Myndin af Guði

Myndin af Guði

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag spyrjum við ekki „Hverju trúir þú?“ heldur „Af hverju trúir þú?“ Þetta er ekki spurning sem við erum vön, flest hver. Þegar trúna ber á góma er miklu frekar farið út í það á hvað maður trúir og trúir ekki, hvaða hlutverki trúin gegnir í lífi manns og jafnvel hvernig maður iðki trú sína. Það eru algengu spurningarnar, skv. minni reynslu.

Hitt er fátíðara að beinlínis sé forvitnast um það af hverju maður trúi yfirhöfuð á eitthvað.

Ég heyrði einu sinni skilgreiningu á trú, eða öllu heldur á því í hverju munurinn á trú og trúarbrögðum sé fólginn. Þessi skilgreining situr í mér. Hún er á þá leið að trúarbrögð séu fyrir fólk sem er hrætt við að fara til helvítis. Trú sé fyrir fólk sem hefur verið þar.

Ég er ekki frá því að það sé eitthvað til í þessu. Ekki svo að skilja að ég ætli að lýsa því yfir að ég hafi einhverja persónulega reynslu af helvíti. Sé svo þá bliknar það helvíti alla vega í samanburði við þær raunir og þjáningar sem aðrir hafa mátt reyna. En svo á kannski hver og einn sitt persónulega helvíti, stundina þegar allt var honum mótdrægast og honum hafði aldrei fundist hann eins einn og yfirgefinn á berangri. Ég hef átt slíka stund.

Og það er kannski tilfinningin sem stendur upp úr þegar ég rifja þá stund upp. Einsemdin.

Sá sem á sér trú er aldrei alveg einn. Það er alltaf einhver sem vakir yfir honum, kemur honum kannski ekki til bjargar eða reddar málunum, en yfirgefur hann alla vega ekki. Kannski jafnvel grætur hann og þjáist með honum. Sem er alltaf betra en að gráta og þjást einn.

Guð og læknavísindin

Í góðri bók segir læknir nokkur, William D. Silkworth að nafni, reynslusögu sem er svona í styttri útgáfu:

„Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér oft hugsað til manns eins, sem var lagður inn af þekktum lækni í New York. Þessi sjúklingur hafði greint sjúkdóm sinn, skildist að útlitið var vonlaust og hafði falið sig í fjósi, ákveðinn í að deyja. […] Sagði hann […] skýrt og skorinort að það væri tilgangslaust að reyna nokkra meðferð við sig. […] Ofdrykkjuvandamál hans var flókið og þunglyndi hans svo svart að okkur virtist eina vonin í því fólgin að hægt væri að beita við hann „siðferðilegri sálfræði“, sem svo var kölluð, og jafnvel það fannst okkur hæpið. Samt sem áður tókst að vekja trú hans á hugmyndir þær, sem eru fram settar í þessari bók. Hann hefur ekki snert vín í mörg ár. Ég rekst oft á hann og hann er eitt hið besta sýnishorn af heilsteyptum manni sem á verður kosið.“

Hverjar eru svo þessar kraftaverkahugmyndir sem settar eru fram í umræddri bók? Jú, þær eru að trúa að máttur okkur æðri geti gert okkur andlega heilbrigð, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi okkar á honum, að játa misgjörðir sína fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi okkar á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Það er nú ekki flóknara.

Þetta er það sem leysti vandamál sem læknavísindin stóðu ráðþrota frammi fyrir – a.m.k. þegar þetta var skrifað.

Þessi bók heitir A. A. bókin. Hún er alls ekki hafin yfir gagnrýni og er að ýmsu leyti barn síns tíma, enda hefur ógrynni bóka komið út þar sem nálgun hennar er gagnrýnd og henni fundið flest til foráttu. Samt er það svo einkennilegt að A. A. bókina hefur ekki þurft að skrifa aftur.

Þetta minnir svolítið á aðra ágæta bók, sem við heyrðum lesið úr hér áðan.

Jólakortið

Ég get deilt með ykkur lífsreynslu mjög sambærilegri við þá sem læknirinn, lýsir.

Þegar ég þarfnast andlegrar upplyftingar verður mér hugsað til jólakorts sem ég fékk fyrir nokkrum árum. Það var frá dreng sem ég hafði kynnst einum þrem eða fjórum árum fyrr. Ég var þá sjálfur kominn inn á beinu brautina, hafði gengið hana skamman spöl en var fráleitt jafnlangt niðri og ég hafði verið einu eða tveim árum áður. Þessi ágæti piltur hafði verið í mikilli neyslu harðra fíkniefna og stundað sölu þeirra. Það hafði endað með ósköpum, hann varð fyrir hnífsstungu og börnin hans og sambýliskonu hans, sem voru þrjú, voru komin í umsjá opinberra aðila.

Ég viðurkenni að mér leist ekkert ekkert sérstaklega vel á piltinn í fyrstu. Hann var niðurlútur og óframfærinn, talaði lítið og hikstaði og stamaði þá sjaldan sem hann reyndi. Hann hélt þó áfram að láta sjá sig og með tímanum fór honum að líða betur, hann varð upplitsdjarfari, mannblendnari og með aukinni fjarlægð á þær hörmungar sem hann hafði gengið í gegn um varð hann fær um að segja frá þeim, gangast við fortíð sinni og taka ábyrgð á sjálfum sér. Ekki leið á löngu þar til félagsskapurinn treysti honum fyrir trúnaðarstörfum í sína þágu.

Á þessu jólakorti var ljósmynd af þremur börnum í sparifötunum fyrir framan skreytt jólatré. Börnunum hans þremur … sem bjuggu hjá honum, sem hann hafði forræði yfir og nutu hátíðlegra jóla hjá föður sínum.

Þegar ég heyri gert lítið úr mætti trúarinnar þarf ég ekki annað en að loka augunum og sjá þetta jólakort fyrir mér. Það prýða þrjár litlar manneskjur, þrjár lifandi sálir hverra líf trúin hafði úrslitaáhrif á … og það ekki einu sinni þeirra trú, heldur trú föður þeirra.

Því það sem hann gerði til að öðlast frelsi frá sínu persónulega helvíti var að trúa að máttur honum æðri geti gert hann andlega heilbrigðan, að taka þá ákvörðun að fela líf sit og vilja umsjá Guðs samkvæmt skilningi hans á honum, að játa misgjörðir sínar fyrir Guði, sjálfum sér og annarri manneskju, að biðja Guð í auðmýkt að losa sig við brestina og að leitast við með bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband sitt við Guð, samkvæmt skiningi hans á honum, og biðja um það eitt að vita vilja hans og hafa mátt til að framkvæma hann.

Er Guð Guð?

Guð er óræður, óskiljanlegur, óviðráðanlegur. Enginn hefur séð Guð eða komið við hann. Enginn hefur mælt hann eða sýnt fram á tilvist hans með reikningslistum og náttúrulögmálum, svona eins og sýnt er fram á tilvist frumefna, andefna, reikistjarna og þar fram eftir götunum.

Þess vegna hvarflar stundum að mér að í raun sé ekki hægt að trúa á Guð … sem slíkan. Að það sem við trúum á, þegar upp er staðið, sé eitthvað eins og fegurð, sannleikur, samhjálp og kærleikur. Á mun góðs og ills. Á muninn á réttu og röngu. Á að þetta, sem við köllum líf, hafi einhvern æðri og göfugari tilgang. Og að við eigum ekkert betra orð yfir það en „Guð“.

Ég hef ekki séð Guð.

Ég hef ekki heldur séð vindinn. En samt þarf ég ekki annað en að horfa út um gluggann minn til að sjá hvort það er vindur eða ekki. Ég sé vindinn á áhrifunum sem hann hefur á umhverfi sitt.

Þannig sé ég Guð.

Ég sé Guð á áhrifunum sem hann hefur á þá sem taka við honum.

Og þetta jólakort er sennilega það sem ég hef komist næst því að sjá Guð.

Jesús sér þig

Í guðspjalli dagsins trúir Natanael af því að Jesús sá hann. Jesús sá hann … áður en hann var kallaður til. Maður er aldrei einn ef maður trúir … trúir því að Jesús sjái mann. Og Jesús lofar honum því að fyrst hann trúi þá muni hann sjá stórkostlega hluti.

Það er auðvelt að finnast það út í hött að trúa. Að ákveða bara að maður sé sannfærður um að eitthvað sé til sem ekki er hægt að færa neinar sönnur á. Þess vegna er það þannig að þegar spurningarinnar „Er Guð til?“ er spurt þá hvílir sönnunarbyrðin á þeim sem vilja svara játandi. Það er ekki hægt að sanna að eitthvað sé ekki til. Til að sýna fram á tilvist þess verður að tefla fram sönnunargögnum.

Svo skemmtilegt dæmi úr kennslubók í rökfræði sé tekið: Hvernig sannar maður að hreindýr geti ekki flogið? Þótt maður færi með 1000 hreindýr í flugvél og henti þeim fyrir borð einu af öðru og þau myndu öll hrapa til bana væri maður ekki búinn að sanna annað en að þessi 1000 hreindýr undir þessum ákveðnu kringumstæðum flugu ekki, annað hvort af því að þau gátu það ekki eða kusu að gera það ekki. Til að sanna að hreindýr geti flogið verður að tefla fram fljúgandi hreindýri.

Þess vegna hafa kristnir menn freistast til að nota Guð til að útskýra hvaðeina sem þekking okkar ræður ekki við. Það er þessi Guð glufanna, Guð sem felur sig í gloppunum í þekkingu okkar. Það er lélegur Guð, því það er Guð sem skreppur saman jafnt og þétt, Guð sem hverfur hægt og rólega eftir því sem götunum í mannlegri þekkingu fækkar og þau minnka.

Við skulum forðast að réttlæta trú okkar með Guði glufanna. Við þurfum ekkert að troða Guði inn í myrku sprungurnar í þekkingu okkar því þá hverfur hann um leið og við náum að upplýsa þær.

Reyndar þurfum við ekki að réttlæta eða afsaka trú okkar fyrir neinum.

Trúum ekki af því þannig getum við búið til útskýringar á því sem er okkur um megn að skilja.

Trúum af því að þannig fáum við að sjá stórkostlega hluti.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju og Áskirkju 10. 10. 2021

Eðlilegt ógeð

Eðlilegt ógeð

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ segir Símon Pétur í guðspjalli dagsins. „Allt sem við áttum.“ Það er ekki lítið.

Pétur segir þetta ekki bara upp úr þurru. Það er ástæða fyrir þessari yfirlýsingu, hún er beint viðbragð við því sem var að gerast. Við komum eiginlega inn í miðja sögu og heyrum bara niðurlag hennar.

Til Jesú kom auðugur höfðingi og spurði hvað hann ætti að gera til að öðlast eilíft líf. Svar Jesú var: „Sel allt sem þú átt og skipt meðal fátækra og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Þá varð auðmaðurinn hryggur enda mjög ríkur. Jesús sá það og sagði: „Hve torvelt er þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ Þeir sem heyrðu þetta spurðu: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús svaraði: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“

Þá segir Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“

Áhyggjur Péturs eru skiljanlegar og eðlilegar. „Það hlýtur að gilda annað um okkur en þennan ríka,“ er hugsunin sem þarna býr að baki. „Við yfirgáfum allt. Við hljótum að vera hólpnir.“

Krafa Jesú er auðvitað ósanngjörn.

Hvert okkar myndi selja allt sem það á og gefa andvirðið til þess að vera á götunni og þurfa að sofa í bílastæðakjöllurum í staðinn fyrir loforð um himnavist og eilíft líf? Og hvað með þá sem treysta á okkur? Maka og börn?

Jesús er að benda á að við verðum ekki hólpin fyrir okkar eigin gjörðir. Það er mönnum um megn að verða hólpnir á forsendum síns eigin ágætis. En … „það sem mönnum er um megn það megnar Guð.“ Við erum hólpin, en ekki vegna okkar sjálfra heldur fyrir náð Guðs.

Okkar eigin gullkálfar

Jesús segir lærisveinunum að þeir fái margfalt til baka það sem þeir fórnuðu. Og satt best að segja var enginn þeirra úr hópi auðmanna samfélagsins. Pétur hafði verið sjómaður. Þegar Jesús kallaði hann til fylgdar við sig skildi hann bátskænuna sína eftir. Hann gekk ekki frá neinum auðævum. Ef hann hefði átt auðævi, hefði hann þá skilið þau við sig og fylgt Jesú?

Það er auðveldara að yfirgefa allt sem maður á þegar maður á nánast ekki neitt, heldur en þegar maður er vellauðugur.

Auðvitað kemur auður ekki í veg fyrir að maður njóti náðar Guðs … ekki sem slíkur. Þetta er hins vegar spurning um afstöðuna til auðævanna.

Lesturinn úr Gamla testamentinu er mjög myndrænn, auðskilinn og táknrænn. Hann segir frá dansinum í kringum gullkálfinn. Óþarfi er að fara hér út í menningarsöguna og táknfræðina sem býr á bak við kálf sem guðslíkneski. Okkur nægir að sjá þjóðina stíga dans í kringum líkneski úr gulli og beina átrúnaði sínum að því … að gullinu … til að skilja hvað er verið að segja okkur.

En þrátt fyrir þessa sögu og gildi hennar sem grundvöll afstöðunnar til Guðs og auðsins, boðskap sem Jesús hnykkir á með fullyrðingunni um að enginn geti þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon, þá hefur þróun samfélags okkar í síauknum mæli verið sífellt hraðari og trylltari dans í kringum okkar eigin gullkálf.

Það er að segja okkar allra … nema sumra.

Milljón og milljarður

Við búum í samfélagi þar sem misskipting er gríðarleg. Nokkrir örfáir eiga meira fé en þorri þjóðarinnar skilur.

Ég heyrði um daginn áhugaverðan samanburð á milljón og milljarði. Einn sólarhringur er 86.400 sekúndur. Það þýðir að milljón sekúndur eru 11 dagar. Þann 23. þessa mánaðar verða milljón sekúndur liðnar frá þessari guðsþjónustu.

Milljarður sekúndna er 30 ár. Um mánaðamótin október nóvember árið 2051 verður liðinn milljarður sekúndna frá þessari guðsþjónustu.

Hugsum nú ekki um milljón sekúndur og milljarð sekúndna heldur um milljón krónur og milljarð króna, bara svona svo við áttum okkur á eðlismuninum á þeim fjármunum sem venjulegt fólk hefur umleikis og höndlar með og þeim gríðarlega auði sem pínulítill hluti þjóðarinnar hefur rakað saman. Hugsum svo um alla þá sem er ofviða að skilja eina milljón, fólkið sem bíður í röðum eftir mataraðstoð, um þær þúsundir barna á Íslandi sem alast upp við skort, um gamla fólkið sem rannsóknir hafa sýnt að er vannært vegna fátæktar, fólkið sem tárfellir af þakklæti þegar því er gefið fimm til tíu þúsund króna inneignarkort í Bónus svo það eigi fyrir mat út mánuðinn, á sama tíma og aðrir í sömu borg fela … ekki milljónir heldur milljarða í útlöndum.

 Enginn vinnur sér inn milljarð. Fólk eignast milljarð með öðrum aðferðum. Manneskja með eina milljón í laun á mánuði er rúmlega 83 ár að vinna sér inn einn milljarð. En í þessu samfélagi er fólk sem ekki er bara að höndla með milljarða, heldur að fela milljarða til að komast hjá því að þurfa að greiða af þeim til samfélagsins. Hve margar starfsævir venjulegs fólks eru aukýfingarnir okkar að fela?

Ógeðið

Ímyndum okkur samfélag þar sem einhver er haldinn þeirri áráttu að safna mat. Hann kaupir og kaupir og kaupir allan mat sem hann kemst yfir, hann tæmir verslanir þannig að hillur standa tómar. Þessum mat safnar hann saman í víggirtar geymslur og passar að enginn komist í þær. Samfélagið sveltur vegna þess að allur maturinn hverfur inn í þessar geymslur og stendur bara þar og safnar ryki.

Hvaða mynd myndi samfélagið draga upp af þessari manneskju, sem sviptir aðra lífsnauðsynjum og safnar sjálfri sér meira af þeim en hún mun nokkru sinni komast yfir að nota? Þetta er skrímsli. Miskunnarlaus mannhatari.

Hvað ef þessi manneskja er ekki að safna mat heldur peningum? Hvaða mynd dregur samfélagið þá upp af henni?

Þá er hún sett á forsíðu Frjálsrar verslunar og kölluð Viðskiptamaður ársins.

Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, sagði nýlátinn heiðursmaður einhverju sinni þegar reynt var að gera upp eitt stærsta áfall sem samfélag okkar hefur orðið fyrir í seinni tíð.

En það varð ekki svona af sjálfu sér. Við gerðum það svona.

Að líða vitlaust

Þegar fólk leitar sálgæslu hjá presti vegna vanlíðunar í kjölfar áfalls eða fjölskylduharmleiks eða þegar það upplifir að hafa misst stjórn á lífi sínu og tengslum við ástvini, þá spyr það gjarnan hvort það sé eðlilegt að líða svona.

Og svarið er „já“. Það er eðlilegt. Það er eðlilegt að finna fyrir sársauka þegar maður meiðir sig. Það er eðlilegt að líða illa í kjölfar erfiðrar og sárrar lífsreynslu. Líðan okkar er langoftast fullkomlega eðlileg afleiðing þess sem á undan er gengið. Það líður engum vitlaust. Okkar verkefni er ekki að sjúkdómsgera vanlíðanina og fá eitthvað við henni, heldur að einblína á hvernig við getum bruðgist við áfallinu og unnið okkur í gegn um vanlíðanina.

Og okkar ógeðslega samfélag er fullkomlega eðlilegt.

Það er eðlileg afleiðing þeirra gilda sem það er byggt á, eðlileg afleiðing af því sem á undan er gengið, dansinum í kringum gullkálfinn. Það er eðlileg afleiðing þeirra leikreglna sem hér hafa verið við lýði, það er eðlileg afleiðing af hagstjórninni – auðkýfingadekrinu og fátæktarsmánuninni – sem hér hefur ráðið ríkjum.

Eðlilegt ástand

Við þurfum ekkert að sjúkdómsgera ástandið. Við kusum nákvæmlega þetta ástand. Við kusum það þegar við samþykktum þessar leikreglur. Við kusum það þegar við ákváðum hverjir ættu að setja reglurnar og framfylgja þeim. Það mega stjórnmálamenn okkar eiga að þeir sigla sjaldan undir fölsku flaggi, við vitum nokkurn veginn fyrir hvað þeir standa.

Og fyrir hverja.

Við kusum þetta ástand. Við ákváðum að það ætti að vera svona.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af kynlífi? Engin tala er ásættanlegur fjöldi rekkjunauta, hann þarf alltaf fleiri. Hann er kynlífsfíkill.

Hvað segjum við um einstakling sem getur ekki fengið nóg af áfengi eða fíkniefnum, það þarf alltaf einn drykk enn, einn skammt í viðbót. Hann alkóhólisti, fíkill.

Hvað segjum við um mann sem getur ekki eignast nóg af peningum? Löngu eftir að hann á meiri pening en hann kemst yfir að eyða, hann getur látið allt eftir sér, þá þarf hann samt að græða aðeins meira?

Hann er auðvitað alveg jafnmikill fíkill og hinir. Hann er jafnveikur. Af hverju eru viðhorf samfélagsins þá þannig að auðfíkillinn sé hetja, viðskiptajöfur og bisnesmógull, en hinir fíklarnir perrar og aumingjar?

Það er af því að við kusum að hafa það þannig.

Líf í fíkn

Það er ömurleg líf að vera fíkill. Að lifa lífi sem snýst um að fá það sem veitir manni tímabundna fró, en þó aldrei svo mikla að maður hafi fengið nóg, að þetta sé orðið ágætt. Það er líf í stöðugri andlegri vöntun, örvæntingarfullur eltingaleikur við manns eigin skugga.

„Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér,“ sagði Pétur og Jesús svaraði: „Þið fáið það margfalt til baka.“

Hver sá sem sigrast hefur á fíkn veit hvað Jesús á við. Hann hefur fengið það margfalt til baka sem hann yfirgaf.

Gullkálfurinn er þarna úti og það er stiginn trylltur dans í kringum hann.

En ef við lesum niðurlag sögunnar um gullkálfinn, þá er hún svona: „Síðan tók [Móse] kálfinn, sem þeir höfðu gert, brenndi hann í eldi, muldi hann mélinu smærra og dreifði duftinu í vatn sem hann lét Ísraelsmenn drekka.”

Bráðlega veljum við þá sem setja munu leikreglurnar, a.m.k. næstu fjögur árin, og sjá til þess að farið sé eftir þeim. Kannski væri ráð að velja þá sem vilja taka gullkálfinn, brenna hann í eldi, mylja hann mélinu smærra og dreifa duftinu í vatn sem þjóðin fær að drekka.

Ef við gerðum það fengjum við sem samfélag það margfalt til baka sem við fórnuðum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 12. 9. 2021

Fyrirmyndir

Fyrirmyndir

Náð sé með ykkur öllum og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Árið 1840 var kaþólskur prestur að nafni Juan Severino Mallari hengdur í Filipseyjum. Hann var þá einn fremsti skrautskrifari Filipseyinga. Það var þó ekki fyrir þá sök sem hann var tekinn af lífi. Hann hafði lært skrautskrift í fangelsi þar sem hann beið aftöku fyrir að hafa orðið 57 manns að bana.

Ég veit ekki af hverju ég er að segja ykkur þetta, nema til að draga þá staðreynd fram í dagsljósið að prestastéttinni hefur tilheyrt að minnsta kosti einn raðmorðingi og að hann gerði meira um sína daga en að drepa fólk.

Engar fréttir

Auðvitað eru það engar fréttir fyrir þá sem eitthvað hafa fylgst með að prestar séu færir um eitt og annað miður geðslegt. Áratugalöng … ef ekki aldalöng … yfirhilming kaþólsku kirkjunnar með barnaníði og öðrum djöfulskap vígðra þjóna sinna er löngu kunn og um hana þarf ekki að fjölyrða. Hér á Íslandi hefur líka komist upp um ólíðandi, jafnvel saknæma, hegðun presta.

En af hverju er það fréttnæmt? Eða öllu heldur … af hverju snertir það okkur öðruvísi að prestar hegði sér svona heldur en þegar karlar af öðrum stéttum gera það?

Það er auðvitað af því að það er litið til presta sem fyrirmynda. Þeir hafa nánast sérhæft sig í muninum á réttu og röngu. Ekki svo að skilja að það þurfi fimm ára háskólanám til að átta sig á því að það sé ljótt að drepa og nauðga. En prestar beinlínis vinna við að prédika, segja fólki til, og því er eðlilegt að þykja það meiri hræsni þegar prestur verður uppvís að siðferðisbresti heldur en þegar einhver annar verður það, þótt glæpurinn sé auðvitað sá sami hver sem gerandinn er.

Og þó …

Er það kannski meira áfall fyrir þolandann þegar gerandinn er prestur, einhver sem hann trúði að hann gæti treyst? Er glæpur prestsins ekki meiri ef afleiðingar hans eru alvarlegri?

Prestar hafa kannski ekki þetta hlutverk fyrirmyndarmannsins … mér liggur við að segja „engilsins“ … lengur í huga fólks í eins miklum mæli og áður og geta þeir að mínum dómi fyrst og fremst sjálfum sér um það kennt. En við lítum annað til fyrirmynda í staðinn.

Hin göfuga íþrótt

Framferði nokkurra landsliðsmanna í fótbolta hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í sjálfu sér ætti það ekki að vera meiri glæpur að landsliðsmaður brjóti gegn konu heldur en að þriðjudeildarleikmaður geri það. En það er það samt.

Það er ábyggilega meira áfall þegar landsþekktur, elskaður og dáður afreksmaður … einn af „strákunum okkar“ … brýtur gegn manni … einhver sem barnið manns er kannski með plakat af í herberginu sínu … heldur en þegar einhver þriðjudeildar göslari gerir það. Er það ekki meira áfall fyrir trú okkar á mannkynið þegar hetja fellir grímuna og sýnir ljótar hliðar heldur en þegar einhver óþekktur gaur úti í bæ gerir það?

Kannski þarftu ekki bara að vera betri fótboltamaður heldur en hinir til að iðka hina göfugu íþrótt sem fulltrúi lands og þjóðar … kannski þarftu að vera betri maður.

„Vandi fylgir vegsemd hverri,“ segir máltækið og það á, held ég, við hér.

Þetta gildir ekki bara um kynferðisbrot. Þetta gildir um önnur siðferðisbrot.

Við sem þjóð erum á vissan hátt löskuð af siðferðisbrotum fólks sem við litum upp til og héldum að við gætum treyst. Við höfum á þann hátt orðið fyrir áfalli sem mér finnst við ekki hafa talað um og gert upp sem skyldi.

Við treystum okkur núna til að rísa upp gegn kynferðisbrotum fyrirmyndanna okkar. Vonandi skilar það okkur þeim árangri að við förum að taka jafnharkalega á öðrum siðferðisbrotum þeirra.

Þjóð þolenda

Fyrir tólf árum brugðust leiðtogar okkar gjörsamlega og komu landinu á vonarvöl. Óreiðumönnum höfðu verið afhentar eigur þjóðarinnar á gjafverði og okkur var talin trú um að þeir væru afreksmenn á sínu sviði, en spiluðu síðan gjörsamlega rassinn úr buxunum og þjóðin sat uppi með reikninginn. Fæstir þessara manna, ef einhverjir, þurfa að hafa áhyggjur af því í dag hvernig þeir eigi að eiga fyrir mat handa fjölskyldunni sinni út mánuðinn. En það þurfa aðrir að gera, sem engan hlut áttu að máli, en verða enn að lifa með afleiðingum gjörða þessara manna. Sumir misstu aleiguna. Bankar, sem fengið höfðu himinháar skuldir afskrifaðar, gengu af fullkomnu miskunnarleysi að eigum fólks sem skuldaði fjárhæðir sem blikna í samanburði við það sem þeim hafði verið fyrirgefið.

Og þegar listinn yfir þá sem náðu að selja hluti sína daginn áður en allt hrundi er skoðaður hvarflar að manni að stór hluti þeirra sem við í dag treystum fyrir reglum samfélagsins, meðal annars leikreglum hagkerfisins, hljóti að hafa haft aðgang að upplýsingum sem haldið var leyndum fyrir þorra almennings, með þeim afleiðingum að þeir sluppu svo til óskaddir frá hildarleiknum meðan venjulegt fólk sat í súpunni.

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag,“ sagði nýlátinn heiðursmaður þegar þessi mál voru gerð upp … að nafninu til.

Mismunandi kröfur

Auðvitað snertir það okkur öðruvísi þegar ráðamenn þjóðarinnar, meðal annars æðsti maður efnahagsmála, verða uppvísir að því að fela himinháar fjárhæðir á aflandsreikningum til að komast hjá því að leggja sinn skerf af mörkum til samfélagsins, heldur en þegar einhver gráðugur kapítalisti úti í bæ, sem enginn kaus til neinna trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð, gerir það. Fjárhæðir sem allur þorri almennings á erfitt með að skilja, hvað þá eignast … að ég tali nú ekki um að stinga undan.

Við setjum einfaldlega suma í þá stöðu – vígjum þá til prestsþjónstu, setjum þá í landsliðið í fótbolta, kjósum þá á þing og treystum þeim fyrir ráðuneytum og sitthvað fleira – að til þeirra verður að vera hægt að gera aðrar og meiri kröfur en við gerum til annarra.

Auðvitað er enginn fullkominn. Enginn er yfir það hafinn þegar hvatvísi, hormónaójafnvægi og dómgreindarleysi vegna ölvunar fara saman að geta farið yfir mörk annarra og valdið þeim andlegum skaða, hugsanlega líkamstjóni. Fyrmyndum getur líka orðið á, en þá eiga þær val um það hvort viðbrögð þeirra séu til fyrirmyndar og þær standi undir nafni sem fyrirmyndir … eða ekki.

Og gleymum ekki að það er munur á breyskleika og sjúkleika. Enginn nauðgar óvart.

Jón og séra Jón

Guðspjall dagsins fjallar um þessar mismunandi kröfur sem við gerum til fólks. Jesús segir við faríseana: „Ef þið væruð blindir væruð þið án sakar. En nú segist þið vera sjáandi, því varir sök ykkar.“ (Jóh 9.41) Það er ekki hægt að áfellast þann sem er blindur fyrir að sjá ekki, en sá sem er með fulla sjón en neitar að gangast við því sem blasir við honum af því að það hentar ekki hagsmunum hans eða storkar snoturri heimsmynd hans … hann er í vondum málum gagnvart herra sannleikans og lífsins.

Farísearnir litu á sig sem sérfræðinga í lögmálinu, sérfræðinga í Guði þóknanlegu líferni og framferði. Og þeir voru óragir við að segja öðrum til. Upphefð þeirra var fólgin í því að vera betri en annað fólk og vita betur en það. Það hentaði þeim ekki að allir væru jafnir. Hvern hefðu þeir þá getað litið niður á?

Farísearnir litu á sig og kynntu sig sem prókúruhafa Guðs á jörð. Þeir höfðu einkarétt á sannleikanum. Þeir settu sig í þá stöðu að til þeirra mátti gera meiri kröfur en annarra. Þeir þóttust sjá.

Orð Jesú komu ekki heim og saman við það hvernig þeir vildu að heimurinn virkaði.

Skilaboð til presta

Ritningartextarnir nú í sumarlok innihalda skilaboð til presta: „Ekki halda að þið séuð betri en annað fólk. Praktíserið það sem þið prédikið. Vísið ekki bara veginn heldur farið hann og leiðið þá sem ekki sjá til.“

En við erum svo lánsöm, sem höfum fundið trú okkar farveg í evangelískum kristindómi, að við sitjum ekki uppi með presta sem yfirboðara yfir okkur hafna; hálfheilaga, óskeikula mannengla sem lifa og hrærast á einhverju öðru og æðra andlegu siðferðisplani en venjulegt fólk.

Við eigum okkur kenninguna um hinn almenna prestdóm kristins manns, sem er hornsteinn embættis- og kirkjuskilnings okkar. Ástæða þess að sumir eru prestar en aðrir bakarar og smiðir er ekki sú að presturinn sé nær Guði eða í meira uppáhaldi hjá honum heldur en bakarinn eða smiðurinn. Þetta er bara praktískt atriði sem varðar sérhæfingu í samfélaginu. Ef hver og einn væri sinn eigin smiður, sinn eigin bakari og sinn eigin prestur, þá byggjum við í lélegum húsum, ætum vont brauð og nytum bágborinnar prestsþjónustu.

Þess vegna eru þessar áminningar ekki bara til vígðra þjóna kirkjunnar. Þær eru til allra presta, það er að segja: Til allra manna.

Allir eru prestar

Við megum gera meiri kröfur til presta en við gerum til annarra, einfaldlega af því að presturinn er ekki trúverðugur nema hann leitist við að lifa sjálfur samkvæmt því sem hann boðar.

En munum þá að við erum sjálf prestar.

Og að við eigum að gera sömu kröfur til okkar sjálfra.

Lifi ég samkvæmt því sem ég í orði kveðnu trúi að sé rétt og satt og gott? Er ég sjálf/ur á þeirri leið sem ég vísa öðrum? Fara orð mín og gjörðir saman? Eða veiti ég sjálfum mér undanþágur af því að það er ekki mitt hlutverk að vera fyrirmynd?

Ég hef fréttir að færa. Ekki síst ykkur sem eruð hér með fermingarbörnum sem sitja við hlið ykkar: Þið eruð víst fyrirmyndir.

Og ykkur hefur verið falið það hlutverk að ala upp fyrirmyndir framtíðarinnar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 29. ágúst 2021