Samfélag & þakklæti – 16.pistill: Auður Pálsdóttir

by Apr 1, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Í Laugarneskirkju hef ég sótt samfélag allt frá því ég var lítil stelpa. Fyrst sótti ég sunnudagaskólann hjá séra Garðari. Á unglingsárum tók ég þátt í æskulýðsstarfinu og fermdist svo með jafnöldrum mínu í kirkjunni.
Á þessum tíma hugsaði ég stundum hvað prestar og æskulýðsfulltrúar væru heppnir að þekkja Guð svona vel. Mér fannst þau vita og skilja svo margt um Guð. Mig langaði að gera það líka því mér fannst boðskapur Jesús ótrúlega magnaður, í senn frelsandi en líka kröfuharður.

Árin á eftir helgaði ég krafta mína kristilegu æskulýðsstarfi í KFUM og KFUK og geri enn í dag þótt viðfangsefnin breytist með aldrinum. Ég hef gert þetta því mér finnst svo mikilvægt að börn kynnist kjarnanum í boðskap kristninnar, að þau fái sjálf hvert og eitt raunveruleg tækifæri til að velja eða hafna hvort þau vilji fylgja Jesú Kristi. Mér finnst þetta vera eins konar mannréttindi, það að fá fræðsluna, að fá að vega og meta hugmyndafræðilegan grunn íslensks samfélags, og þá, en ekki fyrr, geti maður valið hvað manni finnst og hvað maður vill setja traust sitt á. Þetta tækifæri fékk ég í Laugarneskirkju.

En hvað er svona sérstakt við kristnina og boðskap Jesú Krists? Er kristni með einhvern annan boðskap eða annars konar áherslur en önnur trúarbrögð heims í dag? Fræðimenn hafa bent á að margt er líkt með kristni og öðrum trúarbrögðum. Þegar Jesús kom í heiminn lifði hann og starfaði í nærsamfélagi sem að mestu var stýrt af Gyðingum þótt ríkið tilheyrði Rómaveldi. Jesús flutti boðskap um náungakærleika sem skildist vel af samferðafólki hans. Til dæmis voru kraftaverk Jesú sett í samhengi við ýmislegt sem sést hafði meðal þeirra sem þóttu hafa yfirnáttúrulegan kraft. Þá hefur verið bent á að siðfræðin sem Jesús boðaði hafi verið á svipuðum nótum og siðfræði Stóumanna. Það sem hins vegar er öðruvísi í kristni og breyttist með komu Jesú var vonin, það að við eigum von um líf eftir dauðann. Þessi von er kjarninn í því sem fólk um aldir hefur lagt sig fram um að leyfa öðrum að heyra. Þessi von hefur alla mína ævi verið kjarninn í því sem ég hef heyrt í Laugarneskirkju. Þessi boðskapur hefur verið fluttur skýrt, af hreinskilni og einlægni. Fyrir það er ég þakklát.

Starfið í Laugarneskirkju hefur ekki bara verið samofið mínu lífi heldur fengu börnin mín að njóta sömu þjónustu Laugarneskirkju og ég. Þau sóttu þar sunnudagsskóla, tóku þátt í barna- og unglingastarfinu og fermdust bæði í kirkjunni. Í Laugarneskirkju upplifðu þau innihaldsríkt og fallegt starf sem er sniðið að margs konar fólki því við í samfélaginu erum margs konar. Það var í Laugarneskirkju sem þau lærðu að trúin á Jesú Krist færir okkur von.

Í dag er ég enn á þeirri vegferð að læra um og skilja boðskap Guðs sem í raun hefur kennt mér svo mikið um sjálfa mig. Þessa vegferð hóf ég í Laugarneskirkju og fyrir það er ég þakklát.

Auður Pálsdóttir