Samkomum áhættuhópa aflýst

by Mar 9, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Laugarneskirkja hefur ákveðið að aflýsa öllum samkomum fyrir fólk í áhættuhópi vegna Covid-19 veirunnar a.m.k. til páska. Gildir þetta um félagsstarf og helgihald fyrir eldri borgara sem og öryrkja, sem margir hverjir eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Ákvörðun þessi er tekin samkvæmt tilmælum frá prófasti að höfðu samráði við biskup Íslands og framkvæmdastjóra Eldriborgararáðs Reykjavíkurprófastsdæma.

Þetta er þungbær ákvörðun, enda leggjum við metnað í að sinna þessum hópum vel, en þegar líf og heilsa er í húfi er aldrei of varlega farið.

Við minnum á að prestar kirkjunnar eru eftir sem áður til viðtals og sálgæslu fyrir fólk í þessum áhættuhópum eins og aðra.

Á meðan ekki er lýst yfir samkomubanni verður annað helgihald, barna- og æskulýðsstarf og fræðslustarf eins og auglýst hefur verið.

Með kærri kveðju,

Davíð Þór Jónsson

Sóknarprestur í Laugarnessprestakalli