Reglugerðasnatar

by Nov 22, 2021Forsíðufrétt, Prédikun

Guðspjall: Sama dag komu saddúkear til Jesú, en þeir neita því að upprisa sé til, og sögðu við hann: „Meistari, Móse segir: Deyi maður barnlaus þá skal bróðir hans ganga að eiga konu hans og vekja honum niðja. Hér voru með okkur sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“ En Jesús svaraði þeim: „Þið villist því að þið þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. En um upprisu dauðra ættuð þið að hafa lesið það sem Guð segir við ykkur: Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda.“ En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans. (Matt 22.23-33)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum var ég beðinn að liðsinna fólki sem vildi fá jarðneskar leifar fluttar til, allmörgum árum eftir andlát viðkomandi. Forsaga málsins var að hinn látni hafði verið kvæntur, en misst konu sína fyrir aldur fram. Börn þeirra voru þá uppkomin eða því sem næst. Konan var jarðsett, eins og lög gera ráð fyrir, og við hlið leiðis hennar var frátekinn legstaður þar sem eiginmaðurinn hafði hugsað sér að hvíla þegar röðin kæmi að honum.

En lífið hélt áfram og nokkrum árum eftir andlát eiginkonunnar kynntist þessi ágæti maður annarri konu og kvæntist að nýju. Eftir margra ára hamingjuríkt hjónaband lést maðurinn, en var þá ekki lagður til hinstu hvílu við hlið fyrri konu sinnar, eins og til hafði staðið, heldur á nýjan stað í öðrum grafreit þar sem seinni konan gerði ráð fyrir því að hún myndi hvíla við hlið hans þegar hennar tími kæmi.

En … enn hélt lífið áfram og seinni kona mannsins kynntist öðrum manni og gekk að eiga hann. Þegar þau hjón síðan létust með nokkurra ára millibili voru þau lögð til hinstu hvílu hlið við hlið á þriðja staðnum. Þessi ráðstöfun mætti auðvitað skilningi allra, en börnum mannsins af fyrra hjónabandi þótt alltaf sárt að foreldrar þeirra skyldu ekki hvíla hlið við hlið, jafnvel þótt faðirinn hefði kvænst aftur, og þurfa að vitja leiða þeirra í tvo aðskilda grafreiti. Svo fór að jarðneskar leifar mannsins voru grafnar upp og settar niður hjá fyrri eiginkonu hans að ósk barna þeirra.

Við og hin dauðu

Mér varð hugsað til þessarar sögu þegar ég las guðspjall dagsins. Lífið heldur nefnilega áfram. Og það hefur tilhneigingu til að virða plön og áætlanir dauðlegra manna að vettugi.

En þessi saga endurspeglar líka hve annt okkur er um hin látnu og tengsl okkar við þau. Ég held að allir geti sett sig í spor barnanna og skilið löngun þeirra til að sjá foreldra sína hvíla hlið við hlið í dauðanum. Það snýst ekki um hjúskaparstöðu þeirra í handantilverunni, það snýst ekki einu sinni um hjúskaparstöðu þeirra á andlátsstundinni … því hvað er hjúskaparstaða annað en einhver skráning í skrám og skýrslum sem mölur og ryð frá grandað? Börnin ólust upp í foreldrahúsum hjá þeim, þau voru hjón í huga þeirra og sálum og verða það alla tíð. Það að pabbi skyldi hafa haldið áfram að lifa eftir að mamma dó – með því sem það felur í sér að lifa mannlegu lífi, að mynda tengsl og vera í tilfinningasambandi við annað fólk – breytir engu um það.

Hin hjákátlega handantilvera

Það er því í sjálfu sér algjör óþarfi að gera lítið úr vangaveltum Saddúkeanna um hjúskaparstöðu konunnar sem gift hafði verið sjö bræðrum – þannig lagað. En höfum hugfast að Saddúkearnir trúðu ekki á upprisuna. Þeir trúðu ekki á neina mannlega tilveru handan jarðvistarinnar og spurningu þeirra er beinlínis ætlað að sýna að hugmyndir í þá átt gangi ekki upp, þær séu fáránlegar – því ekki getur konan átt sjö eiginmenn. Þeim fannst þeir ábyggilega býsna snjallir að stilla Jesú svona upp við vegg og jarða þannig allan hans málflutning.

En Jesús bendir þeim á að Guðs ríki er ekki af þessum heimi og þangað fer ekkert sem er af þessum heimi, þar með talið hjúskaparstöðuvottorðin okkar. Við þurfum ekki að taka passann með okkur til Guðs. Við erum ekki spurð um fæðingarvottorð, ökuskírteini eða neikvætt hraðpróf við Gullna hliðið.

Það eina sem er skoðað þar eru hjörtu mannanna.

Guðs ríki er hér

En það er líka rétt að gefa gaum að því að Jesú er í raun ekkert svo tíðrætt um handantilveruna. Hann virðist vera mun uppteknari af lífinu fram að dauðanum heldur en lífinu eftir dauðann. Og allt tal hans um Guðs ríki verðum við að lesa í gegn um þá fullyrðingu hans að Guðs ríki sé mitt á meðal okkar … ef við viljum – hér og nú. (Lúk 17.21) Þennan ritningarstað má líka þýða þannig að Guðs ríki sé innra með okkur. Ástæða þess að þýða má hann á báða vegu hlýtur að vera sú að hvort tveggja er rétt. Væri önnur túlkunin röng hefði Jesús áreiðanlega orðað þetta öðruvísi, þannig að það gæti ekki misskilist. Meðal okkar – hið innra með okkur, hvort tveggja er jafn satt.

Páll postuli orðar þetta þannig: „Hér er hvorki gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona.“ (Gal 3.17)

Hér hvar? – Við ráðum hvað við köllum það. Kærleikssamfélagið, samfélags heilags anda eða Guðs ríki … þar sem Guð, sem er kærleikur, ríkir. Hvorki karl né kona og þarafleiðandi hvorki eiginmaður né eiginkona.

Merkimiðasamfélagið

En hvað er ég nú að segja? Er hjónabandið okkar bara ógilt í Guðsríkinu? Erum við ekki menn og konur hvers annars í kærleikssamfélaginu? Er samfélag heilags anda einhver hippakommúna þar sem allir eru allra?

Það er ekki það sem ég er að segja.

Ég held að þetta snúist miklu frekar um merkimiðana okkar.

Hvaða merkimiða hengjum við á okkur? Hvernig skilgreinum við okkur … fyrir öðrum og fyrir okkur sjálfum? Erum við maður eða kona þessa eða hins, dóttir eða sonur hans eða hennar? Eða erum við bara við?

Hvaða merkimiða hengir samfélagið á okkur? Vandræðagepillinn. Trúðurinn. Kennarasleikjan. Nördið.

Til hvers? Til að skilgreina okkur? Til að átta sig á okkur? Til að vita í hvaða skúffu á að setja okkur? Til að vita hve eftirsóknarverður eða varhugaverður félagsskapur við erum?

Í Guðsríkinu hrynja þessir merkimiðar af okkur. Þeir eru óþarfir, þjóna engum tilgangi. Því í Guðsríkinu er aðeins ein skúffa og í henni erum við öll.

Innan og utan boxins

En þetta gátu Saddúkearnir ekki hugsað. Þeir voru of njörvaðir ofan í stað og stund, ofan í efnisheiminn, ofan í lög og reglur samfélagsins, ofan í mannasetningar frekar en kærleikslögmál Guðs, ofan í hjúskaparstöðuvottorð, skilgreiningar og merkiða frekar en það sem hjörtu mannanna hafa að geyma. Að ímynda sér tilvistarvídd þar sem opinberir stimplar hafa enga merkingu var þeim um megn. Fyrir þeim voru reglugerðir manna heilagur sannleikur, það hvarflaði ekki einu sinni að þeim að íhuga að lög Guðs – kærleikslögmálið – gæti verið þeim æðra.

En mannasetningar eru aldrei heilagur sannleikur. Lög manna eru oft ljót og röng og þjóna einhverju allt öðru en kærleikanum.

Þessi saga sýnir okkur líka hve mikilvægt það er að geta hugsað út fyrir boxið, hvað við missum af miklu, hve hinn djúpi skilningur hjartans á undrum, sem kaldrifjuð skynsemi okkar nær aldrei að meðtaka, verður okkur lokuð bók ef við getum ekki rifið nefið á okkur upp úr veraldlegum skilgreiningum og reglugerðum.

Við höfum ábyggilega flest ef ekki öll lent í stríði og stappi við reglugerðarsnata heimsins, fólk sem var með bókstafinn svo tattúveraðan á sálina í sér að allt tal um tilhliðrunarsemi eða sveigjanleika hljómaði eins og argasta guðlast í eyrum þeirra. Fólk sem finnst „Tölvan segir nei“ vera fullgilt svar og tilgangslaust sé að ræða það eitthvað frekar.

Þetta getur birst á skondinn og krúttlegan hátt, eins og tildæmis í reglugerð sem skikkar prest til að keyra á bensínbílnum sínum borgarhluta á milli – á vegum hinnar „grænu“ og umhverfisvænu kirkju – til að handskrifa prestþjónustuskýrlu í kirkjubók af því að reglur um kirkjubækur eru eldri en internetið og Biskupsstofa er ekki enn búin að fatta að það er hægt að prenta út Word skjöl.

Sálarlausar reglugerðir

En þetta birtist líka á ljótan og andstyggilegan hátt, eins og tildæmis í ofstækisfullri dýrkun útlendingastofu á Dyflinnarreglugerðinni sem knýr hana til að ofsækja og níðast á flóttafólki og hælisleitendum, okkar minnstu bræðrum og systrum, þeim sem höllustum fæti standa í samfélagi okkar, og senda börn – jafnvel börn sem hafa búið á Íslandi í einhver ár, tala íslensku og eiga íslenska vini – til að hafast við á götum úti á Grikklandi þar sem ástandið er slíkt að Rauði krossinn hefur lagst eindregið gegn því að flóttafólk sé sent þangað. Og þetta er gert á sama tíma og stjórnvöld stæra sig af því að hafa lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér á landi, þar sem skýrt er kveðið á að allar ákvarðanir sem varða börn beri að taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Aftur og aftur og aftur ganga sálarlausir snatar Dyflinnarreglugerðarinnar í berhögg, ekki bara við grundvallarákvæði Barnasáttmálans heldur við almennt siðgæði, þar sem ekkert kemst að … enginn kærleikur, engin samkennd, engin mennska … ekkert kemst að nema að reglugerðin segir að þetta megi á því verði að gera þetta … fórna framtíð barna, heill þeirra og hamingju á altari hlýðni við ómannúðlegar reglugerðir. Ég hef rætt þetta svo oft hér á þessum stað að ég er orðinn leiður á því, ég nenni ekki að hafa fleiri orð um það, það er að berja hausnum við steininn – sem er einmitt það sem fyrir reglugerðarsnötunum vakir. Þeir ætla að þreyta gagnrýnendurna þangað til mótmæli þeirra verða eins og stanslaust og þarafaleiðandi marklaust suð, sem fólk venst og verður leitt á, svo þeir geti haldið óáreittir áfram sinni sleitulausu aðför að öllu sem lýtur að því að hafa lágmarks siðferðiskennd, að sjálfum kærleikanum … að Guði.

Kærleikur í boxi

Við verðum að hugsa út fyrir reglugerðirnar okkar, skilgreiningarnar okkar, merkimiðana okkar. Við verðum að hugsa út fyrir boxið.

Kærleikurinn er nefnilega ekki í boxi.

Kærleikurinn býr í hjörtum mannanna.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. 11. 2021