Ég hef búið í Laugarnesinu meira og minna allt mitt líf. Minningarnar eru margar og sem betur er eru langflestar þeirra góðar. Ég held mér þyki einfaldlega allt frábært við þetta hverfi. Laugarnesskóli er mér til dæmis afar kær en þar átti ég sex frábær skólaár áður en ég byrjaði í hinum ágæta Laugalækjarskóla. Þar áður hafði ég verið á leikskólanum Lækjarborg þar sem ég naut mín einnig afar vel. En Laugarnesið státar ekki einungis af framúrskarandi leik- og grunnskólum því auk þeirra er í hverfinu hin margróma Laugardalslaug, notalegi og fjölbreytti verslunarkjarninn okkar við Laugalæk, Aparóló, stórkostleg fiskbúð, æðislegur pylsuvagn og okkar eigin skósmiður svo fátt eitt sé nefnt.

En…..


…það sem ber af í þessu hverfi, án efa, er sjálf Laugarneskirkjan. Og þrátt fyrir að byggingin sjálf sé afar falleg og ofboðslega tignarleg, þar sem hún trónir yfir hverfinu, þá er það samfélagið sem þar er sem er það besta við Laugarneskirkju. Þessu samfélagi hef ég fengið að tilheyra mjög lengi, má segja að stór hluti af uppeldi mínu hafi farið fram í þessu samfélagi. Byrjaði að koma með mömmu á mömmumorgna, mætti í kirkjuprakkara, TTT og hvað sem þetta hét allt saman og lét mig yfirleitt ekki vanta í sunnudagaskólann. Toppnum var hinsvegar náð þegar ég byrjaði að starfa í kirkjunni, annars vegar sem leiðtogi í unglingastarfinu og hinsvegar sem sunnudagaskólakennari sem er líklega eitt það skemmtilegasta starf sem hægt er að hugsa sér. Vá hvað það var gaman og vá hvað ég fékk að vinna með skemmtilegu fólki!

Eitt af því sem gerir Laugarneskirkju svo frábæra er það hversu vel tekið er á móti öllum sem þangað sækja. Þar fá allir að vera, allir svo innilega velkomnir og ég held ég tali fyrir hönd ansi margra þegar ég segi að þar líður manni alveg ofboðslega vel. Maður er ekki einu sinni kominn inn fyrir þröskuldinn þegar maður finnur þennan góða anda hellast yfir mann. Laugarneskirkju fylgir einfaldlega tilfinning sem erfitt er að lýsa.

Já…. Ég er Laugarneskirkju alveg gríðarlega þakklátur, þakklátur fyrir uppeldið sem ég fékk þar, þakklátur fyrir tækifærin sem mér hlotnuðust og allt það traust sem mér var sýnt þegar ég starfaði þar. En sérstaklega er ég þakklátur fyrir þau áhrif sem Laugarneskirkja hefur haft á mig. Það að hugsa um kirkjuna fær mann einfaldlega til að vilja vera betri manneskja og gera sitt besta til að vera besta útgáfan af sjálfum sér.
Nú er ég flutt. En. Það vill svo skemmtilega til, að þrátt fyrir að vera fluttur frá foreldrum mínum (sem alla mína tíð hafa búið í Laugarneshverfi), að þá fór ég ekki langt. Mér var mjög í mun að finna íbúð innan hverfisins og það kom eiginlega ekki til greina að fara héðan. Það hafðist og ég er því áfram stoltur íbúi Laugarneshverfis, röndóttur; rauður og hvítur og ekkert á förum.

Hákon Arnar Jónsson.