Iðrun eða eftirsjá?

by Nov 9, 2021Forsíðufrétt, Prédikun

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég kynntist fyrir nokkrum árum miklum ágætismanni. Hann átti sér það sem kalla má „skrautlega fortíð“. Hann hafði meðal annars verið vistmaður á Litla-Hrauni um einhverra ára skeið þar sem hann tók út dóm fyrir aðild sína að nokkuð umfangsmiklu fíkniefnamisferli. Við ræddum töluvert saman um sameiginlega reynslu okkar af glímunni við okkar eigin veikleika og mér verður ávallt minnisstætt það sem hann sagði mér um það hvað varð þess valdandi að hann náði að sitja af sér vistina nokkuð heill á geði og snúa við blaðinu.
Það sem hann sagði mér að hefði breytt öllu fyrir sig var þegar hann áttaði sig á því að hann var ekki í fangelsi af því að það hafði verið „skvílað“ á hann, eins og hann orðaði það, heldur var hann í fangelsi af því að hann hafði brotið lögin og í ofaníkaupið gert það í slagtogi við menn sem hver heilvita maður hefði mátt sjá að ekki væri treystandi.
Það var semsagt ekki öðrum að kenna hvernig fyrir honum var komið, heldur honum sjálfum. Hann var ekki að taka út afleiðingar þess sem aðrir höfðu gert honum, heldur þess sem hann hafði gert sjálfur. Þessi skilningur olli straumhvörfum í hugarfylgsnum hans og opnaði honum leið til bata. Hann veitti honum frelsi, frelsi frá öðrum og frelsi frá fórnarlambshlutverkinu. Þannig varð hann reiðubúinn til að axla ábyrgð á sjálfum sér og taka út afleiðingar gjörða sinna – í stað þess að eyða allri sinni afplánun í væl yfir því hvað heimurinn væri ósanngjarn við hann.

Að axla ábyrgð

Mér kemur þessi maður og þessi merkilega uppgötvun hans oft í hug þessi dægrin þegar ég fylgist með dægurmálaumræðunni – og það þarf að mínum dómi ekki að fara miklar krókaleiðir að því að tengja guðspjallstexta dagsins í dag við þessa áráttu okkar manna að koma okkur undan óþægilegum afleiðingum gjörða okkar – fyrir okkur – og finnast þess í stað glæpurinn vera sá að gjörðir okkar skuli yfirhöfuð hafa afleiðingar … fyrir okkur.
Ágætt dæmi um þetta er sú árátta þeirra Klaustursmanna – sem hér um árið urðu uppvísir að vægast sagt ósæmilegum munnsöfnuði sem aðeins afhjúpaði bágborna siðferðiskennd – að kalla fjölmiðlafárið sem af því hlaust „Hlerunarmálið“ en ekki „Klaustursmálið“ eins og allir aðrir gera.
Þannig urðu þeir í sínum eigin huga fórnarlömbin, þeir urðu sá sem brotið var á, ekki þeir sem grófir, kynferðislegir palladómar voru felldir um í þessu spjalli. Þar örlar hvergi á iðrun … aðeins eftirsjá eftir því að hafa ekki farið varlegar og vera staðnir að verki.
Það er nefnilega sitt hvað iðrun og eftirsjá

Heiftin eða hugleysið?

Í samfélagi okkar í dag takast á tvö öfl.
Annars vegar eru þeir sem vilja að ólíðandi gjörðir, s.s. ósæmilegt orðbragð og framferði, kynferðisleg áreitni eða jafnvel ofbeldi, hafi afleiðingar fyrir gerendurna. Þessi fylking er sökuð um refsigleði og hefndarþorsta, miskunnarleysi, heift og skort á umburðarlyndi fyrir mannlegum breyskleika.
Hins vegar eru þeir sem vilja að mönnum, sem verður á – hve alvarlega sem það kann að vera – sé gefinn kostur á að bæta ráð sitt, fá syndir sínar fyrirgefnar og eiga afturkvæmt í fyrri stöðu. Þessi fylking er sökuð um að vilja taka með silkihönskum á kynferðisafbrotum, tortryggja þolendur kynferðisafbrota, þolendasmánun og að snúa sektinni frá gerandanum yfir á þolandann.
Það er erfitt að staðsetja sig einhvers staðar á milli þessara fylkinga. Þeir sem það reyna eru umsvifalaust stimplaðir sem „einn af hinum“ af báðum fylkingunum.
Gallinn er að gagnrýnin á báðar fylkingarnar er réttmæt upp að vissu marki.

Einn af okkur eða einn af hinum?

Sjálfur myndi ég vilja tilheyra síðari fylkingunni, þeirri sem boðar fyrirgefningu syndanna, en ég get það ekki.
Af hverju ekki?
Þar komum við að guðspjalli dagsins.
Þar varar Jesús okkur við því að iðka réttlæti okkar fyrir mönnum. Að við eigum ekki að gefa ölmusu til að fá lof annarra fyrir það hvað við erum góðar manneskjur. Af því að þá erum við ekki góðar manneskjur, þá erum við fyrst og fremst að gera okkur sjálfum góðverk, hvötin á bak við góðverkið er eigingirni … að upphefja sjálfan sig … en ekki góðmennska.
Jesús heldur áfram og varar okkur við því að iðka trú okkar fyrir mönnum. Að við eigum ekki að biðjast fyrir til að aðrir sjái hvað við erum trúuð.
Hvað er það að vera trúaður? Á hvað trúum við?
Við trúum á kærleikann – Guð er kærleikur segir í Biblíunni. Við trúum á sátt og frið meðal manna – það er kallað samfélag heilags anda í trúarjátningunni. Og við trúum á fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf, amen – eins og segir í trúarjátningunni.

Að velja það sem manni hentar

Gallinn er að þeir, sem hæst tala um fyrirgefningu syndanna í baráttu sinni við það sem þeir kalla slaufunarmenningu, rífa fyrirgefninguna algerlega úr hinu hugmyndafræðilega samhengi sínu í kristinni trú. Þeir eru eins og hommahatarnir sem veifa ritningarversum um að karlar megi ekki leggjast með öðrum körlum, en minnast ekki einu orði á að fjórum setningum áður í þessu sama riti er kveðið á um að hver sá sem bölvar föður sínum skuli líflátinn. Ég efast um að við værum mörg hér í kirkjunni í dag ef sá ritningarstaður væri tekinn jafn bókstaflega og þeir vilja taka þennan. Þarna er augljóslega bara verið að velja og hafna það sem hentar fordómum hvers og eins.
Þannig er talað um fyrirgefningu syndanna eins og hún sé afgreidd og útrædd með þessum tveimur orðum: Fyrirgefning syndanna – og um það þurfi ekki að segja neitt meira.
Þannig er fyrirgefningunni misbeitt til að gera kynferðisafbrotamenn að fórnarlömbum þolendanna fyrir að vilja að brotin hafi afleiðingar fyrir gerandann.
Ef dæmisögur Jesú um fyrirgefninguna eru skoðaðar þá kemur aftur á móti í ljós að fyrirgefningin er aldrei skilyrðislaus. Hún er alltaf bundin við þrennt: játningu, iðrun og yfirbót. Eitt besta dæmið um þetta er sagan um týnda soninn sem sólundar arfinum í óhófsamt líferni og snýr aftur til föður síns og er fyrirgefið.

Játning og iðrun

Játningin er frumforsendan. Að viðurkenna brot sitt án þess að reyna að afsaka það. Flestar afsökunarbeiðnir sem maður heyrir núorðið eru nokkurnveginn á þessa leið: „Ég kannast nú ekki við að hafa gert neitt af mér, en hafi ég sært eða meitt einhvern þykir mér það leitt, það var ekki ætlun mín og biðst ég afsökunar á því.“
Týnda syninum var fyrirgefið af því að fyrstu orð hans voru skýlaus játning. Hann sagði: „Faðir, ég hef syndgað á móti himninum og gegn þér.“
Í kjölfar játningarinnar er sýnd iðrun. Næsta setning týnda sonarins er: „Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.“
Og þar stendur svolítið hnífurinn í kúnni.
Maður hefur það óneitanlega á tilfinningunni að dólgarnir – ef ekki beinlínis ofbeldismennirnir – sem vilja endurheimta forréttindastöðu sína óskerta þessa dagana – hvort sem það eru stöður í landsliðum, sæti á framboðslistum eða hlutverk í Þjóðleikhúsinu – séu dálítið að iðka iðrun sína fyrir mönnum þeim til sýnis – eins og Jesús myndi orða það.
Þegar málsvörn manns, sem vill að allt verði eins og áður og það sé gleymt og grafið að hann sendi fimmtán ára unglingsstúlkum mjög ósæmilegar ljósmyndir af ákveðnum líkamshlutum sjálfs sín, er að hann hafi haldið að þær væru átján, hljóta manni að fallast hendur. Eða búum við kannski í samfélagi þar sem það er samþykkt og viðurkennt að senda svoleiðis ljósmyndir óumbeðnar til unglingsstúlkna daginn sem þær verða átján ára?
Þar finnst manni nokkuð augljóst að verið er að sýna eftirsjá en enga iðrun – fyrir mönnum þeim til sýnis. Viðkomandi einstaklingi líður vissulega illa, ég er ekki að gera lítið úr því. En honum líður illa út af afleiðingunum sem gjörðir hans höfðu fyrir hann sjálfan, ekki yfir vanlíðaninni sem þær ollu öðrum.

Yfirbótin

Þriðja forsenda fyrirgefningarinnar er síðan yfirbótin. Týndi sonurinn kom ekki til baka til að endurheimta fyrri forréttindastöðu sína heldur til að verða einn af daglaunamönnum föður síns. Hann semsé lét í ljós vilja til að axla ábyrgð, að taka afleiðingum gjörða sinna og lifa með þeim.
Yfirbótin er jafnvel svo mikil grunnforsenda fyrirgefningarinnar að í Matteusarguðspjalli segir Jesús dæmisögu um þjón sem er gefin upp skuld en gengur síðan hart að því sjálfur að innheimta skuld sem hann á útistandandi. Í því tilfelli er fyrirgefningin beinlínis afturkölluð vegna þess að yfirbótin lét standa á sér.
Hvernig gerir maður yfirbót fyrir brot eins og þessi sem hér um ræðir? Það eru ýmsar leiðir til þess. Það er hægt að endurmennta og fræða sjálfan sig, það er hægt að deila reynslu sinni og iðrun með öðrum. Í þessu tilfelli væri kjörið að helga sig baráttunni gegn eitraðri karlmennsku og nota reynslu sína öðrum til aðvörunar og fræðslu um að gjörðir hafa afleiðingar.
Það er að minnsta kosti lítil yfirbót í því fólgin að væla yfir því að hafa ekki fengið hlutverk í fjögur ár og að það sé nóg refsing, nú eigi allt að verða eins og áður og maður eigi rétt á gamla djobbinu sínu aftur, þar sem maður kom sér út úr húsi með ólíðandi framferði. Á Íslandi eru menntaðir leikarar sem ekki hafa fengið hlutverk í fjögur ár – án þess að hafa gert neitt af sér. Þeir vinna við annað og væla ekki í fjölmiðlum yfir skorti á tilboðum. Enginn hefur rétt á hlutverki sem honum er ekki boðið.
Á meðan maður í þessari stöðu er sannfærður um að hann sé að líða fyrir gjörðir annarra, en ekki sjálfs sín, hvort sem hann er landsliðsmaður, Klausturdóni eða leikhúsdóni, er engin von á iðrun og yfirbót frá honum – og þarafleiðandi er engin innistæða fyrir fyrirgefningu.

Slaufum friðhelginni

Og það er þess vegna sem ég er dálítið hallur undir það sem kallað hefur verið slaufunarmenning, en er í raun aðeins sú menning að gjörðir hafi afleiðingar fyrir gerandann. Af því að þótt ég trúi á fyrirgefninguna, þá trúi ég líka á iðrunina og yfirbótina. Hvort tveggja vantar að mínum dómi algerlega í málflutning fyrirgefningarsinnanna.
Án iðrunar og yfirbótar er engin innistæða fyrir fyrirgefningu.
Fyrirgefningin er eftirréttur.
Forsenda þess að eftirréttur sé eftirréttur er að á undan hafi verið máltíð.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 7. 11. 2021