Tilkynning vegna framkvæmda í Laugarneskirkju

by Apr 14, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt, Fréttir

Kæra samferðafólk,
Undanfarnar vikur hafa reynst mörgum okkar erfiðar. Óvissa hefur ríkt í samfélaginu, þungbær veikindi hafa herjað á ástvini og sorgin jafnvel gert sig heimakomna. Samkvæmt ráðleggingum þríeykisins, Ölmu landlæknis, Víðis lögreglustjóra og Þórólfs sóttvarnalæknis, höfum við ekki aðeins haldið okkur heima við, heldur einnig horft inn á við. Gildismat hverrar manneskju breytist þegar líf og heilsa er í húfi, því flest annað verður hjóm í samanburði. Samfélagslegt gildismat hefur breyst, við finnum til meiri samkenndar og samstöðu – við erum öll almannavarnir og erum öll að takast á við þetta saman.
Eitt er það hús hér í Laugarneshverfi sem í hugum margra hverfisbúa er tákn samstöðu og samkenndar, sem er Laugarneskirkja. Margir sækja þangað styrk, aðrir helgistundir, athafnir eða þykir gott að setjast á bekkina á kirkjutorginu á göngu sinni um hverfið. En hvernig sem því er háttað, þá er Laugarneskirkja húsið okkar allra sem hér búum sem nýtur sín nú enn frekar eftir vandaða utanhússviðgerð og endursteiningu sem lauk í desember síðastliðnum.
Í ljósi flókinna aðstæðna sem hafa skapast hvað varðar allt starf í kirkjunni vegna mikilvægra og nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við útbreiðslu Covid-19, þá hefur sóknarnefnd Laugarnessóknar ákveðið í samráði við presta og starfsfólk kirkjunnar að hefja brýnar innanhússviðgerðir núna í apríl. Reyndar hefjast þær núna í dag, 14. apríl. Kirkjan verður því meira og minna lokuð frá og með deginum í dag og til og með 5. júní, eða á meðan viðgerð stendur yfir. Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun sem felur meðal annars í sér að gera við kirkjuna að innan, hún verður máluð, þrifin, skipt um glugga í safnaðarheimili og parket þar slípað. Einnig verður gert við kirkjutröppurnar úti ásamt mýmörgu öðru sem of langt mál er að telja hér upp.
En þó að kirkjan verði lokuð þá eru bæði prestar og starfsfólk kirkjunnar að störfum og til þjónustu reiðubúin, og ég vil hvetja Laugarnesbúa og aðra vini kirkjunnar til að koma þar við nú þegar farið er að vora, tylla sér kannski niður á bekk á kirkjutorginu, jafnvel reka aðeins inn nefið ef kirkjan er opin og sjá hvernig málum er háttað. Laugarneskirkja er nefnilega húsið okkar allra, sem veitir okkur rými og skjól til að vera til staðar hvert fyrir annað í sorg sem gleði af fordómaleysi og auðmýkt.
Með hlýjum kveðjum f.h. sóknarnefndar Laugarneskirkju,
Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, formaður