Á forsendum gremju eða vonar?

by Jun 15, 2021Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Umræða um kynferðismál hefur verið áberandi undanfarin misseri, svo mjög að raddir eru farnar að heyrast um að jafnvel sé farið að ganga of langt í því að grafa upp syndir manna að núa þeim um nasir til að hafa af þeim æruna og lífsviðurværið. Ekki ætla ég að leggja mat á það hér. Um er að ræða ámælisverða hegðun og stundum glæpsamlega. Og ég verð að segja að það kom mér mjög óþægilega á óvart þegar auglýst var eftir sögum frá konum af kynferðislegri áreitni á vinnustað eða í félags- eða tómstundastarfi að þá skyldi nánast gilda einu hvar niður væri borið – meðal íþróttakvenna, stjórnmálakvenna og jafnvel presta – alls staðar að komu frásagnir af svívirðilegri framkomu karlmanna á færibandi.

Það sló mig – verandi sonur konu, eiginmaður konu og faðir þriggja kvenna – að helmingurinn af mínum nánustu ástvinum skuli eiga á hættu að vera niðurlægður, svívirtur eða jafnvel beittur líkamlegu ofbeldi vegna kynferðis síns.

Með augun á vandamálinu

Það er ljóst að víða er pottur brotinn þegar að þessum málum kemur og þörf á úrbótum hið snarasta. Og það þarf engan að undra þótt tekið sé að gæta óþreyju og jafnvel pirrings út af því hve hægt virðist miða. Yfir þetta ætla ég ekki að draga neina fjöður, þótt það sé annað sem mig langi til að ræða um í dag.

Ég hef það nefnilega á tilfinningunni að þegar einblínt er svona lengi á það sem miður fer, jafnvel þótt full ástæða sé til að taka til hendinni og ráðast í úrbætur, þá leggist það á sálina í manni. Mér finnst einhver andi heiftar og reiði svífa yfir vötnum. Það er einhver þung stemning í þjóðfélaginu. Hvaða frægi karl verður næst afhjúpaður og í kjölfarið afskrifaður? Hvaða þjóðþekktu einstaklingar munu koma honum til varnar, jafnvel með gífuryrðum um sturluð viðbrögð? Hvaða eldhugar jafnréttisbaráttunnar munu steyta hnefann og gera alla sem setja spurningarmerki við aðferðafræðina að sérstökum kvenhöturum og nauðgaravinum?

Ég held að fátt gott verði til í slíku andrúmslofti.

Ég held að við hefðum gott af því að líta aðeins upp úr naflanum á okkur sjálfum og setja okkur í samhengi við umheiminn. Þá kynni að fara svo að við fyndum kennd sem er bæði jákvæð og uppbyggileg, kennd sem kæmi eins og ferskur gustur inn í þetta þrúgandi andrúmsloft, kennd sem vinnur gegn þunglyndi, meltingartruflunum og magasári: Þakklæti.

Björtu hliðarnar

Því þrátt fyrir allt … þótt en sé mikið starf óunnið við að koma á fullkomnu jafnrétti og enn séu margar sakir óuppgerðar sem varða ólíðandi framkomu karla við konur … þá er það nú einu sinni svo að á fáum stöðum í heiminum – ef einhverjum – er ástandið í þessum málaflokki skárra en hér. Víðast hvar er það mun, mun verra og fer jafnvel versnandi óhugnanlega víða.

Við stöndum í þakkarskuld við þær góðu og hugrökku konur … og karla … sem ruddu brautina, aðallega samt konur. Það er þeim að þakka að í alþjóðlegum samanburði komum við Íslendingar hvað eftir annað einna best þjóða út úr könnunum á því hvar í heiminum sé skást að vera kona með tilliti til kynbundins misréttis á ýmsum sviðum þjóðfélagsins og mannlífsins.

Þessu megum við ekki gleyma þegar við erum að bjástra við að bæta ástandið. Við megum ekki telja okkur trú um að allt sé í ólestri, allt sé glatað og vont og hræðilegt og rosalega mikið og erfitt og þreytandi starf framundan við að mjaka ástandinu í átt til bærilegs horfs. Það er nefnilega ekki þannig.

Okkur miðar hægt áfram … stundum sorglega hægt, en jafnan í rétta átt þó. Því er alls ekki alls staðar þannig farið. Sums staðar er þróunin í hina áttina, ekki bara í löndum sem mín kynslóð ólst upp við að væru grímulaust kölluð „vanþróuð“. Ekki bara í einræðis- og harðstjórnarríkjum og klerkaveldum.

Afturförin

Ef pólsk kona heyrði af því sem virðist vera helsta baráttumál íslenskra kvenréttindakvenna um þessar mundir gæti hún sagt – ef hún kynni íslensku: „Það vildi ég að ég hefði áhyggjurnar yðar.“

Í Póllandi og Tyrklandi vinna stjórnvöld nú að því að rifta samningi Evrópusambandsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum, heimilisofbeldi og nauðungarhjónaböndum. Í Póllandi voru nýlega sett lög um þungunarrof sem skerða mjög yfirráðarétt kvenna yfir þeirra eigin líkama. Í Ungverjalandi er þróunin uggvekjandi.

Í Íran getur unglingsstúlka átt von á því að fara í fangelsi ef hún verður uppvís að því að hafa farið í fóstureyðingu eftir þungun af völdum nauðgunar eða sifjaspella. … Sagði ég Íran? Ég meinti í Bandaríkjunum.

Í Bandaríkjunum er um þessar mundir unnið markvisst gegn kvenréttindum með hertari löggjöf um fóstureyðingar, í 19 ríkjum er nú þegar búið að skerða réttindi kvenna frá því sem áður var.

Kristin gildi

En af hverju er ég að gera þetta að umræðuefni?

Það vakir ekki fyrir mér að reyna að bæta bölið með því að benda á annað verra. Mig langar bara að leggja það til að við höfum opin augu fyrir því sem áunnist hefur og við getum verið þakklát fyrir um leið og við berjumst gegn því sem enn má betur fara þannig að baráttan fari fram á forsendum bjartsýni og vonar frekar en gremju og heiftar.

En þó er ég aðallega að nefna þetta af því að þeir sem harðast ganga fram í baráttunni gegn yfirráðarétti kvenna yfir sínum eigin líkama segjast gjarnan gera það í nafni „kristinna gilda“ og „fjölskyldugilda“. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að þeir sem túlka „kristin fjölskyldugildi“ með þessum hætti hafi voða lítið kynnt sér orð frelsarans um fjölskylduna eða afstöðu hans til hinna svokölluðu „fjölskyldugilda“ sem við lýði voru þegar hann var á meðal okkar í holdinu.

Í guðspjalli dagsins segir hann: „Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur …“ Á öðrum stað segir hann: „Ég er kominn til að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.“ Þegar hann er í heimabæ sínum, Nasaret, er honum tilkynnt að móðir hans og bræður vilji ræða við hann. Jesús svarar. „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“ Síðan réttir hann út höndina yfir lærisveina sína og segir: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“

Aðför að fjölskyldunni?

Við getum hneykslast á þessari aðför Jesú að þessari grunneiningu samfélagsins sem er fjölskyldan. Það er engu líkara en að hann hafni gildi hennar alfarið og því hljómar það óneitanlega hálfundarlega að kokka upp orðasambandið „kristin fjölskyldugildi“. Enda eiga þessi meintu „kristnu fjölskyldugildi“ mjög fátt sammerkt með kristilegu hugarfari.

Þeir sem harðast ganga fram í því að skerða rétt kvenna til þungunarrofs í nafni „kristinna gilda“ segjast gera það af því að þeir séu svo hlynntir lífinu, „pro-life“ kalla þeir sig. En síðan þegar barnið er fætt dettur þeim ekki í hug að vinna að því að það fái fjárhagsaðstoð ef það býr við örbirgð og að það fái mataraðstoð ef það er vannært er náttúrulega ekkert annað en kommúnismi. Og þó að hægt sé að hræra í landslögum til að tryggja að börn komi í heiminn í algerlega óviðunandi aðstæður hvarflar ekki að þessu liði að breyta lögum í þá átt að skerða rétt brjálæðinga til að kaupa sér hríðskotabyssur og drita þessi sömu börn niður í barnaskólanum þeirra, því það væri svívirðileg árás á frelsi einstaklingsins.

Þetta er sama fólkið.

Það er ekki neitt kristið við þessi gildi. Það er enginn kærleikur í þessari afstöðu. Hún er ekkert nema ofbeldi í garð okkar minnstu systra.

Þetta fólk er nefnilega alls ekki hlynnt lífinu. Það er hlynnt fæðingunni, en eftir hana gæti því ekki staðið meira á sama um hið fædda líf.

Kærleikurinn þykkari en blóð

Jesús er ekki að vega að fjölskyldunni. Hann er einfaldlega að segja að þótt blóð sé þykkara en vatn þá verði kærleikurinn að vera þykkari en blóð.

„Sá sem gerir vilja föður míns er faðir minn og móðir mín, bróðir minn og systir.“ Hann er að segja að skuldbinding okkar við lögmál kærleikans verði alltaf að vega þyngra en skuldbinding okkar við „heiður hússins“.

Gerum það sem rétt er og verum þannig eins og ein stór fjölskylda. Hinir – þeir sem ganga fram með ofbeldi í Jesú nafni, þeir sem skerða yfirráðarétt stúlkna yfir eigin líkama með lögum en standa vörð um aðgengi brjálæðinga að hríðskotabyssum, þeir sem bjóða fórnarlömbum fjöldamorðingja aðeins upp á bænir og hlýjar hugsanir en bágstöddum stúlkum handjárn og tugthús – þeir eru ekki hluti af fjölskyldunni.

Sá sem ekki er með í að leysa vandann er hluti af vandanum, óháð ætt og uppruna.

Og hluti af vandanum sem við erum að glíma við er gremjan og heiftin sem gegnsýrir samfélag okkar þegar kemur að því hvernig við nálgumst það vandamál sem við er að glíma þegar kemur að ólíðandi framkomu í garð kvenna. Ég er ekkert viss um að verri árangur næðist í þeirri glímu þótt við hefðum trú, von og kærleika sem drifkraft okkar í henni.

Að ekki sé minnst á þakklæti fyrir allt það sem við þó höfum fengið áorkað.

Fyrir utan að ég held að okkur liði öllum betur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 13. júní 2021