Myndin af Guði

by Oct 12, 2021Forsíðufrétt, Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag spyrjum við ekki „Hverju trúir þú?“ heldur „Af hverju trúir þú?“ Þetta er ekki spurning sem við erum vön, flest hver. Þegar trúna ber á góma er miklu frekar farið út í það á hvað maður trúir og trúir ekki, hvaða hlutverki trúin gegnir í lífi manns og jafnvel hvernig maður iðki trú sína. Það eru algengu spurningarnar, skv. minni reynslu.

Hitt er fátíðara að beinlínis sé forvitnast um það af hverju maður trúi yfirhöfuð á eitthvað.

Ég heyrði einu sinni skilgreiningu á trú, eða öllu heldur á því í hverju munurinn á trú og trúarbrögðum sé fólginn. Þessi skilgreining situr í mér. Hún er á þá leið að trúarbrögð séu fyrir fólk sem er hrætt við að fara til helvítis. Trú sé fyrir fólk sem hefur verið þar.

Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í þessu. Ekki svo að skilja að ég ætli að lýsa því yfir að ég hafi einhverja persónulega reynslu af helvíti. Sé svo þá bliknar það helvíti alla vega í samanburði við þær raunir og þjáningar sem aðrir hafa mátt reyna. En svo á kannski hver og einn sitt persónulega helvíti, stundina þegar allt var honum mótdrægast og honum hafði aldrei fundist hann eins einn og yfirgefinn á berangri. Ég hef átt slíka stund.

Og það er kannski tilfinningin sem stendur upp úr þegar ég rifja þá stund upp. Einsemdin.

Sá sem á sér trú er aldrei alveg einn. Það er alltaf einhver sem vakir yfir honum, kemur honum kannski ekki til bjargar eða reddar málunum, en yfirgefur hann alla vega ekki. Kannski jafnvel grætur hann og þjáist með honum. Sem er alltaf betra en að gráta og þjást einn.

Guð og læknavísindin

Í góðri bók segir læknir nokkur, William D. Silkworth að nafni, reynslusögu sem er svona í styttri útgáfu:

„Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér oft hugsað til manns eins, sem var lagður inn af þekktum lækni í New York. Þessi sjúklingur hafði greint sjúkdóm sinn, skildist að útlitið var vonlaust og hafði falið sig í fjósi, ákveðinn í að deyja. […] Sagði hann […] skýrt og skorinort að það væri tilgangslaust að reyna nokkra meðferð við sig. […] Ofdrykkjuvandamál hans var flókið og þunglyndi hans svo svart að okkur virtist eina vonin í því fólgin að hægt væri að beita við hann „siðferðilegri sálfræði“, sem svo var kölluð, og jafnvel það fannst okkur hæpið. Samt sem áður tókst að vekja trú hans á hugmyndir þær, sem eru fram settar í þessari bók. Hann hefur ekki snert vín í mörg ár. Ég rekst oft á hann og hann er eitt hið besta sýnishorn af heilsteyptum manni sem á verður kosið.“

Hverjar eru svo þessar kraftaverkahugmyndir sem settar eru fram í umræddri bók? Jú, þær eru að trúa að máttur okkur æðri geti gert okkur andlega heilbrigð, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi okkar á honum, að játa misgjörðir sína fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi okkar á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Það er nú ekki flóknara.

Þetta er það sem leysti vandamál sem læknavísindin stóðu ráðþrota frammi fyrir – a.m.k. þegar þetta var skrifað.

Þessi bók heitir A. A. bókin. Hún er alls ekki hafin yfir gagnrýni og er að ýmsu leyti barn síns tíma, enda hefur ógrynni bóka komið út þar sem nálgun hennar er gagnrýnd og henni fundið flest til foráttu. Samt er það svo einkennilegt að A. A. bókina hefur ekki þurft að skrifa aftur.

Þetta minnir svolítið á aðra ágæta bók, sem við heyrðum lesið úr hér áðan.

Jólakortið

Ég get deilt með ykkur lífsreynslu mjög sambærilegri við þá sem læknirinn, lýsir.

Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér hugsað til jólakorts sem ég fékk fyrir nokkrum árum. Það var frá dreng sem ég hafði kynnst einum þrem eða fjórum árum fyrr. Ég var þá sjálfur kominn inn á beinu brautina, hafði gengið hana skamman spöl en var fráleitt jafnlangt niðri og ég hafði verið einu eða tveim árum áður. Þessi ágæti piltur hafði verið í mikilli neyslu harðra fíkniefna og stundað sölu þeirra. Það hafði endað með ósköpum, hann varð fyrir hnífsstungu og börnin hans og sambýliskonu hans, sem voru þrjú, voru komin í umsjá opinberra aðila.

Ég viðurkenni að mér leist ekkert ekkert sérstaklega vel á piltinn í fyrstu. Hann var niðurlútur og óframfærinn, talaði lítið og hikstaði og stamaði þá sjaldan sem hann reyndi. Hann hélt þó áfram að láta sjá sig og með tímanum fór honum að líða betur, hann varð upplitsdjarfari, mannblendnari og með aukinni fjarlægð á þær hörmungar sem hann hafði gengið í gegn um varð hann fær um að segja frá þeim, gangast við fortíð sinni og taka ábyrgð á sjálfum sér. Ekki leið á löngu þar til félagsskapurinn treysti honum fyrir trúnaðarstörfum í sína þágu.

Á þessu jólakorti var ljósmynd af þremur börnum í sparifötunum fyrir framan skreytt jólatré. Börnunum hans þremur … sem bjuggu hjá honum, sem hann hafði forræði yfir og nutu hátíðlegra jóla hjá föður sínum.

Þegar ég heyri gert lítið úr mætti trúarinnar þarf ég ekki annað en að loka augunum og sjá þetta jólakort fyrir mér. Það prýða þrjár litlar manneskjur, þrjár lifandi sálir hverra líf trúin hafði úrslitaáhrif á … og það ekki einu sinni þeirra trú, heldur trú föður þeirra.

Því það sem hann gerði til að öðlast frelsi frá sínu persónulega helvíti var að trúa að máttur honum æðri geti gert hann andlega heilbrigðan, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi hans á honum, að játa misgjörðir sínar fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi hans á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Er Guð Guð?

Guð er óræður, óskiljanlegur, óviðráðanlegur. Enginn hefur séð Guð eða komið við hann. Enginn hefur mælt hann eða sýnt fram á tilvist hans með reikningslistum og náttúrulögmálum, svona eins og sýnt er fram á tilvist frumefna, andefna, reikistjarna og þar fram eftir götunum.

Þess vegna hvarflar stundum að mér að í raun sé ekki hægt að trúa á Guð … sem slíkan. Að það sem við trúum á, þegar upp er staðið, sé eitthvað eins og fegurð, sannleikur, samhjálp og kærleikur. Á mun góðs og ills. Á muninn á réttu og röngu. Á að þetta, sem við köllum líf, hafi einhvern æðri og göfugari tilgang. Og að við eigum ekkert betra orð yfir það en „Guð“.

Ég hef ekki séð Guð.

Ég hef ekki heldur séð vindinn. En samt þarf ég ekki annað en að horfa út um gluggann minn til að sjá hvort það er vindur eða ekki. Ég sé vindinn á áhrifunum sem hann hefur á umhverfi sitt.

Þannig sé ég Guð.

Ég sé Guð á áhrifunum sem hann hefur á þá sem taka við honum.

Og þetta jólakort er sennilega það sem ég hef komist næst því að sjá Guð.

Jesús sér þig

Í guðspjalli dagsins trúir Natanael af því að Jesús sá hann. Jesús sá hann … áður en hann var kallaður til. Maður er aldrei einn ef maður trúir … trúir því að Jesús sjái mann. Og Jesús lofar honum því að fyrst hann trúi þá muni hann sjá stórkostlega hluti.

Það er auðvelt að finnast það út í hött að trúa. Að ákveða bara að maður sé sannfærður um að eitthvað sé til sem ekki er hægt að færa neinar sönnur á. Þess vegna er það þannig að þegar spurningarinnar „Er Guð til?“ er spurt þá hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vilja svara játandi. Það er ekki hægt að sanna að eitthvað sé ekki til. Til að sýna fram á tilvist þess verður að tefla fram sönnunargögnum.

Svo skemmtilegt dæmi úr kennslubók í rökfræði sé tekið: Hvernig sannar maður að hreindýr geti ekki flogið? Þótt maður færi með 1000 hreindýr í flugvél og henti þeim fyrir borð einu af öðru og þau myndu öll hrapa til bana væri maður ekki búinn að sanna annað en að þessi 1000 hreindýr undir þessum ákveðnu kringumstæðum flugu ekki, annað hvort af því að þau gátu það ekki eða kusu að gera það ekki. Til að sanna að hreindýr geti flogið verður að tefla fram fljúgandi hreindýri.

Þess vegna hafa kristnir menn freistast til að nota Guð til að útskýra hvaðeina sem þekking okkar ræður ekki við. Það er þessi Guð glufanna, Guð sem felur sig í gloppunum í þekkingu okkar. Það er lélegur Guð, því það er Guð sem skreppur saman jafnt og þétt, Guð sem hverfur hægt og rólega eftir því sem götunum í mannlegri þekkingu fækkar og þau minnka.

Við skulum forðast að réttlæta trú okkar með Guði glufanna. Við þurfum ekkert að troða Guði inn í myrku sprungurnar í þekkingu okkar því þá hverfur hann um leið og við náum að upplýsa þær.

Reyndar þurfum við ekki að réttlæta eða afsaka trú okkar fyrir neinum.

Trúum ekki af því þannig getum við búið til útskýringar á því sem er okkur um megn að skilja.

Trúum af því að þannig fáum við að sjá stórkostlega hluti.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju og Áskirkju 10. 10. 2021