Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

 Guðspjall: Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“ Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“ (Matt 21.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Dramb er falli næst,“ segir gamalt og gott máltæki. Þetta er dæmi um biblíulega speki sem hrist hefur af sér uppruna sinn og tekið sér bólfestu í menningararfi okkar og vitund. Ég er ekki viss um að margir sem henda þessa speki á lofti geri sér grein fyrir því að með því eru þeir að vitna beint í Gamla testamentið, í Orðskviðina, 16. kafla vers 18. „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“ Þessi speki er ekki bundin við gyðingdóm eða kristni. Það er eins og það sé inbyggt í okkur mennina að dramb og hroki hljóti að hefna sín, að vissara sé að mæta heiminum og lífinu með ákveðinni auðmýkt og muna að það er ekki alltaf í okkar höndum hvernig fer.

Grikkir áttu sér hugtakið „hubris“ og hinir klassísku grísku harmleikir ganga jafnan út á það hvernig „hubris“ aðalsöguhetjunnar, oftrú hennar á eigin mátt og megin, eigið ágæti og ósigranleika, verður henni að falli.

Styrkur í auðmýkt

En það er dálítið skrýtið að hugmynd sem er svona rótgróin í menningararfleifð okkar og skynjun, hugmynd sem allir þekkja, skuli vera svona mörgum – sem á henni þurfa að halda – lokuð bók. Við höfum fyrir framan okkur nú í dag sorglega mörg dæmi um menn … undantekningalaust karlmenn … sem eru að glíma við að reyna að bjarga mannorði sínu og æru með öllum vitlausu verkfærunum, með hroka og afneitun, þegar það eina sem þeir þyrftu að gera til að fá uppreist æru að er að sýna smávegis auðmýkt.

Það er nefnilega styrkur í auðmýktinni. Maður þarf að hvíla býsna vel í sjálfum sér til að geta sýnt einlæga auðmýkt, að finnast maður ekki setja niður þótt maður lúti höfði í auðmýkt. Vera kann að einhverjum þyki það niðurlægjandi, en ef maður er í öruggum tenglsum við sína eigin sál, þá missir maður ekki svefn yfir því hvað einhverju fólki úti í bæ kann eða kann ekki að finnast um mann.

Það að þurfa að hanga á stolti sínu eins og hundur á roði hvað sem á dynur bendir einmitt til mikils óöryggis. Sá sem er svo háður því hvað öðrum finnst um hann að hann getur ekki á heilum sér tekið ef einhver skuggi fellur á það, hann er bara lítill og hræddur karl – ekki stór og sterkur eins og stolt hans telur honum trú um. Sá sem byggir sjálfsmynd sína á stolti byggir hana á sandi, því það er auðvelt að særa stolt. Það getur hver sem er gert. Heilbrigða sjálfsvirðingu getur aftur á móti enginn sært – nema maður sjálfur.

Konungur konunganna

Í þekktri og vinsælli sjónvarpsþáttaröð hér um árið féll setning sem geymir mikinn sannleika þegar að er gáð: „Any man who must say ‚I am the king‘ is no true king.“ „Sá sem verður að segja: ‚Ég er kóngurinn‘ er ekki sannur konungur.‘

Sá sem raunverulega er konungur þarf nefnilega ekki að tilkynna öðrum það, hann þarf ekki að hefja sig á stall sjálfur eða setja sig á háan hest – ef hann er sannur konungur fer það ekkert á milli mála.

Jesús setur sig ekki á háan hest. Hann setur sig á asna. Og er fagnað sem konungi.

Í guðspjalli dagsins kemur Jesús ríðandi í auðmýkt inn í Jerúsalem og múgurinn fagnar honum. Fólk breiðir klæði sín á veginn og aðrir höggva greinar af trjám og leggja þær á veginn. Þessi mynd er mjög sterk, en raunveruleg merking hennar, táknin sem hún er full af, eru horfin okkur í móðu tímans.

Hvað þýðir það að taka svona á móti manni sem ríður inn í borgina? Hverjum er fagnað á þennan hátt? Svarið er: Sigursælum hershöfðingja sem snýr heim úr farsælli herferð. Svona tóku Rómverjar á móti sínum hershöfðingjum þegar þeir sneru aftur til Rórmar eftir glæsta hernaðarsigra. En þeir riðu ekki ösnum. Þeir riðu stríðsfákum.

Það er áhugavert að Jesús fer allra sinna ferða fótgangandi í frásögnum Nýja testamentisins. Hann þiggur aldrei far eða sest upp á reiðskjóta. Jafnvel þegar hann fer yfir vatnið … þá fer hann að vísu á báti … en jafnvel þar getur hann gengið á vatninu. Jesús er hinn fótgangandi vegfarandi.

Aðeins einu sinni sest hann upp á reiðskjóta – þegar hann kemur ríðandi inn í Jerúsalem eins og konungur. Það er áreiðanlega engin tilviljun. Það þjónar tilgangi. Það dregur upp mynd.

Mynd sem er sótt beint í Spádómsbók Sakaría og vitnað er í í Guðspjallinu: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ (Matt 21.5)

Myndin úr menningararfinum

Fólkið sem fagnaði Jesú vissi nákvæmlega hvað það var að gera, það þekkti myndina sem það var að horfa á – hún var gróin inn í vitund þeirra, rótgróinn hluti af menningararfi þeirra – og hún var fyrirheit. Fyrirheit um betri tíma, fyrirheit um bjartari framtíð. Betri konung.

Þáverandi konungur Gyðinga, Heródes, var gerður konungur af öldungaráði Rómar. Það lét honum í té rómverskar hersveitir til að tryggja undirgefni þegnanna. Eftir dauða hans útnefndu rómverskir landstjórar æðstuprestana sem lögðust á eitt með Rómverjum að bæla niður hvers konar uppþot og óeirðir. Rómverjar höfðu gert musterið að verkfæri sínu og leiðtoga Gyðinga að þjónum til að treysta veldi sitt, annast skattheimtu og innleiða menningu sína. Og hér kemur Jesús, klipptur út úr spádómunum, út úr menningararfi þjóðarinnar, og ögrar öllu sem valdhafar höfðu verið að vinna að.

En ákafa múgsins … og ugg valdhafanna … má líka útskýra með því einu að halda áfram að lesa Spádómsbók Sakaría. Hvað gerir þessi hógværi og lítilláti konungur sem kemur inn í Jerúsalem á asna? Lesum áfram: „Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem.” Semsagt: Herinn burt! „Öllum herbogum verður eytt. Hann mun boða þjóðunum frið og ríki hans mun ná frá hafi til hafs.“ (Sak 9.10) 

Þetta var ekki alveg sú framtíðarmynd sem Rómverjar og leiguþý þeirra meðal ráðamanna Gyðinga sáu fyrir sér.

Og þótt Sakaría tali um að konungurinn muni boða þjóðunum frið, þá verður það ekki gert með ýkja friðsælum hætti. Hann heldur áfram: „Ég spenni Júda eins og boga, fylli Efraím sem örvamæli, vek upp syni þína, Síon, … og geri úr þér sverð í garps hendi. Yfir þeim birtist Drottinn, örvar hans fljúga sem eldingar.“ (Sak 9.13-14a)

Stríðsyfirlýsing

Innreið Jesú í Jerúsalem er ekkert minna en stríðsyfirlýsing. Við þurfum ekkert að ímynda okkur að múgurinn sem fagnaði Jesú og valdhafarnir, sem stóð stuggur af honum, hafi ekki þekkt alla myndina sem Sakaría hafði dregið upp og vitað nákvæmlega hvað var í vændum.

Hvað gerir Jesús líka? Hvernig er næsta setning í Guðspjallinu eftir að lestri dagsins sleppir? Hún er svona: „Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þið gerið það að ræningjabæli.“ (Matt 21.12-13)

Jesús og fylgismenn hans hertaka musterið, miðstöð hins trúarlega valds og loka á gróðabrall æðstu prestanna sem okur á fórnardýrum í musterinu var. Og þetta gerir hann í vikunni fyrir páska … aðalvertíðinni. Þetta er eins og að ráðast á Kringluna og loka henni á svörtum föstudegi.

Og hann fer að kenna í musterinu. Og hvað kennir hann? Hann kennir að tollheimtumenn og skækjur verði á undan æðstu prestunum og öldungunum inn í Guðs ríki. (21.32) Og hann vandar fræðimönnunum og faríseunum, góðborgurunum í samfélaginu, ekki kveðjurnar heldur: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ segir hann. „Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis.“ (Matt 23.27-28)

Þetta var Jesús að kenna í musterinu þeirra. Auðvitað urðu þeir að koma þessum manni fyrir kattarnef. Hann var stórhættulegur fyrir gróðabrallið og espaði fólk upp gegn yfirvaldinu. Fyrir utan það náttúrlega hvað hann var slæmur fyrir stoltið.

Niðurlag sögunnar þarf ekki að tíunda. Við vitum öll hvernig hún endaði. Lýðnum var snúið gegn Jesú, hann var tekinn af lífi á hægan og kvalafullan hátt – en hann reis upp frá dauðum því sannleikurinn verður ekki drepinn hvernig sem handhafar lyginnar reyna. Hann rís alltaf upp aftur.

Stolt eða reisn

Og hvað með það? Hvað kemur þessi saga okkur við – í öðrum heimshluta 2000 árum síðar?

Kannski er það bara það að þrátt fyrir allar framfarir, þrátt fyrir það hve þekkingu okkar og tækni hefur fleygt fram og þrátt fyrir allt það sem á daga mannkynsins hefur drifið á þessum 2000 árum þá virka hjörtu mannanna nokkurn veginn eins nú og þá.

Við greinum styrk í auðmýkt. Við löðumst að henni og treystum þeim sem færir eru um að sýna hana í einlægni. Þeir glata ekki reisn sinni með því heldur þvert á móti, þeir styrkja hana.

Við greinum líka óttann og smæðina í hrokanum og yfirlætinu. Slíkt fælir okkur frá. Við getum óttast hina hrokafullu og stærilátu, en við berum ekki virðingu fyrir þeim. Virðing er áunnin, ekki fyrirskipuð.

Og þess vegna skulum við líta í okkar eigin barm. Hangi ég á stolti mínu eins og hundur á roði eða byggi ég sjálfsmynd mína á traustari grunni, á heilbrigðri sjálfsvirðingu sem rúmar auðmýkt? Feta ég í fótspor hans sem reið eins og sigursæll herforingi inn í borgina á asna eða gengst ég upp í því að sýnast góður fyrir sjónum manna – eins og hvít, kölkuð gröf?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 28. 11. 2021

Reglugerðasnatar

Reglugerðasnatar

Guðspjall: Sama dag komu saddúkear til Jesú, en þeir neita því að upprisa sé til, og sögðu við hann: „Meistari, Móse segir: Deyi maður barnlaus þá skal bróðir hans ganga að eiga konu hans og vekja honum niðja. Hér voru með okkur sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.“ En Jesús svaraði þeim: „Þið villist því að þið þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. En um upprisu dauðra ættuð þið að hafa lesið það sem Guð segir við ykkur: Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda.“ En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans. (Matt 22.23-33)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum var ég beðinn að liðsinna fólki sem vildi fá jarðneskar leifar fluttar til, allmörgum árum eftir andlát viðkomandi. Forsaga málsins var að hinn látni hafði verið kvæntur, en misst konu sína fyrir aldur fram. Börn þeirra voru þá uppkomin eða því sem næst. Konan var jarðsett, eins og lög gera ráð fyrir, og við hlið leiðis hennar var frátekinn legstaður þar sem eiginmaðurinn hafði hugsað sér að hvíla þegar röðin kæmi að honum.

En lífið hélt áfram og nokkrum árum eftir andlát eiginkonunnar kynntist þessi ágæti maður annarri konu og kvæntist að nýju. Eftir margra ára hamingjuríkt hjónaband lést maðurinn, en var þá ekki lagður til hinstu hvílu við hlið fyrri konu sinnar, eins og til hafði staðið, heldur á nýjan stað í öðrum grafreit þar sem seinni konan gerði ráð fyrir því að hún myndi hvíla við hlið hans þegar hennar tími kæmi.

En … enn hélt lífið áfram og seinni kona mannsins kynntist öðrum manni og gekk að eiga hann. Þegar þau hjón síðan létust með nokkurra ára millibili voru þau lögð til hinstu hvílu hlið við hlið á þriðja staðnum. Þessi ráðstöfun mætti auðvitað skilningi allra, en börnum mannsins af fyrra hjónabandi þótt alltaf sárt að foreldrar þeirra skyldu ekki hvíla hlið við hlið, jafnvel þótt faðirinn hefði kvænst aftur, og þurfa að vitja leiða þeirra í tvo aðskilda grafreiti. Svo fór að jarðneskar leifar mannsins voru grafnar upp og settar niður hjá fyrri eiginkonu hans að ósk barna þeirra.

Við og hin dauðu

Mér varð hugsað til þessarar sögu þegar ég las guðspjall dagsins. Lífið heldur nefnilega áfram. Og það hefur tilhneigingu til að virða plön og áætlanir dauðlegra manna að vettugi.

En þessi saga endurspeglar líka hve annt okkur er um hin látnu og tengsl okkar við þau. Ég held að allir geti sett sig í spor barnanna og skilið löngun þeirra til að sjá foreldra sína hvíla hlið við hlið í dauðanum. Það snýst ekki um hjúskaparstöðu þeirra í handantilverunni, það snýst ekki einu sinni um hjúskaparstöðu þeirra á andlátsstundinni … því hvað er hjúskaparstaða annað en einhver skráning í skrám og skýrslum sem mölur og ryð frá grandað? Börnin ólust upp í foreldrahúsum hjá þeim, þau voru hjón í huga þeirra og sálum og verða það alla tíð. Það að pabbi skyldi hafa haldið áfram að lifa eftir að mamma dó – með því sem það felur í sér að lifa mannlegu lífi, að mynda tengsl og vera í tilfinningasambandi við annað fólk – breytir engu um það.

Hin hjákátlega handantilvera

Það er því í sjálfu sér algjör óþarfi að gera lítið úr vangaveltum Saddúkeanna um hjúskaparstöðu konunnar sem gift hafði verið sjö bræðrum – þannig lagað. En höfum hugfast að Saddúkearnir trúðu ekki á upprisuna. Þeir trúðu ekki á neina mannlega tilveru handan jarðvistarinnar og spurningu þeirra er beinlínis ætlað að sýna að hugmyndir í þá átt gangi ekki upp, þær séu fáránlegar – því ekki getur konan átt sjö eiginmenn. Þeim fannst þeir ábyggilega býsna snjallir að stilla Jesú svona upp við vegg og jarða þannig allan hans málflutning.

En Jesús bendir þeim á að Guðs ríki er ekki af þessum heimi og þangað fer ekkert sem er af þessum heimi, þar með talið hjúskaparstöðuvottorðin okkar. Við þurfum ekki að taka passann með okkur til Guðs. Við erum ekki spurð um fæðingarvottorð, ökuskírteini eða neikvætt hraðpróf við Gullna hliðið.

Það eina sem er skoðað þar eru hjörtu mannanna.

Guðs ríki er hér

En það er líka rétt að gefa gaum að því að Jesú er í raun ekkert svo tíðrætt um handantilveruna. Hann virðist vera mun uppteknari af lífinu fram að dauðanum heldur en lífinu eftir dauðann. Og allt tal hans um Guðs ríki verðum við að lesa í gegn um þá fullyrðingu hans að Guðs ríki sé mitt á meðal okkar … ef við viljum – hér og nú. (Lúk 17.21) Þennan ritningarstað má líka þýða þannig að Guðs ríki sé innra með okkur. Ástæða þess að þýða má hann á báða vegu hlýtur að vera sú að hvort tveggja er rétt. Væri önnur túlkunin röng hefði Jesús áreiðanlega orðað þetta öðruvísi, þannig að það gæti ekki misskilist. Meðal okkar – hið innra með okkur, hvort tveggja er jafn satt.

Páll postuli orðar þetta þannig: „Hér er hvorki gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona.“ (Gal 3.17)

Hér hvar? – Við ráðum hvað við köllum það. Kærleikssamfélagið, samfélags heilags anda eða Guðs ríki … þar sem Guð, sem er kærleikur, ríkir. Hvorki karl né kona og þarafleiðandi hvorki eiginmaður né eiginkona.

Merkimiðasamfélagið

En hvað er ég nú að segja? Er hjónabandið okkar bara ógilt í Guðsríkinu? Erum við ekki menn og konur hvers annars í kærleikssamfélaginu? Er samfélag heilags anda einhver hippakommúna þar sem allir eru allra?

Það er ekki það sem ég er að segja.

Ég held að þetta snúist miklu frekar um merkimiðana okkar.

Hvaða merkimiða hengjum við á okkur? Hvernig skilgreinum við okkur … fyrir öðrum og fyrir okkur sjálfum? Erum við maður eða kona þessa eða hins, dóttir eða sonur hans eða hennar? Eða erum við bara við?

Hvaða merkimiða hengir samfélagið á okkur? Vandræðagepillinn. Trúðurinn. Kennarasleikjan. Nördið.

Til hvers? Til að skilgreina okkur? Til að átta sig á okkur? Til að vita í hvaða skúffu á að setja okkur? Til að vita hve eftirsóknarverður eða varhugaverður félagsskapur við erum?

Í Guðsríkinu hrynja þessir merkimiðar af okkur. Þeir eru óþarfir, þjóna engum tilgangi. Því í Guðsríkinu er aðeins ein skúffa og í henni erum við öll.

Innan og utan boxins

En þetta gátu Saddúkearnir ekki hugsað. Þeir voru of njörvaðir ofan í stað og stund, ofan í efnisheiminn, ofan í lög og reglur samfélagsins, ofan í mannasetningar frekar en kærleikslögmál Guðs, ofan í hjúskaparstöðuvottorð, skilgreiningar og merkiða frekar en það sem hjörtu mannanna hafa að geyma. Að ímynda sér tilvistarvídd þar sem opinberir stimplar hafa enga merkingu var þeim um megn. Fyrir þeim voru reglugerðir manna heilagur sannleikur, það hvarflaði ekki einu sinni að þeim að íhuga að lög Guðs – kærleikslögmálið – gæti verið þeim æðra.

En mannasetningar eru aldrei heilagur sannleikur. Lög manna eru oft ljót og röng og þjóna einhverju allt öðru en kærleikanum.

Þessi saga sýnir okkur líka hve mikilvægt það er að geta hugsað út fyrir boxið, hvað við missum af miklu, hve hinn djúpi skilningur hjartans á undrum, sem kaldrifjuð skynsemi okkar nær aldrei að meðtaka, verður okkur lokuð bók ef við getum ekki rifið nefið á okkur upp úr veraldlegum skilgreiningum og reglugerðum.

Við höfum ábyggilega flest ef ekki öll lent í stríði og stappi við reglugerðarsnata heimsins, fólk sem var með bókstafinn svo tattúveraðan á sálina í sér að allt tal um tilhliðrunarsemi eða sveigjanleika hljómaði eins og argasta guðlast í eyrum þeirra. Fólk sem finnst „Tölvan segir nei“ vera fullgilt svar og tilgangslaust sé að ræða það eitthvað frekar.

Þetta getur birst á skondinn og krúttlegan hátt, eins og tildæmis í reglugerð sem skikkar prest til að keyra á bensínbílnum sínum borgarhluta á milli – á vegum hinnar „grænu“ og umhverfisvænu kirkju – til að handskrifa prestþjónustuskýrlu í kirkjubók af því að reglur um kirkjubækur eru eldri en internetið og Biskupsstofa er ekki enn búin að fatta að það er hægt að prenta út Word skjöl.

Sálarlausar reglugerðir

En þetta birtist líka á ljótan og andstyggilegan hátt, eins og tildæmis í ofstækisfullri dýrkun útlendingastofu á Dyflinnarreglugerðinni sem knýr hana til að ofsækja og níðast á flóttafólki og hælisleitendum, okkar minnstu bræðrum og systrum, þeim sem höllustum fæti standa í samfélagi okkar, og senda börn – jafnvel börn sem hafa búið á Íslandi í einhver ár, tala íslensku og eiga íslenska vini – til að hafast við á götum úti á Grikklandi þar sem ástandið er slíkt að Rauði krossinn hefur lagst eindregið gegn því að flóttafólk sé sent þangað. Og þetta er gert á sama tíma og stjórnvöld stæra sig af því að hafa lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hér á landi, þar sem skýrt er kveðið á að allar ákvarðanir sem varða börn beri að taka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Aftur og aftur og aftur ganga sálarlausir snatar Dyflinnarreglugerðarinnar í berhögg, ekki bara við grundvallarákvæði Barnasáttmálans heldur við almennt siðgæði, þar sem ekkert kemst að … enginn kærleikur, engin samkennd, engin mennska … ekkert kemst að nema að reglugerðin segir að þetta megi á því verði að gera þetta … fórna framtíð barna, heill þeirra og hamingju á altari hlýðni við ómannúðlegar reglugerðir. Ég hef rætt þetta svo oft hér á þessum stað að ég er orðinn leiður á því, ég nenni ekki að hafa fleiri orð um það, það er að berja hausnum við steininn – sem er einmitt það sem fyrir reglugerðarsnötunum vakir. Þeir ætla að þreyta gagnrýnendurna þangað til mótmæli þeirra verða eins og stanslaust og þarafaleiðandi marklaust suð, sem fólk venst og verður leitt á, svo þeir geti haldið óáreittir áfram sinni sleitulausu aðför að öllu sem lýtur að því að hafa lágmarks siðferðiskennd, að sjálfum kærleikanum … að Guði.

Kærleikur í boxi

Við verðum að hugsa út fyrir reglugerðirnar okkar, skilgreiningarnar okkar, merkimiðana okkar. Við verðum að hugsa út fyrir boxið.

Kærleikurinn er nefnilega ekki í boxi.

Kærleikurinn býr í hjörtum mannanna.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. 11. 2021

Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Sóttvarnaraðgerðir í Laugarneskirkju

Eins og öllum ætti að vera kunnugt voru sóttvarnarreglur nýlega hertar verulega og munu þær reglur sem nú eru við lýði gilda a.m.k. til 8. desember. Fjöldi þeirra sem koma mega saman er nú takmarkaður við 50 manns, en það setur okkur í Laugarneskirkju ákveðnar skorður varðandi tilhögun á helgihaldi og það hvernig við heilsum aðventunni.

Af þeim ástæðum höfum við í Laugarneskirkju ákveðið eftirfarandi.

  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) Aðventukvöldi, sem um áraraðir hefur verið einn stærsti og best sótti viðburður vetrarstarfsins, verður að þessu sinni frestað. Í stað þess að halda það 1. sunnudag í aðventu, eins og venjan er, verður það 3. sunnudag í aðventu, þ.e. 12. desember kl. 20. Kórinn okkar flytur metnaðarfulla söngdagskrá, góður gestur flytur hugvekju og fermingarbörn lesa kertabænir. Við vonumst til að sjá sem flesta í kirkjunni.
  • Okkar árlega (þegar sóttvarnarreglur leyfa) jólaballi, sem venjan er að halda 2. sunnudag í aðventu, verður frestað til 12. desember kl. 11. Samveran byrjar á stuttri og léttri helgistund, en síðan ganga allir niður í safnaðarheimili þar sem dansað verður í kringum jólatréð og jólalög sungin. Boðið verður upp á eitthvað góðgæti og hver veit nema jólasveinar kíki í heimsókn.
  • Helgihald verður með eins hefðbundnum hætti og mögulegt er næstu vikur. Fari fjöldi þeirra sem vilja vera við messu yfir leyfileg mörk verður guðsþjónustunni streymt niður í safnaðarheimili þar sem hægt er að njóta hennar á stóru tjaldi. Eru þá tvö aðskilin „hólf“ í kirkjunni. Skrá verður þá sem mæta, grímuskylda er í kirkjunni og hvatt er til handsprittunar.
  • Sunnudagaskólinn verður með hefðbundnu sniði, en verður hugsanlega fluttur inn í gamla safnaðarheimilið undir kirkjunni, ef nauðsyn krefur.
  • Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á kirkjukaffi að guðsþjónustu lokinni á meðan þessar ströngu sóttvarnarreglur eru í gildi.
  • Opið hús í Áskirkju (sameiginlegt eldri borgara starf Ás- og Laugarnessókna) verður á breyttum tíma. Stundirnar hefjast með tónlist og helgistund kl. 1 en ekki kl. 12 eins og venjulega. Því miður verður ekki hægt að bjóða upp á málsverð, en samveran á eftir verður með hefðbundnu sniði.
  • Sóttvarnarreglurnar ættu ekki að hafa áhrif á aðra starfsemi. Helgistundir í Félagsmiðstöðinni Dalbraut 18 – 20 og í Hásalnum, Hátúni 10, verða með hefbundnu sniði og sömuleiðis foreldrasamverur í safnaðarheimilinu á miðvikudagsmorgnum á milli 10 og 12.

Auðvitað finnst okkur súrt í broti að þurfa að skerða starfið okkar, en nú ríður á að allir sýni ábyrgð til að ná megi faraldrinum fljótt niður svo við getum átt sem eðlilegasta jólahátíð sem samfélag.

„…að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma …“ (Préd 3.5b)