Útvarpshelgistund Laugarneskirkju í Hjallakirkju

by Apr 24, 2020Blogg, Dagskrá, Forsíðufrétt

Sunnudaginn 26. apríl verður útvarpsmessan með óvenjulegu sniði. Það stafar ekki bara af því að það orkar tvímælis að tala um „messu“ þegar söfnuðurinn er ekki til staðar að taka þátt í stundinni heldur fylgist með henni sem hlustendur, eins og nauðsyn ber til nú á tímum samkomubanns. Það er vissulega óvenjulegt. En hitt er einnig óvenjulegt að kirkjan sem annast helgistundina er ekki stödd í kirkjunni „sinni“.

Ákveðið var snemma í vetur að Laugarneskirkja skyldi sjá um útvarpsmessu annan sunnudag eftir páska, en þá óraði engan fyrir því að ástandið í þjóðfélaginu yrði með þeim hætti sem raun ber vitni þegar sá dagur rynni upp. Þegar sú ákvörðun var tekin að nýta samkomubannið til að flýta fyrirhuguðum og löngu tímabærum framkvæmdum í Laugarneskirkju varð aftur á móti ljóst að ekki myndi verða hægt að hafa helgistund þar á meðan, hvað þá að senda hana út í útvarpi allra landsmanna. Við í Laugarneskirkju leituðum því til bræðra okkar og systra í Hjallakirkju sem brugðust vel við beiðni okkar og opnuðu dyr sínar fyrir okkur. Við kunnum þeim að sjálfsögðu hinar bestu þakkir fyrir gestrisnina.

En þótt húsnæðið sé ekki Laugarneskirkja verður helgistundin frá Laugarneskirkju, því kirkjan er jú fólkið, ekki húsið. Prestar Laugarneskirkju leiða stundina, Sr. Hjalti Jón Sverrisson flytur hugvekju, messuþjónar kirkjunnar aðstoða og organistinn, Elísabet Þórðardóttir, leikur á hljóðfærið. Sérstakur gestur verður Pétur Húni Björnsson sem syngur einsöng.

Rétt er að vekja athygli á því að stundinni mun ljúka á sameiginlegri kærleiksmáltíð allra sem taka vilja þátt. Hún er ekki altarisganga, en ævagömul hefð sem í árferði eins og þessu vísar með lofgjörð og þakklæti til sakramentisins sem kringumstæður neyða okkur til að vera án. Hlustendur eru hvattir til að hafa brauðsneið eða kex og glas af safa eða víndreitil við hendina og neyta þessarar máltíðar sameinaðir í anda yfir öldur ljósvakans.