Krefjandi tímar

by Sep 27, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, Prédikun

Kæru vinir, ég heilsa ykkur í Jesú nafni.   

1.
Við lifum á krefjandi tímum. Kannski er það alltaf þannig.
En mér virðist sem tímarnir séu að opinbera okkur á ný meiri sundrungu, meiri úlfúð. Það virðist enn styttra í flokkadrætti en áður. Eftilvill er undirliggjandi spenna í samfélögum okkar einfaldlega að rata á yfirborðið í meiri mæli.           
Rasismi er í umræðunni, kunnugleg stef aðskilnaðar hljóma hér og þar.            
Ofan á þetta erum við að lifa tíma heimsfaraldurs, alþjóðasamfélagið kemur að sér í glænýrri stöðu, það er svo margt sem hefur breyst í heiminum svo hratt á undanförnum áratugum og það hefur áhrif á alla úrvinnslu okkar.

Mörg óttast um afkomu sína, ef það er eitthvað sem sameinar fólk þá er það að við eigum erfitt með að lifa í óvissu.         
Og við erum mörg sem erum óviss, erum hrædd um hvert stefnir, og það getur verið mikilvægt að segja það upphátt.       

Eitt af því sem óttinn getur gert er að aðskilja.         
Óttinn breikkar bilið milli mín og þín. Milli okkar og þeirra. Óttinn selur okkur sundrungu.          

Við manneskjurnar höfum þörf fyrir að hólfa tilveru okkar niður, það hjálpar okkur að skilgreina hana og skilja. Eftilvill er þessi tilhneiging óhjákvæmilegur þáttur mannlegrar tilveru, en þegar hún er knúin áfram af ótta, reiði og hatri getur hún valdið því að við missum sjónar af því sem sameinar okkur.
Við hættum að finna til, hvort með öðru.      

2.
Í guðspjalli dagsins heyrum við af því hvernig Kristur finnur til með ekkjunni sem hafði misst einkason sinn, hvernig hann segir við ekkjuna ,,grát þú eigi” áður en hann reisir son hennar við, til lífs á ný.         
Það er einkennandi fyrir þessa frásögn að tekið er sérstaklega fram að Jesús hafi fundið til þessarar djúpu samkenndar með ekkjunni.  

Þegar við lesum kraftaverkafrásagnir á borð við þessa er mikilvægt að við lesum þær ekki aðeins út frá því sem þær bókstaflega segja, heldur einnig fyrir táknrænt og trúarlegt gildi þeirra.           
Þá getur okkur opinberast dýpri merking en við komum auga á í fyrstu.  
Eitt af því sem er merkilegt við samhengi guðspjallstexta dagsins er að þessi saga kemur í beinu framhaldi af annarri kraftaverkafrásögn sem opnar 7. Kafla Lúkasarguðspjalls.     
Í upphafsfrásögninni er það ekki valdalaus ekkja af gyðingaættum sem þiggur hjálp Krists heldur er það voldugur rómverskur hundraðshöfðingi sem leitar eftir hjálp þegar þjónn hans verður veikur og bíður dauðans.      
Þessum tveimur frásögnum er stillt upp hlið við hlið í upphafi 7. Kafla Lúkasarguðspjalls og guðfræðilegur tilgangur þessarar uppstillingar verður skýr; að fagnaðarerindi Guðs er ekki bundið við þjóðerni eða þjóðfélagsstöðu, kyn eða kynþátt.                 
 
3.
Þetta eru krefjandi tímar og þeir krefjast þess að hvert og eitt okkar fylgi köllun sinni. Einn af þeim frösum sem við höfum stundum notað í fermingarfræðslunni er að við getum ekki aðeins barist fyrir því sem er létt, við verðum að berjast fyrir því sem er rétt.    

Fyrir okkur sem viljum leitast við að fylgja meistaranum frá Nasaret er sú stefna mörkuð af því að leitast við í baráttu okkar að rækta virðingu fyrir hinu heilaga í sérhverri manneskju.   

Ég held að eitt af því sem okkur verkjar svo undan í tengslum við ofbeldi er að við upplifum og finnum að þegar við eða önnur manneskja ástundum ofbeldi höfum við glatað sjónum af hinu heilaga í sjálfum okkur og öðrum.             

Það er hlutverk okkar að bera kennsl og virða hið heilaga hvort í öðru. Að vera fær um að finna til, eins og Jesús gerir í guðspjalli dagsins, því við komum auga á sameiginlega mennsku okkar.     
Að virða hið heilaga hvort í öðru þýðir ekki að við getum ekki verið afdráttarlaus í afstöðu okkar, það er ekki í andstöðu við virðingu að taka afgerandi afstöðu.      
 
4.
Í 27 ár var Nelson Mandela í fangelsi.
Það reyndi anda hans, það voru krefjandi tímar. Í 40 ár barðist Mandela gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku og eitt sinn sagði hann eitthvað á þessa leið:  

,,Ég fyrirlít hvíta yfirburðarhyggju og mun berjast gegn henni með hverju vopni því sem ég hef. En jafnvel þegar átökin milli mín og þín hafa tekið á sér hinar öfgakenndustu myndir, þá vil ég að við tökumst á vegna gilda okkar og hugmynd, án persónulegs haturs, svo að lokinni baráttunni, hver sem útkoman kann að vera, þá geti ég af stolti tekið í hönd þína, því ég veit að ég hef tekist á við verðugan andstæðing sem hefur fylgt heiðurs- og velsæmisreglum.”       

Nelson Mandela sagði einnig: “Never forget that a saint is a sinner who keeps on trying.” 

Þetta eru krefjandi tímar, leiðin með Kristi er krefjandi leið en við höldum áfram að reyna.         

Hluti af vegferð okkar sem kristinna einstaklinga er að við tökum afstöðu með bæninni.
,,Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.” sagði Kristur. 
En að biðja fyrir óvinum okkar þýðir ekki að við séum með því að samþykkja ofbeldi og ofríki. Það þýðir ekki að við séum að senda þau skilaboð að við ætlum að humma okkur í gegnum meiðandi samskipti, í gegnum það sem særir okkur.          
Það er bænarafstaða sem við finnum að við getum lifað í, því við erum valdefld í trú okkar. Því óvinir okkar skilgreina okkur ekki, heldur það ljós sem við leitumst við að fylgja – líka þegar við sjáum ljósið illa fyrir bjálkanum í auganu.  
Þess vegna getum við elskað óvini okkar og beðið fyrir þeim sem ofsækja okkur.

Lexía dagsins er úr Jobsbók og þegar við lesum um ótrúlegar raunir Jobs og samræður hans við Guð erum við minnt á það að í bænasambandi okkar við Guð er rými fyrir allar tilfinningar, líka þær sem eru okkur mest krefjandi; reiði, sektarkennd, skömm.   
Job treysti Guði fyrir reiði sinni gagnvart Guði, gagnvart örlögum sínum og óréttlátri tilverunni, og það gróf ekki undan trúarsambandinu heldur dýpkaði það að lokum.

5.
Job, hundraðshöfðinginn, ekkjan.      
Biblían geymir sögur af fólki og það sem sameinar fólk er að við viljum geta verndað þau sem við elskum.    
Job vildi vernda fjölskyldu sína. Hundraðshöfðinginn vildi vernda þjón sinn. Ekkjan vildi vernda son sinn.  
Allar manneskjurnar eru í þessari stöðu: þær vilja bara vernda það sem þær elska.       

6.
Þetta eru krefjandi tímar. Við sjáum að samfélagsumræðan getur verið vægðarlaus, stundum ekki aðeins afgerandi heldur meiðandi. Nýlega hafa hinar ýmsu myndir okkar af Kristi verið í umræðunni, í tengslum við sunnudagaskólaauglýsingu af Jesú með brjóst. Það jákvæða er að það er örugglega langt síðan Jesús frá Nasaret hefur verið jafn miðlægur í umræðunni og þessi umræða hefur orðið til þess að við mörg höfum litið inn á við og horft til þess hver Kristur er fyrir okkur og hvað það þýðir fyrir hvert og eitt okkar að fylgja Kristi.   

Mín uppáhalds mynd af frelsaranum er ekki málverk eða auglýsing, heldur lítil stytta sem ég á.
Þar heldur Kristsgervingurinn verndandi örmum sínum utan um barn. Kristur verndar barnið og barnið er heilagt. Okkur ber að vernda börn, standa vörð um þeirra hag.    

7.
Þetta eru krefjandi tímar.       
Við erum eitt í Kristi, en það er ekki alltaf auðvelt.  

Það er krefjandi að feta þessa leið og vafalaust koma stundir á leið okkar þar sem við grátum eins og fólkið grætur með ekkjunni í guðspjalli dagsins. Við grátum með hinum undirokuðu og við biðjum svo bænin geti breytt okkur og við orðið farvegur breytinga.           
Með okkur gengur Kristur, sem grætur með okkur, sem huggar, sem hjálpar okkur að leitast við að reisa við, virða og vernda það sem mestu skiptir.

Guð gefi okkur áfram styrk sinn og frið á þeirri leið.           

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.     


Prédikun flutt í Laugarneskirkju 27. september 2020