Samfélag & þakklæti – 19.pistill: Bjarni Karlsson

by Apr 4, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Leikurinn

Mannshjartað slær heila mannsævi viðstöðulaust, ef allt er með felldu. Hvernig getur einn líkamsvöðvi gert það? Með því að hvíla sig líka heila mannsævi! Hjartað slær og hvílir, slær og hvílir, slær og hvílir…

Endurnærandi hvíld er forsenda allrar iðju.

Þess vegna held ég að það sé ekki tilviljun sem ráði uppröðun boðorðanna tíu. Áður en okkur er sagt að misvirða ekki foreldra okkar, drepa fólk eða stela. Og áður en við erum hvött til að stunda ekki örvæntingarfullt kynlíf, rægja náungann eða ágirnast það sem annara er – já, áður en allt þetta er nefnt erum við minnt á að halda hvíldardaginn heilagann. Gleymdu ekki að leika þér, er verið að segja. Ekki klikka á hvíldinni.

Þegar við spilum á spil, skokkum á víðavangi, leikum badminton, njótum ásta, syngjum, dönsum, biðjum, eldum eitthvað gott, förum í Lego eða tökum gott kaffispjall – hvað gerist? Við gleymum okkur. Við gleymum tímanum og egóinu um stund. Leggjum frá okkur streituna sem fylgir því að mæla tímann og mæla okkur við annað fólk.

Allur leikur, sama hver hann er, snýst um að gera og vera eitthvað sem skiptir okkur máli án þess að þurfa að mæla það eða útskýra fyrir neinum. Við hvílum í flæðinu og núinu og komumst þannig í tengsl við veruleikann. Og þetta er svo mikilvægt að í langtímaminni mannkyns, sem m.a. birtist í boðorðunum tíu, er varðveitt sú vitneskja að án endurnærandi hvíldar er allt hitt lítils virði.

Alveg eins og hjartað hvílist og slær þannig þurfum við sem einstaklingar og líka sem samfélag að hvílast og vinna, eigi líf okkar að hafa merkingu. Þegar við klikkum á hvíldinni missum við tengsl við veruleikann og byrjum að misskilja. Algengasti misskilningurinn er sá að halda að við séum hér til þess að safna einhverju. Það er dæmigerð skynvilla hins þreytta manns. Samt vitum við að það er engu hægt að safna nema áhyggjum. Veruleikinn er allur á hreyfingu. Lífið er flæði.

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð,“ mælti meistarinn frá Nasaret í þessu samhengi. „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur er slitna ekki, fjársjóð á himnum er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. (Lúk. 12. 32-34)

Eina leiðin til að taka þátt í lífinu er að vera með í flæðinu.

Það er ekki hægt að safna gæðum en það er hægt að miðla þeim.

Það er vonlaust að ætla sér að vera ílát fyrir lífsgæði en það er mjög spennandi iðja að þjálfa sig í því að vera farvegur lífsgæða. Tryggasta leiðin til þess að læra það er að leika sér því leikurinn gefur okkur reynsluna af að tilheyra og láta um okkur muna. Sagt hefur verið að daginn sem við hættum að leika okkur séum við orðin gömul. Ég hygg að dagurinn sem við leggjum niður leikinn sé dagurinn sem við deyjum.

Bjarni Karlsson