Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Eins og öllum ætti að vera kunnugt voru sóttvarnarreglur nýlega hertar verulega og munu þær reglur sem nú eru við lýði gilda a.m.k. til 8. desember. Fjöldi þeirra sem koma mega saman er nú takmarkaður við 50 manns, en það setur okkur í Laugarneskirkju ákveðnar skorður varðandi tilhögun á helgihaldi og það hvernig við heilsum aðventunni.

Af þeim ástæðum höfum við í Laugarneskirkju ákveðið eftirfarandi.

  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) Aðventukvöldi, sem um áraraðir hefur verið einn stærsti og best sótti viðburður vetrarstarfsins, verður að þessu sinni frestað. Í stað þess að halda það 1. sunnudag í aðventu, eins og venjan er, verður það 3. sunnudag í aðventu, þ.e. 12. desember kl. 20. Kórinn okkar flytur metnaðarfulla söngdagskrá, góður gestur flytur hugvekju og fermingarbörn lesa kertabænir. Við vonumst til að sjá sem flesta í kirkjunni.
  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) jólaballi, sem venjan er að halda 2. sunnudag í aðventu, verður frestað til 12. desember kl. 11. Samveran byrjar á stuttri og léttri helgistund, en síðan ganga allir niður í safnaðarheimili þar sem dansað verður í kringum jólatréð og jólalög sungin. Boðið verður upp á eitthvað góðgæti og hver veit nema jólasveinar kíki í heimsókn.
  • Helgihald verður með eins hefðbundnum hætti og mögulegt er næstu vikur. Fari fjöldi þeirra sem vilja vera við messu yfir leyfileg mörk verður guðsþjónustunni streymt niður í safnaðarheimili þar sem hægt er að njóta hennar á stóru tjaldi. Eru þá tvö aðskilin „hólf“ í kirkjunni. Skrá verður þá sem mæta, grímuskylda er í kirkjunni og hvatt er til handsprittunar.
  • Sunnudagaskólinn verður með hefðbundnu sniði, en verður hugsanlega fluttur inn í gamla safnaðarheimilið undir kirkjunni, ef nauðsyn krefur.
  • Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á kirkjukaffi að guðsþjónustu lokinni á meðan þessar ströngu sóttvarnarreglur eru í gildi.
  • Opið hús í Áskirkju (sameiginlegt eldri borgara starf Ás- og Laugarnessókna) verður á breyttum tíma. Stundirnar hefjast með tónlist og helgistund kl. 1 en ekki kl. 12 eins og venjulega. Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á málsverð, en samveran á eftir verður með hefðbundnu sniði.
  • Sóttvarnarreglurnar ættu ekki að hafa áhrif á aðra starfsemi. Helgistundir í Félagsmiðstöðinni Dalbraut 18 – 20 og í Hásalnum, Hátúni 10, verða með hefbundnu sniði og sömuleiðis foreldrasamverur í safnaðarheimilinu á miðvikudagsmorgnum á milli 10 og 12.

Auðvitað finnst okkur súrt í broti að þurfa að skerða starfið okkar, en nú ríður á að allir sýni ábyrgð til að ná megi faraldrinum fljótt niður svo við getum átt sem eðlilegasta jólahátíð sem samfélag.

„…að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma …“ (Préd 3.5b)

Sunnudagaskólinn byrjar

Sunnudagaskólinn byrjar

Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að næstkomandi sunnudag, 5. september, hefur sunnudagaskólinn göngu sína í Laugarneskirkju. Leiðtogarnir okkar eru spenntir að hitta börnin og eiga með þeim ánægjulega stund á sunnudögum í allan vetur. Sunnudagaskólinn er í safnaðarheimili Laugarneskirkju á sama tíma og messað er uppi í kirkjunni.

Stundirnar byrja uppi í kirkjunni, en síðan ganga börnin niður til sinnar samveru á meðan fullorðna fólkið verður eftir uppi. Í sunnudagaskólanum er leikið og sungið og mikið fjör, auk þess sem börnin eru frædd um grundvallaratriðin í lífi með Jesú.

Á eftir er síðan boðið upp á kirkjudjús og jafnvel eitthvað gott að maula á meðan fullorðna fólkið sötrar kaffið sitt.

Við hlökkum til vetrarins í Laugarneskirkju með ungum jafnt sem öldnum.

Aðventustund barnanna

Aðventustund barnanna

Hér má sjá fyrsta þátt Aðventustundar barnanna sem er hlýr, notalegur og já, jólalegur þáttur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Fram koma meðal annars Barnakór Langholtskirkju sem syngja inn jólaskapið. Rebbi og Mýsla missa að sjálfsögðu ekki af því og mæta í heimsókn.
Aðventustund barnanna er samstarfsverkefni Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju og hvern sunnudag á þessari aðventu kemur nýr þáttur. Njótið vel!