mikið og sr. Bjarni var flinkur að deila út verkefnum og leyfa hæfileikum fjölbreytts hóps starfsfólks og sjálfboðaliða að njóta sín.

Þessi gamla hverfiskirkja mín skipar stóran sess í huga mínum og hjarta, þessi sanna sóknarkirkja sem sinnir sínum söfnuði vel. Margar stórar og mikilvægar stundir hef á átt með mínum nánustu í þessari kirkju.

Þann trúarlega vöxt sem ég tók út þar sæki ég í núna. Á þessum tímum er trúin ekki síst það mikilvægasta sem við eigum til að takast á við ótryggar aðstæður. Við finnum hvernig þetta ástand, þessi veira setur allt úr skorðum og vekur með okkur kvíða og óróleika. Þá er mikilvægt að geta leitað til Guðs og finna að í öllum aðstæðum eigum við von.  

Við finnum líka samhuginn, kærleikann og vináttuna. Við erum öll saman að takast á við þetta verkefni. Sem er ekki til komið vegna græðgi, haturs og heimsku og fyrir það er  ég þakklát.

Hversdagslega hluti sem við spáum sjaldnast í  lærum við að meta upp á nýtt, fyrir það er ég líka þakklát.  

Ég er ein af þeim fjölmörgu sem fékk að eiga andlegt heimili í Laugarneskirkju og fyrir það er ég ævinlega þakklát.

Sigríður Rún Tryggvadóttir.