Þakklæti og samfélag

Leyni-vina-vika var eitt sinn á vinnustað mínum. Hver og einn fékk sinn vin/vinkonu en maður mátti ekki vita hver var leynivinur sinn. Við fundum upp á ýmsu eins og að láta súkkulaðimola á skrifborð vinar okkar þegar ekki sást til. Einn daginn fékk ég bók sem skrifað var í að ég gæti skrifað í hana allt sem ég vildi þakka fyrir. Mér fannst þetta frábær bók, óskrifuð bók og það var ég sem átti að skrifa hana.  Ég byrjaði að skrifa takk fyrir þessa vinkonu sem gaf mér þessa bók. Takk fyrir veðrið í dag (samt var það ömurlegt!).

Að tjá þakklæti sitt hefur góð áhrif og það er einhvern veginn sterkara að skrifa það en bara að segja það. En það tekur á að þakka fyrir það sem er erfitt og það getur verið slæmt fyrir okkur að neyða okkur til ótímabærs þakklætis. En það er samt gott að skrifa það erfiða niður þó maður geti ekki þakkað fyrir það. Það er léttir að geta opnað fyrir það sem er erfitt.    

Þegar við biðjum saman í Laugarneskirkju erum við ekki bara að biðja eða óska einhvers. Við þökkum líka fyrir ýmislegt en þegar grannt er skoðað eru þakkarbænirnar mun færri en það sem við biðjum fyrir eða um. Við viljum samt biðja fyrir þjóðinn, öllum sem þjást o.s.frv. en það væri gott fyrir okkur að þakka meira í guðsþjónustunni. Eftir altarisgöngu segir presturinn vissulega: Þökkum Drottni og vegsömum hann. Söfnuðurinn svarar: Drottni sé vegsemd og þakkargjörð. Við gleymum því ekki alveg að þakka.

Í kirkjunni eigum við samfélag við Guð og hvert annað. Samfélag fyrsta kristna fólksins var öflugt og eitt af því sem styrkti lærisveinana eftir upprisu Jesú. Þannig er kirkjan enn í dag samfélag fólks. Við tölum einnig um samfélag sem þjóðfélag. Í þessu þjóðfélagi erum við einmitt að sýn samstöðu, vera samfélag í dag á erfiðum tímum. Þjóðin er samfélag sem vill fara saman í gegnum þessa erfiðleika og sýna náunga kærleika í verki. Það er mikið þakkarefni því án samtöðu í samfélagi okkar getum við ekki gert það besta sem hægt er í baráttunni við COVID veiruna.

Við þökkum Guði fyrir að gefa okkur styrki til að standa saman. Takk fyrir að margir í þjóðfélaginu vita að náungakærleikur en mikilvægur. Takk fyrir að Jeús boðaði náungakærleika.

Ragnheiður Sverrisdóttir