Barrabas páfi

by Mar 23, 2021Prédikun

Guðspjall: Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“ Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“ Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“ Þeir svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ … Að svo mæltu gekk [Pílatus] aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum. Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“ Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi. (Jóh 18.28 – 31, 38b – 40)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni sá ég ljósmynd sem mér þótti skondin. Eða öllu heldur þá þótti mér myndatextinn við hana dálítið skemmtilegur. Myndin sýndi páfann í Róm á leiðinni til messu. Hann var í fullum skrúða, með mítur, bagal, biskupskápu og allt sem einn páfi getur skrýtt sig með og ég kann ekki full skil á, allt í gulli og blúndum. Myndatextinn var eitthvað á þessa leið í minni þýðingu: „Þarna er páfinn í Róm í glæsilegri, gylltri siffon-kápu við gasalega lekkeran, gylltan blúndu-kvöldkjöl, með háan, gulllitan hatt og í rúbínrauðu skónum hennar Judy Garland úr Galdrakarlinum í Oz á leiðinni í kirkjuna til að segja okkur að það sé ljótt að vera hinsegin.“

Ég treysti því að hinseigin vinir mínir hafi húmor fyrir stereótýpunni sem þarna er verið að leika sér með.

Skrúði og skinhelgi

Sjálfsagt á hvert klæði sem hengt er á páfann og hver hlutur sem hann ber með sér og tilheyrir skrúða hans sína sögu, tilgang og merkingu. Og ég er sannfærður um að engu af því sé beinlínis ætlað að vera tákn tvískinnungs og hræsni þótt framganga þeirra sem skrýðst hafa þessum skrúða til þessa hafi gert það að verkum – alltjent þegar kemur að afstöðunni til hinsegin fólks – að hann standi fyrir lítið annað en yfirdrepsskap og skinhelgi.

Sjálfur stend ég hér frammi fyrir ykkur í skrúða, ekki nándar nærri eins tilkomumiklum og þeim sem páfinn í Róm klæðist, en hver hlutur hefur táknræna merkingu sem ég reyni einlæglega eftir mínum veika mætti að láta stjórna orðum mínum og framgöngu.

Hvíti kuflinn eða sloppurinn sem ég er í nefnist alba og hann hylur persónulegan fatnað minn til að sýna að ég stend ekki frammi fyrir ykkur í krafti minnar eigin persónu heldur hans sem sendi mig.

Ég er með stólu á öxlunum, sem lítur kannski svolítið út eins og gagnslaus trefill. Hún er tákn vígslu minnar, stendur fyrir byrði þess embættis sem ég er vígður til að þjóna. Hún er eins og klafi á uxa, nema hvað hún vegur nákvæmlega 250 grömm. Ég veit það af því að ég skellti henni einu sinni á eldhúsviktina heima hjá mér. Enda er henni ætlað að minna á orð frelsarans þegar hann sagði: „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.30)

Loks er ég með snúru um mittið til að merkja mig sem lærisvein Jesú sem sagði við þá: „Verið girtir um lendar yður.“ (Lúk 12.35)

En út frá þessu mætti sjálfsagt gera svipað grín að mér og þarna er gert að páfanum. Og það er líka allt í lagi. Ef einhver getur bent á tvískinnung í fari mínu eða ósamræmi á milli orða minna og gjörða þá hef ég bara gott af því að vera núið því um nasir.

Lög og regla

En þessi mynd af páfanum kom óneitanlega upp í huga minn þegar ég hugleiddi guðspjallstexta dagsins. Hann byrjar nefnilega á þessari einföldu setningu sem auðvelt er að láta framhjá sér fara, en hún afhjúpar með miskunnarlausum hætti hræsni og skinhelgi ofækjenda Jesú:

„Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar.“

Pílatus var nefnilega heiðingi og gyðingar trúðu því að þeir „saurguðust“ ef þeir gengu undir þak heiðingja. Það stóð skýrum stöfum í lögmálinu sem þeir trúðu á. Og þessir fínu menn ætluðu sko ekki að eyða sjálfri páskahátíðinni í einhverri sóttkví út af svoleiðis vangá, heldur hugðust þeir taka fullan þátt í gleðinni og veisluhöldunum. Þess vegna gættu þeir þess að standa fyrir utan og ræða við Pílatus þar.

Auðvitað má láta það fara í taugarnar á sér að sagan er væntanlega uppspuni, ef ekki frá rótum þá að minnsta kosti að verulegu leyti. Við vitum að sá Pontíus Pílatus sem guðspjallamaðurinn Jóhannes lýsir á mjög lítið skylt við þá blóðþyrstu og miskunnarlausu skepnu sem aðrar heimildir lýsa sem hinni sögulegu persónu Pontíusi Pílatusi. Sá gaur hefði séð litla ástæðu til að þvo hendur sínar af blóði sakleysingja, hvað þá að það hefði hvarflað að honum að eiga orðaskipti við dauðadæmdan lágstéttargyðing. En látum sagnfræðilegan áreiðanleika frásagnarinnar liggja á milli hluta, enda skiptir hann ekki nokkru máli. Jóhannes er að segja okkur helgisögu mettaða merkingarþrungnum trúartáknum, ekki sagnfræðilega nákvæma lýsingu á raunverulegum atburðum.

Rétt og rangt

En þessir gyðingar ganga semsagt á fund rómverska landstjórans og eru trúir sínu lögmáli með því að ganga ekki undir þak hans heldur ræða við hann fyrir utan húsið hans. Og hvert er erindi þeirra til landstjórans? Jú, að láta taka saklausan mann af lífi.

Þannig var nú þeirra skilningur á lögmálinu – á réttu og röngu.

Þegar Jesús var spurður að því hvert væri æðsta boðorðið svaraði hann aftur á móti: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætir hann við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Þetta er lögmál Jesú.

Það var hins vegar lítið pláss fyrir kærleikann í lögmáli þeirra sem vildu Jesú feigan. Þeirra lögmál var of undirlagt af helgisiðum og hreinleikaákvæðum til að þar rúmaðist arða af náungakærleik. Svona svipað eins og Rómarkirkjunni þykir mikilvægara skrýða og gylla páfann sinn eftir öllum hinum réttu kúnstarinnar reglum heldur en að taka upp hanskann fyrir þá sem ofsóttir hafa verið í gegnum aldirnar fyrir það eitt að elska vitlaust – að mati þeirra sem telja sig hafa einkarétt á að skilgreina hverja megi elska hvernig þannig að það sé Guði þóknanlegt.

Nei, þeir töldu sig vera að gera hárrétt með því að standa fyrir utan á meðan þeir kröfðust dauðarefsingar yfir Jesú. Og það sem meira er, þegar Pontíus Pílatus stakk upp á því að Jesús yrði náðaður samkvæmt einhverri hefð um að náða einn dauðadæmdan mann fyrir hverja páskahátíð, þá mótmæltu þeir og vildu frekar Barrabas. Um Barrabas er lítið vitað en í guðspjallinu segir: „Barrabas var ræningi.“

Þeir vildu frekar að landsstjórinn náðaði heiðarlegan þjóf heldur en skaðræðisskepnuna Jesú frá Nasaret.

Hvernig skyldi standa á því?

Heiðarlegur þjófur

Heiðarlegur þjófur eins og Barrabas ógnaði aðeins buddunni þeirra. Það var pláss fyrir hann í samfélaginu, tilvera hans kom heim og saman við heimsmynd þeirra og sjálfsmynd. Hann var ekki að hræra í hausnum á þeim eins og Jesús gerði. Hann var ekki að ögra og storka heimsmynd þeirra, sjálfsmynd og gildismati.

Barrabas var ekki með neinar meiningar um að það saurgaði menn kannski meira að hafa blóð sakleysingja á höndum sér heldur en að ganga undir þak heiðingja.

Barrabas var ekkert að snúa lögmálinu þeirra um rétt og rangt á hvolf eins og Jesús gerði. Barrabas hafði ábyggilega aldrei fullyrt að það sem menn létu út úr sér saurgaði þá kannski meira en það sem þeir létu ofan í sig. Enda var ekkert gott að heyra það fyrir menn sem byggðu allar hugmyndir sínar um sitt eigið ágæti á því hvað þeir voru duglegir við að leggja sér hvorki skinku né rækjur til munns á milli þess sem þeir, lugu, sviku, stálu, baktöluðu og hóruðust eins og enginn væri morgundagurinn.

Og kannski erum við svona enn þann dag í dag.

Við skiljum ræningjann. Hann stjórnast af kenndum sem við könnumst við. Þótt við flest hver reynum að láta þær ekki stjórna gjörðum okkar þá er það að girnast eigur náungans okkur flestum ekkert mjög framandi tilfinning, hvað þá óskiljanleg.

Hinn gæinn er miklu óþægilegri. Sá sem segir okkur að allt sem við trúum, allt sem við stöndum fyrir, allt sem við höfum byggt sjálfsmynd okkar og sjálfsskilning á sé reist á sandi. Að sjálfsvirðing okkar sé sjálfsblekking. Sá sem boðar breytingar sem kynnu að kippa fótunum undan tilveru okkar … við viljum losna við hann.

Ógnvaldar og meinleysingjar

Ef okkur til dæmis finnst og hefur alltaf fundist það eðlilegasti hlutur í heimi að strákar séu nú einu sinni og verði alltaf strákar og verði því að fá að komast upp með framkomu sem kannski í ströngum skilningi er röng og stelpur verði bara að sætta sig við það – þá finnst okkur kannski óþægilegt að skyndilega hætti samfélagið bara eins og hendi sé veifað að samþykkja það. Og þegar farið er að hanka menn á gömlum syndum getur farið um okkur, ég tala nú ekki um ef við höfum sjálfir eitthvað á samviskunni í þessum efnum … sem ég held að ótrúlega margir okkar hafi, misalvarlegt og misilla meint auðvitað – en hinir algerlega syndlausu meðal okkar held ég að séu fáir ef einhverjir.

Þá er ógnin kannski orðin miklu meiri við okkur og líklegri til að kippa undan okkur fótunum heldur en ef einhver myndi bara nappa veskinu okkar.

Við verðum alltaf að vera með gildismat okkar, skilning okkar á réttu og röngu, því hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi, í stöðugri endurskoðun.

Ef við gerum það ekki þá endum við kannski á því að líta svo á að við séum að gera rétt með því að gæta þess að vera í nógu flottum jakkafötum þegar við förum í nógu fínu vinnuna okkar í nógu virðulega bankanum til að stunda þar stórfellda fjársvika- og blekkingastarfsemi, innherjasvik og skjalafals, sem er ekkert annað en stórfelld, lögvernduð ræningjastarfsemi og kemur öllum okkar minnstu bræðrum og systrum á vonarvöl þegar bólan springur og allt hrynur til grunna.

Nú eða að vera í réttu gullblúndunum og gyllta kjólnum okkar þegar við bendum fordæmandi fingri á aðra fyrir að elska vitlaust – í nafni trúar sem kjarnann í má draga saman í tvö orð: „Elskaðu náungann.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. 3. 2021