Líkami Krists

by Sep 9, 2020Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, Pistill

Við vitum ekki hvernig Jesús frá Nasaret leit út. Engar myndir eru til af honum og útliti hans er ekki lýst í Biblíunni.

Eina ályktunin sem hægt er að draga af því sem þar stendur er að hann hafi á engan hátt skorið sig úr fjöldanum í útliti. Hann gat horfið inn í mannfjöldann og þegar Rómverjarnir gómuðu hann í grasagarðinum þekktu þeir hann ekki í útliti. Júdas gat ekki einu sinni auðkennt hann með útlitseinkennum heldur varð hann að kyssa hann til að Rómverjarnir vissu hver viðstaddra væri Jesús.

Allar myndir okkar af Jesú eru hugmyndir. Þær eru myndir af því hvernig við sjáum Jesú fyrir okkur. Fæstar þessara mynda sýna dæmigerðan Galíleumann frá fyrstu öld okkar tímatals. Flestar þeirra sýna grannan, hávaxinn, karlmann af norðurevrópskum uppruna með sítt hár og skegg. En Jesús frá Nasaret var ekki norðurevrópumaður og hann var áreiðanlega ekki með sítt hár. Það var einfaldlega ekki til siðs að karlmenn væru síðhærðir á hans dögum.

Þegar mynd Jesú er annars vegar hefur á öllum tímum verið lögð meiri áhersla á að útlit hans endurspeglaði útlit þeirra sem myndin var fyrir heldur en trúnað við sögulegan bakgrunn fagnaðarerindisins.

Þannig má nefna að þegar kvikmyndin „The Greatest Story Ever Told“ var gerð árið 1965 var aðalhlutverkið í höndum Svía. Max Von Sydow gerði hlutverkinu ágæt skil, en lítið var um það – ef eitthvað – að þessi vísvitandi brenglun á útliti Jesú ylli uppnámi. Enda var hún í samræmi við það sem áhorfendur höfðu vanist.

Á öllum stöðum hefur útlit Jesú verið sniðið að útliti fólksins sem verið er að boða hann. Í kirkjum svartra í Bandaríkjunum og Afríku er algengt að sjá svartan Jesú, þ.e. Jesú sem virðist rekja ættir sínar og uppruna til Afríku sunnan Sahara. Það sama gildir um aðra heimshluta, t.d. Rómönsku Ameríku, þar sem hann virðist alloft vera afkomandi frumbyggja álfunnar.

Allar þessar „vitlausu“ Jesúsmyndir eru þó mikilvægar. Þær brýna okkur til að sjá Jesú ekki bara sem einn af okkur heldur líka sem einn af hinum. Þær eru nefnilega aðeins „vitlausar“ á mjög yfirborðskenndan og grunnhygginn hátt. Guðfræðilega eru þær allar hárréttar. Því ólíkari áhorfandanum sem myndin er, þeim mun brýnna er erindi hennar við hann.

Jesús sagði: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.39) Þetta er mikið grundvallaratriði í kristinni boðun. Og það vill þannig til að minnstu bræður okkar eru sjaldnast norðurevrópskir karlar. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga líka Jesúmyndir sem sýna hann sem einn hinna útskúfuðu og jaðarsettu, hvort sem það er vegna uppruna, kynferðis, kynhneigðar eða kynáttunar sem falla ekki að hinu heterónormatífa offorsi.

Sagnfræðilegur áreiðanleiki myndanna kemur málinu ekkert við. Guðfræðilegur áreiðanleiki þeirra er fyrir öllu og hann er ótvíræður.

Af hverju skyldi hin vitlausa mynd af Jesú sem konu eða transmanneskju valda meira fjaðrafoki en allar næstum því jafnvitlausu myndirnar af honum sem norðurevrópumanni (og síðhærðum í þokkabót, jafnvel þótt í Biblíunni standi skýrt og greinilega: „Kennir ekki sjálf náttúran ykkur að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd?“ (1Kor 11.14))

Finnst okkur sem hann setji niður við að vera ekki hvítur karlmaður? Er virðing okkar svo rígbundin við það ytra útlit? Eða er það vegna þess að þrátt fyrir allar þær tilfærslur á útliti hans sem trúarvitund okkar sættir sig við þá sé kynferði hans heilagt og við því megi ekki hrófla?

Ef svo er þá höfum við orðið fyrir trúarbrenglun sem verður að leiðrétta. Okkur finnst það kannski ekki gott, en við höfum sjaldnast gott af því sem okkur finnst gott. „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ (Gal 3.28)

Er ekki tímabært að við sjáum Jesú sem … nei, að við sjáum Jesú í transmanneskju?

Hinn sögulegi Jesús var vissulega ekki transmanneskja, en hann var ekki heldur hávaxinn, síðhærður norðurevrópumaður. Báðar myndirnar eru rangar.

Við eigum enga mynd af Jesú enda skiptir það engu máli hvernig hann leit út. Af því leiðir að það skiptir ekki heldur neinu máli hvort hann var karl eða kona eða trans. Erindi hans við okkur er samt fyrir því. Hvers vegna ættum við að rembast við að boða fagnaðarerindið hér á Íslandi á 21. öldinni ef það særir trúarvitund okkar flytja það úr sögulegri umgjörð sinni í öðrum heimshluta á þeirri fyrstu?

Að þessu sögðu er rétt að fram komi að sá sem hér ritar er ekki endilega þeirrar skoðunar að Trans-Jesús sé á réttum stað í auglýsingum fyrir sunnudagaskólann, en það er önnur umræða, sem ekki verður tekin upp hér. Góð guðfræði getur verið afleitt PR.

Í Guðs friði,

Davíð Þór Jónsson

Sóknarprestur í Laugarnessprestakalli