Heildstæðir verkferlar skinhelginnar

by Sep 20, 2020Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni las ég afar áhugaverða grein sem lætur mig eiginlega ekki friði síðan og mig langar að deila innihaldi hennar með ykkur. Þar segir frá krossfestingaraðferðum Rómverja til forna, en allt kapp var lagt á að pynta og misþyrma, auðmýkja og niðurlægja fórnarlambið eins og framast var unnt.

 Þannig var hinn krossfesti t.d. einatt krossfestur nakinn, honum til háðungar. Við sjáum sjaldan þannig myndir af Kristi á krossinum, hann er yfirleitt í einhverri lendaskýlu. En Jesús var ekki í lendaskýlu á krossinum, hann var nakinn.

Af hverju fölsum við mynd Jesú á krossinum?

Það er af því að allar myndir okkar af Jesú eru táknmyndir.

Og táknheimur okkar – mennilegarlegur tilvísunarrammi okkar – tengir nekt ekki lengur auðmýkingu og niðurlægingu, berskjöldun og varnarleysi. Við höfum afhent lostanum nektina.

Hið sama gerðist með brjóst Jesú. Á miðöldum var ekki fátítt að Jesús væri sýndur með kvenmannsbrjóst á myndum. Þá táknuðu brjóstin umhyggju og mýkt, vernd og næringu. En svo afhenti menning okkar lostanum brjóstin og það sem þau höfðu táknað öldum saman hvarf í gleymsku. Og nú verður allt vitlaust ef Jesús er teiknaður með brjóst.

Nauðgun Jesú

En aftur að þessari grein. Þar er sérstaklega tiltekið að undantekningalítið var hinum dauðadæmda nauðgað áður en hann var festur á krossinn. Um þetta skilst mér að flestir sagnfræðingar séu nokkurn veginn sammála, en þeir veigra sér við að tala um það … og ég þarf ekki að útskýra fyrir ykkur hvers vegna.

Þrátt fyrir allt er þessi tegund ofbeldis nefnilega enn svo mikið tabú, skömmin er enn svo mikið fórnarlambsins en ekki gerendanna í menningu okkar, að myndin af Jesú sem rómverskir hermenn eru að nauðga, samræmist ekki trúarvitund okkar. Sú mynd særir okkur of mikið. Það er of vont að horfa á hana.

Jafnvel þeir sem lagt hafa mest upp úr að sýna aftöku Jesú í sem grimmilegustu og blóðugustu ljósi hafa látið það alfarið eiga sig að svo mikið sem gefa í skyn að þetta gæti hafa átt sér stað.

Nauðgun Jesú er svo mikið hómófóbískt tabú að eftir fimm ára háskólanám í akademískri guðfræði, sex ára starf sem prestur og lestur fjölda bóka um guðfræði og líf og dauða Jesú frá Nasaret, þá var athygli mín vakin á þessu í fyrsta skipti nú í vikunni.

Ég játa að ég fékk hroll og fórn Jesú og þjáning fékk enn dýpri og magnaðari merkingu í hjarta mínu.

Bræður og systur

Tilfinningin minnti mig dálítið á það þegar það var útskýrt fyrir mér hvað „njarðarvöttur“ er. Þið munið kannski að þegar Jesú þyrsti á krossinum þá vættu hermennirnir „njarðarvött“ í ediki og báru að vitum hans. Njarðarvöttur var víst hluti af staðalbúnaði rómverskra hermanna. Þetta var eins konar svampur sem þeir notuðu til að þrífa á sér afturendann eftir að þeir höfðu gengið örna sinna.

Þetta er meðferðin sem konungur lífsins og ljóssins fékk hjá valdhöfum þegar hann gekk meðal okkar.

Auðvitað var Jesú nauðgað – af því allt sem við gerum hans minnstu bræðrum og systrum gerum við honum.

Hvar sem okkar minnstu bræður og systur eru beitt kynferðislegu ofbeldi er enn verið að nauðga Jesú.

Hvar sem manneskja er kúguð og útskúfuð af því að hún tilheyrir þeim hluta mannkynsins sem er með brjóst, þar er verið að kúga og útskúfa Jesú af því að hann er með brjóst.

Hvar sem börn þurfa að fara huldu höfði til að stjórnvöld níðist ekki á mannréttindum þeirra, sem tryggð eru í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, verður Jesúbarnið enn fyrir pólitískum ofsóknum.

Flóttinn frá Egyptalandi

Hér á Íslandi fara fjögur börn nú huldu höfði til að þurfa ekki að vera send aftur til Egyptalands. Tilviljunin er sláandi, við þurfum ekki að leita lengi í trúararfinum til að flótti frá Egyptalandi hafi djúpa merkingu fyrir okkur.

Börnin hafa dvalið hér í tvö ár, tala íslensku og eiga íslenska vini. Í Egyptalandi hafa þau að engu að hverfa. Fjölskyldufaðirinn er sannfærður um að hann sé í lífshættu í Egyptalandi sem félagi í stjórnmálasamtökum sem nefnast Bræðralag múslima.

Bræðralag múslima er ekki hryðjuverkasamtök, allt tal um slíkt er hrein og klár lygi. Engin Vesturlanda skilgreina þau sem slík þótt ógnarstjórnirnar í Egyptalandi, Sádí-Arabíu og Sýrlandi geri það, stjórnvöld sem engin Vesturlanda vilja taka sér til fyrirmyndar.

Og það er staðreynd, sem alþjóðleg mannréttindasamtök halda á lofti og íslensk stjórnvöld þræta ekki fyrir, að egypsk stjórnvöld handtaka félaga í Bræðralagi múslima og pynta þá til bana. Þess eru jafnvel dæmi að morðsveitir herforingjastjórnarinnar drepi börn þeirra vegna þess hverra manna þau eru. Þetta vita íslensk stjórnvöld og draga ekki í efa. Samt vilja þau senda fjölskylduna þangað af því að þau meta það sem svo að þessi ákveðni fjölskyldufaðir sé ekki nógu hátt settur innan hreyfingarinnar til að líklegt sé að stjórnvöld þar ytra nenni að hafa fyrir því að myrða hann og börn hans. Slíkar trakteringar eru víst aðeins í boði fyrir leiðtogana og þá sem eru hærra settir en þessi maður að mati íslenskra stjórnvalda. „Ekki mjög líklegt“ segja þau sem, eins og allir skilja, merkir „mögulegt“.

Nú má spyrja: Hve líklegt þarf það að vera? Einn á móti hundrað?

Mynduð þið senda börnin ykkar í flugvél vitandi að þetta væru líkurnar á því að hún færist? Mynduð þið láta bólusetja börnin ykkar með bóluefni sem drepur ekki nema einn af hverjum hundrað?

Að hýsa

Bræðralag múslima er ekki geðsleg stjórnmálahreyfing, því ætla ég ekki að halda fram. En í landi þar sem stjórnarandstæðingar eru pyntaðir kerfisbundið í hel og börn þeirra eru skotin á færi þarf ósiðblint fólk ekki að velta því fyrir sér hvorir séu skárri.

Í öllu falli er það ljóst að fjölskyldufaðirinn lítur svo á að honum sé ekki vært í Egyptalandi og brottvísun fjölskyldunnar þangað mun ekki breyta þeirri sannfæringu hans. Hve líklegt skyldu íslensk stjórnvöld telja að fjölskyldan verði ekki komin aftur á flótta innan sólarhrings frá því að hún lendir í Egyptalandi, það er ef morðsveitir stjórnvalda bíða hennar ekki á flugvellinum? Skyldu þau yfirhöfuð hafa velt því fyrir sér? Eða er þeim alveg sama á meðan þetta fólk verður vandamál einhverra annarra.

„Gestur var ég og þér hýstuð mig,“ (Matt 25.35) segir í guðspjallinu sem ég las áðan. Þetta er afleit þýðing. Orðið sem þarna er þýtt „gestur“ er „xenos“. Orðið merkir „útlenskur“ eða „aðkomumaður“. Þetta er fyrri hluti orðsins „xenófóbía“ sem merkir „útlendingahatur“. Og hvaða útlendingar sem þörfnuðust húsaskjóls skyldu nú hafa verið á sveimi fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir tvöþúsund árum? Það voru ekki vellauðugir túristar að færa gjaldeyristekjur. Það var landflótta lýður, herleitt fólk og fólk á flótta. Flóttamenn.

Jesús er ekki að tala um að fá gesti í kaffi og vöfflur. Jesús er að tala um að taka á móti flóttafólki. „Flóttamaður var ég og þér veittuð mér hæli,“ væri mun réttari þýðing.

Mannréttindi barna

Íslensk stjórnvöld fullyrða að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur á Íslandi.

Þetta er falleg setning. Hún ætti að þýða að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé lög á Íslandi, hvað gæti orðið „lögfestur“ annars þýtt?

Í annarri grein þessa sáttmála er kveðið á um að hann gildi um öll börn innan lögsögu ríkja, án tillits til þess með hvaða hætti þau komu þangað eða hve lengi þau hafa dvalið þar.

Og næsta grein á eftir hefst á orðunum: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Hvers vegna er þetta hulið þeim armi stjórnvaldsins sem nefnist Útlendingastofnun? Hvað er það sem breiðir yfir merkingu þessara orða gagnvart henni? Þetta eru ekki torskilin orð. Nema orðið „lögfestur“ merki eitthvað allt annað en „fest í lög“.

Þessi málsgrein er úr prédikun sem ég flutti í febrúar á þessu ári. Ég hefði í raun getað notað hana aftur, þurft að gera lítið til að lagfæra hana, aðeins að breyta Íran í Egyptaland og kynáttun í stjórnmálaskoðanir og hún hefði staðið sem innlegg í umræðuna í dag.

Á þessum sjö mánuðum hefur ekkert breyst. Engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja að íslensk stjórnvöld fari að sínum eigin lögum og virði mannréttindi barna eins og þau hafa skuldbundið sig til að gera.

Eða dettur einhverjum í hug að hægt sé að færa rök fyrir því það sé þessum börnum fyrir bestu að vera send aftur til Egyptalands?

Hið algera dugleysi

Hvernig bregðast æðstu ráðamenn þjóðarinnar við þessu? Jú, svar þeirra er: „Það skortir heildstæða verkferla,“ sem einnig mætti orða: „Tölvan segir nei.“

Kerfið gerir ekki ráð fyrir mannúð og miskunnsemi, rétt eins og kerfið sé ekki smíðað af mönnum til að þjóna þeim, heldur séum við hér til að þjóna sálarlausu kerfi sem fundið hefur það upp hjá sjálfu sér að svívirða mannréttindi barna og mylja drauma þeirra, vonir og þrár, án þess að við fáum rönd við reist eða ættum yfirhöfuð að setja spurningarmerki við það.

Sú fullyrðing að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur á Íslandi er því miður í allri reynd ekkert annað en … og nú bið ég ykkur að afsaka orðbragðið … argasta kjaftæði.

Þetta er ekki orð sem mér er ljúft að nota, ég geri það vegna þess að orð eins og „ósannindi“ eða „vafasöm fullyrðing“ ná ekki að fanga skinhelgina og hræsnina sem í því felst að stjórnmálamenn skuli ítrekað voga sér flagga þessari staðhæfingu, sem ekkert er á bak við, til að fegra sjálfa sig. Döngunarleysi þeirra til að leiðrétta ranglætið sem nauðstatt fólk er kerfisbundið beitt hér á landi, þar sem siðferðiskennd alls þorra þjóðarinnar er með reglulegu millibili gersamlega misboðið, hefur reynst algert.

Það eina sem þeir hafa gert er að gapa að þeir hafi gert eitthvað sem dæmin sanna að þeir hafa alls ekki gert: Að lögfesta í raun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tryggir að allar ákvarðanir sem varða heill og velferð barna skuli teknar með það sem þeim er fyrir bestu að leiðarljósi.

Heildstæðir verkferlar

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér,“ (Matt 25.40) segir Jesú. Jesús var ofsóttur og kúgaður, niðurlægður og svívirtur og beittur því hryllilegasta ofbeldi sem hægt er að hugsa sér. Og framkoma okkar við hann hefur ekkert breyst í tvöþúsund ár.

Því enn þann dag í dag er það nákvæmlega þannig sem við komum fram við okkar minnstu bræður og systur.

Því miður virðist það vera að nú sem fyrr sé skinhelgin það eina í samfélagi manna sem í raun styðst við heildstæða verkferla.

Og þó. Ekki alveg. Kærleikurinn gerir það líka. Kærleikurinn sem skinhelgin hæðir, svívirðir, misþyrmir og ofsækir er sem betur fer enn meðal okkar. Og hann heitir Jesús Kristur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. september 2020