Sunnudagaskólinn byrjar

Sunnudagaskólinn byrjar

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að næstkomandi sunnudag, 5. september, hefur sunnudagaskólinn göngu sína í Laugarneskirkju. Leiðtogarnir okkar eru spenntir að hitta börnin og eiga með þeim ánægjulega stund á sunnudögum í allan vetur. Sunnudagaskólinn er í safnaðarheimili Laugarneskirkju á sama tíma og messað er uppi í kirkjunni.

Stundirnar byrja uppi í kirkjunni, en síðan ganga börnin niður til sinnar samveru á meðan fullorðna fólkið verður eftir uppi. Í sunnudagaskólanum er leikið og sungið og mikið fjör, auk þess sem börnin eru frædd um grundvallaratriðin í lífi með Jesú.

Á eftir er síðan boðið upp á kirkjudjús og jafnvel eitthvað gott að maula á meðan fullorðna fólkið sötrar kaffið sitt.

Við hlökkum til vetrarins í Laugarneskirkju með ungum jafnt sem öldnum.

Aðventustund barnanna

Aðventustund barnanna

Hér má sjá fyrsta þátt Aðventustundar barnanna sem er hlýr, notalegur og já, jólalegur þáttur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Fram koma meðal annars Barnakór Langholtskirkju sem syngja inn jólaskapið. Rebbi og Mýsla missa að sjálfsögðu ekki af því og mæta í heimsókn.
Aðventustund barnanna er samstarfsverkefni Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju og hvern sunnudag á þessari aðventu kemur nýr þáttur. Njótið vel!


Laugarneskirkja og farsóttin

Laugarneskirkja og farsóttin

Vegna hertra aðgerða stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum sem nú herjar á heimsbyggðina gerum við í Laugarneskirkju ákveðnar breytingar á starfi okkar næstu vikurnar, skv. fyrirmælum frá biskupi og prófasti.

  • Hefðbundið helgihald fellur niður í október. Hér er átt við messur á sunnudögum. Kyrrðarkvöldin sem verið hafa á mánudagskvöldum kl. 20 (kirkjan opnar kl. 19:30) verða þó áfram, en við beinum þeim tilmælum til þátttakenda að gæta sérlega vel að smitfjarlægð og handsprittun.
  • Við aðrar athafnir í kirkjunni en útfarir gilda 20 manna samkomutakmörk. Þá eru allir viðstaddra, prestur, tónlistarfólk o.s.frv. taldir með. Við útfararathafnir takmarkast þessi fjöldi við 50 manns. Enn beinum við þeim tilmælum til kirkjugesta að gæta að persónulegum smitvörnum sínum.
  • Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar fellur niður a.m.k. til 26. október.
  • Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum á milli kl. 10 og 12 falla niður a.m.k. til 28. október.
  • Allt starf fyrir eldri borgara fellur niður í október. Þetta gildir um helgistundir í Félagsmiðstöðinni við Dalbraut og um Opið hús í Áskirkju í samstarfi Ás- og Laugarnessókna.
  • Fermingarfræðslan fellur niður a.m.k. til 27. október, en fræðsla í formi sjálfsnáms verður kynnt hlutaðeigandi á næstu dögum.
  • Öðrum fyrirhuguðum samkomum, s.s. fræðslukvöldi fermingarbarna og foreldra, verður frestað þar til sóttvarnarreglur verða rýmkaðar.

Við ítrekum mikilvægi þess að hver og einn sýni ábyrgð á framgöngu sinni nú á þessum hættutímum. Meðal okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem er samfélagsleg skylda okkar að vernda eins og okkur er framast unnt.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Starfsfólk Laugarneskirkju