Aðventustund barnanna

Aðventustund barnanna

Hér má sjá fyrsta þátt Aðventustundar barnanna sem er hlýr, notalegur og já, jólalegur þáttur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Fram koma meðal annars Barnakór Langholtskirkju sem syngja inn jólaskapið. Rebbi og Mýsla missa að sjálfsögðu ekki af því og mæta í heimsókn.
Aðventustund barnanna er samstarfsverkefni Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju og hvern sunnudag á þessari aðventu kemur nýr þáttur. Njótið vel!


Laugarneskirkja og farsóttin

Laugarneskirkja og farsóttin

Vegna hertra aðgerða stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum sem nú herjar á heimsbyggðina gerum við í Laugarneskirkju ákveðnar breytingar á starfi okkar næstu vikurnar, skv. fyrirmælum frá biskupi og prófasti.

  • Hefðbundið helgihald fellur niður í október. Hér er átt við messur á sunnudögum. Kyrrðarkvöldin sem verið hafa á mánudagskvöldum kl. 20 (kirkjan opnar kl. 19:30) verða þó áfram, en við beinum þeim tilmælum til þátttakenda að gæta sérlega vel að smitfjarlægð og handsprittun.
  • Við aðrar athafnir í kirkjunni en útfarir gilda 20 manna samkomutakmörk. Þá eru allir viðstaddra, prestur, tónlistarfólk o.s.frv. taldir með. Við útfararathafnir takmarkast þessi fjöldi við 50 manns. Enn beinum við þeim tilmælum til kirkjugesta að gæta að persónulegum smitvörnum sínum.
  • Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar fellur niður a.m.k. til 26. október.
  • Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum á milli kl. 10 og 12 falla niður a.m.k. til 28. október.
  • Allt starf fyrir eldri borgara fellur niður í október. Þetta gildir um helgistundir í Félagsmiðstöðinni við Dalbraut og um Opið hús í Áskirkju í samstarfi Ás- og Laugarnessókna.
  • Fermingarfræðslan fellur niður a.m.k. til 27. október, en fræðsla í formi sjálfsnáms verður kynnt hlutaðeigandi á næstu dögum.
  • Öðrum fyrirhuguðum samkomum, s.s. fræðslukvöldi fermingarbarna og foreldra, verður frestað þar til sóttvarnarreglur verða rýmkaðar.

Við ítrekum mikilvægi þess að hver og einn sýni ábyrgð á framgöngu sinni nú á þessum hættutímum. Meðal okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem er samfélagsleg skylda okkar að vernda eins og okkur er framast unnt.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Starfsfólk Laugarneskirkju

Opið hús og „frjáls messa“ á 17. júní

Opið hús og „frjáls messa“ á 17. júní

Það hefur varla farið fram hjá neinum að miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Laugarneskirkju að undanförnu. Í fyrrasumar var húsið steinað að utan og nú er lokið viðamiklum viðgerðum innanhúss. Af þeim sökum höfum við neyðst til að hafa kirkjuna lokaða síðan í byrjun mars.

En nú er framkvæmdum að mestu leyti lokið.

Af því tilefni fögnum við enduropnun kirkjunnar með opnu húsi á 17. júní á milli kl. 2 og 5.

Af ástæðum sem öllum eru kunnar verður lítið um fjöldasamkomur á þjóðhátíðardaginn, en við vonum að Laugnesingar og aðrir heiðri okkur þess í stað með því að kíkja í heimsókn til okkar, þiggi kaffi og með því og sjái hvað kirkjan okkar er orðin fín og falleg.

„Frjáls messa“ er óhefðbundið form helgihalds og sækir fyrirmynd sína að einhverju leyti til austurkirkjunnar þar sem messur standa oft yfir í marga klukkutíma. Þá er hins vegar gert ráð fyrir því að fólk komi og fari eins og því hentar, staldri við um stund og meðtaki andlega næringu og haldi svo sína leið. Prestar kirkjunnar, sr. Davíð Þór og sr. Hjalti Jón, þjóna. Kórinn syngur nokkur lög og Elísabet Þórðardóttir og Kristján Hrannar Pálsson leika á orgelið, en Kristján Hrannar mun leysa Elísabetu af í fæðingarorlofi hennar næsta vetur.

Í safnaðarheimlinu verður síðan heitt á könnunni, eitthvað með kaffinu og nærandi félagsskapur.

Við hlökkum sérstaklega til að sýna ykkur nýja kirkjulistaverkið okkar, gylltu sprunguna í kórnum og deila með ykkur vangaveltum okkar um marglaga táknfræði hennar. Nánari umfjöllun um hana má sjá hér.

Vonumst til að sjá sem flesta!