Samfélag & þakklæti – 8.pistill: Inga Harðardóttir

by Mar 24, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Takk fyrir kókoskúlurnar!

Í dag langar mig að þakka fyrir kókóskúlur – sérstaklega þær sem gerðar eru í nafni náungakærleika og samfélagsins í kringum Jesú Krist. Hvað hefur Jesús að gera með kókoskúlur? Örugglega smakkaði hann aldrei slíka dásemd en engu að síður standa kókoskúlurnar í dag í mínum huga fyrir það dásamlega samfélag í Laugarneskirkju sem tekur með vináttu og virðingu á móti öllum börnum og unglingum þar sem þau eru stödd hverju sinni.

Sonur minn, lítill meistari á grunnskólaaldri, í heimaskóla og heimsóknabanni í landi sem er honum nýtt, á tímum sem snúa öllu venjulegu lífi á hvolf, sat yfir norskuverkefni og fannst þetta nú allt ansi strembið og ósanngjarnt. Upp úr eins manns hljóði stundi hann svo allt í einu: Ég sakna svo kirkjuprakkaranna! Það er svo gaman að gera kókoskúlur með Hjalta!

Mömmuhjartað fékk smá sting og samviskubit yfir að hafa rifið blessað barnið upp með rótum og tekið það með í ævintýri í öðru landi með öllum þeim áskorunum sem því fylgir. Samviskubitið vék samt fljótt fyrir þakklætinu – þakklætinu yfir að hann eigi svona góðar minningar úr hverfiskirkjunni sinni á Íslandi og að hann finni að hann tilheyri því samfélagi ennþá.

Og þessa einfalda athöfn – að sitja saman, hnoða kúlur og velta þeim upp úr kókos – snýst auðvitað ekki bara um kókoskúlurnar heldur um samfélagið, um það að sitja með vinum og góðum leiðtogum, vera öruggur og fá að vera maður sjálfur á meðan maður skrafar um það sem er skrýtið og skemmtilegt, um það sem hvílir á manni og er erfitt, með klístruga putta og kitlandi lófa.

Og auðvitað skellum við í kókoskúlur í dag og hugsum til kirkjuprakkaranna með þakklæti fyrir góða vini og fyrir gleðina yfir einföldu hlutunum í lífinu. Og í huganum þakka ég fyrir að kirkjan í hverfinu okkar heima á Íslandi forgangsraði í þágu barna og unglinga, þakka fyrir kókóskúlugerð, feluleiki, draugahús og innanhússfjöll. Og um leið bið ég þess að sem fyrst getum við sameinast á ný, í nánd og nálægð, með vináttu og náungakærleika, með klístruga putta og kitlandi lófa, sem við sjálf í samfélaginu við borð Guðs.

Kókoskúlugerð er nefnilega líka fín bænastund.

Inga Harðardóttir.