Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

Auðmjúki uppreisnarmaðurinn

 Guðspjall: Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“ Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“ Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“ (Matt 21.1-11)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Dramb er falli næst,“ segir gamalt og gott máltæki. Þetta er dæmi um biblíulega speki sem hrist hefur af sér uppruna sinn og tekið sér bólfestu í menningararfi okkar og vitund. Ég er ekki viss um að margir sem henda þessa speki á lofti geri sér grein fyrir því að með því eru þeir að vitna beint í Gamla testamentið, í Orðskviðina, 16. kafla vers 18. „Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.“ Þessi speki er ekki bundin við gyðingdóm eða kristni. Það er eins og það sé inbyggt í okkur mennina að dramb og hroki hljóti að hefna sín, að vissara sé að mæta heiminum og lífinu með ákveðinni auðmýkt og muna að það er ekki alltaf í okkar höndum hvernig fer.

Grikkir áttu sér hugtakið „hubris“ og hinir klassísku grísku harmleikir ganga jafnan út á það hvernig „hubris“ aðalsöguhetjunnar, oftrú hennar á eigin mátt og megin, eigið ágæti og ósigranleika, verður henni að falli.

Styrkur í auðmýkt

En það er dálítið skrýtið að hugmynd sem er svona rótgróin í menningararfleifð okkar og skynjun, hugmynd sem allir þekkja, skuli vera svona mörgum – sem á henni þurfa að halda – lokuð bók. Við höfum fyrir framan okkur nú í dag sorglega mörg dæmi um menn … undantekningalaust karlmenn … sem eru að glíma við að reyna að bjarga mannorði sínu og æru með öllum vitlausu verkfærunum, með hroka og afneitun, þegar það eina sem þeir þyrftu að gera til að fá uppreist æru að er að sýna smávegis auðmýkt.

Það er nefnilega styrkur í auðmýktinni. Maður þarf að hvíla býsna vel í sjálfum sér til að geta sýnt einlæga auðmýkt, að finnast maður ekki setja niður þótt maður lúti höfði í auðmýkt. Vera kann að einhverjum þyki það niðurlægjandi, en ef maður er í öruggum tenglsum við sína eigin sál, þá missir maður ekki svefn yfir því hvað einhverju fólki úti í bæ kann eða kann ekki að finnast um mann.

Það að þurfa að hanga á stolti sínu eins og hundur á roði hvað sem á dynur bendir einmitt til mikils óöryggis. Sá sem er svo háður því hvað öðrum finnst um hann að hann getur ekki á heilum sér tekið ef einhver skuggi fellur á það, hann er bara lítill og hræddur karl – ekki stór og sterkur eins og stolt hans telur honum trú um. Sá sem byggir sjálfsmynd sína á stolti byggir hana á sandi, því það er auðvelt að særa stolt. Það getur hver sem er gert. Heilbrigða sjálfsvirðingu getur aftur á móti enginn sært – nema maður sjálfur.

Konungur konunganna

Í þekktri og vinsælli sjónvarpsþáttaröð hér um árið féll setning sem geymir mikinn sannleika þegar að er gáð: „Any man who must say ‚I am the king‘ is no true king.“ „Sá sem verður að segja: ‚Ég er kóngurinn‘ er ekki sannur konungur.‘

Sá sem raunverulega er konungur þarf nefnilega ekki að tilkynna öðrum það, hann þarf ekki að hefja sig á stall sjálfur eða setja sig á háan hest – ef hann er sannur konungur fer það ekkert á milli mála.

Jesús setur sig ekki á háan hest. Hann setur sig á asna. Og er fagnað sem konungi.

Í guðspjalli dagsins kemur Jesús ríðandi í auðmýkt inn í Jerúsalem og múgurinn fagnar honum. Fólk breiðir klæði sín á veginn og aðrir höggva greinar af trjám og leggja þær á veginn. Þessi mynd er mjög sterk, en raunveruleg merking hennar, táknin sem hún er full af, eru horfin okkur í móðu tímans.

Hvað þýðir það að taka svona á móti manni sem ríður inn í borgina? Hverjum er fagnað á þennan hátt? Svarið er: Sigursælum hershöfðingja sem snýr heim úr farsælli herferð. Svona tóku Rómverjar á móti sínum hershöfðingjum þegar þeir sneru aftur til Rórmar eftir glæsta hernaðarsigra. En þeir riðu ekki ösnum. Þeir riðu stríðsfákum.

Það er áhugavert að Jesús fer allra sinna ferða fótgangandi í frásögnum Nýja testamentisins. Hann þiggur aldrei far eða sest upp á reiðskjóta. Jafnvel þegar hann fer yfir vatnið … þá fer hann að vísu á báti … en jafnvel þar getur hann gengið á vatninu. Jesús er hinn fótgangandi vegfarandi.

Aðeins einu sinni sest hann upp á reiðskjóta – þegar hann kemur ríðandi inn í Jerúsalem eins og konungur. Það er áreiðanlega engin tilviljun. Það þjónar tilgangi. Það dregur upp mynd.

Mynd sem er sótt beint í Spádómsbók Sakaría og vitnað er í í Guðspjallinu: „Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ (Matt 21.5)

Myndin úr menningararfinum

Fólkið sem fagnaði Jesú vissi nákvæmlega hvað það var að gera, það þekkti myndina sem það var að horfa á – hún var gróin inn í vitund þeirra, rótgróinn hluti af menningararfi þeirra – og hún var fyrirheit. Fyrirheit um betri tíma, fyrirheit um bjartari framtíð. Betri konung.

Þáverandi konungur Gyðinga, Heródes, var gerður konungur af öldungaráði Rómar. Það lét honum í té rómverskar hersveitir til að tryggja undirgefni þegnanna. Eftir dauða hans útnefndu rómverskir landstjórar æðstuprestana sem lögðust á eitt með Rómverjum að bæla niður hvers konar uppþot og óeirðir. Rómverjar höfðu gert musterið að verkfæri sínu og leiðtoga Gyðinga að þjónum til að treysta veldi sitt, annast skattheimtu og innleiða menningu sína. Og hér kemur Jesús, klipptur út úr spádómunum, út úr menningararfi þjóðarinnar, og ögrar öllu sem valdhafar höfðu verið að vinna að.

En ákafa múgsins … og ugg valdhafanna … má líka útskýra með því einu að halda áfram að lesa Spádómsbók Sakaría. Hvað gerir þessi hógværi og lítilláti konungur sem kemur inn í Jerúsalem á asna? Lesum áfram: „Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem.” Semsagt: Herinn burt! „Öllum herbogum verður eytt. Hann mun boða þjóðunum frið og ríki hans mun ná frá hafi til hafs.“ (Sak 9.10) 

Þetta var ekki alveg sú framtíðarmynd sem Rómverjar og leiguþý þeirra meðal ráðamanna Gyðinga sáu fyrir sér.

Og þótt Sakaría tali um að konungurinn muni boða þjóðunum frið, þá verður það ekki gert með ýkja friðsælum hætti. Hann heldur áfram: „Ég spenni Júda eins og boga, fylli Efraím sem örvamæli, vek upp syni þína, Síon, … og geri úr þér sverð í garps hendi. Yfir þeim birtist Drottinn, örvar hans fljúga sem eldingar.“ (Sak 9.13-14a)

Stríðsyfirlýsing

Innreið Jesú í Jerúsalem er ekkert minna en stríðsyfirlýsing. Við þurfum ekkert að ímynda okkur að múgurinn sem fagnaði Jesú og valdhafarnir, sem stóð stuggur af honum, hafi ekki þekkt alla myndina sem Sakaría hafði dregið upp og vitað nákvæmlega hvað var í vændum.

Hvað gerir Jesús líka? Hvernig er næsta setning í Guðspjallinu eftir að lestri dagsins sleppir? Hún er svona: „Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þið gerið það að ræningjabæli.“ (Matt 21.12-13)

Jesús og fylgismenn hans hertaka musterið, miðstöð hins trúarlega valds og loka á gróðabrall æðstu prestanna sem okur á fórnardýrum í musterinu var. Og þetta gerir hann í vikunni fyrir páska … aðalvertíðinni. Þetta er eins og að ráðast á Kringluna og loka henni á svörtum föstudegi.

Og hann fer að kenna í musterinu. Og hvað kennir hann? Hann kennir að tollheimtumenn og skækjur verði á undan æðstu prestunum og öldungunum inn í Guðs ríki. (21.32) Og hann vandar fræðimönnunum og faríseunum, góðborgurunum í samfélaginu, ekki kveðjurnar heldur: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ segir hann. „Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér. Þér sýnist góðir fyrir sjónum manna en eruð að innan fullir hræsni og ranglætis.“ (Matt 23.27-28)

Þetta var Jesús að kenna í musterinu þeirra. Auðvitað urðu þeir að koma þessum manni fyrir kattarnef. Hann var stórhættulegur fyrir gróðabrallið og espaði fólk upp gegn yfirvaldinu. Fyrir utan það náttúrlega hvað hann var slæmur fyrir stoltið.

Niðurlag sögunnar þarf ekki að tíunda. Við vitum öll hvernig hún endaði. Lýðnum var snúið gegn Jesú, hann var tekinn af lífi á hægan og kvalafullan hátt – en hann reis upp frá dauðum því sannleikurinn verður ekki drepinn hvernig sem handhafar lyginnar reyna. Hann rís alltaf upp aftur.

Stolt eða reisn

Og hvað með það? Hvað kemur þessi saga okkur við – í öðrum heimshluta 2000 árum síðar?

Kannski er það bara það að þrátt fyrir allar framfarir, þrátt fyrir það hve þekkingu okkar og tækni hefur fleygt fram og þrátt fyrir allt það sem á daga mannkynsins hefur drifið á þessum 2000 árum þá virka hjörtu mannanna nokkurn veginn eins nú og þá.

Við greinum styrk í auðmýkt. Við löðumst að henni og treystum þeim sem færir eru um að sýna hana í einlægni. Þeir glata ekki reisn sinni með því heldur þvert á móti, þeir styrkja hana.

Við greinum líka óttann og smæðina í hrokanum og yfirlætinu. Slíkt fælir okkur frá. Við getum óttast hina hrokafullu og stærilátu, en við berum ekki virðingu fyrir þeim. Virðing er áunnin, ekki fyrirskipuð.

Og þess vegna skulum við líta í okkar eigin barm. Hangi ég á stolti mínu eins og hundur á roði eða byggi ég sjálfsmynd mína á traustari grunni, á heilbrigðri sjálfsvirðingu sem rúmar auðmýkt? Feta ég í fótspor hans sem reið eins og sigursæll herforingi inn í borgina á asna eða gengst ég upp í því að sýnast góður fyrir sjónum manna – eins og hvít, kölkuð gröf?

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 28. 11. 2021

Eilífð, bak við árin

Eilífð, bak við árin

Falleg birta lék um Laugarneskirkju klukkan 11 í morgun.
Eins og svo marga sunnudagana á þessa ári gátum við ekki komið saman sem söfnuður til að njóta hennar. Yl þessarar birtu, sem táknar svo margt, verðum við að nálgast hvert og eitt núna með öðrum leiðum.
Í kristinni trú eigum við ríka hefð um að andinn sameini okkur, þó við séum fjarri hvort öðru.

Allt er bundið böndum. Stundum skynjum við það sterkt og það getur veitt huggun.
Á öðrum stundum finnum við alls ekki fyrir því, finnum okkur ekki tengd, fjarlægðin afgerandi. Það getur verið einmanalegt.

Ég var kominn út í kirkju til að ganga frá skreytingum eftir hrekkjavökugleði hverfisins í gær. Ég kveikti á kertum altarisins og opnaði út, svo að birtan inn í og fyrir utan kirkjuna mætti flæða betur saman.

Tíminn hefur liðið, það er kominn nóvember.
Þetta er sá tími ársins sem við tökum á móti vetrinum, það er umbreytingaorka í loftinu. Hér á Íslandi finnum við það ekki síst, áður fyrr var hér aðeins talað um tvær árstíðir; vetur og sumar. Nú er kominn vetur.
Kristin kirkja fann þessum tíma farveg og þann 1. nóvember er allraheilagramessa. Í trúarhefð okkar mótmælenda hefur áhersla verið á að við gefum okkur tíma til að minnast látinna sem okkur eru kær.

Á þessum tíma horfum við eins aftur í aldirnar og finnum okkur tengd forfeðrum- og formæðrum sem gengu um sömu jörð, sigldu um sömu höf, önduðu að sér sama lofti. Fólki sem fann, eins og við finnum, hvernig vonir og áhyggjur geta tekist á innra með okkur. Fólki sem hélt áfram að leita leiða til að mæta aðstæðum sínum, rétt eins og við leitum nú enn á ný leiða til að mæta aðstæðum okkar.
 
Við stöldrum við í dag. Við virðum fyrir okkur fortíðina, sögu okkar, í nálægð og fjarlægð. Þetta gerum við ekki til að setja okkur lögheimili í fortíðinni, heldur til að upplýsa og dýpka merkingu fótspora okkar þar sem við höldum áfram veginn.
Við virðum fyrir okkur alla litina, birtuna og skuggana.

Í dag lesum við úr spádómsriti Jesaja, þar segir meðal annars:
Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.

Spámaðurinn býður okkur að skynja eilífðina á bak við árin, á bak við öll þessi ferli sem við erum hluti af.
Við mættum þessum ferlum í gær, þá var fullt tungl í merki nautsins. Tunglið hjálpar okkur að staðsetja okkur, mæla tíma okkar og daga. Það er margt sem við hugsum í mánuðum.

Líf okkar er hverfult og stöðugar breytingar í kringum okkur og innra með okkur.
Við breytumst stöðugt, allt frá því við fæðumst inn í þennan heim og þar til við kveðjum hann. Sum reynsla hefur haft á okkur afgerandi áhrif, hún hefur breytt okkur. Þá skiptir tíminn ekki máli, það skiptir ekki máli hve langt er um liðið, við höldum áfram að leitast við að vinna með reynslu okkar og þroska viðbrögð okkar frammi fyrir lífinu.
Í gegnum allt virðumst við, hvert og eitt okkar, eiga einhvern kjarna sem varir. Eilíf birta, eilíft ljós.

Spámaðurinn bendir til þess sem varir.
Þrátt fyrir stöðuga hringrás breytinga þá er einhver andvari, einhver eilífð, sem umvefur allt. Eilíf birta, eilíft ljós.
Það eru önnur og meiri ferli en við fáum skilið, en við tilheyrum þeim.
Allt hvílir í Guði.    

Djáknar og prestar hafa á kveðjustundum við andlát, við dánarbeð, notast við fallegt form á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þar í upphafi er beðið saman með orðum þessa sálms Valdimars Briem:

Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom dögg, og svala sálu nú,
kom sól, og þerra tárin,
kom hjartans heilsulind,
kom, heilög fyrirmynd,
kom ljós og lýstu mér,
kom, líf, er ævi þver,
kom, eilífð, bak við árin.

Kom, eilífð, bak við árin.

Á tíma eins og þessum, á allraheilagramessu, getum við mætt meðvitund okkar um tengslin sem ná út fyrir líf og dauða, við getum mætt því hve tíminn er afstæður.
Við biðjum að við megum skynja að við erum hluti af þeirri eilífð sem hvílir að baki öllum okkar ferlum.
Við getum mætt því að andinn sameinar okkur, þó við séum fjarri hvort öðru.
Það mildar ekki alltaf sársaukann í lífi okkar og missinn, en þessi meðvitund getur stutt okkur þar sem við fetum okkur áfram veginn.
Sameinuð, þó við séum fjarri hvort öðru.

– sr. Hjalti Jón.

Líkami Krists

Líkami Krists

Við vitum ekki hvernig Jesús frá Nasaret leit út. Engar myndir eru til af honum og útliti hans er ekki lýst í Biblíunni.

Eina ályktunin sem hægt er að draga af því sem þar stendur er að hann hafi á engan hátt skorið sig úr fjöldanum í útliti. Hann gat horfið inn í mannfjöldann og þegar Rómverjarnir gómuðu hann í grasagarðinum þekktu þeir hann ekki í útliti. Júdas gat ekki einu sinni auðkennt hann með útlitseinkennum heldur varð hann að kyssa hann til að Rómverjarnir vissu hver viðstaddra væri Jesús.

Allar myndir okkar af Jesú eru hugmyndir. Þær eru myndir af því hvernig við sjáum Jesú fyrir okkur. Fæstar þessara mynda sýna dæmigerðan Galíleumann frá fyrstu öld okkar tímatals. Flestar þeirra sýna grannan, hávaxinn, karlmann af norðurevrópskum uppruna með sítt hár og skegg. En Jesús frá Nasaret var ekki norðurevrópumaður og hann var áreiðanlega ekki með sítt hár. Það var einfaldlega ekki til siðs að karlmenn væru síðhærðir á hans dögum.

Þegar mynd Jesú er annars vegar hefur á öllum tímum verið lögð meiri áhersla á að útlit hans endurspeglaði útlit þeirra sem myndin var fyrir heldur en trúnað við sögulegan bakgrunn fagnaðarerindisins.

Þannig má nefna að þegar kvikmyndin „The Greatest Story Ever Told“ var gerð árið 1965 var aðalhlutverkið í höndum Svía. Max Von Sydow gerði hlutverkinu ágæt skil, en lítið var um það – ef eitthvað – að þessi vísvitandi brenglun á útliti Jesú ylli uppnámi. Enda var hún í samræmi við það sem áhorfendur höfðu vanist.

Á öllum stöðum hefur útlit Jesú verið sniðið að útliti fólksins sem verið er að boða hann. Í kirkjum svartra í Bandaríkjunum og Afríku er algengt að sjá svartan Jesú, þ.e. Jesú sem virðist rekja ættir sínar og uppruna til Afríku sunnan Sahara. Það sama gildir um aðra heimshluta, t.d. Rómönsku Ameríku, þar sem hann virðist alloft vera afkomandi frumbyggja álfunnar.

Allar þessar „vitlausu“ Jesúsmyndir eru þó mikilvægar. Þær brýna okkur til að sjá Jesú ekki bara sem einn af okkur heldur líka sem einn af hinum. Þær eru nefnilega aðeins „vitlausar“ á mjög yfirborðskenndan og grunnhygginn hátt. Guðfræðilega eru þær allar hárréttar. Því ólíkari áhorfandanum sem myndin er, þeim mun brýnna er erindi hennar við hann.

Jesús sagði: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.39) Þetta er mikið grundvallaratriði í kristinni boðun. Og það vill þannig til að minnstu bræður okkar eru sjaldnast norðurevrópskir karlar. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga líka Jesúmyndir sem sýna hann sem einn hinna útskúfuðu og jaðarsettu, hvort sem það er vegna uppruna, kynferðis, kynhneigðar eða kynáttunar sem falla ekki að hinu heterónormatífa offorsi.

Sagnfræðilegur áreiðanleiki myndanna kemur málinu ekkert við. Guðfræðilegur áreiðanleiki þeirra er fyrir öllu og hann er ótvíræður.

Af hverju skyldi hin vitlausa mynd af Jesú sem konu eða transmanneskju valda meira fjaðrafoki en allar næstum því jafnvitlausu myndirnar af honum sem norðurevrópumanni (og síðhærðum í þokkabót, jafnvel þótt í Biblíunni standi skýrt og greinilega: „Kennir ekki sjálf náttúran ykkur að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd?“ (1Kor 11.14))

Finnst okkur sem hann setji niður við að vera ekki hvítur karlmaður? Er virðing okkar svo rígbundin við það ytra útlit? Eða er það vegna þess að þrátt fyrir allar þær tilfærslur á útliti hans sem trúarvitund okkar sættir sig við þá sé kynferði hans heilagt og við því megi ekki hrófla?

Ef svo er þá höfum við orðið fyrir trúarbrenglun sem verður að leiðrétta. Okkur finnst það kannski ekki gott, en við höfum sjaldnast gott af því sem okkur finnst gott. „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ (Gal 3.28)

Er ekki tímabært að við sjáum Jesú sem … nei, að við sjáum Jesú í transmanneskju?

Hinn sögulegi Jesús var vissulega ekki transmanneskja, en hann var ekki heldur hávaxinn, síðhærður norðurevrópumaður. Báðar myndirnar eru rangar.

Við eigum enga mynd af Jesú enda skiptir það engu máli hvernig hann leit út. Af því leiðir að það skiptir ekki heldur neinu máli hvort hann var karl eða kona eða trans. Erindi hans við okkur er samt fyrir því. Hvers vegna ættum við að rembast við að boða fagnaðarerindið hér á Íslandi á 21. öldinni ef það særir trúarvitund okkar flytja það úr sögulegri umgjörð sinni í öðrum heimshluta á þeirri fyrstu?

Að þessu sögðu er rétt að fram komi að sá sem hér ritar er ekki endilega þeirrar skoðunar að Trans-Jesús sé á réttum stað í auglýsingum fyrir sunnudagaskólann, en það er önnur umræða, sem ekki verður tekin upp hér. Góð guðfræði getur verið afleitt PR.

Í Guðs friði,

Davíð Þór Jónsson

Sóknarprestur í Laugarnessprestakalli