Föstudagurinn langi ólgar í blóðinu

by Apr 10, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill, Prédikun

1.

Á einn eða annan hátt ólgar innra með hverju og einu okkar reynsla kynslóðanna.  
Þú finnur þetta þegar úti hellirignir en þú hefur komið þér fyrir í skjól, inn á heimili.  
Þú finnur þetta þegar þú hefur kveikt á kertinu, þá talar reynsla kynslóðanna til þín um varðeldinn og ljósið.
Þú finnur þetta þegar loks er komið sumar, íslenska sumarkvöldið er svo bjart og þú kannt ekki alveg skil á því hvers vegna þú ert svona fegin/n.           
Við finnum þetta eins þegar við finnum til.  
Við finnum þetta í afstöðu okkar gagnvart þjáningunni, í tilfinningunni sem
tjáir bæði óhjákvæmileika og hinn óboðna gest.
Við finnum til undan áföllum lífsins og sorginni okkar og í ólgandi blóðinu finnum við kynslóðirnar með okkur.            
,,Sorgin mín var sorgin þín.” 

Fyrir einhverjum árum síðan heyrði ég manneskju furða sig á því að enn værum við að rifja upp sögur Biblíunnar og þar með sögu föstudagsins langa.    
Það glitti í þessar undirliggjandi spurningar: Af hverju erum við enn, á 21.öldinni, að rifja upp þessar forneskjulegu frásagnir, sem eru á köflum svo ónotalegar, uppfullar af þjáningu, grimmd, fordómum, óréttlæti; svo mörgu sem ögrar?        

Ég held við rifjum upp þessar sögur því við berum með okkur þekkingu og reynslu af því sem er ónotalegt; blóð okkar þekkir þjáningu og grimmd, fordóma og óréttlæti.  
Föstudagurinn langi ólgar í blóðinu.

Sá heimsfaraldur sem alþjóðasamfélagið tekst á við núna, Covid19, hefur minnt okkur á söguna. Við höfum fengið að finna fyrir nálægðinni við forfeður okkar- og mæður.   
Það hefur ekki aðeins opinberast okkur hve tengd og hvort öðru háð við erum, að við sem samfélag lifum og tilheyrum samhengi hvors annars í dag. Okkur hefur eins opinberast sú raun nálægð sem við eigum við lífssöguna alla.  
Stóra bóla. Svarti dauði. Spænska veikin. Covid19.

,,Sorgin mín var sorgin þín.”
Föstudagurinn langi ólgar í blóðinu.

2.

Trúarbrögð eru í eðli sínu praktísk, en eins og er með kvikmynd með gott plott þá áttum við okkur ekki á hagnýti þeirra fyrr en megnið af sögunni hefur verið sögð og lifuð.
Í kristinni trúariðkun eigum við tvö föstutímabil á ári hverju. Kynslóðirnar hafa skilið að við þurfum að fá tíma fyrir íhugun og iðrun.  
Við þurfum að eiga þennan tíma íhugunar og iðrunar, því föstudagurinn langi ólgar í blóði okkar og við og við þurfum við tíma til að heyra í honum.      
Það er apríl 2020, þú röltir gangstéttina og það er eins og heyrist hærra í sjálfum heiminum nú þegar hægst hefur á öllu. Í andvaranum heyrir þú í heiminum, það er langt síðan heimurinn sjálfur, náttúran öll, hefur haft jafnhátt og þá er eins og þú heyrir betur í því sem berst um í brjósti þínu.        

Við erum svo mörg sem þekkjum einmanaleikann.  
Einmanaleiki okkar hefur ekki endilega orðið til á dögum samkomubanns, dagarnir einungis opinbera hann. Föstudagurinn langi er einmanalegur.  
Á föstudaginn langa gefst okkur tækifæri til að hlusta á andvara heimsins, finna fyrir huggun þess sem grætur með. Okkur gefst tækifæri til að sitja hljóð og heyra í þjáningu okkar og einmanaleika og spyrja: Hvað viltu segja mér?       

3.

Kannski mun föstudagurinn langi segja þér sögu af sárum sem þarf ekki að fela.   

,,Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.”   
(Jóh.20:25)

Tómas vildi snerta sár Krists, hann vildi komast í snertingu við föstudaginn langa.     
Við könnumst svo mörg við hve dýrmætt það er að fá tilfinningu fyrir reynsluheimi hvors annars, hvernig það eykur traust okkar að mæta manneskju sem í viðmóti sínu felur ekki reynslu sína- eða reynsluleysi. Það verður til frelsi og sannleikur í kringum slík tengsl.
Þegar við göngumst við sárum okkar segir framganga okkar:         
,,Ég þarf ekki að segja þér alla söguna á bak við naglaför tilvistar minnar, en ég þarf ekki heldur að fela þá staðreynd að ég á sár, ég á reynslu.”          Föstudagurinn langi ólgar í blóði okkar.       

Einhver kann að spyrja sig, hafandi lesið frásagnir Jóhannesarguðspjalls af hinum ótrúlegu táknum sem Jesús framkvæmir; af hverju Jesús kjósi ekki að framkvæma eitt táknið enn eftir upprisuna og fela sár krossfestingarinnar?        
En táknsögur Jóhannesarguðspjalls eiga það allar sameiginlegt að vera kærleiksverk og kærleikurinn sem breiðir yfir allt (1.Kor.13:7) þarf ekki að fela neitt. Eftir upprisu sína hafnar Kristur ekki fyrri reynslu sinni, hann felur hana ekki heldur ber ummerki hennar.          

4.

Stundum hefur kristin trú verið gagnrýnd fyrir tvíhyggju, fyrir þá tilhneigingu að sjá anda og efni sem aðskilin í stað þess að bera kennsl á þá grundvallareiningu sem ólíkar víddir veru okkar birta. 
Vissulega má færa fyrir þessu rök en það má ekki heldur horfa framhjá því hve áþreifanleg trúarbrögðin eru. Þau eru physical.      
Píslarsagan er physical.         
Í persónu og sögu Jesú frá Nasaret birtast hin órjúfanlegu tengsl hins líkamlega og hins andlega.

En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans og rann jafnskjótt út blóð og vatn. (Jóh.19:34)


Blóð og vatn.

Höfundur Jóhannesarguðspjalls varðveitir alltaf hina táknrænu vídd.            
Blóðið birtir okkur tákn síðustu kvöldmáltíðarinnar, altarissakramentið.    
Vatnið birtir okkur tákn skírnarinnar, skírnarsakramentið.   
Í blóði og vatni birtast leyndardómarnir, hið heilaga.           
Saga föstudagsins langa er saga sem minnir okkur á að hinu heilaga er þjáningin ekki óviðkomandi eða framandi. Hið heilaga situr með okkur í þjáningunni.   

Mörg okkar þekkja sára líðan sem getur komið í kjölfar áfalla okkar, tilfinningar skammar og sektar sem geta vegið að innri sannfæringu okkar um verðleika, vegið að sjálfsvirðingu okkar.
Saga föstudagsins langa er saga sem minnir okkur á að sár lífsreynsla, þjáning okkar og takmarkanir afhelga okkur ekki. Hið heilaga fylgir okkur í gegnum þjáninguna.  

Þá fáum við enn heyrt úr fjarlægðinni:  
Með ævarandi elsku hef ég elskað þig, fyrir því hef ég látið náð mína haldast við þig. (Jer.31:3)

Við erum blóð og vatn og föstudagurinn langi ólgar í blóði okkar.  
Við erum örugg þó við getum verið óttaslegin því í gegnum allt trúum við að það er ekki aðeins föstudagurinn langi sem ólgar í blóði okkar.
Það gerir upprisan einnig.      

Upprisan sem ,,…kemur jafn áreiðanlega og morgunroði, eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.” (Hós.6:3)  

Hjartans innstu æðar mínar  
elski, lofi, prísi þig.    
En hjartablóð og benjar þínar           
blessi, hressi, græði mig.       
Hjartans þýðar þakkir fínar  
þér sé, gæskan eilíflig.           

(Ps.48)

Upprisan ólgar í blóðinu.

Hjalti Jón Sverrisson.