by Davið Þór Jónsson | Oct 21, 2019 | Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun
Guðspjall: Þegar Jesús
var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði
hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft
líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema
Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja
hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta,
heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég
gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér
vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á
himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór
burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við
lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs
ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn,
hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum
nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir
og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og
sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn. Þá sagði
Pétur: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér.“ (Mrk 10.17-28)
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú
Kristi. Amen.
Í guðspjalli dagsins grípur Jesús til
myndlíkingar sem er býsna langsótt, nánast súrrealísk. „Auðveldara er úlfalda
að fara inn um nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki,“ segir hann.
Hvaðan kemur þetta? Af hverju úlfalda og
nálarauga – af öllum þeim líkingum sem hann hefði getað gripið til? Hvað hefur
þetta hvort með annað að gera?
Sennilegasta skýringin, að mínu mati, er
sú að hér hafi eitthvað skolast til. Það er varla tilviljun að gríska orðið
„kamilos“ merkir úlfaldi en orðið „kamelos“ – með e-i – merkir reipi. Enda
stendur þarna „reipi“ en ekki „úlfaldi“ í mörgum yngri handritum. Eldri
rithátturinn er þó hafður til grundvallar í vönduðum Biblíuþýðingum, enda
líklegra að hann sé upprunalegur. Gildir þá einu hvort eftir á geti læðst sá
grunur að einhverjum að um stafsetningarvillu í frumhandritinu hafi verið að
ræða, eins og virðist hafa átt sér stað við einhverjar afritanir. Það styður
við þessa kenningu að á móðurmáli Jesú, aremeísku, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og
„úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Það er
því ekki ósennilegt að upphaflega hafi Jesús frá Nasaret verið að tala um að
þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt myndmál.
En það breytir þó ekki því að við verðum að halda okkur við
úlfaldann, einfaldlega vegna þess að í ritningunni stendur „úlfaldi“.
Aukinheldur má það kannski einu gilda hvort Jesús vara að tala um skepnuna
sjálfa eða kaðal úr hárum hennar – hvorugu kemur maður í gegn um nálarauga.
Leiðirnar framhjá boðskapnum
Þessi texti er svo óbilgjarn, krafan svo miskunnarlaus, að í
gegn um söguna hefur verið gripið til ýmissa ráða til að milda boðskap hans. Í
einu fornu handriti segir til dæmis ekki „auðmaður“ heldur „þeim sem treysta á
auðinn“. Það er þannig ekki auðurinn sem slíkur heldur afstaðan til hans sem
torveldar hinum auðuga að verða hólpinn. En þetta er ekki áreiðanlegur
ritháttur.
Auðmönnum er tvímælalaust líkt við úlfalda og í samanburði
við úlfaldann er sáluhjálpin nálarauga. Hvergi er minnst á að það sé auðveldara
fyrir góðhjartaða og trúrækna auðmenn að fá hlutdeild í Guðs ríki en
samansaumaða nirfla. Textinn setur alla auðmenn undir sama hatt.
Á níundu öld greip einn ritskýrandi meira að segja til þess
ráðs að skálda upp skemmtilega skýringu sem er í því fólgin að á borgarmúrum
Jerúsalem hafi verið hlið sem kallað var „Nálaraugað“ og um það hlið hefði ekki verið hægt að koma úlfalda nema
taka af honum allar klyfjarnar. Úlfalda mátti troða þar í gegn, en hann gat
ekki haft neitt með sér. Margir – ekki
síst þeir sem eitthvað áttu undir sér – hafa eflaust varpað öndinni léttar við
þessa útlistun og sjálfsagt hljómar hún líka vel í eyrum okkar hér uppi á
Íslandi á 21. öldinni sem erum upp til
hópa – á mælikvarða sögutíma Nýja testamentisins að minnsta kosti – auðkýfingar.
En þessi skýring er bull. Engar áreiðanlegar heimildir eru
til um slíkt hlið. Jesús var ekki að tala um borgarhlið, hann var að tala um
nálarauga og Kristur ritningarinnar um spendýrið úlfalda, camelus dromedarius.
Pælingar um hvort það sé síðan rétt haft eftir hinni sögulegu persónu eru vissulega
skemmtileg dægradvöl, en þær breyta engu um þá staðreynd.
Jafningjasamfélagið
Hvað gerum við þá við þennan texta? Förum við og seljum allar
eigur okkar í trausti þess að kvittunin fyrir þeim gildi sem aðgöngumiði að
himnaríki? Og bendum svo fordæmandi fingri á alla sem ekki gera það sæl í
þeirri sannfæringu okkar að við séum á siðferðilega æðra plani en annað fólk?
Jesús gerði það ekki.
Ríki maðurinn átti samúð hans alla. Jesús horfði á hann með
ástúð, enda sá hann að manninum var einlæg alvara með spurningu sinni. Jesús
efaðist ekki um að hann segði satt, að hann væri góðhjartaður og guðrækinn
maður sem leitaðist við að lifa lífi sínu í samræmi við boðorð Guðs.
En hann var í þeirri stöðu að hann gat aldrei orðið einn af
lærisveinum Jesú. Kærleikssamfélagið er jafningjasamfélag og maður sem átti
miklar eignir var ekki jafningi alþýðufólksins sem fylgdi Jesú.
Lærisveinar Jesú höfðu yfirgefið allt, skilið allt eftir til
að fylgja honum. Og það varð ríki maðurinn líka að gera ef hann ætlaði að verða
hluti af þessu samfélagi á jafningjagrundvelli. En það var erfiðara fyrir hann
að segja skilið við auðævi sín en það var fyrir Símon Pétur, svo dæmi sé tekið,
að yfirgefa eitt hásetapláss – sem var allt og sumt sem hann hafði haft að að
hverfa.
Verðmiði á himnaríki
En það er nauðsynlegt að við lesum áfram. Sagan er ekki búin
þegar ríki maðurinn hverfur á braut dapur í bragði yfir því að vera ekki fær um
að verða við kröfu Jesú, að geta ekki orðið einn af fylgjendum hans – af því að
það kostaði of mikið. Samtal Jesú og lærisveinanna skýrir hvað átt er við.
Þessi spurning: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ lýsir því
viðhorfi klassísks gyðingdóms, sem reyndar var á undanhaldi á tímum Jesú, að
auðlegð væri merki um velþóknun Guðs. Ef þeir, sem Guð blessaði með ríkidæmi,
gátu ekki gengið að himnaríki sem vísu … hvaða möguleika áttu þá guðsvolaðir
fátæklingar?
Jesús segir að enginn maður geti áunnið sér himnaríki. Hvorki
ríkir né fátækir. Það gildir einu hvort þú yfirgefur eitt aumt hásetapláss á
skipskænu á Genesaretvatni eða blómstrandi gróðafyrirtæki – hvorugt er
aðgangsmiði að himnaríki.
Af því að ef svo væri ekki þá væri kominn verðmiði á
Himnaríki. Og þá má einu gildi hvort á verðmiðanum stendur „allt sem þú átt“
eða „megnið af því“, „fimmtíu prósent“ eða jafnvel bara „tíund“. Það væri samt
verðmiði. Það væri samt yfirlýsing um að hin æðstu andlegu verðmæti fáist keypt
fyrir það sem sem mölur og ryð frá grandað.
Svo er ekki.
Jesús bætir því við að Guði sé ekkert um megn. Ekkert. Það
þýðir að Guð getur komið úlfalda í gegnum nálarauga … að ekki sé nú minnst á
kaðal.
Það þýðir að ef það er verðmiði á himnaríki þá stendur á
honum „náð“.
Það er aðeins fyrir náð Guðs að við verðum hólpin.
Af hverju að vera góð?
Við kaupum okkur ekki sáluhjálp með þúsundköllunum eða
tíuþúsundköllunum sem við látum renna til góðgerðarmála; barnahjálpar,
mannréttindabaráttu, landgræðslu eða hvaða göfuga málstaðar sem það er sem stendur
hjarta okkar næst.
Ekki misskilja mig. Það er góðra gjalda vert að láta gott af
sér leiða og í raun aðeins sjálfsagt að við verjum hluta af auðæfum okkar til
að bæta og göfga samfélag manna og reikistjörnuna sem okkur er falið að annast.
En við gerum það ekki til að vinna okkur inn prik hjá Guði.
Því ef við gerum það erum við búin að setja verðmiða á Guðs
ríki.
Við gerum það af kærleika.
Ef við gerum það til að fá eitthvað í staðinn er það ekki
kærleikur. Þá búa eigingjarnar hvatir þar að baki og kærleikurinn er ekki
eigingjarn. Hann leitar ekki síns eigin, segir Páll postuli. Kærleikurinn er
góðviljaður. Það er er ekki flóknara.
Ef við reynum að vera gott fólk bara af því að við væntum
einhvers í staðinn þá erum við ekkert sérstaklega gott fólk. Ef við reynum að
láta gott af okkur leiða af ótta við afleiðingar þess að gera það ekki, erum
við ekki góð heldur hrædd.
Við leitumst við að gera veröldina að kærleiksríkari og betri
stað af því að það er það minnsta sem við getum gert í þakklætisskyni fyrir náð
Guðs sem hann í kærleika sínum úthellir yfir okkur án verðskuldunar. Eða svo
vitnað sé í þá góðu bók, Góða dátann Svejk, þar sem segir: „Það er ekki til
mikils mælst ef manni er gefin hæna að hann gefi af henni hælbeinið.“
Uppgjörið
Jesús kallar okkur til fylgdar við sig. Hann kallar okkur
ekki til efnalegrar örbirgðar. En hann kallar okkur til uppgjörs við gildismat
okkar. Og hann varar okkur við því sem villir okkur sýn. Í dæmisögunni um
sáðmanninn bendir hann á að „áhyggjur heimsins, tál auðævanna og aðrar girndir“
(Mark 4.19) kæfi orð Guðs í hjörtum okkar. Og ungi maðurinn er þar. Hann er í
raun ekki sjálfs sín herra, heldur þræll eigna sinna. Eigur hans eiga hann.
Það er tál auðævanna.
Og það er úr þessum þrældómi sem Jesús vill frelsa hann.
„Losaðu þig við það sem þú hefur dæmt þig til að þjóna og
gakktu til liðs við okkur sem fullkominn jafningi – sem frjáls maður,“ segir
hann.
Og þótt Jesús kalli okkur ekki til örbirgðar þá kallar hann
okkur til þessa sama uppgjörs enn þann dag í dag.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í
upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Laugarneskirkju 20. 10. 2019
by Davið Þór Jónsson | Oct 6, 2019 | Blogg, Forsíðufrétt, Prédikun
Guðspjall: Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu,
þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending:
„Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“ Þegar Jesús kom
varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var
nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan. Margir Gyðingar
voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta
frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta
sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn.
En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús segir við
hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í
upprisunni á efsta degi.“ Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig
mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu
deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért
Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ (Jóh 11.1,3,17-27)
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður
og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Eins og aðrir internetnotendur hef ég í
gegn um tíðina búið til einhvers konar algóriþma um mig á netinu með því hvað
ég skoða þar og hvaða síður ég heimsæki. Þeir algóriþmar sem síðan stjórna því
hvaða auglýsingar mér eru birtar á internetinu hafa greinilega aðgang að þessum
upplýsingum eða að minnsta kosti einhverjum vísbendingum um það hvað
útreikningar sýni að ég ætti að vera líklegur til að vilja kaupa.
Merkilegt nokk virðist það aftur á móti
ekki vera tekið með í reikninginn að ég hef aldrei á minni lífsfæddri æfi keypt
nokkurn skapaðan hlut á vefnum svo það hefur til þessa alls ekki verið til
neins að reyna að falbjóða mér eitthvað á þeim vettvangi. En internetið gefst
ekki upp og virðist vera sannfært um að fyrr eða síðar verði mér með þessu
áframhaldi boðið eitthvað sem ég fæ ekki staðist og láti tilleiðast að draga
upp veskið.
Þannig er facebook til dæmis löngu búin að
átta sig á því að ég er áhugamaður um trúmál, á góðum dögum man hún jafnvel að
ég er prestur. Eitthvað virðist tregða mín við að eyða peningum á netinu þó
rugla algóriþmana hennar í ríminu og nú í vikunni var mér boðið að kaupa
stuttermabol með áhugaverðri áletrun. Á honum stóð – í íslenskri þýðingu minni:
„Kristindómur
er sú trú að himneskur gyðinga-zombie frá bronsöld geti látið mann lifa að
eilífu í galdralandi í skýjunum ef maður á táknrænan hátt étur hold hans og
segir honum með hugsanaflutningi að maður sé þjónn hans svo hann geti fjarlægt
illt afl úr sálinni í manni sem er þar af því að einu sinni plataði talandi
snákur konu úr rifbeini til að borða ávöxt af galdratré. Fullkomlega rökrétt.“
Órökréttar helgisögur
Af hverju algóriþmanum fannst það reynandi,
eftir allt sem á undan er gengið, að gera mér þetta tilboð er mér hulin
ráðgáta. Hugsanlega las hann bara fyrsta orðið, „kristindómur“, og tengdi það
strax við sérann.
En þegar ég las þetta þyrmdi dálítið yfir
mig. Í fyrsta lagi af því að ég gat ekki lokað augunum fyrir því að þessi texti
væri dálítið skondinn og líklegur til að höfða til gárunga. En mig rak ekki
minni til að hafa áður séð þvílíkan og annan eins samtvinnaðan útúrsnúning,
rangtúlkanir og ósannindi um það sem mér er heilagt – trú mína. Og ég verð að
viðurkenna að þessi texti særði mig svolítið. Svona eins og það særir mann að
heyra logið upp á einhvern sem maður elskar eða að heyra staðreyndum hagrætt
vísvitandi til að draga upp allt aðra mynd en þá sem sönn er af einhverju sem
er manni kært.
En samt verðum við að horfast í augu við
að með helgisögum okkar og því að játa Biblíuna sem heilaga ritningu þá köllum
við þetta yfir okkur. Þennan höggstað gefum við á okkur því helgisögurnar okkar
eru ekki rökréttar. Það er ekkert rökrétt við að rísa upp frá dauðum eða reisa
aðra upp frá dauðum, eins og guðspjall dagsins boðar.
Í sjálfu sér er nefnilega ekkert rangt við
þessa hæðnu lýsingu á kristindómnum … ef engin tilraun er gerð til að setja
neitt í samhengi eða skilja með opnum huga hvað átt er við og til hvers er
vísað í trúartáknum kristinna manna.
Nokkrar leiðréttingar
Hvar á að byrja á að leiðrétta þessa
vitleysu?
Til að byrja með mætti benda á að Jesús
var alls ekki uppi á bronsöld. Hún var liðin undir lok mörgum öldum áður en Jesús
fæddist. En það er kannski saklausasta rangfærslan í þessu öllu.
Ég nenni varla að eyða orðum í talandi
snákinn og konuna úr rifbeininu og hinn bókstaflega skilning sem þar er lagður
í táknræna frásögn af þeim tímamótum í þróunarsögunni þegar maðurinn hætti að
vera dýr og varð hugsandi vera, varð skyni gæddur – homo sapiens. Hann hætti að
vera bara samansafn skilyrtra viðbragða við áreiti, heldur fékk frjálsan vilja
og varð þarafleiðandi fær um að breyta gegn betri vitund, fá samviskubit og
vita upp á sig skömmina. Ljónið er ófært um að syndga, eðli þess er að rífa í
sig gaselluna. Það þekkir ekki blygðun. Við erum ekki þannig.
Í lýsingu þessa texta á
altarissakramentinu blasir síðan við fullkominn viðsnúningur á
grundvallaratriði trúar okkar. Við kaupum okkur ekki syndaaflausn eða eilíft
líf með altarisgöngunni. Við mætum ekki í kirkju til að vinna okkur inn prik
hjá Guði, til að ávinna okkur eilífa lífið. Við neytum holds og blóðs frelsara
okkar til að tileinka okkur hann, gera hann að hluta af okkur sjálfum. Og við
gerum það ekki til að frelsast. Við erum undir náð. Við förum í kirkju
og þiggjum sakramentið af því að við erum þannig fólk að við getum ekki tekið
við allri þessari náð án þess að segja takk. Við gerum það ekki til að verðskulda
hana, því hana getur enginn breyskur maður verðskuldað. Við gerum það af því
að fyrir kærleika Guðs er okkur veitt hún án verðskuldunar.
Galdralandið í skýjunum
En hvað er þá með þetta galdraland í
skýjunum og endalausu dvölina þar?
Vissulega má túlka orðið „himnaríki“
þannig, þótt Biblían tali hvergi um skýjafarið á staðnum. En himininn er í gegn
um allan okkar trúararf tákn fyrir hið guðdómlega og himnaríki er ekki
veraldlegur staður uppi í lofthjúpnum einhvers staðar fyrir ofan skýin, heldur
hin guðdómlega vídd tilverunnar sem er fyrir utan efnisheiminn. Og fyrir utan
efnisheiminn er enginn tími. Tíminn varð til þegar efnisheimurinn myndaðist,
fram að því var enginn tími. Að ímynda sér eilífa lífið í hinni guðdómlegu vídd
tilverunnar utan við efnið og tímann sem endalaust langt er því þversögn. Í því
sambandi er hugtakið „tími“ algerlega merkingarlaust. Tíminn er ekki til utan
efnisheimsins. Auk þess merkir orðið „aionios“, sem þýtt er „eilífur“, alls
ekki „endalaust“ heldur bara „mjög, mjög stórt“ … í raun „hið stærsta
mögulega“. Eilífa lífið er því ekki endlaust langt heldur eins stórt og líf
getur orðið. Jesús kallar það „líf í gnægðum“.
Guðsríkið hér og nú
Í guðspjalli dagsins er fyrirheitið um
eilífa lífið dregið inn í líðandi stund ef við erum læs á það hvað þar er sagt.
Hér er sagt frá aðdraganda þess þegar Jesús reisir Lasarus upp frá dauðum. En
sagan er ekki um einhvern einn einangraðan atburð í fjarlægum heimshluta í
fornöld. Hún er um máttleysi dauðans gagnvart eilífa lífinu – hinni guðdómlegu
vídd tilverunnar – hér og nú.
Marta segist ekki efast um upprisu á efsta
degi, en hvaða huggun er í henni núna? Bróðir hennar er farinn og kemur ekki
aftur. Jesús svarar og segist vera upprisan og lífið, sá sem trúi á hann muni
ekki deyja … ekki í raun og veru.
Í Jesú eigum við andlegt líf í gnægðum,
ekki bara á efsta degi heldur hér og nú. Eilífa lífið er núna og alltaf af því
að tíminn gildir ekki um það.
Það er út af þessu sem aðdragandinn fær
miklu meira pláss í frásögninni en kraftaverkið sjálft. Til að útskýra hvað
Jesús er að gera, hvað hann er að útskýra fyrir okkur.
En hvað gerist svo? Kemur Lazarus ekki út
úr gröfinni eins og hver annar uppvakningur eða zombie?
Og rís Jesús ekki sjálfur upp frá dauðum
fyrir rest – eins og hvert annað zombie?
Zombie Jesús
Þetta fyrirbæri – zombie – hefur verið
vinsælt í dægurmenningu okkar á undanförnum árum. Fjöldi hryllingsmynda – og
reyndar einhverra gamanmynda líka – segja frá zombie-faröldrum sem mannkynið
þarf að kljást við. Zombíarnir eru heimskir og hægfara, í raun aðeins skugginn
af manneskju, þeir hafa enga heilbrigða hugsun heldur stjórnast aðeins af
hungri í hold og – í sumum útgáfum – heila þeirra sem ekki eru zombíar. Þeir
eru ekki manneskjurnar, einstaklingarnir, sem létust, þeir eru aðeins
andsetnir, rotnandi líkamar þeirra.
Það er ekkert zombie-legt við upprisu
Jesú. Ekki frekar en að það sé eitthvað vampírulegt við altarissakramentið bara
af því að þar er drukkið blóð.
Upprisa Jesú táknar máttleysi illskunnar
gagnvart kærleikanum. Hann rís upp frá dauðum í mætti og dýrð og stígur loks
upp til himna. Zombíar dægurmenningarinnar eru holdgervingar illskunnar. Þeir
eru lifandi dauðir og ættu að fá að liggja. Jesús er lífið og kærleikurinn og lífið
og kærleikurinn rísa alltaf upp aftur.
Zombíarnir eru tákn hjarðhegðunarinnar,
heiladauðrar neysluhyggju. Þeir eru tákn alls þess sem fyllir frjálslynt og
framsækið fólk óhug: Engin sjálfstæð hugsun, enginn persónuleiki, aðeins
stjórnlaus neysla. Og þeir sem þeir ná að klófesta verða eins og þeir. Þeir eru
tákn hinna lifandi dauðu meðal okkar.
Þeir eru táknmyndir alls þess sem Jesús
var tekinn af lífi fyrir að ögra og ógna. Þegar múgurinn hrópaði „Krossfestið
hann! Krossfestið hann!“ var gagnrýnislaus hjarðhegðunin allsráðandi.
Hinir lifandi dauðu
Jesús aftur á móti afhendir okkur sjálfum
ábyrgðina á andlegu lífi okkar. Jesús reisir okkur upp frá andlegum dauða. Við
erum ekki lifandi dauð, við eigum andlegt líf í gnægðum. Og upprisan er ekki í
því fólgin að fylgja reglum heldur kærleikanum. Jesús var beinlínis krossfestur
fyrir að brjóta lög og reglur samfélagsins – fyrir kærleikann.
Og nú þegar ég hef komið þessu frá mér
veit ég að stuttermabolurinn sem varð kveikjan að þessari hugleiðingu mun ekki
seljast í einu einasta eintaki. Ekki satt?
Auðvitað er það ekki satt. Textinn er
skondinn og þeir sem hafa engan áhuga á að skilja kristindóminn en finnst
rosalega smart að hæðast að honum munu flíka þessum útúr- og öfugsnúningi á
bringunni og skilja ekkert í því að hann særi einhvern og finnast það óttaleg
viðkvæmni að vera eitthvað heilagt.
Og við verðum að sætta okkur við það að
með því að vera sagan af Jesú Kristi heilög köllum við yfir okkur háð og spott
þeirra sem vilja ekki skilja – eða eru ófærir um að skilja – annað en það sem
þeir eru mataðir á og er svo auðskilið og ristir svo grunnt að ekki er hægt að
misskilja það.
Svolítið svona eins og zombíar.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum
anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Laugarneskirkju 6. október
2019