Mig langar ekki að tilheyra samfélagi. En ég þrái það.

Lengi vel dreymdi mig um að segja mig úr samfélaginu. Það var svo uppfullt af allskonar fólki sem gerði allskonar misgáfulega hluti. Það var flókið og það var efnahagslegt og enginn virtist sammála.

Mig langar alltaf að allir elski mig og dáist að mér. Að allir séu nánir og til staðar. En það er aldrei svoleiðis. Sem er þreytandi.

Ég veit um ýmislegt sem má gera til að bæta úr aðstæðunum. Vera breytingin sem maður vill sjá, brosa til fólks, heilsa. En það er næstum óþolandi til lengdar.

Þess vegna hentar þetta heimahangs mér ágætlega og ég er því sem næst viss um að Guð sendi okkur þessa veiru til að brýna fyrir okkur að hundskast til að læra að hvíla okkur.

En auðvitað veit ég ekki upp á hár hvað Guð er að hugsa.

Ég veit bara að ég er þakklát fyrir að fá að hvíla mig. Þakklát fyrir að fá að gera þægilegar æfingar heima í stað þess að fara í ræktina. Þakklát fyrir að fá svigrúm til þess að rifja upp hvað það er að njóta þess að lesa góða bók og eiga tíma bara fyrir mig.

Eða hvað?

Haldiði ekki að heimili mitt sé hertekið samfélagi? Tvær verur aðrar eru hér mest allan tímann. Ein er stærri en ég og hin minni. Þær hafa þarfir á sama hátt og ég og þær eru mannsveskjur. Þær tala og heyra og hlusta og þrá. Innra með þeim eru heilar og hjörtu. Þær eru samfélagið mitt, fjölskyldan.

Þær sem Guð notar til að kenna mér að elska meira í dag en í gær.

Þær eru æfingatækin í að elska náungann og sjálfa mig, og það besta er að leiðin til þess er oft einfaldlega að gleðjast. Hafa gaman. Taka eftir því einfalda sem við deilum hvert með öðru og láta það gerast.

Fjölskylda er lítið samfélag. Lítil þjóð er lítið samfélag. Lítil þjóð er fjölskylda. Lítil pláneta, lítið mannkyn. Fjölskylda.

Katla Ísaksdóttir.