top of page
hjaltijon

Hvert einasta nafn skiptir máli

Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir heyra raust hans og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. (Jóh.10:3) Þessi orð lesum við í guðspjalli dagsins. Við erum kölluð með nafni. Núna um helgina hef ég dvalið í Vatnaskógi og tekið þátt í árlegum hápunkti í starfsemi Arnarins. Í Erninum koma saman börn- og unglingar sem eiga þá sameiginlegu reynslu að hafa misst náinn ástvin. Þar er unnið starf úrvinnslunnar, sem á sér svo margar myndir. Það er góður hópur sjálfboðaliða sem kemur að starfinu, en allt heldur verkefnastjórinn okkar og presturinn Matthildur Bjarnadóttir utan um. Ég trúi því að við vinnum gott starf, þar sem eitt stærsta verkefni okkar er fólgið í því að skapa- og viðhalda rými fyrir börnin til að miðla til hvors annars viskunni sem óumbeðin lífsreynslan hefur fært þeim. Að þau haldi áfram að kynnast, heyra sögur hvors annars, þekkja nöfnin. Þar sem við komum saman í Vatnaskógi á föstudagskvöldið áttum við minningarstund saman, börnin sögðu sögur sínar. Þá var heilagt að heyra þau segja nöfn sinna elskuðu sem fallin eru frá. Nafnið tjáir sérleika okkar, ein af leiðum okkar til aðgreiningar er að notast við nafnið. Nafnið, til að fagna sérleika okkar en ekki skammast okkar fyrir hann. Nöfnin eru þó ekki aðeins til aðgreiningar, oft eru þau leið til að ávarpa tengsl okkar og tengingar. Hvernig við tilheyrum samhengi. Nú lifum við tíma sem reyna á að við höldum í hinn kristna mannskilning, að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd og sé því dýrmæt, heilög, hver sem hún er. Hvert einasta nafn skiptir máli. Í guðspjallstexta dagsins segir Kristur:,,Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.” Líf í fyllstu gnægð var titill lokaritgerðar minnar við Guðfræðideild Háskóla Íslands, þar sem ég tók til umfjöllunar einkenni og úrvinnslu skammar. Þessi sami kristni mannskilningur og ég minntist fyrr á kallar okkur til að vera frjáls - og til að hjálpa öðrum til frelsis - undan eitraðri skömm. Þá þekkjum við að heilbrigð skömm getur verið gagnleg leiðbeinandi tilfinning, á stundum á hún rétt á sér og þá getur verið eins gott að kunna að skammast sín um tíma. En þegar skömmin festir rætur, tekur yfir veruhátt okkar, verður óuninn, þá getur hún orðið lamandi, tærir upp sjálfsmyndina og við töpum sjónar af því að vera, þrátt fyrir allt, í gegnum allt, sköpuð í Guðs mynd. 

Heilbrigð sektarkenndin segir: ,,Ég gerði mistök.”

Eitruð skömm segir: ,,Ég er mistök.”


Á hverjum tíma sjáum við tilhneigingu til að skammarvæða ákveðna hópa samfélagsins. Þá er skömmin gerð að vopni, undirliggjandi stefið sem við heyrum í er hinn djúpi ótti. Þá höfum við tapað tengingunni við imago dei, virðingunni fyrir því að öll berum við heilaga mynd Guðs með okkur.


Eðlislægt viðbragð við skömm getur verið að leitast við að færa hana yfir á aðra.

“Hurt people hurt people” segir einn frasinn á enskunni og það er veruleiki okkar allra þegar við, í stað þess að leita leiða til að hjálpa skömminni að leysast upp, gerum hana að vopni. Stundum bókstaflega. Úr verður sársaukaspírall sem hættir ekki. 

En við höfum ekki verið kölluð til lífs í sársaukaspíralnum, nógu flókið og sárt er lífið án þess að við lifum í stöðugri innri árás gagnvart sjálfum okkur og verðleikum okkar.

Nei, við erum kölluð til þess að lifa lífi í fyllstu gnægð.


Hver er þessi fyllsta gnægð?


Boðskapur Jesú frá Nasaret kallar okkur til að sækja ekki öryggi okkar í ytri þætti, sem getur einmitt gerst þegar við erum þrælbundin varnarháttum skammarinnar, heldur þá innri. Við erum að tala um innri frið.

Ekki er sá innri friður alltaf einfaldur, hljóðlátur og notalegur, því ,,ekta líf er sóðalegt, fullt af ósamræmi” eins og rithöfundurinn Alan Moore sagði.

Og líf í fyllstu gnægð er ekki líf án sorgar, það er líf sem lifað er af hugrekki í samfylgd við sorg sína, vitandi að hún segir sögurnar um allt það sem mestu skiptir. Vitandi að reynslan af sorginni í lífinu getur verkað sem lampi fóta okkar, ljós á vegum okkar.

Því er til svo mikils að vinna náum við að mæta lífsreynslu okkar, ljúfri og leiðri, og eiga frelsi gagnvart henni án þess að afneita henni eða bæla.

Þá má vera að við eignumst og eigum líf í fyllstu gnægð.


Howard Clineball, var gríðarlegur áhrifamaður klínískrar sálgæslu. Ein af hans fjölmörgu gjöfum var model sem kallað hefur verið vaxtavíddirnar sjö.


Vaxtavíddir Clinebell fá okkur til að horfa inn á við, mæta tengslum okkar við Guðdóminn: Er Guðsmynd okkar okkur vernandi og varðveitandi?

Er myndin af Guði sem við eigum sú mynd af sönnum, verndandi hirði sem Jesús teiknar upp í guðspjalli dagsins? Hirði sem kallar okkur hvert og eitt með nafni.


Vaxtavíddir Clinebell fá okkur til að horfa inn á við, mæta tengslum okkar við okkur sjálf: Eru tengsl okkur við okkur sjálf uppbyggjandi, unum við okkur við að vera fullkomlega ófullkomin?


Vaxtavíddir Clinebell hvetja okkur til að hlusta inn á við og kanna tengsl okkar við eigin líkama, hvílum við örugg og sátt í eigin skinni?


Vaxtavíddir Clinebell horfa til tengsla okkar við annað fólk: Leyfum við okkur heilbrigða berskjöldun, vinnum við gegn því að óttinn við höfnun sé stjórnaraflið í lífstakti okkar?


Vaxtavíddir Clinebell hvetja okkur til hugrekkis í námi, starfi og verkefnum, að við leyfum okkur að vera séð, án þess að vera á valdi fullkomnunaráráttu og kröfuhörku.


Vaxtavíddir Clinebell kalla okkur til að iðka leikinn, að þekkja hláturinn í lífinu. Lífið getur verið alvarlegt, en það ætti aldrei að vera laust við grín.


Vaxtavíddir Clinebell kalla okkur til samtals við samfélagið, þar sem við getum öll kannast við okkar spámannlegu rödd.


Vaxtavíddir Clinebell kalla okkur til tengsla við náttúruna.


Í gær fórum við með börnin- og unglingana í Erninum út í göngu. Það var aprílsólarkuldi en það var annar kuldi sem fékk að þiðna og ég held við höfum öll fundið hversu heilandi samveran með náttúrunni í heiminum getur verið okkur.


Þetta er boðskapur Hirðisins frá Nasaret, sem kallar okkur til fundar við sjálf okkur, kallar okkur til að gangast við sjálfum okkur - vera hvorki meiri né minni, því það er frumforsenda alls raunverulegs vaxtar.


Þá heyrir þú kall Guðs í hjarta þér. Það er Guð sem kallar þig með nafni, Guð sem þráir að þú eigir líf í fyllstu gnægð.


Hvert einasta nafn skiptir máli.



Dýrð sé Guðs heilaga anda, svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.

38 views0 comments

Recent Posts

See All

Opmerkingen


bottom of page