Hirðirinn

by Apr 26, 2020Blogg, Fréttir, Pistill, Prédikun

1.

Kæru vinir, ég heilsa ykkur í Jesú nafni.       

Þetta átti ekki að fara svona.  
Þetta endurtekna stef.
,,Þetta átti ekki að fara svona”, þessi setning segir í raun svo margt um þann jarðveg sem kristin trú verður til í, þetta er saga föstudagins langa.            
Þetta átti ekki að fara svona – og þó finnur upprisan sér enn farveg, enn finnur hún sér tjáningarleið.  
Þetta átti ekki að fara svona – og þó; fjölskylda á Hofteignum stakk upp á því að íbúar hverfisins færu út á götu á sumardaginn fyrsta og léku tónlist. Um hverfið allt ómaði tónlist.           
Á öllum tímum finnur upprisan sér tjáningarleið.     
           
Við erum vinum okkar í Hjallakirkju afskaplega þakklát fyrir að opna dyr sínar fyrir okkur, en þetta átti ekki að fara svona.           
Þetta átti ekki að fara svona; hugmyndin var að það yrði Þróttaramessa í Laugarneskirkju, nú væri tímabilið að fara af stað, Lifi Þróttur.    
Ég ætlaði að ræða hverfishátíðina Laugarnes á ljúfum nótum, sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum farið fram í maí.   
Þetta átti ekki að fara svona en ég mun samt ræða Laugarnes á ljúfum nótum, því guðspjall dagsins talar um hlutverk hirðisins og hefur fengið mig til að hugsa um hina fjölmörgu leiðtoga sem leynast víðsvegar meðal okkar.  
Hirðirinn verndar, gætir, hlúir að. Hirðirinn er sú sem leiðir, sá sem er samferða.       

2.

,,Ég er góði hirðirinn” segir Kristur.

Og Jesús frá Nasaret leitaðist ávallt við að gera það sem sannir hirðar, sannir leiðtogar gera; að virkja og valdefla leiðtogahæfileika annarra.            
Í guðspjöllunum lesum við um fólk úr ólíkum áttum, með ólíka reynslu, sem á það sameiginlegt að leita hjálpar Jesú. Eftir að hafa veitt því hjálp sína lætur hann ekki þar við sitja; hann skorar á fólk til að umgangast og nýta reynslu sína af nýrri meðvitund. Hann skorar á okkur að sjá sig í hvort öðru.   

,,Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.”

Þetta eru sístæð verkefni í samfélagi okkar og ég held að við vitum öll og finnum að framundan eru tímar þar sem reynir á að lifa enn á ný á þann hátt að við berum kennsl á hið heilaga hvort í öðru.    
           
Í því megum við ekki bregðast eins og; ,,sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina … sá sem gætir sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá.”, eins og segir í guðspjalli dagsins.          

Framundan er úrvinnsla og gagnkvæm hlustun,       
framundan er virðing og nærgætni, aðhald og trúmennska.  
Framundan er tími hirðisins.

3.

,,Ég er góði hirðirinn” segir Kristur. 
Ég er.  
Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, Ég er brauð lífsins, Ég er dyrnar, Ég er ljós heimsins, Ég er hinn sanni vínviður, Ég er upprisan og lífið.            
Þetta eru táknmyndir, við þurfum að anda þeim að okkur.   
Ég er.   …
Og hver ert þú?          
Hver erum við, sem samfélag?          
Og erum við að rækta með okkur þá ábyrgu leiðtogahæfileika sem í hverju og einu okkar búa?     

Hverfishátíð eins og Laugarnes á ljúfum nótum er ekki möguleg nema vegna samtakamáttarins, hinar ólíku stofnanir og hreyfingar taka höndum saman. Skólarnir, skátarnir, íþróttafélögin, frístundaheimilin, félagsmiðstöðvarnar, skólahljómsveitin, foreldrafélögin… ég hef fengið að kynnast svo mörgum leiðtogum í kringum hátíðina í því fjölmarga fagfólki sem hefur að henni komið.          
Ég hef eins mætt hirðinum í stúlkunni sem var að klára lokaverkefni í 10.bekk en gaf sér samt tíma til að útbúa fyrir hátíðina veggspjöld, ég hef mætt hirðinum í unglingunum sem mála andlit þeirra yngri í öllum regnbogans litum, ég hef mætt hirðinum í foreldrum sem grilla pylsur, baka vöfflur og hella upp á kaffi – því við þurfum svo mörg allavega einn kaffibolla í viðbót, er það ekki?             

Ég mætti hirðinum í hljómsveitarstjóranum Vilborgu Jónsdóttur.    
Vilborg Jónsdóttir var eldsál, hún starfaði af svo mikilli ástríðu.     
Eitt árið ákváðum við að bæta við viðburði, til upphitunar fyrir hátíðina.            
Vilborg mætti með hluta af skólahljómsveit Austurbæjar sem tók lagið á Kaffi Laugalæk en fyrr um daginn höfðu skólahljómsveitirnar verið að leika á öðrum stað. Ég gerði mér grein fyrir hve mikið Vilborg hefði lagt aukalega á sig á laugardegi og grunaði að það væri ekki í fyrsta sinn. Ég orðaði þetta og að mér þætti þetta alls ekki sjálfsögð vinna.              
Hún sagði eitthvað á þessa leið:        
,,Þetta er bara það sem við gerum.”   
Þetta snerist ekki um hana.    
Þetta var fyrir krakkana, þetta var fyrir samfélagið, þetta var fyrir tónlistina.       
Vilborg Jónsdóttir lést þann 22.nóvember síðastliðinn eftir baráttu við hvítblæði.       
Við söknum hennar.   
Guð blessi minningu hennar.

Í hverju þorpi, í hverju hverfi, er að finna hirða.       
Þeir hlúa að, gæta og vernda.
,,Það er til fólk, sem er ekki þögult heldur þýtt. Söngur þess er alls staðar” skrifaði Bergur Ebbi einu sinni.        
Söngur hirðanna hljómar ekki aðeins á jólanótt,
hann hljómar alltaf, við veitum því bara sjaldnast athygli.   

Þetta er söngur kórs með ólíkar raddir. Fólk sem hefur ólíka styrkleika, ólíka veikleika. Við höfum ólíkar trúar- og lífsskoðanir.      
Við erum ólík sem komum að hverfishátíðinni, alla daga er ólíkt fólk að taka höndum saman. Þetta finnum við svo vel, nú á þessum krefjandi dögum.           
Við erum ólík, en samferða. Við erum ólík, en það er meira sem sameinar okkur en ekki. Þess vegna verðum við að vera ábyrg, því það má ekki misnota slíka samstöðu. Við heyrum í heiminum sem hefur hægt á sér, nú er að halda áfram að heyra í og virða hjartslátt heimsins. Reynast hirðar.           

4.

Jesús frá Nasaret var gagnrýninn á leiðandi öfl sinna tíma, veraldleg og andleg, gagnrýninn á þá sem áttu að reynast hirðar en reyndust leigðir. Þessi dæmisaga Jesú sem við heyrðum hér áðan á sér speglun í 34. Kafla spádómsrits Esekíels, þar sem er að finna samsvarandi gagnrýni og myndmál, ekki síst í upphafi kaflans.  
Gagnrýni á leiðtoga sem hugsa meira um eigin hag og að tryggja stöðu sína, heldur en að veita vernd og öryggi. Gagnrýni á leiðtoga sem hugsa frekar um að fæða sjálfa sig heldur en hjörðina.       
Í spádómsriti Esekíels, rétt eins og í dæmisögu Jesú í Jóhannesarguðspjalli, eru skilaboðin þau; að sé ekki hægt að treysta á leiðtogana, þá sé samt enn hægt að treysta Guði.      

,,Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim”
Immanuel, Guð er með okkur.           

5.

En hvernig fæ ég talað um hirði hirðanna?   
Út af hverju ver ég svo miklum tíma í að ræða um hirða mannlífsins, um guðsblikið í okkur, en megna svo fá orð um Guð.          
Út af hverju er mér svo oft erfitt að tala um Guð… og þó er Guð mér allt.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.       
Þessi orð hafa ekki aðeins reynst mér, eins og milljónum um rúmlega tveggja þúsunda ára skeið, huggun.   
Þau eru ekki aðeins tilvistarspeki, þau eru ekki aðeins áminning um gildi seiglu… þau eru lifandi veruleiki.         
,,Ég á mér hirði.” Guð er mér allt.     
Enda virðist mér allt hvíla í Guði, þegar allt kemur til alls.  

,,Því að hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós” (sálm.36:10)

,,Tunga mín, vertu treg ei á   
að tjá hvað guð þér veitti;      
hjarta mitt, einnig hermdu frá            
hversu hann við þig breytti.” 

Sumt megna ég kannski ekki að koma í orð, en hjarta mitt finnur svo mikið.
Ég hugsa að við eigum það svo mörg sameiginlegt. 

6.  

,,Ég svaf og mig dreymdi að lífið væri gleði.            
Ég vaknaði og sá að lífið væri þjónusta.       
Ég starfaði og sjá; þjónustan var gleði.”        
– Rabindranath Tagore.

Hún er sérstök, kyrrláta gleðin í þjónustunni.           
,,Þetta er köllun ykkar.” Segir í pistli dagsins og hver er köllun þín, hvert er þitt hirðishlutverk, á hvaða hátt getur þú reynst leiðtogi?   
Við förum öll í gegnum vaxtarverki. Mig grunar að enn sé eitthvað af þeim framundan.        
Hirðirinn er samferða þeim sem gengur í gegnum vaxtarverki; leiðbeinir, gagnrýnir, hvetur. Hirðirinn gengst við eigin vaxtarverkjum, hirðirinn kannast við skuggaefnið í sjálfum sér.      

Þetta átti ekki að fara svona.  
Þetta átti ekki að fara svona, en upprisan finnur sér farveg. 
Þetta átti ekki að fara svona en við hvílum í trausti til skapara okkar allra, uppsprettunnar sem umvefur okkur eitt andartak í einu og í andvaranum heyrum við hvíslað:      
Í mér áttu öryggi, sem verður ekki frá þér tekið.       
Farðu, þjónaðu.          

Guð veiti okkur öllum náð sína og blessun til þess, um ókomna tíð.
Amen.

Hugvekja flutt í Hjallakirkju, 26.04.2020.