Opið hús og „frjáls messa“ á 17. júní

Opið hús og „frjáls messa“ á 17. júní

Það hefur varla farið fram hjá neinum að miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Laugarneskirkju að undanförnu. Í fyrrasumar var húsið steinað að utan og nú er lokið viðamiklum viðgerðum innanhúss. Af þeim sökum höfum við neyðst til að hafa kirkjuna lokaða síðan í byrjun mars.

En nú er framkvæmdum að mestu leyti lokið.

Af því tilefni fögnum við enduropnun kirkjunnar með opnu húsi á 17. júní á milli kl. 2 og 5.

Af ástæðum sem öllum eru kunnar verður lítið um fjöldasamkomur á þjóðhátíðardaginn, en við vonum að Laugnesingar og aðrir heiðri okkur þess í stað með því að kíkja í heimsókn til okkar, þiggi kaffi og með því og sjái hvað kirkjan okkar er orðin fín og falleg.

„Frjáls messa“ er óhefðbundið form helgihalds og sækir fyrirmynd sína að einhverju leyti til austurkirkjunnar þar sem messur standa oft yfir í marga klukkutíma. Þá er hins vegar gert ráð fyrir því að fólk komi og fari eins og því hentar, staldri við um stund og meðtaki andlega næringu og haldi svo sína leið. Prestar kirkjunnar, sr. Davíð Þór og sr. Hjalti Jón, þjóna. Kórinn syngur nokkur lög og Elísabet Þórðardóttir og Kristján Hrannar Pálsson leika á orgelið, en Kristján Hrannar mun leysa Elísabetu af í fæðingarorlofi hennar næsta vetur.

Í safnaðarheimlinu verður síðan heitt á könnunni, eitthvað með kaffinu og nærandi félagsskapur.

Við hlökkum sérstaklega til að sýna ykkur nýja kirkjulistaverkið okkar, gylltu sprunguna í kórnum og deila með ykkur vangaveltum okkar um marglaga táknfræði hennar. Nánari umfjöllun um hana má sjá hér.

Vonumst til að sjá sem flesta!

Æskulýðsstarf í framkvæmdadvala

Æskulýðsstarf í framkvæmdadvala

Á dögum samkomubanns var ráðist í miklar framkvæmdir í Laugarneskirkju, en bæði er unnið í kirkjurýminu og safnaðarheimilinu hörðum höndum um þessar mundir.
Framkvæmdir þessar verða til þess að hefðbundið æskulýðsstarf Laugarneskirkju verður áfram í sínum framkvæmdadvala þó margar íþrótta-og tómstundahreyfingar séu að taka við sér á virkari hátt á ný eftir breytingar á samkomubanni þann 4. maí.

Við í Laugarneskirkju hlökkum til þess að taka á móti unga fólkinu í hverfinu okkar í sunnudagaskólanum, kirkjuprökkurum, kirkjuflökkurum, góðverkaklúbbnum, æskulýðsfélaginu og hljómsveitarstarfinu í lok sumars.

Allt gott safnaðarstarf er lifandi og hreyfanlegt.
Við í Laugarneskirkju leitum leiða til að efla starf okkar á þann hátt að það sé til þess að styrkja og virkja fólk á lífsleiðinni, sama hvaða aldri það er á.
Þetta á ekki síst við um æskulýðsstarf okkar en í Laugarneskirkju hefur alla tíð verið lögð á það áhersla að unga fólkið finni sig eiga heima í kirkjunni og sé valdeflt til góðra og gleðilegra verka.
Við fögnum því öllum ábendingum- og hugmyndum sem tengjast æskulýðsstarfinu og má koma þeim áleiðis á laugarneskirkja@laugarneskirkja.is og hjaltijon@laugarneskirkja.is.

Útvarpshelgistund Laugarneskirkju í Hjallakirkju

Útvarpshelgistund Laugarneskirkju í Hjallakirkju

Sunnudaginn 26. apríl verður útvarpsmessan með óvenjulegu sniði. Það stafar ekki bara af því að það orkar tvímælis að tala um „messu“ þegar söfnuðurinn er ekki til staðar að taka þátt í stundinni heldur fylgist með henni sem hlustendur, eins og nauðsyn ber til nú á tímum samkomubanns. Það er vissulega óvenjulegt. En hitt er einnig óvenjulegt að kirkjan sem annast helgistundina er ekki stödd í kirkjunni „sinni“.

Ákveðið var snemma í vetur að Laugarneskirkja skyldi sjá um útvarpsmessu annan sunnudag eftir páska, en þá óraði engan fyrir því að ástandið í þjóðfélaginu yrði með þeim hætti sem raun ber vitni þegar sá dagur rynni upp. Þegar sú ákvörðun var tekin að nýta samkomubannið til að flýta fyrirhuguðum og löngu tímabærum framkvæmdum í Laugarneskirkju varð aftur á móti ljóst að ekki myndi verða hægt að hafa helgistund þar á meðan, hvað þá að senda hana út í útvarpi allra landsmanna. Við í Laugarneskirkju leituðum því til bræðra okkar og systra í Hjallakirkju sem brugðust vel við beiðni okkar og opnuðu dyr sínar fyrir okkur. Við kunnum þeim að sjálfsögðu hinar bestu þakkir fyrir gestrisnina.

En þótt húsnæðið sé ekki Laugarneskirkja verður helgistundin frá Laugarneskirkju, því kirkjan er jú fólkið, ekki húsið. Prestar Laugarneskirkju leiða stundina, Sr. Hjalti Jón Sverrisson flytur hugvekju, messuþjónar kirkjunnar aðstoða og organistinn, Elísabet Þórðardóttir, leikur á hljóðfærið. Sérstakur gestur verður Pétur Húni Björnsson sem syngur einsöng.

Rétt er að vekja athygli á því að stundinni mun ljúka á sameiginlegri kærleiksmáltíð allra sem taka vilja þátt. Hún er ekki altarisganga, en ævagömul hefð sem í árferði eins og þessu vísar með lofgjörð og þakklæti til sakramentisins sem kringumstæður neyða okkur til að vera án. Hlustendur eru hvattir til að hafa brauðsneið eða kex og glas af safa eða víndreitil við hendina og neyta þessarar máltíðar sameinaðir í anda yfir öldur ljósvakans.