Myndin af Guði

Myndin af Guði

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag spyrjum við ekki „Hverju trúir þú?“ heldur „Af hverju trúir þú?“ Þetta er ekki spurning sem við erum vön, flest hver. Þegar trúna ber á góma er miklu frekar farið út í það á hvað maður trúir og trúir ekki, hvaða hlutverki trúin gegnir í lífi manns og jafnvel hvernig maður iðki trú sína. Það eru algengu spurningarnar, skv. minni reynslu.

Hitt er fátíðara að beinlínis sé forvitnast um það af hverju maður trúi yfirhöfuð á eitthvað.

Ég heyrði einu sinni skilgreiningu á trú, eða öllu heldur á því í hverju munurinn á trú og trúarbrögðum sé fólginn. Þessi skilgreining situr í mér. Hún er á þá leið að trúarbrögð séu fyrir fólk sem er hrætt við að fara til helvítis. Trú sé fyrir fólk sem hefur verið þar.

Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í þessu. Ekki svo að skilja að ég ætli að lýsa því yfir að ég hafi einhverja persónulega reynslu af helvíti. Sé svo þá bliknar það helvíti alla vega í samanburði við þær raunir og þjáningar sem aðrir hafa mátt reyna. En svo á kannski hver og einn sitt persónulega helvíti, stundina þegar allt var honum mótdrægast og honum hafði aldrei fundist hann eins einn og yfirgefinn á berangri. Ég hef átt slíka stund.

Og það er kannski tilfinningin sem stendur upp úr þegar ég rifja þá stund upp. Einsemdin.

Sá sem á sér trú er aldrei alveg einn. Það er alltaf einhver sem vakir yfir honum, kemur honum kannski ekki til bjargar eða reddar málunum, en yfirgefur hann alla vega ekki. Kannski jafnvel grætur hann og þjáist með honum. Sem er alltaf betra en að gráta og þjást einn.

Guð og læknavísindin

Í góðri bók segir læknir nokkur, William D. Silkworth að nafni, reynslusögu sem er svona í styttri útgáfu:

„Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér oft hugsað til manns eins, sem var lagður inn af þekktum lækni í New York. Þessi sjúklingur hafði greint sjúkdóm sinn, skildist að útlitið var vonlaust og hafði falið sig í fjósi, ákveðinn í að deyja. […] Sagði hann […] skýrt og skorinort að það væri tilgangslaust að reyna nokkra meðferð við sig. […] Ofdrykkjuvandamál hans var flókið og þunglyndi hans svo svart að okkur virtist eina vonin í því fólgin að hægt væri að beita við hann „siðferðilegri sálfræði“, sem svo var kölluð, og jafnvel það fannst okkur hæpið. Samt sem áður tókst að vekja trú hans á hugmyndir þær, sem eru fram settar í þessari bók. Hann hefur ekki snert vín í mörg ár. Ég rekst oft á hann og hann er eitt hið besta sýnishorn af heilsteyptum manni sem á verður kosið.“

Hverjar eru svo þessar kraftaverkahugmyndir sem settar eru fram í umræddri bók? Jú, þær eru að trúa að máttur okkur æðri geti gert okkur andlega heilbrigð, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi okkar á honum, að játa misgjörðir sína fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi okkar á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Það er nú ekki flóknara.

Þetta er það sem leysti vandamál sem læknavísindin stóðu ráðþrota frammi fyrir – a.m.k. þegar þetta var skrifað.

Þessi bók heitir A. A. bókin. Hún er alls ekki hafin yfir gagnrýni og er að ýmsu leyti barn síns tíma, enda hefur ógrynni bóka komið út þar sem nálgun hennar er gagnrýnd og henni fundið flest til foráttu. Samt er það svo einkennilegt að A. A. bókina hefur ekki þurft að skrifa aftur.

Þetta minnir svolítið á aðra ágæta bók, sem við heyrðum lesið úr hér áðan.

Jólakortið

Ég get deilt með ykkur lífsreynslu mjög sambærilegri við þá sem læknirinn, lýsir.

Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér hugsað til jólakorts sem ég fékk fyrir nokkrum árum. Það var frá dreng sem ég hafði kynnst einum þrem eða fjórum árum fyrr. Ég var þá sjálfur kominn inn á beinu brautina, hafði gengið hana skamman spöl en var fráleitt jafnlangt niðri og ég hafði verið einu eða tveim árum áður. Þessi ágæti piltur hafði verið í mikilli neyslu harðra fíkniefna og stundað sölu þeirra. Það hafði endað með ósköpum, hann varð fyrir hnífsstungu og börnin hans og sambýliskonu hans, sem voru þrjú, voru komin í umsjá opinberra aðila.

Ég viðurkenni að mér leist ekkert ekkert sérstaklega vel á piltinn í fyrstu. Hann var niðurlútur og óframfærinn, talaði lítið og hikstaði og stamaði þá sjaldan sem hann reyndi. Hann hélt þó áfram að láta sjá sig og með tímanum fór honum að líða betur, hann varð upplitsdjarfari, mannblendnari og með aukinni fjarlægð á þær hörmungar sem hann hafði gengið í gegn um varð hann fær um að segja frá þeim, gangast við fortíð sinni og taka ábyrgð á sjálfum sér. Ekki leið á löngu þar til félagsskapurinn treysti honum fyrir trúnaðarstörfum í sína þágu.

Á þessu jólakorti var ljósmynd af þremur börnum í sparifötunum fyrir framan skreytt jólatré. Börnunum hans þremur … sem bjuggu hjá honum, sem hann hafði forræði yfir og nutu hátíðlegra jóla hjá föður sínum.

Þegar ég heyri gert lítið úr mætti trúarinnar þarf ég ekki annað en að loka augunum og sjá þetta jólakort fyrir mér. Það prýða þrjár litlar manneskjur, þrjár lifandi sálir hverra líf trúin hafði úrslitaáhrif á … og það ekki einu sinni þeirra trú, heldur trú föður þeirra.

Því það sem hann gerði til að öðlast frelsi frá sínu persónulega helvíti var að trúa að máttur honum æðri geti gert hann andlega heilbrigðan, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi hans á honum, að játa misgjörðir sínar fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi hans á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Er Guð Guð?

Guð er óræður, óskiljanlegur, óviðráðanlegur. Enginn hefur séð Guð eða komið við hann. Enginn hefur mælt hann eða sýnt fram á tilvist hans með reikningslistum og náttúrulögmálum, svona eins og sýnt er fram á tilvist frumefna, andefna, reikistjarna og þar fram eftir götunum.

Þess vegna hvarflar stundum að mér að í raun sé ekki hægt að trúa á Guð … sem slíkan. Að það sem við trúum á, þegar upp er staðið, sé eitthvað eins og fegurð, sannleikur, samhjálp og kærleikur. Á mun góðs og ills. Á muninn á réttu og röngu. Á að þetta, sem við köllum líf, hafi einhvern æðri og göfugari tilgang. Og að við eigum ekkert betra orð yfir það en „Guð“.

Ég hef ekki séð Guð.

Ég hef ekki heldur séð vindinn. En samt þarf ég ekki annað en að horfa út um gluggann minn til að sjá hvort það er vindur eða ekki. Ég sé vindinn á áhrifunum sem hann hefur á umhverfi sitt.

Þannig sé ég Guð.

Ég sé Guð á áhrifunum sem hann hefur á þá sem taka við honum.

Og þetta jólakort er sennilega það sem ég hef komist næst því að sjá Guð.

Jesús sér þig

Í guðspjalli dagsins trúir Natanael af því að Jesús sá hann. Jesús sá hann … áður en hann var kallaður til. Maður er aldrei einn ef maður trúir … trúir því að Jesús sjái mann. Og Jesús lofar honum því að fyrst hann trúi þá muni hann sjá stórkostlega hluti.

Það er auðvelt að finnast það út í hött að trúa. Að ákveða bara að maður sé sannfærður um að eitthvað sé til sem ekki er hægt að færa neinar sönnur á. Þess vegna er það þannig að þegar spurningarinnar „Er Guð til?“ er spurt þá hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vilja svara játandi. Það er ekki hægt að sanna að eitthvað sé ekki til. Til að sýna fram á tilvist þess verður að tefla fram sönnunargögnum.

Svo skemmtilegt dæmi úr kennslubók í rökfræði sé tekið: Hvernig sannar maður að hreindýr geti ekki flogið? Þótt maður færi með 1000 hreindýr í flugvél og henti þeim fyrir borð einu af öðru og þau myndu öll hrapa til bana væri maður ekki búinn að sanna annað en að þessi 1000 hreindýr undir þessum ákveðnu kringumstæðum flugu ekki, annað hvort af því að þau gátu það ekki eða kusu að gera það ekki. Til að sanna að hreindýr geti flogið verður að tefla fram fljúgandi hreindýri.

Þess vegna hafa kristnir menn freistast til að nota Guð til að útskýra hvaðeina sem þekking okkar ræður ekki við. Það er þessi Guð glufanna, Guð sem felur sig í gloppunum í þekkingu okkar. Það er lélegur Guð, því það er Guð sem skreppur saman jafnt og þétt, Guð sem hverfur hægt og rólega eftir því sem götunum í mannlegri þekkingu fækkar og þau minnka.

Við skulum forðast að réttlæta trú okkar með Guði glufanna. Við þurfum ekkert að troða Guði inn í myrku sprungurnar í þekkingu okkar því þá hverfur hann um leið og við náum að upplýsa þær.

Reyndar þurfum við ekki að réttlæta eða afsaka trú okkar fyrir neinum.

Trúum ekki af því þannig getum við búið til útskýringar á því sem er okkur um megn að skilja.

Trúum af því að þannig fáum við að sjá stórkostlega hluti.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju og Áskirkju 10. 10. 2021

Eðlilegt ógeð

Eðlilegt ógeð

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ segir Símon Pétur í guðspjalli dagsins. „Allt sem við áttum.“ Það er ekki lítið.

Pétur segir þetta ekki bara upp úr þurru. Það er ástæða fyrir þessari yfirlýsingu, hún er beint viðbragð við því sem var að gerast. Við komum eiginlega inn í miðja sögu og heyrum bara niðurlag hennar.

Til Jesú kom auðugur höfðingi og spurði hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Svar Jesú var: „Sel allt sem þú átt og skipt meðal fátækra og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Þá varð auðmaðurinn hryggur enda mjög ríkur. Jesús sá það og sagði: „Hve torvelt er þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Þeir sem heyrðu þetta spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús svaraði: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“

Þá segir Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“

Áhyggjur Péturs eru skiljanlegar og eðlilegar. „Það hlýtur að gilda annað um okkur en þennan ríka,“ er hugsunin sem þarna býr að baki. „Við yfirgáfum allt. Við hljótum að vera hólpnir.“

Krafa Jesú er auðvitað ósanngjörn.

Hvert okkar myndi selja allt sem það á og gefa andvirðið til þess að vera á götunni og þurfa að sofa í bílastæðakjöllurum í staðinn fyrir loforð um himnavist og eilíft líf? Og hvað með þá sem treysta á okkur? Maka og börn?

Jesús er að benda á að við verðum ekki hólpin fyrir okkar eigin gjörðir. Það er mönnum um megn að verða hólpnir á forsendum síns eigin ágætis. En … „það sem mönnum er um megn það megnar Guð.“ Við erum hólpin, en ekki vegna okkar sjálfra heldur fyrir náð Guðs.

Okkar eigin gullkálfar

Jesús segir lærisveinunum að þeir fái margfalt til baka það sem þeir fórnuðu. Og satt best að segja var enginn þeirra úr hópi auðmanna samfélagsins. Pétur hafði verið sjómaður. Þegar Jesús kallaði hann til fylgdar við sig skildi hann bátskænuna sína eftir. Hann gekk ekki frá neinum auðævum. Ef hann hefði átt auðævi, hefði hann þá skilið þau við sig og fylgt Jesú?

Það er auðveldara að yfirgefa allt sem maður á þegar maður á nánast ekki neitt, heldur en þegar maður er vellauðugur.

Auðvitað kemur auður ekki í veg fyrir að maður njóti náðar Guðs … ekki sem slíkur. Þetta er hins vegar spurning um afstöðuna til auðævanna.

Lesturinn úr Gamla testamentinu er mjög myndrænn, auðskilinn og táknrænn. Hann segir frá dansinum í kringum gullkálfinn. Óþarfi er að fara hér út í menningarsöguna og táknfræðina sem býr á bak við kálf sem guðslíkneski. Okkur nægir að sjá þjóðina stíga dans í kringum líkneski úr gulli og beina átrúnaði sínum að því … að gullinu … til að skilja hvað er verið að segja okkur.

En þrátt fyrir þessa sögu og gildi hennar sem grundvöll afstöðunnar til Guðs og auðsins, boðskap sem Jesús hnykkir á með fullyrðingunni um að enginn geti þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon, þá hefur þróun samfélags okkar í síauknum mæli verið sífellt hraðari og trylltari dans í kringum okkar eigin gullkálf.

Það er að segja okkar allra … nema sumra.

Milljón og milljarður

Við búum í samfélagi þar sem misskipting er gríðarleg. Nokkrir örfáir eiga meira fé en þorri þjóðarinnar skilur.

Ég heyrði um daginn áhugaverðan samanburð á milljón og milljarði. Einn sólarhringur er 86.400 sekúndur. Það þýðir að milljón sekúndur eru 11 dagar. Þann 23. þessa mánaðar verða milljón sekúndur liðnar frá þessari guðsþjónustu.

Milljarður sekúndna er 30 ár. Um mánaðamótin október nóvember árið 2051 verður liðinn milljarður sekúndna frá þessari guðsþjónustu.

Hugsum nú ekki um milljón sekúndur og milljarð sekúndna heldur um milljón krónur og milljarð króna, bara svona svo við áttum okkur á eðlismuninum á þeim fjármunum sem venjulegt fólk hefur umleikis og höndlar með og þeim gríðarlega auði sem pínulítill hluti þjóðarinnar hefur rakað saman. Hugsum svo um alla þá sem er ofviða að skilja eina milljón, fólkið sem bíður í röðum eftir mataraðstoð, um þær þúsundir barna á Íslandi sem alast upp við skort, um gamla fólkið sem rannsóknir hafa sýnt að er vannært vegna fátæktar, fólkið sem tárfellir af þakklæti þegar því er gefið fimm til tíu þúsund króna inneignarkort í Bónus svo það eigi fyrir mat út mánuðinn, á sama tíma og aðrir í sömu borg fela … ekki milljónir heldur milljarða í útlöndum.

 Enginn vinnur sér inn milljarð. Fólk eignast milljarð með öðrum aðferðum. Manneskja með eina milljón í laun á mánuði er rúmlega 83 ár að vinna sér inn einn milljarð. En í þessu samfélagi er fólk sem ekki er bara að höndla með milljarða, heldur að fela milljarða til að komast hjá því að þurfa að greiða af þeim til samfélagsins. Hve margar starfsævir venjulegs fólks eru aukýfingarnir okkar að fela?

Ógeðið

Ímyndum okkur samfélag þar sem einhver er haldinn þeirri áráttu að safna mat. Hann kaupir og kaupir og kaupir allan mat sem hann kemst yfir, hann tæmir verslanir þannig að hillur standa tómar. Þessum mat safnar hann saman í víggirtar geymslur og passar að enginn komist í þær. Samfélagið sveltur vegna þess að allur maturinn hverfur inn í þessar geymslur og stendur bara þar og safnar ryki.

Hvaða mynd myndi samfélagið draga upp af þessari manneskju, sem sviptir aðra lífsnauðsynjum og safnar sjálfri sér meira af þeim en hún mun nokkru sinni komast yfir að nota? Þetta er skrímsli. Miskunnarlaus mannhatari.

Hvað ef þessi manneskja er ekki að safna mat heldur peningum? Hvaða mynd dregur samfélagið þá upp af henni?

Þá er hún sett á forsíðu Frjálsrar verslunar og kölluð Viðskiptamaður ársins.

Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, sagði nýlátinn heiðursmaður einhverju sinni þegar reynt var að gera upp eitt stærsta áfall sem samfélag okkar hefur orðið fyrir í seinni tíð.

En það varð ekki svona af sjálfu sér. Við gerðum það svona.

Að líða vitlaust

Þegar fólk leitar sálgæslu hjá presti vegna vanlíðunar í kjölfar áfalls eða fjölskylduharmleiks eða þegar það upplifir að hafa misst stjórn á lífi sínu og tengslum við ástvini, þá spyr það gjarnan hvort það sé eðlilegt að líða svona.

Og svarið er „já“. Það er eðlilegt. Það er eðlilegt að finna fyrir sársauka þegar maður meiðir sig. Það er eðlilegt að líða illa í kjölfar erfiðrar og sárrar lífsreynslu. Líðan okkar er langoftast fullkomlega eðlileg afleiðing þess sem á undan er gengið. Það líður engum vitlaust. Okkar verkefni er ekki að sjúkdómsgera vanlíðanina og fá eitthvað við henni, heldur að einblína á hvernig við getum bruðgist við áfallinu og unnið okkur í gegn um vanlíðanina.

Og okkar ógeðslega samfélag er fullkomlega eðlilegt.

Það er eðlileg afleiðing þeirra gilda sem það er byggt á, eðlileg afleiðing af því sem á undan er gengið, dansinum í kringum gullkálfinn. Það er eðlileg afleiðing þeirra leikreglna sem hér hafa verið við lýði, það er eðlileg afleiðing af hagstjórninni – auðkýfingadekrinu og fátæktarsmánuninni – sem hér hefur ráðið ríkjum.

Eðlilegt ástand

Við þurfum ekkert að sjúkdómsgera ástandið. Við kusum nákvæmlega þetta ástand. Við kusum það þegar við samþykktum þessar leikreglur. Við kusum það þegar við ákváðum hverjir ættu að setja reglurnar og framfylgja þeim. Það mega stjórnmálamenn okkar eiga að þeir sigla sjaldan undir fölsku flaggi, við vitum nokkurn veginn fyrir hvað þeir standa.

Og fyrir hverja.

Við kusum þetta ástand. Við ákváðum að það ætti að vera svona.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af kynlífi? Engin tala er ásættanlegur fjöldi rekkjunauta, hann þarf alltaf fleiri. Hann er kynlífsfíkill.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af áfengi eða fíkniefnum, það þarf alltaf einn drykk enn, einn skammt í viðbót. Hann alkóhólisti, fíkill.

Hvað segjum við um mann sem getur ekki eignast nóg af peningum? Löngu eftir að hann á meiri pening en hann kemst yfir að eyða, hann getur látið allt eftir sér, þá þarf hann samt að græða aðeins meira?

Hann er auðvitað alveg jafnmikill fíkill og hinir. Hann er jafnveikur. Af hverju eru viðhorf samfélagsins þá þannig að auðfíkillinn sé hetja, viðskiptajöfur og bisnesmógull, en hinir fíklarnir perrar og aumingjar?

Það er af því að við kusum að hafa það þannig.

Líf í fíkn

Það er ömurleg líf að vera fíkill. Að lifa lífi sem snýst um að fá það sem veitir manni tímabundna fró, en þó aldrei svo mikla að maður hafi fengið nóg, að þetta sé orðið ágætt. Það er líf í stöðugri andlegri vöntun, örvæntingarfullur eltingaleikur við manns eigin skugga.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ sagði Pétur og Jesús svaraði: „Þið fáið það margfalt til baka.“

Hver sá sem sigrast hefur á fíkn veit hvað Jesús á við. Hann hefur fengið það margfalt til baka sem hann yfirgaf.

Gullkálfurinn er þarna úti og það er stiginn trylltur dans í kringum hann.

En ef við lesum niðurlag sögunnar um gullkálfinn, þá er hún svona: „Síðan tók [Móse] kálfinn, sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi, muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu í vatn sem hann lét Ísraelsmenn drekka.”

Bráðlega veljum við þá sem setja munu leikreglurnar, a.m.k. næstu fjögur árin, og sjá til þess að farið sé eftir þeim. Kannski væri ráð að velja þá sem vilja taka gullkálfinn, brenna hann í eldi, mylja hann mélinu smærra og dreifa duftinu í vatn sem þjóðin fær að drekka.

Ef við gerðum það fengjum við sem samfélag það margfalt til baka sem við fórnuðum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. 9. 2021

Sunnudagaskólinn byrjar

Sunnudagaskólinn byrjar

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að næstkomandi sunnudag, 5. september, hefur sunnudagaskólinn göngu sína í Laugarneskirkju. Leiðtogarnir okkar eru spenntir að hitta börnin og eiga með þeim ánægjulega stund á sunnudögum í allan vetur. Sunnudagaskólinn er í safnaðarheimili Laugarneskirkju á sama tíma og messað er uppi í kirkjunni.

Stundirnar byrja uppi í kirkjunni, en síðan ganga börnin niður til sinnar samveru á meðan fullorðna fólkið verður eftir uppi. Í sunnudagaskólanum er leikið og sungið og mikið fjör, auk þess sem börnin eru frædd um grundvallaratriðin í lífi með Jesú.

Á eftir er síðan boðið upp á kirkjudjús og jafnvel eitthvað gott að maula á meðan fullorðna fólkið sötrar kaffið sitt.

Við hlökkum til vetrarins í Laugarneskirkju með ungum jafnt sem öldnum.

Fyrirmyndir

Fyrirmyndir

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Árið 1840 var kaþólskur prestur að nafni Juan Severino Mallari hengdur í Filipseyjum. Hann var þá einn fremsti skrautskrifari Filipseyinga. Það var þó ekki fyrir þá sök sem hann var tekinn af lífi. Hann hafði lært skrautskrift í fangelsi þar sem hann beið aftöku fyrir að hafa orðið 57 manns að bana.

Ég veit ekki af hverju ég er að segja ykkur þetta, nema til að draga þá staðreynd fram í dagsljósið að prestastéttinni hefur tilheyrt að minnsta kosti einn raðmorðingi og að hann gerði meira um sína daga en að drepa fólk.

Engar fréttir

Auðvitað eru það engar fréttir fyrir þá sem eitthvað hafa fylgst með að prestar séu færir um eitt og annað miður geðslegt. Áratugalöng … ef ekki aldalöng … yfirhilming kaþólsku kirkjunnar með barnaníði og öðrum djöfulskap vígðra þjóna sinna er löngu kunn og um hana þarf ekki að fjölyrða. Hér á Íslandi hefur líka komist upp um ólíðandi, jafnvel saknæma, hegðun presta.

En af hverju er það fréttnæmt? Eða öllu heldur … af hverju snertir það okkur öðruvísi að prestar hegði sér svona heldur en þegar karlar af öðrum stéttum gera það?

Það er auðvitað af því að það er litið til presta sem fyrirmynda. Þeir hafa nánast sérhæft sig í muninum á réttu og röngu. Ekki svo að skilja að það þurfi fimm ára háskólanám til að átta sig á því að það sé ljótt að drepa og nauðga. En prestar beinlínis vinna við að prédika, segja fólki til, og því er eðlilegt að þykja það meiri hræsni þegar prestur verður uppvís að siðferðisbresti heldur en þegar einhver annar verður það, þótt glæpurinn sé auðvitað sá sami hver sem gerandinn er.

Og þó …

Er það kannski meira áfall fyrir þolandann þegar gerandinn er prestur, einhver sem hann trúði að hann gæti treyst? Er glæpur prestsins ekki meiri ef afleiðingar hans eru alvarlegri?

Prestar hafa kannski ekki þetta hlutverk fyrirmyndarmannsins … mér liggur við að segja „engilsins“ … lengur í huga fólks í eins miklum mæli og áður og geta þeir að mínum dómi fyrst og fremst sjálfum sér um það kennt. En við lítum annað til fyrirmynda í staðinn.

Hin göfuga íþrótt

Framferði nokkurra landsliðsmanna í fótbolta hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í sjálfu sér ætti það ekki að vera meiri glæpur að landsliðsmaður brjóti gegn konu heldur en að þriðjudeildarleikmaður geri það. En það er það samt.

Það er ábyggilega meira áfall þegar landsþekktur, elskaður og dáður afreksmaður … einn af „strákunum okkar“ … brýtur gegn manni … einhver sem barnið manns er kannski með plakat af í herberginu sínu … heldur en þegar einhver þriðjudeildar göslari gerir það. Er það ekki meira áfall fyrir trú okkar á mannkynið þegar hetja fellir grímuna og sýnir ljótar hliðar heldur en þegar einhver óþekktur gaur úti í bæ gerir það?

Kannski þarftu ekki bara að vera betri fótboltamaður heldur en hinir til að iðka hina göfugu íþrótt sem fulltrúi lands og þjóðar … kannski þarftu að vera betri maður.

„Vandi fylgir vegsemd hverri,“ segir máltækið og það á, held ég, við hér.

Þetta gildir ekki bara um kynferðisbrot. Þetta gildir um önnur siðferðisbrot.

Við sem þjóð erum á vissan hátt löskuð af siðferðisbrotum fólks sem við litum upp til og héldum að við gætum treyst. Við höfum á þann hátt orðið fyrir áfalli sem mér finnst við ekki hafa talað um og gert upp sem skyldi.

Við treystum okkur núna til að rísa upp gegn kynferðisbrotum fyrirmyndanna okkar. Vonandi skilar það okkur þeim árangri að við förum að taka jafnharkalega á öðrum siðferðisbrotum þeirra.

Þjóð þolenda

Fyrir tólf árum brugðust leiðtogar okkar gjörsamlega og komu landinu á vonarvöl. Óreiðumönnum höfðu verið afhentar eigur þjóðarinnar á gjafverði og okkur var talin trú um að þeir væru afreksmenn á sínu sviði, en spiluðu síðan gjörsamlega rassinn úr buxunum og þjóðin sat uppi með reikninginn. Fæstir þessara manna, ef einhverjir, þurfa að hafa áhyggjur af því í dag hvernig þeir eigi að eiga fyrir mat handa fjölskyldunni sinni út mánuðinn. En það þurfa aðrir að gera, sem engan hlut áttu að máli, en verða enn að lifa með afleiðingum gjörða þessara manna. Sumir misstu aleiguna. Bankar, sem fengið höfðu himinháar skuldir afskrifaðar, gengu af fullkomnu miskunnarleysi að eigum fólks sem skuldaði fjárhæðir sem blikna í samanburði við það sem þeim hafði verið fyrirgefið.

Og þegar listinn yfir þá sem náðu að selja hluti sína daginn áður en allt hrundi er skoðaður hvarflar að manni að stór hluti þeirra sem við í dag treystum fyrir reglum samfélagsins, meðal annars leikreglum hagkerfisins, hljóti að hafa haft aðgang að upplýsingum sem haldið var leyndum fyrir þorra almennings, með þeim afleiðingum að þeir sluppu svo til óskaddir frá hildarleiknum meðan venjulegt fólk sat í súpunni.

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag,“ sagði nýlátinn heiðursmaður þegar þessi mál voru gerð upp … að nafninu til.

Mismunandi kröfur

Auðvitað snertir það okkur öðruvísi þegar ráðamenn þjóðarinnar, meðal annars æðsti maður efnahagsmála, verða uppvísir að því að fela himinháar fjárhæðir á aflandsreikningum til að komast hjá því að leggja sinn skerf af mörkum til samfélagsins, heldur en þegar einhver gráðugur kapítalisti úti í bæ, sem enginn kaus til neinna trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð, gerir það. Fjárhæðir sem allur þorri almennings á erfitt með að skilja, hvað þá eignast … að ég tali nú ekki um að stinga undan.

Við setjum einfaldlega suma í þá stöðu – vígjum þá til prestsþjónstu, setjum þá í landsliðið í fótbolta, kjósum þá á þing og treystum þeim fyrir ráðuneytum og sitthvað fleira – að til þeirra verður að vera hægt að gera aðrar og meiri kröfur en við gerum til annarra.

Auðvitað er enginn fullkominn. Enginn er yfir það hafinn þegar hvatvísi, hormónaójafnvægi og dómgreindarleysi vegna ölvunar fara saman að geta farið yfir mörk annarra og valdið þeim andlegum skaða, hugsanlega líkamstjóni. Fyrmyndum getur líka orðið á, en þá eiga þær val um það hvort viðbrögð þeirra séu til fyrirmyndar og þær standi undir nafni sem fyrirmyndir … eða ekki.

Og gleymum ekki að það er munur á breyskleika og sjúkleika. Enginn nauðgar óvart.

Jón og séra Jón

Guðspjall dagsins fjallar um þessar mismunandi kröfur sem við gerum til fólks. Jesús segir við faríseana: „Ef þið væruð blindir væruð þið án sakar. En nú segist þið vera sjáandi, því varir sök ykkar.“ (Jóh 9.41) Það er ekki hægt að áfellast þann sem er blindur fyrir að sjá ekki, en sá sem er með fulla sjón en neitar að gangast við því sem blasir við honum af því að það hentar ekki hagsmunum hans eða storkar snoturri heimsmynd hans … hann er í vondum málum gagnvart herra sannleikans og lífsins.

Farísearnir litu á sig sem sérfræðinga í lögmálinu, sérfræðinga í Guði þóknanlegu líferni og framferði. Og þeir voru óragir við að segja öðrum til. Upphefð þeirra var fólgin í því að vera betri en annað fólk og vita betur en það. Það hentaði þeim ekki að allir væru jafnir. Hvern hefðu þeir þá getað litið niður á?

Farísearnir litu á sig og kynntu sig sem prókúruhafa Guðs á jörð. Þeir höfðu einkarétt á sannleikanum. Þeir settu sig í þá stöðu að til þeirra mátti gera meiri kröfur en annarra. Þeir þóttust sjá.

Orð Jesú komu ekki heim og saman við það hvernig þeir vildu að heimurinn virkaði.

Skilaboð til presta

Ritningartextarnir nú í sumarlok innihalda skilaboð til presta: „Ekki halda að þið séuð betri en annað fólk. Praktíserið það sem þið prédikið. Vísið ekki bara veginn heldur farið hann og leiðið þá sem ekki sjá til.“

En við erum svo lánsöm, sem höfum fundið trú okkar farveg í evangelískum kristindómi, að við sitjum ekki uppi með presta sem yfirboðara yfir okkur hafna; hálfheilaga, óskeikula mannengla sem lifa og hrærast á einhverju öðru og æðra andlegu siðferðisplani en venjulegt fólk.

Við eigum okkur kenninguna um hinn almenna prestdóm kristins manns, sem er hornsteinn embættis- og kirkjuskilnings okkar. Ástæða þess að sumir eru prestar en aðrir bakarar og smiðir er ekki sú að presturinn sé nær Guði eða í meira uppáhaldi hjá honum heldur en bakarinn eða smiðurinn. Þetta er bara praktískt atriði sem varðar sérhæfingu í samfélaginu. Ef hver og einn væri sinn eigin smiður, sinn eigin bakari og sinn eigin prestur, þá byggjum við í lélegum húsum, ætum vont brauð og nytum bágborinnar prestsþjónustu.

Þess vegna eru þessar áminningar ekki bara til vígðra þjóna kirkjunnar. Þær eru til allra presta, það er að segja: Til allra manna.

Allir eru prestar

Við megum gera meiri kröfur til presta en við gerum til annarra, einfaldlega af því að presturinn er ekki trúverðugur nema hann leitist við að lifa sjálfur samkvæmt því sem hann boðar.

En munum þá að við erum sjálf prestar.

Og að við eigum að gera sömu kröfur til okkar sjálfra.

Lifi ég samkvæmt því sem ég í orði kveðnu trúi að sé rétt og satt og gott? Er ég sjálf/ur á þeirri leið sem ég vísa öðrum? Fara orð mín og gjörðir saman? Eða veiti ég sjálfum mér undanþágur af því að það er ekki mitt hlutverk að vera fyrirmynd?

Ég hef fréttir að færa. Ekki síst ykkur sem eruð hér með fermingarbörnum sem sitja við hlið ykkar: Þið eruð víst fyrirmyndir.

Og ykkur hefur verið falið það hlutverk að ala upp fyrirmyndir framtíðarinnar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. ágúst 2021

Fermingarfræðslan hefst

Fermingarfræðsla vetrarins 2021 – 2022 hefst formlega nk. sunnudagskvöld kl. 20. Kvölguðsþjónusta verður í Laugarneskirkju og eru fermingarbörn ársins 2022 sérstaklega boðuð til hennar ásamt foreldrum eða forráðamönnum. Að stundinni lokinni verður samvera í safnaðarheimili kirkjunnar þar sem farið verður yfir allt sem máli skiptir fyrir veturinn.

Gert er ráð fyrir því að fyrsta samvera fermingarfræðslunnar verði þriðjudaginn 8. september kl. 15:15. Fermingarfræðslan í vetur verður á þriðjudögum frá 15:15 til 16:45 eins og undanfarin ár.

Gaman væri að sjá sem flest fermingarbörn ásamt foreldrum/forráðamönnum þeirra.

Hægt er að skrá sig í fermingarfræðsluna hér.

Á forsendum gremju eða vonar?

Á forsendum gremju eða vonar?

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Umræða um kynferðismál hefur verið áberandi undanfarin misseri, svo mjög að raddir eru farnar að heyrast um að jafnvel sé farið að ganga of langt í því að grafa upp syndir manna að núa þeim um nasir til að hafa af þeim æruna og lífsviðurværið. Ekki ætla ég að leggja mat á það hér. Um er að ræða ámælisverða hegðun og stundum glæpsamlega. Og ég verð að segja að það kom mér mjög óþægilega á óvart þegar auglýst var eftir sögum frá konum af kynferðislegri áreitni á vinnustað eða í félags- eða tómstundastarfi að þá skyldi nánast gilda einu hvar niður væri borið – meðal íþróttakvenna, stjórnmálakvenna og jafnvel presta – alls staðar að komu frásagnir af svívirðilegri framkomu karlmanna á færibandi.

Það sló mig – verandi sonur konu, eiginmaður konu og faðir þriggja kvenna – að helmingurinn af mínum nánustu ástvinum skuli eiga á hættu að vera niðurlægður, svívirtur eða jafnvel beittur líkamlegu ofbeldi vegna kynferðis síns.

Með augun á vandamálinu

Það er ljóst að víða er pottur brotinn þegar að þessum málum kemur og þörf á úrbótum hið snarasta. Og það þarf engan að undra þótt tekið sé að gæta óþreyju og jafnvel pirrings út af því hve hægt virðist miða. Yfir þetta ætla ég ekki að draga neina fjöður, þótt það sé annað sem mig langi til að ræða um í dag.

Ég hef það nefnilega á tilfinningunni að þegar einblínt er svona lengi á það sem miður fer, jafnvel þótt full ástæða sé til að taka til hendinni og ráðast í úrbætur, þá leggist það á sálina í manni. Mér finnst einhver andi heiftar og reiði svífa yfir vötnum. Það er einhver þung stemning í þjóðfélaginu. Hvaða frægi karl verður næst afhjúpaður og í kjölfarið afskrifaður? Hvaða þjóðþekktu einstaklingar munu koma honum til varnar, jafnvel með gífuryrðum um sturluð viðbrögð? Hvaða eldhugar jafnréttisbaráttunnar munu steyta hnefann og gera alla sem setja spurningarmerki við aðferðafræðina að sérstökum kvenhöturum og nauðgaravinum?

Ég held að fátt gott verði til í slíku andrúmslofti.

Ég held að við hefðum gott af því að líta aðeins upp úr naflanum á okkur sjálfum og setja okkur í samhengi við umheiminn. Þá kynni að fara svo að við fyndum kennd sem er bæði jákvæð og uppbyggileg, kennd sem kæmi eins og ferskur gustur inn í þetta þrúgandi andrúmsloft, kennd sem vinnur gegn þunglyndi, meltingartruflunum og magasári: Þakklæti.

Björtu hliðarnar

Því þrátt fyrir allt … þótt en sé mikið starf óunnið við að koma á fullkomnu jafnrétti og enn séu margar sakir óuppgerðar sem varða ólíðandi framkomu karla við konur … þá er það nú einu sinni svo að á fáum stöðum í heiminum – ef einhverjum – er ástandið í þessum málaflokki skárra en hér. Víðast hvar er það mun, mun verra og fer jafnvel versnandi óhugnanlega víða.

Við stöndum í þakkarskuld við þær góðu og hugrökku konur … og karla … sem ruddu brautina, aðallega samt konur. Það er þeim að þakka að í alþjóðlegum samanburði komum við Íslendingar hvað eftir annað einna best þjóða út úr könnunum á því hvar í heiminum sé skást að vera kona með tilliti til kynbundins misréttis á ýmsum sviðum þjóðfélagsins og mannlífsins.

Þessu megum við ekki gleyma þegar við erum að bjástra við að bæta ástandið. Við megum ekki telja okkur trú um að allt sé í ólestri, allt sé glatað og vont og hræðilegt og rosalega mikið og erfitt og þreytandi starf framundan við að mjaka ástandinu í átt til bærilegs horfs. Það er nefnilega ekki þannig.

Okkur miðar hægt áfram … stundum sorglega hægt, en jafnan í rétta átt þó. Því er alls ekki alls staðar þannig farið. Sums staðar er þróunin í hina áttina, ekki bara í löndum sem mín kynslóð ólst upp við að væru grímulaust kölluð „vanþróuð“. Ekki bara í einræðis- og harðstjórnarríkjum og klerkaveldum.

Afturförin

Ef pólsk kona heyrði af því sem virðist vera helsta baráttumál íslenskra kvenréttindakvenna um þessar mundir gæti hún sagt – ef hún kynni íslensku: „Það vildi ég að ég hefði áhyggjurnar yðar.“

Í Póllandi og Tyrklandi vinna stjórnvöld nú að því að rifta samningi Evrópusambandsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum, heimilisofbeldi og nauðungarhjónaböndum. Í Póllandi voru nýlega sett lög um þungunarrof sem skerða mjög yfirráðarétt kvenna yfir þeirra eigin líkama. Í Ungverjalandi er þróunin uggvekjandi.

Í Íran getur unglingsstúlka átt von á því að fara í fangelsi ef hún verður uppvís að því að hafa farið í fóstureyðingu eftir þungun af völdum nauðgunar eða sifjaspella. … Sagði ég Íran? Ég meinti í Bandaríkjunum.

Í Bandaríkjunum er um þessar mundir unnið markvisst gegn kvenréttindum með hertari löggjöf um fóstureyðingar, í 19 ríkjum er nú þegar búið að skerða réttindi kvenna frá því sem áður var.

Kristin gildi

En af hverju er ég að gera þetta að umræðuefni?

Það vakir ekki fyrir mér að reyna að bæta bölið með því að benda á annað verra. Mig langar bara að leggja það til að við höfum opin augu fyrir því sem áunnist hefur og við getum verið þakklát fyrir um leið og við berjumst gegn því sem enn má betur fara þannig að baráttan fari fram á forsendum bjartsýni og vonar frekar en gremju og heiftar.

En þó er ég aðallega að nefna þetta af því að þeir sem harðast ganga fram í baráttunni gegn yfirráðarétti kvenna yfir sínum eigin líkama segjast gjarnan gera það í nafni „kristinna gilda“ og „fjölskyldugilda“. Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að þeir sem túlka „kristin fjölskyldugildi“ með þessum hætti hafi voða lítið kynnt sér orð frelsarans um fjölskylduna eða afstöðu hans til hinna svokölluðu „fjölskyldugilda“ sem við lýði voru þegar hann var á meðal okkar í holdinu.

Í guðspjalli dagsins segir hann: „Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur …“ Á öðrum stað segir hann: „Ég er kominn til að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.“ Þegar hann er í heimabæ sínum, Nasaret, er honum tilkynnt að móðir hans og bræður vilji ræða við hann. Jesús svarar. „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“ Síðan réttir hann út höndina yfir lærisveina sína og segir: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“

Aðför að fjölskyldunni?

Við getum hneykslast á þessari aðför Jesú að þessari grunneiningu samfélagsins sem er fjölskyldan. Það er engu líkara en að hann hafni gildi hennar alfarið og því hljómar það óneitanlega hálfundarlega að kokka upp orðasambandið „kristin fjölskyldugildi“. Enda eiga þessi meintu „kristnu fjölskyldugildi“ mjög fátt sammerkt með kristilegu hugarfari.

Þeir sem harðast ganga fram í því að skerða rétt kvenna til þungunarrofs í nafni „kristinna gilda“ segjast gera það af því að þeir séu svo hlynntir lífinu, „pro-life“ kalla þeir sig. En síðan þegar barnið er fætt dettur þeim ekki í hug að vinna að því að það fái fjárhagsaðstoð ef það býr við örbirgð og að það fái mataraðstoð ef það er vannært er náttúrulega ekkert annað en kommúnismi. Og þó að hægt sé að hræra í landslögum til að tryggja að börn komi í heiminn í algerlega óviðunandi aðstæður hvarflar ekki að þessu liði að breyta lögum í þá átt að skerða rétt brjálæðinga til að kaupa sér hríðskotabyssur og drita þessi sömu börn niður í barnaskólanum þeirra, því það væri svívirðileg árás á frelsi einstaklingsins.

Þetta er sama fólkið.

Það er ekki neitt kristið við þessi gildi. Það er enginn kærleikur í þessari afstöðu. Hún er ekkert nema ofbeldi í garð okkar minnstu systra.

Þetta fólk er nefnilega alls ekki hlynnt lífinu. Það er hlynnt fæðingunni, en eftir hana gæti því ekki staðið meira á sama um hið fædda líf.

Kærleikurinn þykkari en blóð

Jesús er ekki að vega að fjölskyldunni. Hann er einfaldlega að segja að þótt blóð sé þykkara en vatn þá verði kærleikurinn að vera þykkari en blóð.

„Sá sem gerir vilja föður míns er faðir minn og móðir mín, bróðir minn og systir.“ Hann er að segja að skuldbinding okkar við lögmál kærleikans verði alltaf að vega þyngra en skuldbinding okkar við „heiður hússins“.

Gerum það sem rétt er og verum þannig eins og ein stór fjölskylda. Hinir – þeir sem ganga fram með ofbeldi í Jesú nafni, þeir sem skerða yfirráðarétt stúlkna yfir eigin líkama með lögum en standa vörð um aðgengi brjálæðinga að hríðskotabyssum, þeir sem bjóða fórnarlömbum fjöldamorðingja aðeins upp á bænir og hlýjar hugsanir en bágstöddum stúlkum handjárn og tugthús – þeir eru ekki hluti af fjölskyldunni.

Sá sem ekki er með í að leysa vandann er hluti af vandanum, óháð ætt og uppruna.

Og hluti af vandanum sem við erum að glíma við er gremjan og heiftin sem gegnsýrir samfélag okkar þegar kemur að því hvernig við nálgumst það vandamál sem við er að glíma þegar kemur að ólíðandi framkomu í garð kvenna. Ég er ekkert viss um að verri árangur næðist í þeirri glímu þótt við hefðum trú, von og kærleika sem drifkraft okkar í henni.

Að ekki sé minnst á þakklæti fyrir allt það sem við þó höfum fengið áorkað.

Fyrir utan að ég held að okkur liði öllum betur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 13. júní 2021

Kulnun Júdasar

Kulnun Júdasar

 Náð sé með ykkur

öllum og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum heyrði ég íslenskan stjórnmálamann fara með speki sem mig minnir að hann hafi
sagt koma frá Willy Brandt, sem var kanslari Vestur-Þýskalands um fimm ára skeið á síðari hluta seinustu aldar. Vísdómur Willys Brandts var einhvern veginn á þessa leið ef ég man hann rétt: „Sá sem ekki er kommúnisti um tvítugt er illa innrættur. Sá sem er kommúnisti á efri árum er illa gefinn.“

Ég man að stjórnmálamanninum þótti þessi viska kanslarans býsna skondin og fanga það sem að hans mati var heilagur sannleikur. En ég man líka að mér þótti þessi meinta fyndni sorgleg – og mér þykir það enn.

Þetta snýst ekki um eina gerð af hagkerfi gegn annarri gerð af hagkerfi. Þetta snýst um hugsjónir – um að gera ekki trúna á gott og illt, rétt og rangt, að einhverju einfeldningslegu og kjánalegu.

Þarna er því nefnilega lýst sem þroskamerki að gefa hugsjónir sínar upp á bátinn. Að láta drauminn um réttlátt samfélag lönd og leið, að afgreiða frelsi, jafnrétti og bræðralag sem fráleita draumóra. Samkvæmt þessari speki er sá maður að vaxa að visku og þroska sem áttar sig á því að í samfélagi, þar sem allir eru jafnir, hefur hann það ekki betra en aðrir og snýst því frekar á sveif með samfélagi þar sem hann getur olnbogað sig áfram til meiri lífsgæða en hinir njóta á þeirra kostnað. 

Willy Brandt var í mínum huga aðeins að fullyrða að það væri eðlilegt og heilbrigt að samhygð og réttlætiskennd viki fyrir eigingirni og sjálfhyggju með hækkandi aldri. Vissulega má vera að algengt sé að það eigi sér stað, en fyrr skal ég dauður liggja en gangast við því að það sé æskilegt.

Þetta er ekki þroski

Um þetta er notað annað orð sem nú er í tísku: Kulnun.

Júdasarguðspjall

Ástæða þess að þessar hugleiðingar koma upp í huga minn í dag er að guðspjallstextinn sem við heyrðum áðan segir frá manni sem gafst upp á hugsjónum sínum, Júdasi Ískaríot.

Um Júdas hefur margt verið rætt og ritað og ýmsar áhugaverðar og jafnvel skemmtilegar samsæriskenningar og pælingar hafa litið dagsins ljós. Á áttunda áratug síðustu aldar fannst t.d. texti svonefnds Júdasarguðspjalls í Egyptalandi, rits sem reyndar var vitað að til hefði verið enda nefnir Íreneus kirkjufaðir það í riti sínu Adversus Haerases, „Gegn villutrú“, skrifuðu seint á annarri öld.

Þetta orð, „villutrú“, er – ólíkt orðinu „kulnun“ – ekki í tísku nú á dögum. Það hefur á sér ákveðinn fornaldarblæ. En orðið merkir ekki „önnur trúarbrögð en mín“ eins og það hefur oft verið notað. Orðið merkir einfaldlega „trú sem fer villur vegar“, „trú sem villir um fyrir okkur“. Sú trú að rétt sé rangt og rangt rétt
er villutrú. Trú sem gerir dyggð að synd og synd að dyggð er villutrú.

Júdasarguðspjall hafði verið talið glatað að eilífu og vakti fundur þess því nokkra athygli. Samkvæmt því – eða alltjent einum túlkunarmöguleika þess – var Júdas hreint enginn svikari heldur einmitt sá lærisveinn sem Jesús treysti best og sá eini sem hann treysti til að framkvæma skítverkið sem vinna þurfti til að
ráðsályktun Guðs gæti náð fram að ganga.

Júdasarguðspjall er í raun aðeins eitt fjölmargra gnóstískra rita frá þessum tíma sem draga upp mynd af Jesú sem er mjög frábrugðin þeirri sem guðspjöll Nýja testamentisins sýna. Þessi rit skipta tugum. Í mörgum þeirra hvíslar Jesús einhverjum meintum algildum sannleik í eyru útvalins fulltrúa. Stundum er þessi sannleikur, einsog til dæmis í Opinberun Péturs sem er frá svipuðum tíma og Júdasarguðspjall, lítið annað en grafískar lýsingar á misþyrmingunum og pyntingunum sem bíða syndara eftir dauðann. Ekkert bendir til þess að svonefnt Júdasarguðspjall sé minni markleysa en hin ritin úr þessum flokki.

Hver er svo sekur?

En spurningin er aftur á móti fullgild: Ef Jesús þurfti að deyja á krossi til að geta risið upp í mætti og dýrð til að frelsa okkur … var þá Júdas ekki að vinna gott verk? Var hann ekki handbendi Guðs í framgangi hjálpræðisverksins?

Svarið er nei.

Sagan um Rauðhettu hefði varla verið í frásögur færandi ef enginn úlfur hefði verið í skóginum – en það gerir úlfinn samt ekki að góða gæjanum í sögunni. Sömuleiðis er áreiðanlegt að í Hogwarts hefði verið daufleg vist fyrir Harry Potter og félaga ef Voldemort hefði hvergi verið á sveimi, en samt er auðvitað fráleitt að ætla að gera úr „honum sem ekki má nefna“ eitthvað annað en rakið illmenn

Júdas brást. Júdas sveik Jesú

Hann var ekki með í ráðum um neitt, hann vissi ekki betur en að hann væri að framselja vin sinn til dauða – fyrir peninga

Í Postulasögunni segir að Júdas hafi keypt sér búgarð fyrir peningana en steypst þar á höfuðiðsvo hann brast í sundur í miðju. Þannig er gefið í skyn að greiðslan hafi verið dágóð fjárhæð, dugað fyrir vænni bújörð með reisulegum byggingum. Við getum kallað það „fjárhagslegt sjálfstæði“ sem hann fékk að launum fyrir svikin. En það dugði honum þó auðvitað skammt því laun syndarinnar eru dauði.

Að gefast upp

Það sem gerir þetta sorglegt er ekki síst sú staðreynd að ástæðulaust er að efast um heilindi ogeldmóð Júdasar í fyrstu. Hann hafði gengið til liðs við Jesú frá Nasaret af heilum hug, brennandi í andanum. Þær fórnir sem færa þurfti, þjóðfélagsstaða og veraldleg gæði sem gefa þurfti upp á bátinn til að geta fylgt meistaranum frá Nasaret, útiloka að á bak við þá afdrifaríku ákvörðun hafi verið eitthvað annað en eldföst hjartans sannfæring.

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá því að Júdas hafi reiðst þegar kona nokkur smurði fætur Jesú með rándýrum smyrslum og spurt af hverju þau hafi ekki verið seld og andvirðið gefið fátækum. Þar talar maður gagntekinn af heilagri réttlætiskennd og samúð með lítilmagnanum.

Í Lúkasarguðspjalli segir frá því að auðugur maður hafi komið til fundar við Jesú og viljað fylgja honum, en Jesús sagði honum að fara fyrst og selja allar eigur sínar og skipta því meðal fátækra. Við það varð sá ríki hryggur, því það var stærri fórn en hann var fær um að færa. Þá segir Pétur við Jesú: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“ (Lúk 18.22-28)

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“

„Við“ hverjir?

Við postularnir. Þar á meðal Júdas Ískaríot.

Við vitum ekkert um það hvað Júdas hafði yfirgefið. Flestir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að eftirnafn hans, Ískaríot, merki einfaldlega „maður frá Keríjót“ sem var þorp í Júdeu. Hann hefur væntanlega verið kallaður „Júdas Keríjótverji“ til aðgreiningar frá hinum Júdasinum í postulahópnum, Júdasi Jakobssyni. (Lúk 6.16) Júdas frá Keríjót var sonur Símonar frá Keríjót, (Jóh 6.71) en Júdas var feykilega algengt nafn í Palestínu á þessum tíma eins og fjöldi heimilda ber vott um – og Símon reyndar líka. Þannig að ekkert illt eða djöfullegt er við Júdas Símonarson, það hefur verið nánast eins og heita Jón Jónsson í dag eða vera kallaður Jón Akureyringur til aðgreiningar frá Jóni Sig.

Og þótt ritningin fullyrði ítrekað að Jesús hafi vitað að Júdas myndi svíkja sig, nánast eins og það hafi allan tímann verið partur af „stóra planinu“ og gerst með velþóknun hans, þá stafar það líklega af því að ótrúverðugt hefði verið að syni Guðs – eins og orðasambandið var skilið bókstaflega – væri nokkuð hulið, að hægt væri að koma honum að óvörum.

Einn hinna tólf

Í Matteusarguðspjalli er nefnileg texti sem varpar öðru ljósi á Júdas. Þar segir Jesús: „Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matt 19.28-29)

„Þið sem fylgið mér … núna þegar þessi orð eru töluð … munuð sitja í tólf hásætum. Hver sem hefur yfirgefið heimili, fjölskyldu og eigur til að fylgja mér … mun öðlast eilíft líf.“ Þegar þessi orð eru mælt er Júdas Ískaríot einn hinna tólf og hafði yfirgefið allt sem hann átti, eins og hinir ellefu, til að fylgja Jesú. Þarna talar ekki Jesús sem grunar að einn hinna tólf muni snúast gegn honum.

Þegar þessi orð eru töluð hafði Júdas Ískaríot ásamt hinum postulunum ellefu farið víða, boðað fagnaðarerindið, læknað sjúka og rekið út illa anda í Jesú nafni með góðum árangri, Júdas Ískaríot ekki með minni árangri en kollegar hans – að minnsta kosti er þess hvergi getið, sem er einkennilegt í ljósi þess hve klifað er á því fyrirfram að Júdas ætti eftir að bregðast.

Júdas var innvígður í nánasta hring Jesú frá Nasaret. Hann var jafnmikið einn hinna tólf og allir hinir, ekkert tortryggilegri eða vafasamari karakter en þeir, ekkert verr til þess fallinn að boða fagnaðarerindið, lækna sjúka og reka út illa anda en hinir ellefu. Hann hafði fært nákvæmlega sömu fórnir og hinir ellefu fyrir nákvæmlega sömu hjartans hugsjón.

Jesús treysti honum.

Og hann sveik hann.

Kulnun

Hvað veldur því að maður sem hefur yfirgefið allt sem hann átti til að fylgja hugsjón sinni um samfélagslegt réttlæti, um mannlega reisn hinna smæstu og smáðu, um líkn hinna sjúku og þjáðu, svíkur leiðtoga sinn í hendur ógnarstjórnarinnar sem traðkaði á þjóð hans, í skiptum fyrir kósí líf með litlum áhyggjum?

Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu, en við getum hvert og eitt velt því fyrir okkur hvernig okkur sjálfum hefur haldist á eldmóði okkar úr æsku, hve vel okkur hefur gengið að fylgja sannfæringu hjarta okkar í gegnum súrt og sætt, í meðbyr og andstreymi, að kulna ekki í andanum heldur standa stöðug í trúnni á það sem er satt og rétt.

Það er erfitt.

Ég hugsa að öll höfum við einhvern tímann guggnað, eða að minnsta kosti gælt við þá tilhugsun að snúa baki við streðinu og erfiðinu sem því fylgdi að hlýða rödd hjartans og finna í staðinn þægilegri leið. Ég held að flest höfum við velt því fyrir okkur hve mikið við gætum boðið samvisku okkarán þess að bugast.

Við getum látið sagnfræðilegan áreiðanleika þessarar frásagnar liggja algerlega á milli hluta, enda er hún ekki um einangraða atburði sem áttu eða áttu sér ekki stað í fjarlægum heimshluta einhvern tímann í fyrndinni.

Þessi frásögn er um eilífan trúarlegan sannleika, um hið mannlega hlutskipti, um mannlega reynslu, um mannssálina. Hún er um álag mennskunnar. Hún er um okkar eigin innri Júdas Ískaríot. Hún er um það að ekkert okkar er yfir það hafið að geta kiknað … kulnað.

Og Júdas Ískaríot hefði getað útskýrt og réttlætt viðsnúning sinn með hótfyndni að hætti Willys Brandts og sagt eitthvað á borð við: „Sá sem ekki fylgir Jesú þegar hann er ungur er illa innrættur. Sá sem ekki svíkur hann fyrir þrjátíu silfurpeninga þegar hann er eldri að árum er illa gefinn.“

En það er ekki kristindómur.

Það er villutrú.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í útvarpsmessu frá Laugarneskirkju á skírdag 2021

Barrabas páfi

Barrabas páfi

Guðspjall: Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“ Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“ Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“ Þeir svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ … Að svo mæltu gekk [Pílatus] aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum. Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“ Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi. (Jóh 18.28 – 31, 38b – 40)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni sá ég ljósmynd sem mér þótti skondin. Eða öllu heldur þá þótti mér myndatextinn við hana dálítið skemmtilegur. Myndin sýndi páfann í Róm á leiðinni til messu. Hann var í fullum skrúða, með mítur, bagal, biskupskápu og allt sem einn páfi getur skrýtt sig með og ég kann ekki full skil á, allt í gulli og blúndum. Myndatextinn var eitthvað á þessa leið í minni þýðingu: „Þarna er páfinn í Róm í glæsilegri, gylltri siffon-kápu við gasalega lekkeran, gylltan blúndu-kvöldkjöl, með háan, gulllitan hatt og í rúbínrauðu skónum hennar Judy Garland úr Galdrakarlinum í Oz á leiðinni í kirkjuna til að segja okkur að það sé ljótt að vera hinsegin.“

Ég treysti því að hinseigin vinir mínir hafi húmor fyrir stereótýpunni sem þarna er verið að leika sér með.

Skrúði og skinhelgi

Sjálfsagt á hvert klæði sem hengt er á páfann og hver hlutur sem hann ber með sér og tilheyrir skrúða hans sína sögu, tilgang og merkingu. Og ég er sannfærður um að engu af því sé beinlínis ætlað að vera tákn tvískinnungs og hræsni þótt framganga þeirra sem skrýðst hafa þessum skrúða til þessa hafi gert það að verkum – alltjent þegar kemur að afstöðunni til hinsegin fólks – að hann standi fyrir lítið annað en yfirdrepsskap og skinhelgi.

Sjálfur stend ég hér frammi fyrir ykkur í skrúða, ekki nándar nærri eins tilkomumiklum og þeim sem páfinn í Róm klæðist, en hver hlutur hefur táknræna merkingu sem ég reyni einlæglega eftir mínum veika mætti að láta stjórna orðum mínum og framgöngu.

Hvíti kuflinn eða sloppurinn sem ég er í nefnist alba og hann hylur persónulegan fatnað minn til að sýna að ég stend ekki frammi fyrir ykkur í krafti minnar eigin persónu heldur hans sem sendi mig.

Ég er með stólu á öxlunum, sem lítur kannski svolítið út eins og gagnslaus trefill. Hún er tákn vígslu minnar, stendur fyrir byrði þess embættis sem ég er vígður til að þjóna. Hún er eins og klafi á uxa, nema hvað hún vegur nákvæmlega 250 grömm. Ég veit það af því að ég skellti henni einu sinni á eldhúsviktina heima hjá mér. Enda er henni ætlað að minna á orð frelsarans þegar hann sagði: „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.30)

Loks er ég með snúru um mittið til að merkja mig sem lærisvein Jesú sem sagði við þá: „Verið girtir um lendar yður.“ (Lúk 12.35)

En út frá þessu mætti sjálfsagt gera svipað grín að mér og þarna er gert að páfanum. Og það er líka allt í lagi. Ef einhver getur bent á tvískinnung í fari mínu eða ósamræmi á milli orða minna og gjörða þá hef ég bara gott af því að vera núið því um nasir.

Lög og regla

En þessi mynd af páfanum kom óneitanlega upp í huga minn þegar ég hugleiddi guðspjallstexta dagsins. Hann byrjar nefnilega á þessari einföldu setningu sem auðvelt er að láta framhjá sér fara, en hún afhjúpar með miskunnarlausum hætti hræsni og skinhelgi ofækjenda Jesú:

„Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar.“

Pílatus var nefnilega heiðingi og gyðingar trúðu því að þeir „saurguðust“ ef þeir gengu undir þak heiðingja. Það stóð skýrum stöfum í lögmálinu sem þeir trúðu á. Og þessir fínu menn ætluðu sko ekki að eyða sjálfri páskahátíðinni í einhverri sóttkví út af svoleiðis vangá, heldur hugðust þeir taka fullan þátt í gleðinni og veisluhöldunum. Þess vegna gættu þeir þess að standa fyrir utan og ræða við Pílatus þar.

Auðvitað má láta það fara í taugarnar á sér að sagan er væntanlega uppspuni, ef ekki frá rótum þá að minnsta kosti að verulegu leyti. Við vitum að sá Pontíus Pílatus sem guðspjallamaðurinn Jóhannes lýsir á mjög lítið skylt við þá blóðþyrstu og miskunnarlausu skepnu sem aðrar heimildir lýsa sem hinni sögulegu persónu Pontíusi Pílatusi. Sá gaur hefði séð litla ástæðu til að þvo hendur sínar af blóði sakleysingja, hvað þá að það hefði hvarflað að honum að eiga orðaskipti við dauðadæmdan lágstéttargyðing. En látum sagnfræðilegan áreiðanleika frásagnarinnar liggja á milli hluta, enda skiptir hann ekki nokkru máli. Jóhannes er að segja okkur helgisögu mettaða merkingarþrungnum trúartáknum, ekki sagnfræðilega nákvæma lýsingu á raunverulegum atburðum.

Rétt og rangt

En þessir gyðingar ganga semsagt á fund rómverska landstjórans og eru trúir sínu lögmáli með því að ganga ekki undir þak hans heldur ræða við hann fyrir utan húsið hans. Og hvert er erindi þeirra til landstjórans? Jú, að láta taka saklausan mann af lífi.

Þannig var nú þeirra skilningur á lögmálinu – á réttu og röngu.

Þegar Jesús var spurður að því hvert væri æðsta boðorðið svaraði hann aftur á móti: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætir hann við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Þetta er lögmál Jesú.

Það var hins vegar lítið pláss fyrir kærleikann í lögmáli þeirra sem vildu Jesú feigan. Þeirra lögmál var of undirlagt af helgisiðum og hreinleikaákvæðum til að þar rúmaðist arða af náungakærleik. Svona svipað eins og Rómarkirkjunni þykir mikilvægara skrýða og gylla páfann sinn eftir öllum hinum réttu kúnstarinnar reglum heldur en að taka upp hanskann fyrir þá sem ofsóttir hafa verið í gegnum aldirnar fyrir það eitt að elska vitlaust – að mati þeirra sem telja sig hafa einkarétt á að skilgreina hverja megi elska hvernig þannig að það sé Guði þóknanlegt.

Nei, þeir töldu sig vera að gera hárrétt með því að standa fyrir utan á meðan þeir kröfðust dauðarefsingar yfir Jesú. Og það sem meira er, þegar Pontíus Pílatus stakk upp á því að Jesús yrði náðaður samkvæmt einhverri hefð um að náða einn dauðadæmdan mann fyrir hverja páskahátíð, þá mótmæltu þeir og vildu frekar Barrabas. Um Barrabas er lítið vitað en í guðspjallinu segir: „Barrabas var ræningi.“

Þeir vildu frekar að landsstjórinn náðaði heiðarlegan þjóf heldur en skaðræðisskepnuna Jesú frá Nasaret.

Hvernig skyldi standa á því?

Heiðarlegur þjófur

Heiðarlegur þjófur eins og Barrabas ógnaði aðeins buddunni þeirra. Það var pláss fyrir hann í samfélaginu, tilvera hans kom heim og saman við heimsmynd þeirra og sjálfsmynd. Hann var ekki að hræra í hausnum á þeim eins og Jesús gerði. Hann var ekki að ögra og storka heimsmynd þeirra, sjálfsmynd og gildismati.

Barrabas var ekki með neinar meiningar um að það saurgaði menn kannski meira að hafa blóð sakleysingja á höndum sér heldur en að ganga undir þak heiðingja.

Barrabas var ekkert að snúa lögmálinu þeirra um rétt og rangt á hvolf eins og Jesús gerði. Barrabas hafði ábyggilega aldrei fullyrt að það sem menn létu út úr sér saurgaði þá kannski meira en það sem þeir létu ofan í sig. Enda var ekkert gott að heyra það fyrir menn sem byggðu allar hugmyndir sínar um sitt eigið ágæti á því hvað þeir voru duglegir við að leggja sér hvorki skinku né rækjur til munns á milli þess sem þeir, lugu, sviku, stálu, baktöluðu og hóruðust eins og enginn væri morgundagurinn.

Og kannski erum við svona enn þann dag í dag.

Við skiljum ræningjann. Hann stjórnast af kenndum sem við könnumst við. Þótt við flest hver reynum að láta þær ekki stjórna gjörðum okkar þá er það að girnast eigur náungans okkur flestum ekkert mjög framandi tilfinning, hvað þá óskiljanleg.

Hinn gæinn er miklu óþægilegri. Sá sem segir okkur að allt sem við trúum, allt sem við stöndum fyrir, allt sem við höfum byggt sjálfsmynd okkar og sjálfsskilning á sé reist á sandi. Að sjálfsvirðing okkar sé sjálfsblekking. Sá sem boðar breytingar sem kynnu að kippa fótunum undan tilveru okkar … við viljum losna við hann.

Ógnvaldar og meinleysingjar

Ef okkur til dæmis finnst og hefur alltaf fundist það eðlilegasti hlutur í heimi að strákar séu nú einu sinni og verði alltaf strákar og verði því að fá að komast upp með framkomu sem kannski í ströngum skilningi er röng og stelpur verði bara að sætta sig við það – þá finnst okkur kannski óþægilegt að skyndilega hætti samfélagið bara eins og hendi sé veifað að samþykkja það. Og þegar farið er að hanka menn á gömlum syndum getur farið um okkur, ég tala nú ekki um ef við höfum sjálfir eitthvað á samviskunni í þessum efnum … sem ég held að ótrúlega margir okkar hafi, misalvarlegt og misilla meint auðvitað – en hinir algerlega syndlausu meðal okkar held ég að séu fáir ef einhverjir.

Þá er ógnin kannski orðin miklu meiri við okkur og líklegri til að kippa undan okkur fótunum heldur en ef einhver myndi bara nappa veskinu okkar.

Við verðum alltaf að vera með gildismat okkar, skilning okkar á réttu og röngu, því hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi, í stöðugri endurskoðun.

Ef við gerum það ekki þá endum við kannski á því að líta svo á að við séum að gera rétt með því að gæta þess að vera í nógu flottum jakkafötum þegar við förum í nógu fínu vinnuna okkar í nógu virðulega bankanum til að stunda þar stórfellda fjársvika- og blekkingastarfsemi, innherjasvik og skjalafals, sem er ekkert annað en stórfelld, lögvernduð ræningjastarfsemi og kemur öllum okkar minnstu bræðrum og systrum á vonarvöl þegar bólan springur og allt hrynur til grunna.

Nú eða að vera í réttu gullblúndunum og gyllta kjólnum okkar þegar við bendum fordæmandi fingri á aðra fyrir að elska vitlaust – í nafni trúar sem kjarnann í má draga saman í tvö orð: „Elskaðu náungann.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. 3. 2021

Aðventustund barnanna

Aðventustund barnanna

Hér má sjá fyrsta þátt Aðventustundar barnanna sem er hlýr, notalegur og já, jólalegur þáttur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Fram koma meðal annars Barnakór Langholtskirkju sem syngja inn jólaskapið. Rebbi og Mýsla missa að sjálfsögðu ekki af því og mæta í heimsókn.
Aðventustund barnanna er samstarfsverkefni Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju og hvern sunnudag á þessari aðventu kemur nýr þáttur. Njótið vel!


Nýtt Laugardalsprestakall

Nýtt Laugardalsprestakall

Nú í byrjun október  urðu breytingar á skipulagi kirkjustarfs í hverfunum við Laugardal en samkvæmt ákvörðun kirkjuþings varð til nýtt prestakall þriggja sókna í stað þeirra þriggja prestakalla sem áður höfðu hvert um sig innifalið eina sókn.    Í nýju Laugardalsprestakall eru sóknirnar þrjár við Laugardal : Ássókn, Langholtssókn og Laugarnessókn. 

Sameiningunni er ætlað að auka samvinnu og samstarf sóknanna þriggja sem og og starfsfólks safnaðanna eftir því sem samkomulag verður um og er talið þjóna kirkjulegri þjónustu á svæðinu sem best. 

Áfram munu fimm prestar og einn djákni þjóna prestakallinu og verða starfsstöðvar þeirra þær sömu og áður. 

Guðbjörg Jóhannesdóttir er sóknarprestur hins nýja prestakalls og hefur starfsstöð í Langholtskirkju sem og Aldís Rut Gísladóttir prestur.  Sigurður Jónsson prestur og Jóhanna María Eyjólfsdóttir djákni hafa starfsstöð í Áskirkju.  Davíð Þór Jónsson prestur og Hjalti Jón Sverrisson prestur hafa sem fyrr starfsstöð í Lauganeskirkju. 

Von er að fólk velti því fyrir sér hver munur á prestakalli og sókn sé. 

Í stuttu máli má segja að prestakall sé skipulagseining sem er vettvangur samvinnu um kirkjulega þjónustu vígðra starfsmanna sóknanna. Í prestakalli er einn sóknarprestur og einn eða fleiri prestar sem og einn eða fleiri djáknar.  

Sókn er hins vegar  grunneining þjóðkirkjunnar og eru sóknirnar í landinu á þriðja hundrað.  Hverri sókn er stýrt í samvinnu sóknarprests og prestsa eða presta og sóknarnefndar sem kosin er á aðalsafnaðarfundi sóknarinnar, en í sóknarnefnd sitja óvígðir safnaðarmeðlimir.

Formaður Ássóknar er Kristján Guðmundsson, í Laugarnesi er það Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir sem er formaður og í Langholti Elmar Torfason.  Því er enn um þrjár sjálfstæðar sóknir að ræða í hinu nýja prestakalli, þar sem ólík menning og áherslur búa til fjölbreytileika og aukna vídd.

Eitt af meginmarkmiðum þessarrar breytingar, sem biskup Íslands kynnti í vísitasíu sinni í prófastsdæminu 2018, er að auka samvinnu prestanna á svæðinu.  Prestarnir í Laugardalsprestakalli munu því frá áramótum þjóna til skiptis við sunnudagshelgihaldið í kirkjunum, og leysa hvern annan af um helgar.  Þetta þýðir að hálfsmánaðarlega messar sami prestur tvisvar sama sunnudaginn.  Af því leiðir að breyta þarf messutímanum á a.m.k. einni af kirkjunum þremur.  Áskirkja ríður á vaðið og mun messutíminn þar frá og með næstu áramótum færast fram til kl. 9:30, og á sú breyting einnig við um sunnudagaskólann í Áskirkju.  Því mun sá prestur, sem messar í Áskirkju kl. 9:30, einnig messa ýmist í Langholtskirkju eða Laugarneskirkju sama dag kl. 11:00.

Raddir sóknarfólksins eru mikilvægar í þessu breytingarferli og hugmyndir vel þegnar.  Um leið og aðstæður leyfa munum við hringja til sameiginlegrar stofnmessu prestakallsins sem og kynningarfunds þar sem spáð yrði í framtíðina.

Það er von okkar allra, starfsfólks og sjálfboðaliða í hinu nýja prestakalli að sameiningin gefi tækifæri til frekara samstarfs og samvinnu.  Bent er á heimasíður sóknanna fyrir upplýsingar um starfsemi í hverri sókn fyrir sig.

www.askirkja.is

www.langholtskirkja.is

www.laugarneskirkja.is