Fermingarathöfn 3. maí aflýst

by Apr 1, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt

Ákveðið hefur verið að aflýsa fermingarathöfninni sem ráðgerð hafði verið 3. maí.

Þótt samkomubannið, sem nú er í gildi, standi aðeins til 13. apríl virðist margt benda til þess að það verði framlengt, a.m.k. í einhverri mynd, ekki síst með tilliti til þess að skv. spálíkönum virðist mega gera ráð fyrir því að faraldurinn verði í hámarki um það leyti. Það þýðir að vonandi verður hann í rénun í byrjun maí, en þó er ólíklegt að ástandið verði orðið þannig að ferming geti farið fram með einhverju sem líkist eðlilegum hætti.

Þess í stað hefur verið ákveðið að fjölga fermingardögum í haust um einn, þ.e. fermt verður 30. ágúst 6. september og 13. september. Fjölskyldur fermingarbarna eru beðnar að velja einn þessara daga og skrá hann í kerfinu á heimasíðunni okkar sem er hérna.

Við erum öll farin að þrá að einhver „eðlileiki“ komist á að nýju, en þegar líf og heilsa eru í húfi er aldrei of varlega farið. Þessari ákvörðun fylgir óhjákvæmilega ami fyrir fjölskyldur fermingarbarna, en við treystum því að hún mæti skilningi.

Enn er ráðgert að fermingin 6. júní fari fram skv. áætlun. Endanleg ákvörðun um það verður tekin með hliðsjón af ástandinu, vonandi með a.m.k. mánaðar fyrirvara, þ.e. öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.

Bestu kveðjur,

Davíð Þór og Hjalti Jón