Þessi saga sækir innblástur í sögu hverfisins. Hún er eingöngu sköpuð til afþreyingar fyrir Hrekkjavöku 2023
Sálirnar í Holdsveikraspítalanum og Hjartasteinninn
Á fyrstu áratugum 20. aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í glæsilegu timburhúsi. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi og hann er stærsta timburhús sem nokkru sinni hefur risið hér á landi. Holdsveikraspítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi um 237 verið holdsveikir á Íslandi.
Þótt mörg hafi verið lögð inn með von um bata, dóu því miður flest.
Sálir þeirra látnu dvöldu í byggingunni þar til hún brann til grunna 7. apríl 1943. Þá svifu þær yfir Laugardalinn í leit að friði og ró. Íbúar hverfisins finna sérstaklega fyrir þeim á Hrekkjavökunni, degi hinna dauðu.
Í garði Laugarneskirkju fannst hjartasteinn sem getur frelsað sálirnar. Þessi dásamlegi steinn, sem var falinn í áratugi, hefur þá krafta að geta fylgt sálunum heim og veitt þeim frið sem þær óska heitar en nokkuð annað. En einn og sér dugar steinninn ekki.
Sagan segir að ef nógu margir góðhjartaðir einstaklingar koma saman og sýna ást og samkennd, óska sálunum skjóls og hlusta á sögur þeirra, gætu þær fundið leið til að fara yfir í annan heim og fá endanlegan frið.
Comments