Ertu mjög trúaður?
Ég hef oft verið spurður að þessu: ,,Ertu mjög trúaður?” Mig langar að staldra hér í upphafi við spurninguna um hvað felst í þessu, að vera ,,mjög” trúaður. Mín reynsla er sú að þegar fólk hér á landi er spurt hvort það sé mjög trúað þá sé ekki verið að spyrja hvort það stundi íhugun og/eða hugleiðslu. Mín reynsla er sú að það er ekki verið að spyrja hvort það feli í sér ákveðna köllun og sýn á hvað sé fólgið í samfélagsþjónustu. Mín reynsla er sú að það er ekki verið að spyrja hvort viðkomandi leitist við eiga bænalíf með það að markmiði að rækta tengsl og vitundarsamband við mátt sér æðri. Mín reynsla er sú að skilgreiningin ,,mjög trúaður” geri ekki ráð fyrir dýnamískri og abstrakt hugsun hvað varðar guðsmynd, heldur einfalda mannsmynd: Hvítskeggjaður karl á himnum sem talar í boðhætti og spyr ekki að neinu. Það finnst mér merkilegt því mín trúarlega reynsla hefur verið sú að Guð sé svo forvitin og áhugasöm, hún vilji oft frekar spyrja spurninga með mér heldur en tala í skipunum. Mín reynsla er sú að spurningin feli ekki sér þann skilning að sá sem er ,,mjög trúaður” rækti gagnrýna viðleitni til að skilja samhengi, sögu og táknfræði texta Biblíunnar. Heldur hvort ég sé þá bókstafstrúarmaður, fundamentalisti, þá yfirleitt í stíl sem er einfölduð staðalmynd af fordómafullri manneskju sem notar Biblíuna til að berja fólk. Já, hvað er að vera ,,mjög trúaður”? Og þegar við lesum texta Biblíunnar, hvernig lesum við? ,,Hvernig lest þú?” Það var eitt sinn maður, já, sannur Guð og sannur maður, Jesús frá Nasaret, sem spurði þessarar spurningar. Hann spurði mann sem var lögvitringur, mann sem var vel að sér í lögmáli gyðinga, torah, þessarar spurningar. Það að Jesús spyr á þennan hátt sýnir, eins og raunar fjöldinn allur af guðspjallstextum sýnir, að lifað var í samfélagi þar sem fengist var við það verkefni að túlka hina trúarlegu texta inn í síbreytilegu veröld fólks. Það er hið sístæða verkefni: Hvernig lest þú… og hvaða áhrif hefur það á hvernig þú lifir? Við erum enn hluti af trúararfleifð sem er alltaf að lesa, túlka og lifa veruleika þessara texta. Rob Bell skrifar í bók sinni, Hvað er Biblían?: ,,Já, mundu að Biblían var rituð meira en þúsund árum áður en prentvélarnar voru fundnar upp. Fólk átti ekki sitt eigið eintak af Biblíunni. Í besta falli voru bókrollur í samkunduhúsinu í þorpinu þínu. Ein fyrir allt þorpið. Fyrir þann tíma var mjög lítið til af skrifuðum texta. Þessar sögur varðveittust í munnlegri geymd og bárust á milli kynslóða. Svo að þegar ritararnir töluðu um orð Guðs, þá voru þeir ekki að tala um bækur eða safn bóka eins og við hugsum um þær. Þeir voru með hugann við eitthvað miklu stærra og meira en það.” Einn af þekktustu textum Biblíunnar er 137. Davíðssálmur. Það eru eflaust mörg sem kannast við hann í flutningi Boney M, By the Rivers of Babylon. Svo kunnuglegar upphafslínurnar: Við Babýlonsfljót sátum vér og grétum
er vér minntumst Síonar. (Slm.137:1) Við lesum þessar línur sem tala inn í aðstæður smáþjóðar sem hafði verið rekin í útlegð frá landi sínu eftir grimmar og vægðarlausar árásir, í kringum 587 f. Krist. Við finnum fyrir heimþrá. Við finnum fyrir samkenndinni með hinni mennsku þjáningu frammi fyrir óréttlæti og óreiðu, hryggðin yfir því sem horfið er, við finnum hvernig er að elska heimili sitt, fólkið sitt. Við finnum samkenndina gagnvart þessari mennsku þörf; að koma saman, eiga samfélag, syrgja saman, syngja saman. Línurnar sem færri raula þegar hugsað er um Boney M og sálm 137 eru þessar, sem koma í lok sálmsins:
Babýlonsdóttir, þú sem tortímir.
Heill þeim sem geldur þér
það sem þú gerðir oss.
Heill þeim sem þrífur brjóstmylkinga þína
og slær þeim niður við stein. (Slm.137:8-9) Þetta eru hræðileg orð, í heimi eins og okkar þar sem enn eru börn myrt í stríðsátökum. Það er auðvelt að vilja loka bókinni og fást ekkert við þau, hafna með einföldu yfirlæti. Einhver hneykslast og skilja ekki: Hvernig getur texti sem þessi verið leiðbeinandi trúarrit fólks? Ef Biblían er Guðs Orð, á þá að samþykkja þetta bara? Að fagna barnamorðum í hefndarskyni? Svarið fyrir okkur sem kristin erum er ávallt nei, því lesum í ljósi fagnaðarerindis Jesú frá Nasaret, sem kenndi og lifði svo byltingarkennda nýja leið. Eitt af því sem einkennir leið Krists er þetta orð hér, ég minntist á það fyrr: Samkennd. Ef við lesum þessi hræðilegu orð í eilífu ljósi fagnaðarerindisins samþykkjum við þau ekki en það gætu vaknað spurningar innra með okkur: Hvað ætli gerist fyrir manneskju sem horfir á börnin sín pynt og myrt? Gæti hún mætt þeim eðlilegu primal hvötum að vilja hefna sín? Hvernig er að vera gerður brottlægur úr eigin landi, sem hefur verið gert að rústum? Hvernig er að vera lítilsvirt og niðurlægð? Hvað ætli gæti gerst í mannsálinni þegar mannréttindi og reisn eru að engu höfð? Er fallegt að hugsa svona? Nei. En er það mennskt að slíkar sársaukafullar, grimmar tilfinningar, kenndir og hugsanir brjótist fram, sama myrkrið og býr í mér og þér? Gæti verið að vaxtarferli trúarþroska birtist meðal annars í því að við þurfum að horfast í augu við allt þetta og vera ábyrg gagnvart því, til að ganga friðarveg? Annar möguleiki væri að láta eins og það séu engir óþægilegir textar í Ritningunni. Ég hitti góðan kollega um daginn, mér fannst svo viturlegt þegar hann talaði um hvað það væri góð áskorun að í kirkjunni fylgjum við textaröð kirkjuárs og þurfum því að fást við textana. Hér áðan heyrðum við texta sem tilheyrir textaröðinni, 2.sunnudagur eftir þrettánda. Lexían úr spádómsbók Jesaja. Texti sem hefur líkast til orðið til í fyrrnefndri útlegð í Babýloníu. Vinur er sá er til vamms segir og spámenn Gamla testamentisins þruma oft grimmilega yfir Ísrael fyrir að hafa villst af leið. En spámaðurinn Jesaja, sá spámaður er frá 40.kafla Huggunarspámaðurinn, á sama tíma og þjóðin grætur við fljótið talar hann til þeirra, orðar sársauka þeirra og efasemdir, en líka trúartraustið: Ég hef erfiðað til ónýtis,
sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn
en réttur minn er hjá Drottni
og laun mín hjá Guði mínum.
(Jes.49:4)
Sá spámaður segir þessi orð, gefur hinum sorgbitnu þau áfram: Ég er dýrmætur í augum Drottins
og Guð minn varð minn styrkur.
(úr Jes.49:5)
Hann er að segja að það er sama hvað þú hefur gengið í gegnum, reisn þín, þitt virði, þín merking - áfram ertu heilög, elskuð manneskja í augum Guðs.
Guðs, sem þráir að reisa þig upp, svo þú haldir áfram að þjóna lífinu, gefa áfram ljós af ljósi Guðs. Í beinu framhaldi af þessum orðum gefur Jesaja Guði orðið:
Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn
til að endurreisa ættbálka Jakobs
og leiða þá aftur heim
sem varðveist hafa af Ísrael.
Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar
svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.
(Jes.49:6)
Kærleikur Guðs spyr ekki um landamæri, þarna kemur fram alþjóðavídd, hjálpræði Guðs er fyrir öll, hver sem þau eru, hvaðan sem þau koma.
Þjónninn er sá sem við heyrðum hjálpa hinum blindu í guðspjalli dagsins.
Við erum búin að tala um það hér í dag að dýpka lestur okkar. Í því samhengi skulum við hafa hugfast að í þessu lífi er hægt að vera blind manneskja á fleiri en einn veg.
Ég veit ekki hvað þið sjáið, en á stundum virðist mér allt á skjön í þessum heimi. Það er svo margt úr lagi, í brotum, tvístrað.
Hvernig getum við verið svo vond við hvort annað? Af hverju erum við svona grimm?
Þá er eins og við sjáum ekki að við tilheyrum hvert öðru.
Í fyrrnefndri Bók Rob Bell, Hvað er Biblían?, kemur fram þessi spurning:
Hvernig myndir þú þá skilgreina orð Guðs?
Svarið: Hinn skapandi máttur sem Guð talar og færir fram nýja sköpun og nýtt líf.
Stuttu síðar er spurt í sömu bók: En getur þú ekki eignast þá reynslu í gegnum aðrar bækur, fullt af öðrum orðum og annars konar þátttöku?
Auðvitað. Það er einmitt það sem ritarar Biblíunnar segja oft.
Það er eins og þeir segi stöðugt: Opnaðu augun, líttu í kringum þig, hlustaðu og taktu eftir. Guð er stöðugt að mæla, allt um kring er orðið sýnilegt.
Í guðspjalli dagsins segir af því hvernig Kristur hjálpar okkur að sjá:
Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.”
(Matt.9:29-30)
Hvernig ljúkast augu þín upp? Hvað lest þú? Hvað sérðu? Hvernig talar Guð til þín í dag?
Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.
Comments