Kulnun Júdasar

Kulnun Júdasar

 Náð sé með ykkur

öllum og friður frá Guði föður og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Fyrir nokkrum árum heyrði ég íslenskan stjórnmálamann fara með speki sem mig minnir að hann hafi
sagt koma frá Willy Brandt, sem var kanslari Vestur-Þýskalands um fimm ára skeið á síðari hluta seinustu aldar. Vísdómur Willys Brandts var einhvern veginn á þessa leið ef ég man hann rétt: „Sá sem ekki er kommúnisti um tvítugt er illa innrættur. Sá sem er kommúnisti á efri árum er illa gefinn.“

Ég man að stjórnmálamanninum þótti þessi viska kanslarans býsna skondin og fanga það sem að hans mati var heilagur sannleikur. En ég man líka að mér þótti þessi meinta fyndni sorgleg – og mér þykir það enn.

Þetta snýst ekki um eina gerð af hagkerfi gegn annarri gerð af hagkerfi. Þetta snýst um hugsjónir – um að gera ekki trúna á gott og illt, rétt og rangt, að einhverju einfeldningslegu og kjánalegu.

Þarna er því nefnilega lýst sem þroskamerki að gefa hugsjónir sínar upp á bátinn. Að láta drauminn um réttlátt samfélag lönd og leið, að afgreiða frelsi, jafnrétti og bræðralag sem fráleita draumóra. Samkvæmt þessari speki er sá maður að vaxa að visku og þroska sem áttar sig á því að í samfélagi, þar sem allir eru jafnir, hefur hann það ekki betra en aðrir og snýst því frekar á sveif með samfélagi þar sem hann getur olnbogað sig áfram til meiri lífsgæða en hinir njóta á þeirra kostnað. 

Willy Brandt var í mínum huga aðeins að fullyrða að það væri eðlilegt og heilbrigt að samhygð og réttlætiskennd viki fyrir eigingirni og sjálfhyggju með hækkandi aldri. Vissulega má vera að algengt sé að það eigi sér stað, en fyrr skal ég dauður liggja en gangast við því að það sé æskilegt.

Þetta er ekki þroski

Um þetta er notað annað orð sem nú er í tísku: Kulnun.

Júdasarguðspjall

Ástæða þess að þessar hugleiðingar koma upp í huga minn í dag er að guðspjallstextinn sem við heyrðum áðan segir frá manni sem gafst upp á hugsjónum sínum, Júdasi Ískaríot.

Um Júdas hefur margt verið rætt og ritað og ýmsar áhugaverðar og jafnvel skemmtilegar samsæriskenningar og pælingar hafa litið dagsins ljós. Á áttunda áratug síðustu aldar fannst t.d. texti svonefnds Júdasarguðspjalls í Egyptalandi, rits sem reyndar var vitað að til hefði verið enda nefnir Íreneus kirkjufaðir það í riti sínu Adversus Haerases, „Gegn villutrú“, skrifuðu seint á annarri öld.

Þetta orð, „villutrú“, er – ólíkt orðinu „kulnun“ – ekki í tísku nú á dögum. Það hefur á sér ákveðinn fornaldarblæ. En orðið merkir ekki „önnur trúarbrögð en mín“ eins og það hefur oft verið notað. Orðið merkir einfaldlega „trú sem fer villur vegar“, „trú sem villir um fyrir okkur“. Sú trú að rétt sé rangt og rangt rétt
er villutrú. Trú sem gerir dyggð að synd og synd að dyggð er villutrú.

Júdasarguðspjall hafði verið talið glatað að eilífu og vakti fundur þess því nokkra athygli. Samkvæmt því – eða alltjent einum túlkunarmöguleika þess – var Júdas hreint enginn svikari heldur einmitt sá lærisveinn sem Jesús treysti best og sá eini sem hann treysti til að framkvæma skítverkið sem vinna þurfti til að
ráðsályktun Guðs gæti náð fram að ganga.

Júdasarguðspjall er í raun aðeins eitt fjölmargra gnóstískra rita frá þessum tíma sem draga upp mynd af Jesú sem er mjög frábrugðin þeirri sem guðspjöll Nýja testamentisins sýna. Þessi rit skipta tugum. Í mörgum þeirra hvíslar Jesús einhverjum meintum algildum sannleik í eyru útvalins fulltrúa. Stundum er þessi sannleikur, einsog til dæmis í Opinberun Péturs sem er frá svipuðum tíma og Júdasarguðspjall, lítið annað en grafískar lýsingar á misþyrmingunum og pyntingunum sem bíða syndara eftir dauðann. Ekkert bendir til þess að svonefnt Júdasarguðspjall sé minni markleysa en hin ritin úr þessum flokki.

Hver er svo sekur?

En spurningin er aftur á móti fullgild: Ef Jesús þurfti að deyja á krossi til að geta risið upp í mætti og dýrð til að frelsa okkur … var þá Júdas ekki að vinna gott verk? Var hann ekki handbendi Guðs í framgangi hjálpræðisverksins?

Svarið er nei.

Sagan um Rauðhettu hefði varla verið í frásögur færandi ef enginn úlfur hefði verið í skóginum – en það gerir úlfinn samt ekki að góða gæjanum í sögunni. Sömuleiðis er áreiðanlegt að í Hogwarts hefði verið daufleg vist fyrir Harry Potter og félaga ef Voldemort hefði hvergi verið á sveimi, en samt er auðvitað fráleitt að ætla að gera úr „honum sem ekki má nefna“ eitthvað annað en rakið illmenn

Júdas brást. Júdas sveik Jesú

Hann var ekki með í ráðum um neitt, hann vissi ekki betur en að hann væri að framselja vin sinn til dauða – fyrir peninga

Í Postulasögunni segir að Júdas hafi keypt sér búgarð fyrir peningana en steypst þar á höfuðiðsvo hann brast í sundur í miðju. Þannig er gefið í skyn að greiðslan hafi verið dágóð fjárhæð, dugað fyrir vænni bújörð með reisulegum byggingum. Við getum kallað það „fjárhagslegt sjálfstæði“ sem hann fékk að launum fyrir svikin. En það dugði honum þó auðvitað skammt því laun syndarinnar eru dauði.

Að gefast upp

Það sem gerir þetta sorglegt er ekki síst sú staðreynd að ástæðulaust er að efast um heilindi ogeldmóð Júdasar í fyrstu. Hann hafði gengið til liðs við Jesú frá Nasaret af heilum hug, brennandi í andanum. Þær fórnir sem færa þurfti, þjóðfélagsstaða og veraldleg gæði sem gefa þurfti upp á bátinn til að geta fylgt meistaranum frá Nasaret, útiloka að á bak við þá afdrifaríku ákvörðun hafi verið eitthvað annað en eldföst hjartans sannfæring.

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá því að Júdas hafi reiðst þegar kona nokkur smurði fætur Jesú með rándýrum smyrslum og spurt af hverju þau hafi ekki verið seld og andvirðið gefið fátækum. Þar talar maður gagntekinn af heilagri réttlætiskennd og samúð með lítilmagnanum.

Í Lúkasarguðspjalli segir frá því að auðugur maður hafi komið til fundar við Jesú og viljað fylgja honum, en Jesús sagði honum að fara fyrst og selja allar eigur sínar og skipta því meðal fátækra. Við það varð sá ríki hryggur, því það var stærri fórn en hann var fær um að færa. Þá segir Pétur við Jesú: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“ (Lúk 18.22-28)

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“

„Við“ hverjir?

Við postularnir. Þar á meðal Júdas Ískaríot.

Við vitum ekkert um það hvað Júdas hafði yfirgefið. Flestir fræðimenn eru þeirrar skoðunar að eftirnafn hans, Ískaríot, merki einfaldlega „maður frá Keríjót“ sem var þorp í Júdeu. Hann hefur væntanlega verið kallaður „Júdas Keríjótverji“ til aðgreiningar frá hinum Júdasinum í postulahópnum, Júdasi Jakobssyni. (Lúk 6.16) Júdas frá Keríjót var sonur Símonar frá Keríjót, (Jóh 6.71) en Júdas var feykilega algengt nafn í Palestínu á þessum tíma eins og fjöldi heimilda ber vott um – og Símon reyndar líka. Þannig að ekkert illt eða djöfullegt er við Júdas Símonarson, það hefur verið nánast eins og heita Jón Jónsson í dag eða vera kallaður Jón Akureyringur til aðgreiningar frá Jóni Sig.

Og þótt ritningin fullyrði ítrekað að Jesús hafi vitað að Júdas myndi svíkja sig, nánast eins og það hafi allan tímann verið partur af „stóra planinu“ og gerst með velþóknun hans, þá stafar það líklega af því að ótrúverðugt hefði verið að syni Guðs – eins og orðasambandið var skilið bókstaflega – væri nokkuð hulið, að hægt væri að koma honum að óvörum.

Einn hinna tólf

Í Matteusarguðspjalli er nefnileg texti sem varpar öðru ljósi á Júdas. Þar segir Jesús: „Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matt 19.28-29)

„Þið sem fylgið mér … núna þegar þessi orð eru töluð … munuð sitja í tólf hásætum. Hver sem hefur yfirgefið heimili, fjölskyldu og eigur til að fylgja mér … mun öðlast eilíft líf.“ Þegar þessi orð eru mælt er Júdas Ískaríot einn hinna tólf og hafði yfirgefið allt sem hann átti, eins og hinir ellefu, til að fylgja Jesú. Þarna talar ekki Jesús sem grunar að einn hinna tólf muni snúast gegn honum.

Þegar þessi orð eru töluð hafði Júdas Ískaríot ásamt hinum postulunum ellefu farið víða, boðað fagnaðarerindið, læknað sjúka og rekið út illa anda í Jesú nafni með góðum árangri, Júdas Ískaríot ekki með minni árangri en kollegar hans – að minnsta kosti er þess hvergi getið, sem er einkennilegt í ljósi þess hve klifað er á því fyrirfram að Júdas ætti eftir að bregðast.

Júdas var innvígður í nánasta hring Jesú frá Nasaret. Hann var jafnmikið einn hinna tólf og allir hinir, ekkert tortryggilegri eða vafasamari karakter en þeir, ekkert verr til þess fallinn að boða fagnaðarerindið, lækna sjúka og reka út illa anda en hinir ellefu. Hann hafði fært nákvæmlega sömu fórnir og hinir ellefu fyrir nákvæmlega sömu hjartans hugsjón.

Jesús treysti honum.

Og hann sveik hann.

Kulnun

Hvað veldur því að maður sem hefur yfirgefið allt sem hann átti til að fylgja hugsjón sinni um samfélagslegt réttlæti, um mannlega reisn hinna smæstu og smáðu, um líkn hinna sjúku og þjáðu, svíkur leiðtoga sinn í hendur ógnarstjórnarinnar sem traðkaði á þjóð hans, í skiptum fyrir kósí líf með litlum áhyggjum?

Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu, en við getum hvert og eitt velt því fyrir okkur hvernig okkur sjálfum hefur haldist á eldmóði okkar úr æsku, hve vel okkur hefur gengið að fylgja sannfæringu hjarta okkar í gegnum súrt og sætt, í meðbyr og andstreymi, að kulna ekki í andanum heldur standa stöðug í trúnni á það sem er satt og rétt.

Það er erfitt.

Ég hugsa að öll höfum við einhvern tímann guggnað, eða að minnsta kosti gælt við þá tilhugsun að snúa baki við streðinu og erfiðinu sem því fylgdi að hlýða rödd hjartans og finna í staðinn þægilegri leið. Ég held að flest höfum við velt því fyrir okkur hve mikið við gætum boðið samvisku okkarán þess að bugast.

Við getum látið sagnfræðilegan áreiðanleika þessarar frásagnar liggja algerlega á milli hluta, enda er hún ekki um einangraða atburði sem áttu eða áttu sér ekki stað í fjarlægum heimshluta einhvern tímann í fyrndinni.

Þessi frásögn er um eilífan trúarlegan sannleika, um hið mannlega hlutskipti, um mannlega reynslu, um mannssálina. Hún er um álag mennskunnar. Hún er um okkar eigin innri Júdas Ískaríot. Hún er um það að ekkert okkar er yfir það hafið að geta kiknað … kulnað.

Og Júdas Ískaríot hefði getað útskýrt og réttlætt viðsnúning sinn með hótfyndni að hætti Willys Brandts og sagt eitthvað á borð við: „Sá sem ekki fylgir Jesú þegar hann er ungur er illa innrættur. Sá sem ekki svíkur hann fyrir þrjátíu silfurpeninga þegar hann er eldri að árum er illa gefinn.“

En það er ekki kristindómur.

Það er villutrú.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í útvarpsmessu frá Laugarneskirkju á skírdag 2021

Barrabas páfi

Barrabas páfi

Guðspjall: Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“ Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“ Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“ Þeir svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ … Að svo mæltu gekk [Pílatus] aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum. Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“ Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi. (Jóh 18.28 – 31, 38b – 40)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú í vikunni sá ég ljósmynd sem mér þótti skondin. Eða öllu heldur þá þótti mér myndatextinn við hana dálítið skemmtilegur. Myndin sýndi páfann í Róm á leiðinni til messu. Hann var í fullum skrúða, með mítur, bagal, biskupskápu og allt sem einn páfi getur skrýtt sig með og ég kann ekki full skil á, allt í gulli og blúndum. Myndatextinn var eitthvað á þessa leið í minni þýðingu: „Þarna er páfinn í Róm í glæsilegri, gylltri siffon-kápu við gasalega lekkeran, gylltan blúndu-kvöldkjöl, með háan, gulllitan hatt og í rúbínrauðu skónum hennar Judy Garland úr Galdrakarlinum í Oz á leiðinni í kirkjuna til að segja okkur að það sé ljótt að vera hinsegin.“

Ég treysti því að hinseigin vinir mínir hafi húmor fyrir stereótýpunni sem þarna er verið að leika sér með.

Skrúði og skinhelgi

Sjálfsagt á hvert klæði sem hengt er á páfann og hver hlutur sem hann ber með sér og tilheyrir skrúða hans sína sögu, tilgang og merkingu. Og ég er sannfærður um að engu af því sé beinlínis ætlað að vera tákn tvískinnungs og hræsni þótt framganga þeirra sem skrýðst hafa þessum skrúða til þessa hafi gert það að verkum – alltjent þegar kemur að afstöðunni til hinsegin fólks – að hann standi fyrir lítið annað en yfirdrepsskap og skinhelgi.

Sjálfur stend ég hér frammi fyrir ykkur í skrúða, ekki nándar nærri eins tilkomumiklum og þeim sem páfinn í Róm klæðist, en hver hlutur hefur táknræna merkingu sem ég reyni einlæglega eftir mínum veika mætti að láta stjórna orðum mínum og framgöngu.

Hvíti kuflinn eða sloppurinn sem ég er í nefnist alba og hann hylur persónulegan fatnað minn til að sýna að ég stend ekki frammi fyrir ykkur í krafti minnar eigin persónu heldur hans sem sendi mig.

Ég er með stólu á öxlunum, sem lítur kannski svolítið út eins og gagnslaus trefill. Hún er tákn vígslu minnar, stendur fyrir byrði þess embættis sem ég er vígður til að þjóna. Hún er eins og klafi á uxa, nema hvað hún vegur nákvæmlega 250 grömm. Ég veit það af því að ég skellti henni einu sinni á eldhúsviktina heima hjá mér. Enda er henni ætlað að minna á orð frelsarans þegar hann sagði: „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt 11.30)

Loks er ég með snúru um mittið til að merkja mig sem lærisvein Jesú sem sagði við þá: „Verið girtir um lendar yður.“ (Lúk 12.35)

En út frá þessu mætti sjálfsagt gera svipað grín að mér og þarna er gert að páfanum. Og það er líka allt í lagi. Ef einhver getur bent á tvískinnung í fari mínu eða ósamræmi á milli orða minna og gjörða þá hef ég bara gott af því að vera núið því um nasir.

Lög og regla

En þessi mynd af páfanum kom óneitanlega upp í huga minn þegar ég hugleiddi guðspjallstexta dagsins. Hann byrjar nefnilega á þessari einföldu setningu sem auðvelt er að láta framhjá sér fara, en hún afhjúpar með miskunnarlausum hætti hræsni og skinhelgi ofækjenda Jesú:

„Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar.“

Pílatus var nefnilega heiðingi og gyðingar trúðu því að þeir „saurguðust“ ef þeir gengu undir þak heiðingja. Það stóð skýrum stöfum í lögmálinu sem þeir trúðu á. Og þessir fínu menn ætluðu sko ekki að eyða sjálfri páskahátíðinni í einhverri sóttkví út af svoleiðis vangá, heldur hugðust þeir taka fullan þátt í gleðinni og veisluhöldunum. Þess vegna gættu þeir þess að standa fyrir utan og ræða við Pílatus þar.

Auðvitað má láta það fara í taugarnar á sér að sagan er væntanlega uppspuni, ef ekki frá rótum þá að minnsta kosti að verulegu leyti. Við vitum að sá Pontíus Pílatus sem guðspjallamaðurinn Jóhannes lýsir á mjög lítið skylt við þá blóðþyrstu og miskunnarlausu skepnu sem aðrar heimildir lýsa sem hinni sögulegu persónu Pontíusi Pílatusi. Sá gaur hefði séð litla ástæðu til að þvo hendur sínar af blóði sakleysingja, hvað þá að það hefði hvarflað að honum að eiga orðaskipti við dauðadæmdan lágstéttargyðing. En látum sagnfræðilegan áreiðanleika frásagnarinnar liggja á milli hluta, enda skiptir hann ekki nokkru máli. Jóhannes er að segja okkur helgisögu mettaða merkingarþrungnum trúartáknum, ekki sagnfræðilega nákvæma lýsingu á raunverulegum atburðum.

Rétt og rangt

En þessir gyðingar ganga semsagt á fund rómverska landstjórans og eru trúir sínu lögmáli með því að ganga ekki undir þak hans heldur ræða við hann fyrir utan húsið hans. Og hvert er erindi þeirra til landstjórans? Jú, að láta taka saklausan mann af lífi.

Þannig var nú þeirra skilningur á lögmálinu – á réttu og röngu.

Þegar Jesús var spurður að því hvert væri æðsta boðorðið svaraði hann aftur á móti: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Síðan bætir hann við: „Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ (Matt 22.37-40)

Þetta er lögmál Jesú.

Það var hins vegar lítið pláss fyrir kærleikann í lögmáli þeirra sem vildu Jesú feigan. Þeirra lögmál var of undirlagt af helgisiðum og hreinleikaákvæðum til að þar rúmaðist arða af náungakærleik. Svona svipað eins og Rómarkirkjunni þykir mikilvægara skrýða og gylla páfann sinn eftir öllum hinum réttu kúnstarinnar reglum heldur en að taka upp hanskann fyrir þá sem ofsóttir hafa verið í gegnum aldirnar fyrir það eitt að elska vitlaust – að mati þeirra sem telja sig hafa einkarétt á að skilgreina hverja megi elska hvernig þannig að það sé Guði þóknanlegt.

Nei, þeir töldu sig vera að gera hárrétt með því að standa fyrir utan á meðan þeir kröfðust dauðarefsingar yfir Jesú. Og það sem meira er, þegar Pontíus Pílatus stakk upp á því að Jesús yrði náðaður samkvæmt einhverri hefð um að náða einn dauðadæmdan mann fyrir hverja páskahátíð, þá mótmæltu þeir og vildu frekar Barrabas. Um Barrabas er lítið vitað en í guðspjallinu segir: „Barrabas var ræningi.“

Þeir vildu frekar að landsstjórinn náðaði heiðarlegan þjóf heldur en skaðræðisskepnuna Jesú frá Nasaret.

Hvernig skyldi standa á því?

Heiðarlegur þjófur

Heiðarlegur þjófur eins og Barrabas ógnaði aðeins buddunni þeirra. Það var pláss fyrir hann í samfélaginu, tilvera hans kom heim og saman við heimsmynd þeirra og sjálfsmynd. Hann var ekki að hræra í hausnum á þeim eins og Jesús gerði. Hann var ekki að ögra og storka heimsmynd þeirra, sjálfsmynd og gildismati.

Barrabas var ekki með neinar meiningar um að það saurgaði menn kannski meira að hafa blóð sakleysingja á höndum sér heldur en að ganga undir þak heiðingja.

Barrabas var ekkert að snúa lögmálinu þeirra um rétt og rangt á hvolf eins og Jesús gerði. Barrabas hafði ábyggilega aldrei fullyrt að það sem menn létu út úr sér saurgaði þá kannski meira en það sem þeir létu ofan í sig. Enda var ekkert gott að heyra það fyrir menn sem byggðu allar hugmyndir sínar um sitt eigið ágæti á því hvað þeir voru duglegir við að leggja sér hvorki skinku né rækjur til munns á milli þess sem þeir, lugu, sviku, stálu, baktöluðu og hóruðust eins og enginn væri morgundagurinn.

Og kannski erum við svona enn þann dag í dag.

Við skiljum ræningjann. Hann stjórnast af kenndum sem við könnumst við. Þótt við flest hver reynum að láta þær ekki stjórna gjörðum okkar þá er það að girnast eigur náungans okkur flestum ekkert mjög framandi tilfinning, hvað þá óskiljanleg.

Hinn gæinn er miklu óþægilegri. Sá sem segir okkur að allt sem við trúum, allt sem við stöndum fyrir, allt sem við höfum byggt sjálfsmynd okkar og sjálfsskilning á sé reist á sandi. Að sjálfsvirðing okkar sé sjálfsblekking. Sá sem boðar breytingar sem kynnu að kippa fótunum undan tilveru okkar … við viljum losna við hann.

Ógnvaldar og meinleysingjar

Ef okkur til dæmis finnst og hefur alltaf fundist það eðlilegasti hlutur í heimi að strákar séu nú einu sinni og verði alltaf strákar og verði því að fá að komast upp með framkomu sem kannski í ströngum skilningi er röng og stelpur verði bara að sætta sig við það – þá finnst okkur kannski óþægilegt að skyndilega hætti samfélagið bara eins og hendi sé veifað að samþykkja það. Og þegar farið er að hanka menn á gömlum syndum getur farið um okkur, ég tala nú ekki um ef við höfum sjálfir eitthvað á samviskunni í þessum efnum … sem ég held að ótrúlega margir okkar hafi, misalvarlegt og misilla meint auðvitað – en hinir algerlega syndlausu meðal okkar held ég að séu fáir ef einhverjir.

Þá er ógnin kannski orðin miklu meiri við okkur og líklegri til að kippa undan okkur fótunum heldur en ef einhver myndi bara nappa veskinu okkar.

Við verðum alltaf að vera með gildismat okkar, skilning okkar á réttu og röngu, því hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi, í stöðugri endurskoðun.

Ef við gerum það ekki þá endum við kannski á því að líta svo á að við séum að gera rétt með því að gæta þess að vera í nógu flottum jakkafötum þegar við förum í nógu fínu vinnuna okkar í nógu virðulega bankanum til að stunda þar stórfellda fjársvika- og blekkingastarfsemi, innherjasvik og skjalafals, sem er ekkert annað en stórfelld, lögvernduð ræningjastarfsemi og kemur öllum okkar minnstu bræðrum og systrum á vonarvöl þegar bólan springur og allt hrynur til grunna.

Nú eða að vera í réttu gullblúndunum og gyllta kjólnum okkar þegar við bendum fordæmandi fingri á aðra fyrir að elska vitlaust – í nafni trúar sem kjarnann í má draga saman í tvö orð: „Elskaðu náungann.“

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 21. 3. 2021

Eilífð, bak við árin

Eilífð, bak við árin

Falleg birta lék um Laugarneskirkju klukkan 11 í morgun.
Eins og svo marga sunnudagana á þessa ári gátum við ekki komið saman sem söfnuður til að njóta hennar. Yl þessarar birtu, sem táknar svo margt, verðum við að nálgast hvert og eitt núna með öðrum leiðum.
Í kristinni trú eigum við ríka hefð um að andinn sameini okkur, þó við séum fjarri hvort öðru.

Allt er bundið böndum. Stundum skynjum við það sterkt og það getur veitt huggun.
Á öðrum stundum finnum við alls ekki fyrir því, finnum okkur ekki tengd, fjarlægðin afgerandi. Það getur verið einmanalegt.

Ég var kominn út í kirkju til að ganga frá skreytingum eftir hrekkjavökugleði hverfisins í gær. Ég kveikti á kertum altarisins og opnaði út, svo að birtan inn í og fyrir utan kirkjuna mætti flæða betur saman.

Tíminn hefur liðið, það er kominn nóvember.
Þetta er sá tími ársins sem við tökum á móti vetrinum, það er umbreytingaorka í loftinu. Hér á Íslandi finnum við það ekki síst, áður fyrr var hér aðeins talað um tvær árstíðir; vetur og sumar. Nú er kominn vetur.
Kristin kirkja fann þessum tíma farveg og þann 1. nóvember er allraheilagramessa. Í trúarhefð okkar mótmælenda hefur áhersla verið á að við gefum okkur tíma til að minnast látinna sem okkur eru kær.

Á þessum tíma horfum við eins aftur í aldirnar og finnum okkur tengd forfeðrum- og formæðrum sem gengu um sömu jörð, sigldu um sömu höf, önduðu að sér sama lofti. Fólki sem fann, eins og við finnum, hvernig vonir og áhyggjur geta tekist á innra með okkur. Fólki sem hélt áfram að leita leiða til að mæta aðstæðum sínum, rétt eins og við leitum nú enn á ný leiða til að mæta aðstæðum okkar.
 
Við stöldrum við í dag. Við virðum fyrir okkur fortíðina, sögu okkar, í nálægð og fjarlægð. Þetta gerum við ekki til að setja okkur lögheimili í fortíðinni, heldur til að upplýsa og dýpka merkingu fótspora okkar þar sem við höldum áfram veginn.
Við virðum fyrir okkur alla litina, birtuna og skuggana.

Í dag lesum við úr spádómsriti Jesaja, þar segir meðal annars:
Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.

Spámaðurinn býður okkur að skynja eilífðina á bak við árin, á bak við öll þessi ferli sem við erum hluti af.
Við mættum þessum ferlum í gær, þá var fullt tungl í merki nautsins. Tunglið hjálpar okkur að staðsetja okkur, mæla tíma okkar og daga. Það er margt sem við hugsum í mánuðum.

Líf okkar er hverfult og stöðugar breytingar í kringum okkur og innra með okkur.
Við breytumst stöðugt, allt frá því við fæðumst inn í þennan heim og þar til við kveðjum hann. Sum reynsla hefur haft á okkur afgerandi áhrif, hún hefur breytt okkur. Þá skiptir tíminn ekki máli, það skiptir ekki máli hve langt er um liðið, við höldum áfram að leitast við að vinna með reynslu okkar og þroska viðbrögð okkar frammi fyrir lífinu.
Í gegnum allt virðumst við, hvert og eitt okkar, eiga einhvern kjarna sem varir. Eilíf birta, eilíft ljós.

Spámaðurinn bendir til þess sem varir.
Þrátt fyrir stöðuga hringrás breytinga þá er einhver andvari, einhver eilífð, sem umvefur allt. Eilíf birta, eilíft ljós.
Það eru önnur og meiri ferli en við fáum skilið, en við tilheyrum þeim.
Allt hvílir í Guði.    

Djáknar og prestar hafa á kveðjustundum við andlát, við dánarbeð, notast við fallegt form á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þar í upphafi er beðið saman með orðum þessa sálms Valdimars Briem:

Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom dögg, og svala sálu nú,
kom sól, og þerra tárin,
kom hjartans heilsulind,
kom, heilög fyrirmynd,
kom ljós og lýstu mér,
kom, líf, er ævi þver,
kom, eilífð, bak við árin.

Kom, eilífð, bak við árin.

Á tíma eins og þessum, á allraheilagramessu, getum við mætt meðvitund okkar um tengslin sem ná út fyrir líf og dauða, við getum mætt því hve tíminn er afstæður.
Við biðjum að við megum skynja að við erum hluti af þeirri eilífð sem hvílir að baki öllum okkar ferlum.
Við getum mætt því að andinn sameinar okkur, þó við séum fjarri hvort öðru.
Það mildar ekki alltaf sársaukann í lífi okkar og missinn, en þessi meðvitund getur stutt okkur þar sem við fetum okkur áfram veginn.
Sameinuð, þó við séum fjarri hvort öðru.

– sr. Hjalti Jón.