Seekers

Laugarneskirkja tekur alvarlega aðstæður flóttafólks og hælisleitenda. Hluti af því er að mæta hælisleitendum sem eru komnir til Íslands og bíða meðferðar hins opinbera. Sumir þurfa að bíða lengi eftir því að fá að vita hvort þeir fái að vera á Íslandi eða þurfa að fara héðan. Enginn er hér að gamni sínu, og allir eiga erfiða reynslu að baki sem við á Íslandi eigum erfitt með að skilja.

Hvern þriðjudag kl. 15 er bænasamvera fyrir hælisleitendur, hún er eins og stendur í Háteigskirkju í umsjón Toshiki Toma prests innflytjenda, á móti hóp sem kallar sig Seekers – en það vísar til þess að þau eru “asylum seekers” eða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Á þessum stundum eigum við gott samtal, bænastund, og samfélag með mat. Þetta eru stundir sem byggja á kristnum forsendum en allir eru velkomnir óháð trú, játningum og menningu.

Laugarneskirkja vill leggja sitt af mörkum í viðbrögðum Íslendinga við flóttamannavanda heimsins og gerir það m.a. með Seekers starfinu, því að biðja fyrir flóttafólki í öllum guðsþjónustum safnaðarins og lyfta málefninu upp, í prédikunum og umfjöllun.