Samfélag & þakklæti – 17.pistill: Þóranna Bjartey Bergman

by Apr 2, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Þóranna heiti ég og er 21 árs, fædd og uppalin í Laugarnesinu.
Ég hef alltaf verið virk í starfinu í Laugarneskirkju, allt frá því að ég mætti með mömmu minni í sunnudagsskólann hér í denn. Ég var síðan dugleg að sækja barnastarfið og messur hjá Sr. Bjarna Karls.
Þegar ég fór að nálgast unglingsaldurinn þá fór ég að vinna sjálfboðastarf í Laugarneskirkju og var að hjálpa Bjarna með barnastarfið. Ég mætti alltaf öll fimmtudagskvöld í æskulýðsfélagið. Mér fannst fátt betra en að mæta með vinum í æskulýðsfélagið og eiga góða kvöldstund með þeim.
Ég elskaði að alltaf eftir gott kvöld í leikjum og gleði þá fórum við upp í kirkju og tókum rólega helgistund. Þar gat ég setið í rólegheitum og horft á kertaljósin ljóma upp fallegu kirkjuna okkar, hlustað á Bjarna og Hjalta Jón koma með hvert gullkornið á eftir öðru, sungið falleg lög og kjarnað mig fyrir svefninn. Helgistundirnar voru í uppáhaldi hjá mér.

Eftir grunnskólann þá tók ég smá tímabil þar sem ég var ekki að mæta eins mikið og vanalega í kirkjuna. Ég man að á þessum tíma fannst mér samt alltaf eins og það vantaði eitthvað… Ég og vinir mínir vorum orðin svo upptekin af því að vera í menntaskóla, við vorum að þroskast og vorum í kapp við tímann að fullorðnast. Lífið og samfélagið var allt á fullri ferð, allir að keppast um að vera bestir í hinu og þessu, allir alltaf að drífa sig og allir að gera þúsund hluti í einu. Ég man samt hvað ég hugsaði oft ,,vá hvað ég væri til í að mæta í æskulýðsfélagið akkúrat núna, bara til þess að taka eina helgistund upp í kirkju og kjarna mig”.

Fyrir sirka einu og hálfu ári síðan byrjaði ég aftur að sækja meira og meira í Laugarneskirkju. Ég byrjaði síðan í janúar í fyrra að sjá um unglingastarfið með Sr. Hjalta Jóni á fimmtudagskvöldum. Ég var svo spennt að byrja aftur af fullum krafti í Laugarneskirkju. Ég man þegar ég labbaði inn í safnaðarheimilið hvað ég fékk góða tilfinningu í hjartað. Ég var komin heim. Ég held að ég hafi ekki fattað almennilega hvað Laugarneskirkja og samfélagið sem þar er hafði mikil áhrif á mig í uppvextinum. Það var líka svo gott fyrir hjartað að finna að ég væri alltaf velkomin í kirkjuna þrátt fyrir að hafa seinustu ár ekki verið sú duglegasta að mæta. 

Frá því að ég byrjaði að vera með unglingastarfið þá líður mér pínu eins og ég hafi fundið það sem vantaði þarna fyrir nokkrum árum. Ég er svo glöð og þakklát fyrir það að fá að mæta á hverju einasta fimmtudagskvöldi og hitta alla þessa frábæru unglinga, Hjalta Jón og að fá að taka helgistundir aftur upp í kirkju. Ég varð því mjög leið þegar veiran kom upp, ekki bara útaf sorginni og skaðanum sem hún er að valda út um allan heim heldur líka því það þýddi að ég gæti ekki mætt í Laugarneskirkju á fimmtudagskvöldum og hitt unglingana mína í persónu. 

Ég er mjög þakklát fyrir tæknina sem við búum við sem leyfir okkur að sjá og tala við fólkið  okkar á þessum tímum. Við Hjalti Jón erum búin að vera með rafrænt æskulýðsfélag núna síðustu fimmtudagskvöld. Auðvitað er það alls ekki eins og að hittast í persónu en ég er samt svo þakklát fyrir það að fá að halda í þetta á fimmtudagskvöldum. Ég gat því verið heima hjá mér upp í sófa, í kósý fötum að spjalla við krakkana mína, skemmta mér með þeim og vera til staðar fyrir þau á þessum skrítnu tímum. Fyrir það er ég óendanlega þakklát. 

Á tímum sem þessum er svo mikilvægt að stoppa aðeins og nýta tækifærið til þess að leyfa sér að vera í núinu. Líta í kringum sig og fara yfir það sem maður er þakklátur fyrir. Finna það sem gleður mann og gera þá meira af því. Vera í sambandi við fólkið sitt og reyna að gera gott úr þessum skrítna tíma.

Við í æskulýðsfélaginu endum oft fimmtudagskvöldin okkar á því að fara hring og segja einn hlut sem við erum þakklát fyrir og eitthvað eitt sem gladdi okkur í dag. Mig langar því að hvetja ykkur til þess að gera það sama.

Það koma bjartari dagar, við megum ekki gleyma því. 

Þóranna Bjartey Bergman