Fyrirmyndir

by Aug 30, 2021Blogg, Forsíðufrétt, Fréttir, Prédikun

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Árið 1840 var kaþólskur prestur að nafni Juan Severino Mallari hengdur í Filipseyjum. Hann var þá einn fremsti skrautskrifari Filipseyinga. Það var þó ekki fyrir þá sök sem hann var tekinn af lífi. Hann hafði lært skrautskrift í fangelsi þar sem hann beið aftöku fyrir að hafa orðið 57 manns að bana.

Ég veit ekki af hverju ég er að segja ykkur þetta, nema til að draga þá staðreynd fram í dagsljósið að prestastéttinni hefur tilheyrt að minnsta kosti einn raðmorðingi og að hann gerði meira um sína daga en að drepa fólk.

Engar fréttir

Auðvitað eru það engar fréttir fyrir þá sem eitthvað hafa fylgst með að prestar séu færir um eitt og annað miður geðslegt. Áratugalöng … ef ekki aldalöng … yfirhilming kaþólsku kirkjunnar með barnaníði og öðrum djöfulskap vígðra þjóna sinna er löngu kunn og um hana þarf ekki að fjölyrða. Hér á Íslandi hefur líka komist upp um ólíðandi, jafnvel saknæma, hegðun presta.

En af hverju er það fréttnæmt? Eða öllu heldur … af hverju snertir það okkur öðruvísi að prestar hegði sér svona heldur en þegar karlar af öðrum stéttum gera það?

Það er auðvitað af því að það er litið til presta sem fyrirmynda. Þeir hafa nánast sérhæft sig í muninum á réttu og röngu. Ekki svo að skilja að það þurfi fimm ára háskólanám til að átta sig á því að það sé ljótt að drepa og nauðga. En prestar beinlínis vinna við að prédika, segja fólki til, og því er eðlilegt að þykja það meiri hræsni þegar prestur verður uppvís að siðferðisbresti heldur en þegar einhver annar verður það, þótt glæpurinn sé auðvitað sá sami hver sem gerandinn er.

Og þó …

Er það kannski meira áfall fyrir þolandann þegar gerandinn er prestur, einhver sem hann trúði að hann gæti treyst? Er glæpur prestsins ekki meiri ef afleiðingar hans eru alvarlegri?

Prestar hafa kannski ekki þetta hlutverk fyrirmyndarmannsins … mér liggur við að segja „engilsins“ … lengur í huga fólks í eins miklum mæli og áður og geta þeir að mínum dómi fyrst og fremst sjálfum sér um það kennt. En við lítum annað til fyrirmynda í staðinn.

Hin göfuga íþrótt

Framferði nokkurra landsliðsmanna í fótbolta hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í sjálfu sér ætti það ekki að vera meiri glæpur að landsliðsmaður brjóti gegn konu heldur en að þriðjudeildarleikmaður geri það. En það er það samt.

Það er ábyggilega meira áfall þegar landsþekktur, elskaður og dáður afreksmaður … einn af „strákunum okkar“ … brýtur gegn manni … einhver sem barnið manns er kannski með plakat af í herberginu sínu … heldur en þegar einhver þriðjudeildar göslari gerir það. Er það ekki meira áfall fyrir trú okkar á mannkynið þegar hetja fellir grímuna og sýnir ljótar hliðar heldur en þegar einhver óþekktur gaur úti í bæ gerir það?

Kannski þarftu ekki bara að vera betri fótboltamaður heldur en hinir til að iðka hina göfugu íþrótt sem fulltrúi lands og þjóðar … kannski þarftu að vera betri maður.

„Vandi fylgir vegsemd hverri,“ segir máltækið og það á, held ég, við hér.

Þetta gildir ekki bara um kynferðisbrot. Þetta gildir um önnur siðferðisbrot.

Við sem þjóð erum á vissan hátt löskuð af siðferðisbrotum fólks sem við litum upp til og héldum að við gætum treyst. Við höfum á þann hátt orðið fyrir áfalli sem mér finnst við ekki hafa talað um og gert upp sem skyldi.

Við treystum okkur núna til að rísa upp gegn kynferðisbrotum fyrirmyndanna okkar. Vonandi skilar það okkur þeim árangri að við förum að taka jafnharkalega á öðrum siðferðisbrotum þeirra.

Þjóð þolenda

Fyrir tólf árum brugðust leiðtogar okkar gjörsamlega og komu landinu á vonarvöl. Óreiðumönnum höfðu verið afhentar eigur þjóðarinnar á gjafverði og okkur var talin trú um að þeir væru afreksmenn á sínu sviði, en spiluðu síðan gjörsamlega rassinn úr buxunum og þjóðin sat uppi með reikninginn. Fæstir þessara manna, ef einhverjir, þurfa að hafa áhyggjur af því í dag hvernig þeir eigi að eiga fyrir mat handa fjölskyldunni sinni út mánuðinn. En það þurfa aðrir að gera, sem engan hlut áttu að máli, en verða enn að lifa með afleiðingum gjörða þessara manna. Sumir misstu aleiguna. Bankar, sem fengið höfðu himinháar skuldir afskrifaðar, gengu af fullkomnu miskunnarleysi að eigum fólks sem skuldaði fjárhæðir sem blikna í samanburði við það sem þeim hafði verið fyrirgefið.

Og þegar listinn yfir þá sem náðu að selja hluti sína daginn áður en allt hrundi er skoðaður hvarflar að manni að stór hluti þeirra sem við í dag treystum fyrir reglum samfélagsins, meðal annars leikreglum hagkerfisins, hljóti að hafa haft aðgang að upplýsingum sem haldið var leyndum fyrir þorra almennings, með þeim afleiðingum að þeir sluppu svo til óskaddir frá hildarleiknum meðan venjulegt fólk sat í súpunni.

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag,“ sagði nýlátinn heiðursmaður þegar þessi mál voru gerð upp … að nafninu til.

Mismunandi kröfur

Auðvitað snertir það okkur öðruvísi þegar ráðamenn þjóðarinnar, meðal annars æðsti maður efnahagsmála, verða uppvísir að því að fela himinháar fjárhæðir á aflandsreikningum til að komast hjá því að leggja sinn skerf af mörkum til samfélagsins, heldur en þegar einhver gráðugur kapítalisti úti í bæ, sem enginn kaus til neinna trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð, gerir það. Fjárhæðir sem allur þorri almennings á erfitt með að skilja, hvað þá eignast … að ég tali nú ekki um að stinga undan.

Við setjum einfaldlega suma í þá stöðu – vígjum þá til prestsþjónstu, setjum þá í landsliðið í fótbolta, kjósum þá á þing og treystum þeim fyrir ráðuneytum og sitthvað fleira – að til þeirra verður að vera hægt að gera aðrar og meiri kröfur en við gerum til annarra.

Auðvitað er enginn fullkominn. Enginn er yfir það hafinn þegar hvatvísi, hormónaójafnvægi og dómgreindarleysi vegna ölvunar fara saman að geta farið yfir mörk annarra og valdið þeim andlegum skaða, hugsanlega líkamstjóni. Fyrmyndum getur líka orðið á, en þá eiga þær val um það hvort viðbrögð þeirra séu til fyrirmyndar og þær standi undir nafni sem fyrirmyndir … eða ekki.

Og gleymum ekki að það er munur á breyskleika og sjúkleika. Enginn nauðgar óvart.

Jón og séra Jón

Guðspjall dagsins fjallar um þessar mismunandi kröfur sem við gerum til fólks. Jesús segir við faríseana: „Ef þið væruð blindir væruð þið án sakar. En nú segist þið vera sjáandi, því varir sök ykkar.“ (Jóh 9.41) Það er ekki hægt að áfellast þann sem er blindur fyrir að sjá ekki, en sá sem er með fulla sjón en neitar að gangast við því sem blasir við honum af því að það hentar ekki hagsmunum hans eða storkar snoturri heimsmynd hans … hann er í vondum málum gagnvart herra sannleikans og lífsins.

Farísearnir litu á sig sem sérfræðinga í lögmálinu, sérfræðinga í Guði þóknanlegu líferni og framferði. Og þeir voru óragir við að segja öðrum til. Upphefð þeirra var fólgin í því að vera betri en annað fólk og vita betur en það. Það hentaði þeim ekki að allir væru jafnir. Hvern hefðu þeir þá getað litið niður á?

Farísearnir litu á sig og kynntu sig sem prókúruhafa Guðs á jörð. Þeir höfðu einkarétt á sannleikanum. Þeir settu sig í þá stöðu að til þeirra mátti gera meiri kröfur en annarra. Þeir þóttust sjá.

Orð Jesú komu ekki heim og saman við það hvernig þeir vildu að heimurinn virkaði.

Skilaboð til presta

Ritningartextarnir nú í sumarlok innihalda skilaboð til presta: „Ekki halda að þið séuð betri en annað fólk. Praktíserið það sem þið prédikið. Vísið ekki bara veginn heldur farið hann og leiðið þá sem ekki sjá til.“

En við erum svo lánsöm, sem höfum fundið trú okkar farveg í evangelískum kristindómi, að við sitjum ekki uppi með presta sem yfirboðara yfir okkur hafna; hálfheilaga, óskeikula mannengla sem lifa og hrærast á einhverju öðru og æðra andlegu siðferðisplani en venjulegt fólk.

Við eigum okkur kenninguna um hinn almenna prestdóm kristins manns, sem er hornsteinn embættis- og kirkjuskilnings okkar. Ástæða þess að sumir eru prestar en aðrir bakarar og smiðir er ekki sú að presturinn sé nær Guði eða í meira uppáhaldi hjá honum heldur en bakarinn eða smiðurinn. Þetta er bara praktískt atriði sem varðar sérhæfingu í samfélaginu. Ef hver og einn væri sinn eigin smiður, sinn eigin bakari og sinn eigin prestur, þá byggjum við í lélegum húsum, ætum vont brauð og nytum bágborinnar prestsþjónustu.

Þess vegna eru þessar áminningar ekki bara til vígðra þjóna kirkjunnar. Þær eru til allra presta, það er að segja: Til allra manna.

Allir eru prestar

Við megum gera meiri kröfur til presta en við gerum til annarra, einfaldlega af því að presturinn er ekki trúverðugur nema hann leitist við að lifa sjálfur samkvæmt því sem hann boðar.

En munum þá að við erum sjálf prestar.

Og að við eigum að gera sömu kröfur til okkar sjálfra.

Lifi ég samkvæmt því sem ég í orði kveðnu trúi að sé rétt og satt og gott? Er ég sjálf/ur á þeirri leið sem ég vísa öðrum? Fara orð mín og gjörðir saman? Eða veiti ég sjálfum mér undanþágur af því að það er ekki mitt hlutverk að vera fyrirmynd?

Ég hef fréttir að færa. Ekki síst ykkur sem eruð hér með fermingarbörnum sem sitja við hlið ykkar: Þið eruð víst fyrirmyndir.

Og ykkur hefur verið falið það hlutverk að ala upp fyrirmyndir framtíðarinnar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. ágúst 2021