Aðventustund barnanna

Aðventustund barnanna

Hér má sjá fyrsta þátt Aðventustundar barnanna sem er hlýr, notalegur og já, jólalegur þáttur fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.
Fram koma meðal annars Barnakór Langholtskirkju sem syngja inn jólaskapið. Rebbi og Mýsla missa að sjálfsögðu ekki af því og mæta í heimsókn.
Aðventustund barnanna er samstarfsverkefni Áskirkju, Bústaðakirkju, Grensáskirkju, Hallgrímskirkju, Langholtskirkju, Laugarneskirkju, Neskirkju og Seltjarnarneskirkju og hvern sunnudag á þessari aðventu kemur nýr þáttur. Njótið vel!


Nýtt Laugardalsprestakall

Nýtt Laugardalsprestakall

Nú í byrjun október  urðu breytingar á skipulagi kirkjustarfs í hverfunum við Laugardal en samkvæmt ákvörðun kirkjuþings varð til nýtt prestakall þriggja sókna í stað þeirra þriggja prestakalla sem áður höfðu hvert um sig innifalið eina sókn.    Í nýju Laugardalsprestakall eru sóknirnar þrjár við Laugardal : Ássókn, Langholtssókn og Laugarnessókn. 

Sameiningunni er ætlað að auka samvinnu og samstarf sóknanna þriggja sem og og starfsfólks safnaðanna eftir því sem samkomulag verður um og er talið þjóna kirkjulegri þjónustu á svæðinu sem best. 

Áfram munu fimm prestar og einn djákni þjóna prestakallinu og verða starfsstöðvar þeirra þær sömu og áður. 

Guðbjörg Jóhannesdóttir er sóknarprestur hins nýja prestakalls og hefur starfsstöð í Langholtskirkju sem og Aldís Rut Gísladóttir prestur.  Sigurður Jónsson prestur og Jóhanna María Eyjólfsdóttir djákni hafa starfsstöð í Áskirkju.  Davíð Þór Jónsson prestur og Hjalti Jón Sverrisson prestur hafa sem fyrr starfsstöð í Lauganeskirkju. 

Von er að fólk velti því fyrir sér hver munur á prestakalli og sókn sé. 

Í stuttu máli má segja að prestakall sé skipulagseining sem er vettvangur samvinnu um kirkjulega þjónustu vígðra starfsmanna sóknanna. Í prestakalli er einn sóknarprestur og einn eða fleiri prestar sem og einn eða fleiri djáknar.  

Sókn er hins vegar  grunneining þjóðkirkjunnar og eru sóknirnar í landinu á þriðja hundrað.  Hverri sókn er stýrt í samvinnu sóknarprests og prestsa eða presta og sóknarnefndar sem kosin er á aðalsafnaðarfundi sóknarinnar, en í sóknarnefnd sitja óvígðir safnaðarmeðlimir.

Formaður Ássóknar er Kristján Guðmundsson, í Laugarnesi er það Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir sem er formaður og í Langholti Elmar Torfason.  Því er enn um þrjár sjálfstæðar sóknir að ræða í hinu nýja prestakalli, þar sem ólík menning og áherslur búa til fjölbreytileika og aukna vídd.

Eitt af meginmarkmiðum þessarrar breytingar, sem biskup Íslands kynnti í vísitasíu sinni í prófastsdæminu 2018, er að auka samvinnu prestanna á svæðinu.  Prestarnir í Laugardalsprestakalli munu því frá áramótum þjóna til skiptis við sunnudagshelgihaldið í kirkjunum, og leysa hvern annan af um helgar.  Þetta þýðir að hálfsmánaðarlega messar sami prestur tvisvar sama sunnudaginn.  Af því leiðir að breyta þarf messutímanum á a.m.k. einni af kirkjunum þremur.  Áskirkja ríður á vaðið og mun messutíminn þar frá og með næstu áramótum færast fram til kl. 9:30, og á sú breyting einnig við um sunnudagaskólann í Áskirkju.  Því mun sá prestur, sem messar í Áskirkju kl. 9:30, einnig messa ýmist í Langholtskirkju eða Laugarneskirkju sama dag kl. 11:00.

Raddir sóknarfólksins eru mikilvægar í þessu breytingarferli og hugmyndir vel þegnar.  Um leið og aðstæður leyfa munum við hringja til sameiginlegrar stofnmessu prestakallsins sem og kynningarfunds þar sem spáð yrði í framtíðina.

Það er von okkar allra, starfsfólks og sjálfboðaliða í hinu nýja prestakalli að sameiningin gefi tækifæri til frekara samstarfs og samvinnu.  Bent er á heimasíður sóknanna fyrir upplýsingar um starfsemi í hverri sókn fyrir sig.

www.askirkja.is

www.langholtskirkja.is

www.laugarneskirkja.is

Laugarneskirkja og farsóttin

Laugarneskirkja og farsóttin

Vegna hertra aðgerða stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum sem nú herjar á heimsbyggðina gerum við í Laugarneskirkju ákveðnar breytingar á starfi okkar næstu vikurnar, skv. fyrirmælum frá biskupi og prófasti.

  • Hefðbundið helgihald fellur niður í október. Hér er átt við messur á sunnudögum. Kyrrðarkvöldin sem verið hafa á mánudagskvöldum kl. 20 (kirkjan opnar kl. 19:30) verða þó áfram, en við beinum þeim tilmælum til þátttakenda að gæta sérlega vel að smitfjarlægð og handsprittun.
  • Við aðrar athafnir í kirkjunni en útfarir gilda 20 manna samkomutakmörk. Þá eru allir viðstaddra, prestur, tónlistarfólk o.s.frv. taldir með. Við útfararathafnir takmarkast þessi fjöldi við 50 manns. Enn beinum við þeim tilmælum til kirkjugesta að gæta að persónulegum smitvörnum sínum.
  • Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar fellur niður a.m.k. til 26. október.
  • Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum á milli kl. 10 og 12 falla niður a.m.k. til 28. október.
  • Allt starf fyrir eldri borgara fellur niður í október. Þetta gildir um helgistundir í Félagsmiðstöðinni við Dalbraut og um Opið hús í Áskirkju í samstarfi Ás- og Laugarnessókna.
  • Fermingarfræðslan fellur niður a.m.k. til 27. október, en fræðsla í formi sjálfsnáms verður kynnt hlutaðeigandi á næstu dögum.
  • Öðrum fyrirhuguðum samkomum, s.s. fræðslukvöldi fermingarbarna og foreldra, verður frestað þar til sóttvarnarreglur verða rýmkaðar.

Við ítrekum mikilvægi þess að hver og einn sýni ábyrgð á framgöngu sinni nú á þessum hættutímum. Meðal okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem er samfélagsleg skylda okkar að vernda eins og okkur er framast unnt.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Starfsfólk Laugarneskirkju