Í ljósi aðstæðna og að fengnum upplýsingum varðandi þróun samkomubanns inn í sumarmánuðina hefur verið afráðið að aflýsa áætlaðri fermingu þann 7.júní næstkomandi.

Sérstakir fermingardagar í haust verða 30. ágúst, 6.september og 13.september.

Ef margir óska eftir sama deginum kynnu að verða tvær athafnir þann daginn, sú fyrri kl. 11 en hin kl. 13.30.

Allt þetta munum við, sem fyrr, leitast við að vinna í góðu samstarfi og samtali við fjölskyldur fermingarbarna og keppast eftir því að mæta aðstæðum allra eins og best verður á kosið.

Tíminn sem við höfum fengið að verja með fermingarbörnunum hefur reynst alveg sérstaklega gefandi, það eru vonbrigði að fá ekki að njóta þess að fagna með þeim nú í vor og sumar þó meðvitundin um hið stóra samhengi mildi höggið.

Ljóst er að nú er verið að skrifa einstakan kafla í sögu Laugarneskirkju og við vitum að það verður mikið gleðiefni þegar við sameinumst í kirkjunni í haust og fögnum öll saman, ekki síst í ljósi þess að nú hefur verið ráðist í framkvæmdir í kirkjunni okkar, en frekari upplýsingar um það allt má finna hér á síðunni.

Við biðjum ykkur að vera óhrædd við að hafa samband við okkur, við erum áfram til viðtals og sálgæslu á þessum krefjandi og sérstöku dögum.

Davíð Þór (davidthor@laugarneskirkja.is, s. 8986302)

Hjalti Jón (hjaltijon@laugarneskirkja.is, s. 8492048)