Samfélag & þakklæti – 22.pistill: Hjalti Hugason

by Apr 7, 2020Blogg, Dagskrá, Fréttir, Pistill

Erum við saman í þessu?

Frá því ég las upphafsorð skáldsögunnar Önnu Karenínu eftir Tolstoi hafa þau vakað með mér: „Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“

Tolstoi talar um fjölskyldur. Orð hans eiga þó allt eins við um einstaklinga. Óhamingja getur líka verið af mörgu tagi og ekki þarf að vera heimilisböl. Ógæfa af hvaða tagi sem er einangrar. Þau sem glíma við sjúkdóma eða fötlun eru oft dæmd úr leik í samfélagi hinna „heilbrigðu“. Sama máli gegnir um þau fátæku, flóttamennina, utangarðsfólkið. Erfiðleikar og böl einangra okkur í samfélagi sem miðast við heilbrigði, kraft, styrk og allsnægtir. Með því er enn aukið á erfiðleika þeirra sem standa höllum fæti.

Nú glímir heimsbyggðin aftur á móti við vá af sérstöku tagi. Enn sem komið er hefur COVID-19 fremur þrýst okkur saman en sundrað. Þrátt fyrir að mörg okkar búi auðvitað við sóttkví eða enn meiri einangrun og öll séum við að gæta að 2 m persónulega rýminu finnum við til samkenndar innst inni. Við munum sigrast á veirunni en þá og því aðeins að við stöndum saman. Við erum jú öll almannavarnir. Þetta viðhorf sem okkur er innrætt af okkar besta fólki hefur verið mér til mikillar uppörvunar á óvissum tímum. Það er öryggi í að hvíla í vitundinni um það að engin sú hætta stafar að mér eða mínum sem við erum ekki öll saman í.  Samfélag og samstaða er mikil Guðs gjöf sem vert er að þakka. COVID-19 er vissulega ógn en hversu miklu verri væri hún ekki ef hún herjaði á mig einan?

Að þessu sögðu er samt full ástæða til að spyrja: Erum við öll á sama báti, jarðarbúar, í þeim alheimsfaraldri sem nú herjar? Svarið nú eins og alltaf er auðvitað: Nei, það erum við ekki! Hvað er að gerast einmitt nú í kvöld, þegar þetta er ritað, þar sem flóttamannastraumurinn er þyngstur? Hvað gerist þegar COVID-19 hellist yfir þau samfélög þar sem örbirgðin er mest, þar sem vantar húsaskjól, fæðu og aðgang að hreinu vatni? Eigum við von á að þar séu nægar birgðir af pinnunum góðu til að skima fyrir sýkingu? Hvað verður að marka tölfræðina? Hvar á að hlynna að hinum sjúku? Hvað skyldu vera til margar öndunarvélar þar? Við skulum gera okkur grein fyrir því að nú eins og alltaf þegar hriktir í stoðum öryggisins erum við — íbúar hins vestæna heims, Evrópubúar, Norðurlandaþjóðir og ekki síst Íslendingar — best sett. Neyðarástand okkar er daglegt brauð víða annars staðar í heiminum. Sums staðar kann að vera að áhrifa COVID-19 gæti lítið sem ekkert. Ekki vegna þess að veiran herji ekki heldur vegna þess að ástandið til hversdags er einfaldlega svo skelfilegt. Getum við gert eitthvað í því? — Vonandi stendur okkur að minnsta kosti ekki á sama.

Bæn mín er að COVID-19 þrýsti okkur saman, auki samstöðu, réttlæti, bræðralag meðal þjóða heims, geri okkur fús til að deila kjörum yfir landamæri þjóðríkja, menningarheima og trúarbragða. Þá hefur þetta allt ekki verið til einskis.

Hjalti Hugason.