Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

 Guðspjall: Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“ Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“ (Matt 21.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Dramb er falli næst,“ segir gamalt og gott máltæki. Þetta er dæmi um biblíulega speki sem hrist hefur af sér uppruna sinn og tekið sér bólfestu í menningararfi okkar og vitund. Ég er ekki viss um að margir sem henda þessa speki á lofti geri sér grein fyrir því að með því eru þeir að vitna beint í Gamla testamentið, í Orðskviðina, 16. kafla vers 18. „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“ Þessi speki er ekki bundin við gyðingdóm eða kristni. Það er eins og það sé inbyggt í okkur mennina að dramb og hroki hljóti að hefna sín, að vissara sé að mæta heiminum og lífinu með ákveðinni auðmýkt og muna að það er ekki alltaf í okkar höndum hvernig fer.

Grikkir áttu sér hugtakið „hubris“ og hinir klassísku grísku harmleikir ganga jafnan út á það hvernig „hubris“ aðalsöguhetjunnar, oftrú hennar á eigin mátt og megin, eigið ágæti og ósigranleika, verður henni að falli.

Styrkur í auðmýkt

En það er dálítið skrýtið að hugmynd sem er svona rótgróin í menningararfleifð okkar og skynjun, hugmynd sem allir þekkja, skuli vera svona mörgum – sem á henni þurfa að halda – lokuð bók. Við höfum fyrir framan okkur nú í dag sorglega mörg dæmi um menn … undantekningalaust karlmenn … sem eru að glíma við að reyna að bjarga mannorði sínu og æru með öllum vitlausu verkfærunum, með hroka og afneitun, þegar það eina sem þeir þyrftu að gera til að fá uppreist æru að er að sýna smávegis auðmýkt.

Það er nefnilega styrkur í auðmýktinni. Maður þarf að hvíla býsna vel í sjálfum sér til að geta sýnt einlæga auðmýkt, að finnast maður ekki setja niður þótt maður lúti höfði í auðmýkt. Vera kann að einhverjum þyki það niðurlægjandi, en ef maður er í öruggum tenglsum við sína eigin sál, þá missir maður ekki svefn yfir því hvað einhverju fólki úti í bæ kann eða kann ekki að finnast um mann.

Það að þurfa að hanga á stolti sínu eins og hundur á roði hvað sem á dynur bendir einmitt til mikils óöryggis. Sá sem er svo háður því hvað öðrum finnst um hann að hann getur ekki á heilum sér tekið ef einhver skuggi fellur á það, hann er bara lítill og hræddur karl – ekki stór og sterkur eins og stolt hans telur honum trú um. Sá sem byggir sjálfsmynd sína á stolti byggir hana á sandi, því það er auðvelt að særa stolt. Það getur hver sem er gert. Heilbrigða sjálfsvirðingu getur aftur á móti enginn sært – nema maður sjálfur.

Konungur konunganna

Í þekktri og vinsælli sjónvarpsþáttaröð hér um árið féll setning sem geymir mikinn sannleika þegar að er gáð: „Any man who must say ‚I am the king‘ is no true king.“ „Sá sem verður að segja: ‚Ég er kóngurinn‘ er ekki sannur konungur.‘

Sá sem raunverulega er konungur þarf nefnilega ekki að tilkynna öðrum það, hann þarf ekki að hefja sig á stall sjálfur eða setja sig á háan hest – ef hann er sannur konungur fer það ekkert á milli mála.

Jesús setur sig ekki á háan hest. Hann setur sig á asna. Og er fagnað sem konungi.

Í guðspjalli dagsins kemur Jesús ríðandi í auðmýkt inn í Jerúsalem og múgurinn fagnar honum. Fólk breiðir klæði sín á veginn og aðrir höggva greinar af trjám og leggja þær á veginn. Þessi mynd er mjög sterk, en raunveruleg merking hennar, táknin sem hún er full af, eru horfin okkur í móðu tímans.

Hvað þýðir það að taka svona á móti manni sem ríður inn í borgina? Hverjum er fagnað á þennan hátt? Svarið er: Sigursælum hershöfðingja sem snýr heim úr farsælli herferð. Svona tóku Rómverjar á móti sínum hershöfðingjum þegar þeir sneru aftur til Rórmar eftir glæsta hernaðarsigra. En þeir riðu ekki ösnum. Þeir riðu stríðsfákum.

Það er áhugavert að Jesús fer allra sinna ferða fótgangandi í frásögnum Nýja testamentisins. Hann þiggur aldrei far eða sest upp á reiðskjóta. Jafnvel þegar hann fer yfir vatnið … þá fer hann að vísu á báti … en jafnvel þar getur hann gengið á vatninu. Jesús er hinn fótgangandi vegfarandi.

Aðeins einu sinni sest hann upp á reiðskjóta – þegar hann kemur ríðandi inn í Jerúsalem eins og konungur. Það er áreiðanlega engin tilviljun. Það þjónar tilgangi. Það dregur upp mynd.

Mynd sem er sótt beint í Spádómsbók Sakaría og vitnað er í í Guðspjallinu: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ (Matt 21.5)

Myndin úr menningararfinum

Fólkið sem fagnaði Jesú vissi nákvæmlega hvað það var að gera, það þekkti myndina sem það var að horfa á – hún var gróin inn í vitund þeirra, rótgróinn hluti af menningararfi þeirra – og hún var fyrirheit. Fyrirheit um betri tíma, fyrirheit um bjartari framtíð. Betri konung.

Þáverandi konungur Gyðinga, Heródes, var gerður konungur af öldungaráði Rómar. Það lét honum í té rómverskar hersveitir til að tryggja undirgefni þegnanna. Eftir dauða hans útnefndu rómverskir landstjórar æðstuprestana sem lögðust á eitt með Rómverjum að bæla niður hvers konar uppþot og óeirðir. Rómverjar höfðu gert musterið að verkfæri sínu og leiðtoga Gyðinga að þjónum til að treysta veldi sitt, annast skattheimtu og innleiða menningu sína. Og hér kemur Jesús, klipptur út úr spádómunum, út úr menningararfi þjóðarinnar, og ögrar öllu sem valdhafar höfðu verið að vinna að.

En ákafa múgsins … og ugg valdhafanna … má líka útskýra með því einu að halda áfram að lesa Spádómsbók Sakaría. Hvað gerir þessi hógværi og lítilláti konungur sem kemur inn í Jerúsalem á asna? Lesum áfram: „Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem.” Semsagt: Herinn burt! „Öllum herbogum verður eytt. Hann mun boða þjóðunum frið og ríki hans mun ná frá hafi til hafs.“ (Sak 9.10) 

Þetta var ekki alveg sú framtíðarmynd sem Rómverjar og leiguþý þeirra meðal ráðamanna Gyðinga sáu fyrir sér.

Og þótt Sakaría tali um að konungurinn muni boða þjóðunum frið, þá verður það ekki gert með ýkja friðsælum hætti. Hann heldur áfram: „Ég spenni Júda eins og boga, fylli Efraím sem örvamæli, vek upp syni þína, Síon, … og geri úr þér sverð í garps hendi. Yfir þeim birtist Drottinn, örvar hans fljúga sem eldingar.“ (Sak 9.13-14a)

Stríðsyfirlýsing

Innreið Jesú í Jerúsalem er ekkert minna en stríðsyfirlýsing. Við þurfum ekkert að ímynda okkur að múgurinn sem fagnaði Jesú og valdhafarnir, sem stóð stuggur af honum, hafi ekki þekkt alla myndina sem Sakaría hafði dregið upp og vitað nákvæmlega hvað var í vændum.

Hvað gerir Jesús líka? Hvernig er næsta setning í Guðspjallinu eftir að lestri dagsins sleppir? Hún er svona: „Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þið gerið það að ræningjabæli.“ (Matt 21.12-13)

Jesús og fylgismenn hans hertaka musterið, miðstöð hins trúarlega valds og loka á gróðabrall æðstu prestanna sem okur á fórnardýrum í musterinu var. Og þetta gerir hann í vikunni fyrir páska … aðalvertíðinni. Þetta er eins og að ráðast á Kringluna og loka henni á svörtum föstudegi.

Og hann fer að kenna í musterinu. Og hvað kennir hann? Hann kennir að tollheimtumenn og skækjur verði á undan æðstu prestunum og öldungunum inn í Guðs ríki. (21.32) Og hann vandar fræðimönnunum og faríseunum, góðborgurunum í samfélaginu, ekki kveðjurnar heldur: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ segir hann. „Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis.“ (Matt 23.27-28)

Þetta var Jesús að kenna í musterinu þeirra. Auðvitað urðu þeir að koma þessum manni fyrir kattarnef. Hann var stórhættulegur fyrir gróðabrallið og espaði fólk upp gegn yfirvaldinu. Fyrir utan það náttúrlega hvað hann var slæmur fyrir stoltið.

Niðurlag sögunnar þarf ekki að tíunda. Við vitum öll hvernig hún endaði. Lýðnum var snúið gegn Jesú, hann var tekinn af lífi á hægan og kvalafullan hátt – en hann reis upp frá dauðum því sannleikurinn verður ekki drepinn hvernig sem handhafar lyginnar reyna. Hann rís alltaf upp aftur.

Stolt eða reisn

Og hvað með það? Hvað kemur þessi saga okkur við – í öðrum heimshluta 2000 árum síðar?

Kannski er það bara það að þrátt fyrir allar framfarir, þrátt fyrir það hve þekkingu okkar og tækni hefur fleygt fram og þrátt fyrir allt það sem á daga mannkynsins hefur drifið á þessum 2000 árum þá virka hjörtu mannanna nokkurn veginn eins nú og þá.

Við greinum styrk í auðmýkt. Við löðumst að henni og treystum þeim sem færir eru um að sýna hana í einlægni. Þeir glata ekki reisn sinni með því heldur þvert á móti, þeir styrkja hana.

Við greinum líka óttann og smæðina í hrokanum og yfirlætinu. Slíkt fælir okkur frá. Við getum óttast hina hrokafullu og stærilátu, en við berum ekki virðingu fyrir þeim. Virðing er áunnin, ekki fyrirskipuð.

Og þess vegna skulum við líta í okkar eigin barm. Hangi ég á stolti mínu eins og hundur á roði eða byggi ég sjálfsmynd mína á traustari grunni, á heilbrigðri sjálfsvirðingu sem rúmar auðmýkt? Feta ég í fótspor hans sem reið eins og sigursæll herforingi inn í borgina á asna eða gengst ég upp í því að sýnast góður fyrir sjónum manna – eins og hvít, kölkuð gröf?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 28. 11. 2021

Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Eins og öllum ætti að vera kunnugt voru sóttvarnarreglur nýlega hertar verulega og munu þær reglur sem nú eru við lýði gilda a.m.k. til 8. desember. Fjöldi þeirra sem koma mega saman er nú takmarkaður við 50 manns, en það setur okkur í Laugarneskirkju ákveðnar skorður varðandi tilhögun á helgihaldi og það hvernig við heilsum aðventunni.

Af þeim ástæðum höfum við í Laugarneskirkju ákveðið eftirfarandi.

  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) Aðventukvöldi, sem um áraraðir hefur verið einn stærsti og best sótti viðburður vetrarstarfsins, verður að þessu sinni frestað. Í stað þess að halda það 1. sunnudag í aðventu, eins og venjan er, verður það 3. sunnudag í aðventu, þ.e. 12. desember kl. 20. Kórinn okkar flytur metnaðarfulla söngdagskrá, góður gestur flytur hugvekju og fermingarbörn lesa kertabænir. Við vonumst til að sjá sem flesta í kirkjunni.
  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) jólaballi, sem venjan er að halda 2. sunnudag í aðventu, verður frestað til 12. desember kl. 11. Samveran byrjar á stuttri og léttri helgistund, en síðan ganga allir niður í safnaðarheimili þar sem dansað verður í kringum jólatréð og jólalög sungin. Boðið verður upp á eitthvað góðgæti og hver veit nema jólasveinar kíki í heimsókn.
  • Helgihald verður með eins hefðbundnum hætti og mögulegt er næstu vikur. Fari fjöldi þeirra sem vilja vera við messu yfir leyfileg mörk verður guðsþjónustunni streymt niður í safnaðarheimili þar sem hægt er að njóta hennar á stóru tjaldi. Eru þá tvö aðskilin „hólf“ í kirkjunni. Skrá verður þá sem mæta, grímuskylda er í kirkjunni og hvatt er til handsprittunar.
  • Sunnudagaskólinn verður með hefðbundnu sniði, en verður hugsanlega fluttur inn í gamla safnaðarheimilið undir kirkjunni, ef nauðsyn krefur.
  • Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á kirkjukaffi að guðsþjónustu lokinni á meðan þessar ströngu sóttvarnarreglur eru í gildi.
  • Opið hús í Áskirkju (sameiginlegt eldri borgara starf Ás- og Laugarnessókna) verður á breyttum tíma. Stundirnar hefjast með tónlist og helgistund kl. 1 en ekki kl. 12 eins og venjulega. Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á málsverð, en samveran á eftir verður með hefðbundnu sniði.
  • Sóttvarnarreglurnar ættu ekki að hafa áhrif á aðra starfsemi. Helgistundir í Félagsmiðstöðinni Dalbraut 18 – 20 og í Hásalnum, Hátúni 10, verða með hefbundnu sniði og sömuleiðis foreldrasamverur í safnaðarheimilinu á miðvikudagsmorgnum á milli 10 og 12.

Auðvitað finnst okkur súrt í broti að þurfa að skerða starfið okkar, en nú ríður á að allir sýni ábyrgð til að ná megi faraldrinum fljótt niður svo við getum átt sem eðlilegasta jólahátíð sem samfélag.

„…að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma …“ (Préd 3.5b)

Eðlilegt ógeð

Eðlilegt ógeð

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ segir Símon Pétur í guðspjalli dagsins. „Allt sem við áttum.“ Það er ekki lítið.

Pétur segir þetta ekki bara upp úr þurru. Það er ástæða fyrir þessari yfirlýsingu, hún er beint viðbragð við því sem var að gerast. Við komum eiginlega inn í miðja sögu og heyrum bara niðurlag hennar.

Til Jesú kom auðugur höfðingi og spurði hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Svar Jesú var: „Sel allt sem þú átt og skipt meðal fátækra og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Þá varð auðmaðurinn hryggur enda mjög ríkur. Jesús sá það og sagði: „Hve torvelt er þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Þeir sem heyrðu þetta spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús svaraði: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“

Þá segir Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“

Áhyggjur Péturs eru skiljanlegar og eðlilegar. „Það hlýtur að gilda annað um okkur en þennan ríka,“ er hugsunin sem þarna býr að baki. „Við yfirgáfum allt. Við hljótum að vera hólpnir.“

Krafa Jesú er auðvitað ósanngjörn.

Hvert okkar myndi selja allt sem það á og gefa andvirðið til þess að vera á götunni og þurfa að sofa í bílastæðakjöllurum í staðinn fyrir loforð um himnavist og eilíft líf? Og hvað með þá sem treysta á okkur? Maka og börn?

Jesús er að benda á að við verðum ekki hólpin fyrir okkar eigin gjörðir. Það er mönnum um megn að verða hólpnir á forsendum síns eigin ágætis. En … „það sem mönnum er um megn það megnar Guð.“ Við erum hólpin, en ekki vegna okkar sjálfra heldur fyrir náð Guðs.

Okkar eigin gullkálfar

Jesús segir lærisveinunum að þeir fái margfalt til baka það sem þeir fórnuðu. Og satt best að segja var enginn þeirra úr hópi auðmanna samfélagsins. Pétur hafði verið sjómaður. Þegar Jesús kallaði hann til fylgdar við sig skildi hann bátskænuna sína eftir. Hann gekk ekki frá neinum auðævum. Ef hann hefði átt auðævi, hefði hann þá skilið þau við sig og fylgt Jesú?

Það er auðveldara að yfirgefa allt sem maður á þegar maður á nánast ekki neitt, heldur en þegar maður er vellauðugur.

Auðvitað kemur auður ekki í veg fyrir að maður njóti náðar Guðs … ekki sem slíkur. Þetta er hins vegar spurning um afstöðuna til auðævanna.

Lesturinn úr Gamla testamentinu er mjög myndrænn, auðskilinn og táknrænn. Hann segir frá dansinum í kringum gullkálfinn. Óþarfi er að fara hér út í menningarsöguna og táknfræðina sem býr á bak við kálf sem guðslíkneski. Okkur nægir að sjá þjóðina stíga dans í kringum líkneski úr gulli og beina átrúnaði sínum að því … að gullinu … til að skilja hvað er verið að segja okkur.

En þrátt fyrir þessa sögu og gildi hennar sem grundvöll afstöðunnar til Guðs og auðsins, boðskap sem Jesús hnykkir á með fullyrðingunni um að enginn geti þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon, þá hefur þróun samfélags okkar í síauknum mæli verið sífellt hraðari og trylltari dans í kringum okkar eigin gullkálf.

Það er að segja okkar allra … nema sumra.

Milljón og milljarður

Við búum í samfélagi þar sem misskipting er gríðarleg. Nokkrir örfáir eiga meira fé en þorri þjóðarinnar skilur.

Ég heyrði um daginn áhugaverðan samanburð á milljón og milljarði. Einn sólarhringur er 86.400 sekúndur. Það þýðir að milljón sekúndur eru 11 dagar. Þann 23. þessa mánaðar verða milljón sekúndur liðnar frá þessari guðsþjónustu.

Milljarður sekúndna er 30 ár. Um mánaðamótin október nóvember árið 2051 verður liðinn milljarður sekúndna frá þessari guðsþjónustu.

Hugsum nú ekki um milljón sekúndur og milljarð sekúndna heldur um milljón krónur og milljarð króna, bara svona svo við áttum okkur á eðlismuninum á þeim fjármunum sem venjulegt fólk hefur umleikis og höndlar með og þeim gríðarlega auði sem pínulítill hluti þjóðarinnar hefur rakað saman. Hugsum svo um alla þá sem er ofviða að skilja eina milljón, fólkið sem bíður í röðum eftir mataraðstoð, um þær þúsundir barna á Íslandi sem alast upp við skort, um gamla fólkið sem rannsóknir hafa sýnt að er vannært vegna fátæktar, fólkið sem tárfellir af þakklæti þegar því er gefið fimm til tíu þúsund króna inneignarkort í Bónus svo það eigi fyrir mat út mánuðinn, á sama tíma og aðrir í sömu borg fela … ekki milljónir heldur milljarða í útlöndum.

 Enginn vinnur sér inn milljarð. Fólk eignast milljarð með öðrum aðferðum. Manneskja með eina milljón í laun á mánuði er rúmlega 83 ár að vinna sér inn einn milljarð. En í þessu samfélagi er fólk sem ekki er bara að höndla með milljarða, heldur að fela milljarða til að komast hjá því að þurfa að greiða af þeim til samfélagsins. Hve margar starfsævir venjulegs fólks eru aukýfingarnir okkar að fela?

Ógeðið

Ímyndum okkur samfélag þar sem einhver er haldinn þeirri áráttu að safna mat. Hann kaupir og kaupir og kaupir allan mat sem hann kemst yfir, hann tæmir verslanir þannig að hillur standa tómar. Þessum mat safnar hann saman í víggirtar geymslur og passar að enginn komist í þær. Samfélagið sveltur vegna þess að allur maturinn hverfur inn í þessar geymslur og stendur bara þar og safnar ryki.

Hvaða mynd myndi samfélagið draga upp af þessari manneskju, sem sviptir aðra lífsnauðsynjum og safnar sjálfri sér meira af þeim en hún mun nokkru sinni komast yfir að nota? Þetta er skrímsli. Miskunnarlaus mannhatari.

Hvað ef þessi manneskja er ekki að safna mat heldur peningum? Hvaða mynd dregur samfélagið þá upp af henni?

Þá er hún sett á forsíðu Frjálsrar verslunar og kölluð Viðskiptamaður ársins.

Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, sagði nýlátinn heiðursmaður einhverju sinni þegar reynt var að gera upp eitt stærsta áfall sem samfélag okkar hefur orðið fyrir í seinni tíð.

En það varð ekki svona af sjálfu sér. Við gerðum það svona.

Að líða vitlaust

Þegar fólk leitar sálgæslu hjá presti vegna vanlíðunar í kjölfar áfalls eða fjölskylduharmleiks eða þegar það upplifir að hafa misst stjórn á lífi sínu og tengslum við ástvini, þá spyr það gjarnan hvort það sé eðlilegt að líða svona.

Og svarið er „já“. Það er eðlilegt. Það er eðlilegt að finna fyrir sársauka þegar maður meiðir sig. Það er eðlilegt að líða illa í kjölfar erfiðrar og sárrar lífsreynslu. Líðan okkar er langoftast fullkomlega eðlileg afleiðing þess sem á undan er gengið. Það líður engum vitlaust. Okkar verkefni er ekki að sjúkdómsgera vanlíðanina og fá eitthvað við henni, heldur að einblína á hvernig við getum bruðgist við áfallinu og unnið okkur í gegn um vanlíðanina.

Og okkar ógeðslega samfélag er fullkomlega eðlilegt.

Það er eðlileg afleiðing þeirra gilda sem það er byggt á, eðlileg afleiðing af því sem á undan er gengið, dansinum í kringum gullkálfinn. Það er eðlileg afleiðing þeirra leikreglna sem hér hafa verið við lýði, það er eðlileg afleiðing af hagstjórninni – auðkýfingadekrinu og fátæktarsmánuninni – sem hér hefur ráðið ríkjum.

Eðlilegt ástand

Við þurfum ekkert að sjúkdómsgera ástandið. Við kusum nákvæmlega þetta ástand. Við kusum það þegar við samþykktum þessar leikreglur. Við kusum það þegar við ákváðum hverjir ættu að setja reglurnar og framfylgja þeim. Það mega stjórnmálamenn okkar eiga að þeir sigla sjaldan undir fölsku flaggi, við vitum nokkurn veginn fyrir hvað þeir standa.

Og fyrir hverja.

Við kusum þetta ástand. Við ákváðum að það ætti að vera svona.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af kynlífi? Engin tala er ásættanlegur fjöldi rekkjunauta, hann þarf alltaf fleiri. Hann er kynlífsfíkill.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af áfengi eða fíkniefnum, það þarf alltaf einn drykk enn, einn skammt í viðbót. Hann alkóhólisti, fíkill.

Hvað segjum við um mann sem getur ekki eignast nóg af peningum? Löngu eftir að hann á meiri pening en hann kemst yfir að eyða, hann getur látið allt eftir sér, þá þarf hann samt að græða aðeins meira?

Hann er auðvitað alveg jafnmikill fíkill og hinir. Hann er jafnveikur. Af hverju eru viðhorf samfélagsins þá þannig að auðfíkillinn sé hetja, viðskiptajöfur og bisnesmógull, en hinir fíklarnir perrar og aumingjar?

Það er af því að við kusum að hafa það þannig.

Líf í fíkn

Það er ömurleg líf að vera fíkill. Að lifa lífi sem snýst um að fá það sem veitir manni tímabundna fró, en þó aldrei svo mikla að maður hafi fengið nóg, að þetta sé orðið ágætt. Það er líf í stöðugri andlegri vöntun, örvæntingarfullur eltingaleikur við manns eigin skugga.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ sagði Pétur og Jesús svaraði: „Þið fáið það margfalt til baka.“

Hver sá sem sigrast hefur á fíkn veit hvað Jesús á við. Hann hefur fengið það margfalt til baka sem hann yfirgaf.

Gullkálfurinn er þarna úti og það er stiginn trylltur dans í kringum hann.

En ef við lesum niðurlag sögunnar um gullkálfinn, þá er hún svona: „Síðan tók [Móse] kálfinn, sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi, muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu í vatn sem hann lét Ísraelsmenn drekka.”

Bráðlega veljum við þá sem setja munu leikreglurnar, a.m.k. næstu fjögur árin, og sjá til þess að farið sé eftir þeim. Kannski væri ráð að velja þá sem vilja taka gullkálfinn, brenna hann í eldi, mylja hann mélinu smærra og dreifa duftinu í vatn sem þjóðin fær að drekka.

Ef við gerðum það fengjum við sem samfélag það margfalt til baka sem við fórnuðum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. 9. 2021