Hefurðu einhvern tímann fengið þessa spurningu: ,,Hver ert þú?”
Þessi spurning kemur fram í guðspjalli dagsins og hún er býsna massíf.
Hver ert þú? Hvað skilgreinir þig?
Er það vinnan? Er það fjölskyldan? Er það útlitið?
Er það innistæðan á bankareikningum eða heimilið?
Ertu áföllin þín? Eða gleðistundirnar?
Hver ert þú?
Mörg þekkja það kannski hvernig tilfinningar líðandi stundar geta markerað sjálfskilning okkar, sýn okkar á sjálf okkar.
Þá er hætt við því að við tilbiðjum tilfinningalíf okkar, gerum það að skurðgoði.
Líðandi tilfinningar fá ofvaxið vægi; við verðum kvíðin yfir því að vera kvíðin, hrædd við að vera hrædd, áfram mætti telja.
Allt fer að snúast um að líða vel, keppast eftir góðu dópamínkicki.
Þá sjáum við hamingjuna sem sjálfsögð mannréttindi okkar, frekar en náðargjöf lífsins.
Á meðan er hið sanna að tilfinningar okkar eru eins og íslenska veðrið, alltaf að breytast, þær koma og fara. Ef sjálfsmyndin er bundin líðan hverrar stundar er hætt við að hún eigi litla rótfestu.
Ef þú hlustar inn á við - hvernig líður þér núna? Hvernig eru dagarnir búnir að vera?
Þetta er eitt af því sem er svo dýrmætt við að eiga samfélag hér í kirkjunni okkar.
Hér sköpum við saman tækifæri til að hlusta inn á við, að heyra í því sem er að gerast innra með okkur.
Margir spekingar hafa komist að þessu hér: Við erum ekki hugsanir okkar og tilfinningar… hið sanna er að við erum vitnið, sem fylgist með hugsunum okkar og tilfinningum.
Geturðu tekið eftir þessari vitund þinni?
,,Því Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt” segir í pistli dagsins.
Við lesum í dag úr Jóhannesarguðspjalli og í því guðspjalli birtast hinar svokölluðu
,,Ég er” setningar.
Kristur segir: Ég er brauð lífsins, ég er ljós heimsins, ég er dyrnar, ég er góði hirðirinn, ég er upprisan og lífið, ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, ég er hinn sanni vínviður.
Þetta eru þessar táknrænu sjö ,,ég er” setningar sem oft er talað um.
En í guðspjalli dagsins birtist ,,ég er” setning sem sjaldnast er talin upp með hinum.
Jesús svarar spurningunni: ,,Hver ert þú?” með svarinu: ,,Ég er sá sem ég er”.
Ég hef ekki séð þessa setningu talda upp með hinum ,,Ég er” setningum Jóhannesarguðspjalls og það þó hún vísi alla leið aftur til 2.Mósebókar, til frásagnarinnar af því er Guð birtist Móse sem brennandi runni. Þegar Guð birtist Móse spyr Móse hvaða Guð þetta sé - sem var logisk spurning því fjölmenningarsamfélög eru ekki ný af nálinni; ýmis trúarbrögð og guðsmyndir voru til á þeim tímum er frásögnin verður til. Svar Guðs til Móse er þetta: Ég er sá sem ég er. Þetta nafn hefur verið táknað á hátt sem mörg kannast kannski við að hafa heyrt: JAHVE.
Móse komst að því að þetta væri Guð forfeðra hans, Guð Abrahams. Ég er sá sem ég er. Þetta er svar Jesú, ég er sá sem ég er. Dularfullt svar, en eitt vitum við að einkennir þennan Guð; það er sá Guð sem Guð er og frelsar okkur til að vera þau sem við í raun erum. Ég hef dregið þá ályktin að með þessu svari sé Jesú að árétta tengsl sín við Guð. Það er dýpt og nánd í þessum tengslum, faðirinn er í mér og ég í honum, segir Jesús í Jóhannesarguðspjalli, talar um hvernig Guð og hann eru eitt.
Það er þessi tenging, beinn aðgangur að guðdóminum, sem Jesús vildi gefa áfram. Við erum ekki Guð, en við hvílum í faðmi Guðs, Jesús segir við okkur: ,,Guðs ríki er innra með yður”. Í gegnum guðspjöllin er Jesús að leitast við að valdefla okkur, hjálpa okkur að sjá að við getum átt persónulegt samband við mátt okkur æðri. Þegar vinir Jesú biðja hann um að kenna sér að biðja segir Jesú þeim að byrja bæn sína á orðunum ,,pabbi okkar” - það eru sömu orð og við munum biðja hér saman á eftir.
Við höfum talað um samband okkar við eigin tilfinningar og hugsanir í dag. Undir viðvarandi álagi er hætt við að við gefum okkur ekki það rými sem við þurfum til að vinna úr upplifunum okkar og reynslu. Hafið þið mætt einu af einkennum álagsins, hvernig okkur hættir til að vanrækja vinasambönd okkar undir álagi? Hafið þið fundið hve klunnalegt það getur verið þá að taka upp þráðinn á ný? Því trúi ég að það sama geti gerst í trúarlífi okkar. Við þurfum að gefa okkur rými og tíma fyrir andlega lífið okkar. Sá tími ætti ekki að vera mældur í magni, heldur gæðum.
Eða kannski ætti sá tími að vera hraðamældur, það er að segja; mældur í getu okkar til að leyfa okkur að hægja á okkur í hinum hraða nútíma - og tengja inn á við. Til að hjálpa okkur að muna hver við erum, í gegnum allt. Í texta spekingsins Ram Dass, Sit around the fire, kemur fram þessi ósk: “I want to know who I really am” - ég vil vita hver ég raunverulega er.
Textinn heldur áfram á þennan veg: Það er eins og að í hverju og einu okkar, Hafi eitt sinn verið eldur Og fyrir sum okkar Er aðeins askan eftir núna En þegar við gröfum í öskuna Finnum við litla glóð Og ef við blíðlega blásum þá glóð Verður hún bjartari Af henni verður eldur á ný Eldurinn kviknar og við munum hver við í raun erum.
Guð gefi okkur visku til að hlúa að eldinum innra með okkur.
Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.
Comments